14.05.1958
Neðri deild: 95. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1058 í B-deild Alþingistíðinda. (953)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Það hefur margt komið fram hér við þessa umr., sem fróðlegt hefði verið að gera að umtalsefni, en þar sem orðið er nú mjög áliðið, mun ég reyna að stytta mál mitt svo sem kostur er, enda hefur verið svarað allmörgu af því, sem fram hefur komið hjá hæstv. ráðh., sem hér hafa talað þrír af hálfu ríkisstj., þannig að ég þarf ekki að gera ýmis veigamikil atriði af þeim sökum að umtalsefni. Hins vegar eru nokkur atriði, sem mig langaði til að benda hér sérstaklega á og ekki hefur verið nema að litlu leyti að vikið.

Það hefur verið á það bent hér, og það er mjög að vonum, hversu eftirtektarverð þróun hefur verið í efnahagsmálunum, síðan núverandi hæstv. ríkisstj. tók við völdum. Það hefur verið á það minnt, hvernig því var yfir lýst við síðustu kosningar, — og minnist ég þess, að þá var sérstaklega um það rætt í ritstjórnargrein í blaði hæstv. núverandi forsrh., — að með þeirri stefnu, sem þá var mörkuð af bandalagi Alþfl. og Framsfl., væri ætlunin að brjóta blað í stjórnmálasögu þjóðarinnar. Það var nú hvorki meira né minna. Og þetta átti að gerast fyrst og fremst á þann hátt, að það átti að taka upp algerlega nýja stefnu í efnahagsmálum og leysa það öngþveiti, sem þessir flokkar töldu vera ríkjandi í þeim efnum.

Hv. þm. G-K. ræddi þetta mál mjög ýtarlega, og þarf ég því ekki nánar að því að víkja. Ég vil aðeins til samhengis minnast á fyrsta skrefið í því efni, en það var hin svokallaða jólagjöf ríkisstj. 1956, sem þá var yfirlýst að væri ætlazt til að leysti efnahagsvandamálin til frambúðar, svo að a.m.k. á næsta ári, jafnvel næstu árum yrði ekki þörf frekari ráðstafana, en þar var gert. Og það var einmitt það, sem sérstaklega einkenndi tal framámanna núverandi hæstv. ríkisstj., fullyrðingin um, að það væri hægt að leysa okkar efnahagsvandamál með einhverjum úrræðum, sem væri hægt að telja varanleg úrræði.

Vitanlega er það alveg rétt, sem hv. 3. þm. Reykv, sagði hér áðan, að í efnahagsmálunum eru ekki til nein varanleg úrræði. Það eru einmitt þau mál, sem hver þjóð er stöðugt að fást við og eru meginviðfangsefni og vandamál sérhvers þings, því að aðstæður allar breytast svo mjög í þeim efnum, að það þarf sífellt að vera að gera þar nýjar ráðstafanir, eftir því sem tímarnir breytast. Og það hefur nú líka gerzt í þessum efnum og kom hér skýrt fram í ræðu hæstv. menntmrh. í kvöld, að hann sagði, að það væri aldrei hægt að gera neinar ráðstafanir í efnahagsmálum til frambúðar. Og það er vitanlega mjög lærdómsrík niðurstaða, eftir að þessir menn ganga fram fyrir kjósendur 1956 og bjóða upp á frambúðarúrræði í efnahagsmálunum, að nú segja þeir eftir tæp tvö ár, að það sé mesta fásinna að tala um nokkur frambúðarúrræði.

Það líka fór svo, að frambúðarúrræðin urðu ekki mikil. Og það virðast ætla að rætast hér bæði þær spár, sem við sjálfstæðismenn fluttum þá um þær ráðstafanir, sem gerðar voru um næstsíðustu áramót, og einn af þm. stjórnarliðsins þá, hv. þm. Siglf., lýsti yfir að mundu leiða til vaxandi öngþveitis og vandræða fyrir atvinnuvegina, því að það, sem við stöndum nú andspænis, er nýtt átak, sem hæstv. ríkisstj. telur þörf á að gera og felur í sér stórkostlegri álögur, en nokkurn tíma áður hafa verið lagðar á þjóðina í einu. Og nú er spurningin: Af hverju þarf að gera þetta, sem er verið að gera með þessu frv., sem nú liggur fyrir Alþ.?

Hæstv. sjútvmrh. lýsti því hér í dag, af hverju þetta væri. Það væri vegna þess, að stöðvunarstefna sú, sem ríkisstj. hefði fylgt til þessa, hefði brugðizt. Og af hverju hafði hún brugðizt? Hún hafði — að því er manni skildist — brugðizt af þremur ástæðum. Það var í fyrsta lagi vegna aflabrests. Það var í öðru lagi vegna þess, að ríkisstj. hafði ekki tekizt að hafa hemil á fjárfestingu. Og það var í þriðja lagi og jafnvel að því er manni skildist að meginefni vegna þess, að Sjálfstfl. hafði eyðilagt árangur þessarar stefnu.

Ég skal aðeins með örfáum orðum víkja að þessum rökum.

Varðandi fjárfestinguna er það að segja, að þar er að sjálfsögðu um mál að ræða, sem hæstv. ríkisstj, hefur algerlega í sinni hendi og getur engum kennt um nema sjálfri sér, ef þar hefur einhver handvömm verið á. Það kann vel að vera, að henni hafi farið það jafnilla úr hendi og annað, sem hún hefur gert, og þá er ekki von, að vel fari. En þar er auðvitað við engan annan að sakast, en sjálfan sig.

Um stöðvunarstefnuna út af fyrir sig er það að segja, að hún hefur að vísu ekki verið nein stöðvunarstefna, eins og líka hæstv. sjútvmrh. viðurkenndi sjálfur, vegna þess að um hefur verið að ræða stórfellda hækkun. Það hefur verið um að ræða 5 stiga hækkun á vísitölu, og enn fremur eru greidd niður eftir hans útreikningi rúmlega 5 vísitölustig, en mun þó vera allmiklu meira eftir þeim upplýsingum, sem liggja fyrir í skýrslu, sem birt er frá hagstofunni í janúar hefti Hagtíðinda í ár. En látum það gott heita og segjum, að þetta hafi verið stöðvunarstefna. En hún hefur þá farið út um þúfur af þessum þremur ástæðum, sem ég áðan greindi, eftir orðum hæstv. ráðh.

Ég skal þá víkja næst að hlut Sjálfstfl. í því, og hans hlutur í því að eyðileggja þessa stefnu átti að hafa falizt í því að hafa espað verkalýðsfélögin til kauphækkana og verkfalla, sem hefðu komið þessu öllu úr skorðum.

Það er nú út af fyrir sig ákaflega fróðlegt fyrir okkur sjálfstæðismenn og raunar fyrir þjóðina í heild að heyra það, að Sjálfstfl. sé svo sterkur í verkalýðshreyfingunni, að hann geti þar sett allt á annan endann, gegn þeim flokkum, sem telja sig hafa þar öll tögl og hagldir. Ég man nú ekki betur, en það væri aðalröksemdin fyrir því hjá framsóknarmönnum, að ekki væri hægt að vinna með Sjálfstfl., að hann hefði engin áhrif í verkalýðshreyfingunni og þess vegna væri eina lausnin að fá að taka höndum saman við hina svokölluðu verkalýðsflokka, þá væri allt í bezta lagi. Það er að vísu alveg rétt, að áhrif Sjálfstfl. hafa stóraukizt í verkalýðshreyfingunni og það mjög að vonum, vegna þess að fólki hafa þar opnazt augu fyrir þeim reginblekkingum, sem verkalýðnum hefur verið boðið upp á, á undanförnum árum, sérstaklega af kommúnistum, þannig að af þeim sökum er það eðlileg þróun, að fylgi sjálfstæðismanna hafi þar stóraukizt. En það, sem átti að vera aðaláfellisdómurinn yfir sjálfstæðismönnum, var það, að Iðjuverkafólk hefði fengið smávægilega kauphækkun á s.l. ári, 5%, án þess að kæmi til átaka, og það fannst hæstv. ráðh., að því er manni skildist, mjög hneykslunarvert, að það skyldi hafa verið fallizt á það með góðu móti af hálfu iðnrekenda í stað þess að tefla út í verkfall og vinnustöðvun. Það hefði maður nú einhvern tíma haldið að væri til hagsbóta fyrir verkalýðinn, en ekki það gagnstæða, að forðast vinnustöðvun. En þetta kemur dálítið kynduglega út, þegar það er talið vera ávítunar- og ásökunarefni á sjálfstæðismenn, að forustumenn þeirra í þessu stéttarfélagi, sem er stéttarfélag eins þess hóps, sem er lægst launaður í þjóðfélaginu, skuli hafa fengið smávegis kjarabætur, þegar ríkisstj. sjálf hefur gengið á undan með að hækka laun þeirra hæst launuðu, eins og hefur verið bent á hér í þessum umræðum, þar sem ríkisstj, átti mjög mikinn hlut að því að stórhækka laun flugmanna um margfalda þá prósentuupphæð, sem hér var um að ræða hjá iðnverkafólki. En það er ákaflega fróðlegt fyrir þetta láglaunafólk að heyra, að það hafi verið sérstakur glæpur að hækka þess laun.

Þáttur sjálfstæðismanna hefur áreiðanlega ekki verið í þá átt, að þeir hafi reynt að espa til uppnáms í verkalýðshreyfingunni gegn hinni svokölluðu stöðvunarstefnu ríkisstj., þannig að slík ásökun fellur um sjálfa sig og er til einskis sóma fyrir hæstv. ráðh. og mun sízt af öllu verða honum til framdráttar eða auka traust hans.

Þá kem ég að þriðju ástæðunni hjá hæstv. ráðh., og það var það, að hann sagði, að orðið hefði stórvægilegur aflabrestur, sem hefði gert að verkum, að það hefði orðið mikill halli bæði hjá útflutningssjóði og ríkissjóði. Hér er meira og minna um rangfærslur að ræða. Útfluttar sjávarafurðir 1956 námu 900.8 millj. kr., 1957 857.5 millj. kr. Mismunur er þarna að vísu lækkun, en þó ekki meiri en svo, að það er um 43.3 millj. kr. að ræða. Hitt láðist honum að geta um, að það varð lækkun á öðru sviði gjaldeyrisöflunar, en það var í sambandi við varnarliðið, vegna þess að framkvæmdir á þess vegum voru 1956 222 millj. kr., en 1957 133 millj. kr., þannig að það minnkaði um 89 millj. kr. Þar sem það var stefna hæstv. ríkisstj. að reka varnarliðið úr landi, sem að vísu hefur nú eitthvað dregizt á langinn, hefði mátt ætla, að í áætlunum þeim, sem lagðar voru til grundvallar, þegar lögin um útflutningssjóð voru sett, hefði verið reiknað með slíkum samdrætti þessara framkvæmda, þannig að það hefur ekki getað komið ríkisstj. á neinn hátt á óvart, þó að þetta drægist saman, þannig að það er raunverulega ekki um að ræða nema þessar rúmu 40 millj, kr., sem hefur verið minnkandi útflutningur sjávarafurða, og verður ekki sagt, að þar sé um að ræða stórfelldan samdrátt.

Í sambandi við þetta hefur mér þótt fróðlegt að athuga, hvernig ástatt væri um gjaldeyrisöflun nú á þessu ári og hvort líkur væru til, að þessi þróun yrði áfram eða þar mundi verða einhver lagfæring á, sem gerði þá minni þörfina fyrir þær stórfelldu álögur, sem hér eru lagðar til í þessu frv. Samkvæmt þeirri athugun hefur komið í ljós, að áætlað er, að á þessu ári aukist tekjur af varnarliðsframkvæmdum um 27 millj. kr. Ekki veit ég, af hvaða ástæðum það er, hvort það er einhver sérstakur kostnaður við að flytja varnarliðið úr landi. Það er sennilega það, það er innflutningskostnaður, sem þeir eiga að borga. En af einhverjum ástæðum er það, að gert er ráð fyrir, að þarna verði allveruleg búbót fyrir ríkissjóðinn í gegnum varnarliðsframkvæmdir. Og svo er nú annar slurkur, sem er þó mun ríflegri, og það er í sambandi við erlendar lántökur. Þær voru á árinu 1956 90.1 millj. kr., á árinu 1957 210.3 millj., en á árinu 1958 eru þær 318.1 millj. kr. Þarna er um að ræða hækkun frá árinu 1957 um 108 millj. kr. Hér er því samtals um að ræða hækkun á þessum liðum, sem nemur 135 millj. kr. Innflutningsáætlun, sem gerð er á grundvelli þessarar tekjuáætlunar, gerir ráð fyrir 110 millj, kr. meiri innflutningi, en 1957. Auk þess má gera ráð fyrir því, þar sem reiknað er með, að allmikið af nýjum skipum komi til landsins, að þá ætti þessi þróun að stefna öll til aukinnar gjaldeyrisöflunar. Ég veit að vísu ekki, hvort þessi skip yfirleitt koma á þessu ári. Að vísu er reiknað með nokkrum þeirra seinni hluta ársins, en mér skilst, að þau eigi öll að vera hingað komin á árinu 1959, þannig að það ætti að mega reikna með jafnvel frekari hækkun á því ári.

Mér sýnist því eftir þessari athugun, að það sé margt, sem bendi til þess, að miðað við óbreytt ástand, óbreytt kerfi, hefði átt að vænkast mjög verulega hagur bæði ríkissjóðs og útflutningssjóðs á árinu 1958.

Varðandi það frv., sem hér liggur fyrir, skal ég ekki mikið út í það fara. Það hefur verið rakið allýtarlega, fyrst og fremst af hv. þm. G-K. og nú vikið að ýmsum atriðum þess af hv. 1. þm. Rang. Ég vil aðeins segja það, að það er án efa ýmislegt í þessu frv., sem er til bóta. Það er vissulega alltaf til bóta, þegar hlutir eru gerðir einfaldari, en þeir áður hafa verið, og að ýmsu leyti eru uppbætur til sjávarútvegsins færðar í einfaldara form, sem gera má ráð fyrir að geri framkvæmd málsins einfaldari og heppilegri að ýmsu leyti. Varðandi það, hvort þær bætur eru nægilegar eða ekki, skal ég ekkert um segja, en hitt liggur hér fyrir og er áður upplýst hér í þessum umr., að útvegsmenn sjálfir telja, að það sé um vanefndir að ræða á þeim loforðum, sem þeim voru gefin um síðustu áramót, og á því veltur að sjálfsögðu, vegna þess að þeir hljóta að eiga lagalega kröfu á hendur ríkissjóði um, að hlutur þeirra sé ekki rýrður frá því, sem þá var lofað.

Það má færa ýmis rök fyrir því, að það sé bæði eðlilegt að jafna uppbæturnar á milli einstakra greina útvegsins, og má einnig færa rök fyrir því, að það geti verið eðlilegt að taka upp það form að leggja á rekstrarvörurnar líka. En ég vil þó benda á það, að þessi breyting hefur í för með sér ýmis óþægindi fyrir útgerð á vissum stöðum. Skal í því sambandi nefna, að á ýmsum stöðum úti á landi hefur verið reynt að hafa skip heima og gera þau út þaðan, jafnvel þó að þau hafi getað búið við betri kjör annars staðar af atvinnusjónarmiðum til þess að koma í veg fyrir atvinnuleysi á þessum stöðum.

Með núverandi skipan uppbótanna hefur verið um ýmis fríðindi að ræða, sem hafa fallið í skaut útgerðinni, hvort sem hún hefur aflað mikið eða lítið, og þar á ég t.d. við iðgjöld af vátryggingu skipanna. Með því að fella þau hlunnindi niður og miða algerlega við afla skipanna skapast að sjálfsögðu miklir örðugleikar á því, að unnt verði að haga útgerðinni svo sem gert hefur verið eða fá þessi skip til þess að leggja upp afla á þessum stöðum úti á landi, þegar þau geta fengið betri afkomu annars staðar. Það má vitanlega segja, að það sé þjóðfélagslega skynsamlegra að hafa þetta form á, en það hefur nú verið viðurkennt einnig af forráðamönnum þjóðarinnar á undanförnum árum, að það yrði að gera vissar ráðstafanir til þess að stuðla að jafnvægi í byggð landsins og tryggja það, að fólk hefði sæmilega atvinnu á ýmsum stöðum úti um land, þar sem við atvinnuleysi hefur verið að etja, og það má því gera ráð fyrir, að þetta leiði af sér aukin vandræði á þessu sviði og gera verði því sérstakar ráðstafanir í sambandi við ýmsa þá staði.

Hæstv. sjútvmrh. sagði í ræðu sinni hér í dag, að það þyrfti að auka rekstrarlán og stofnlán útflutningsatvinnuveganna, því að það liggur auðvitað í augum uppi, að fjárþörf þeirra vex mjög stórkostlega við þær álögur, sem nú eru lagðar á rekstrarvörur atvinnuveganna. Þetta er góðra gjalda vert og vonandi, að hæstv. ráðh. fái því framgengt. En mér skilst nú eftir þeirri stefnu, sem virðist ríkjandi hjá seðlabankanum, sem hefur þetta mál í sinni hendi, að þá sé nú ekki sérlega vænlegt að róa á þau mið og reikna með að fá aukin rekstrarlán eða yfirleitt þá lánsfjáraukningu, sem þetta frv. leiðir af sér, því að þar er öll áherzla lögð á það að draga lánin mjög verulega saman.

Ég skal ekki fara út í einstök atriði frekar varðandi þessa bótahlið frv. Ætlun mín var hér fremur að ræða um fjármálahlið þess, sem vitanlega er undirstöðuatriði málsins.

Við athugun á hag útflutningssjóðsins sjálfs skilst mér, að hér sé gert ráð fyrir því, að hækkun á útgjöldum hans eða tekjuþörf muni vera um 304.5 millj. kr. Orsök þessarar hækkunar liggur í nokkrum liðum. Stærsti liðurinn er hækkun á rekstrarvörunni. Það er kauphækkun, sem leiðir beinlínis af ákvæðum frv., 50.6 millj., og það er halli útflutningssjóðsins frá fyrra ári og frá áramótum. Mér telst svo til, að bótaþörfin, ef frv. hefði ekki verið flutt, sé 51.8 millj., miðað við þær auknu bætur, sem gert er ráð fyrir og taldar eru nauðsynlegar til togaranna, og halli útflutningssjóðsins sé 78.2 millj. kr., eða alls bótaþörf sjóðsins 130 millj. En það, sem hefur sem sagt gert þessa tölu svo háa, eins og ég áðan greindi frá, stafar af þeim álögum, sem gert er ráð fyrir hér í frv.

Hvort auðið hefði verið og hvað hefði þurft mikið aukinn innflutning til þess að mæta þessum þörfum, skal ég ekki um segja, en mér sýnist þó ekki ótvírætt, að það hefði þurft að vera um mjög mikla aukningu að ræða. En það hef ég ekki haft aðstöðu til þess að kanna ofan í kjölinn.

Um ríkissjóðinn er það að segja, að gert er ráð fyrir, að lögin hafi allveruleg áhrif á hag hans. Ég vil í sambandi við þá hlið málsins gagnrýna mjög og vita þá uppsetningu, sem er í grg. frv. varðandi hlut ríkissjóðs í hinum nýju álögum. Þar er aðeins að finna þá upplýsingu, að það sé gert ráð fyrir, að tekjuauki ríkissjóðs verði 41 millj. kr. að frádregnum þeim hækkunum, sem leiði af lögunum, en það eru engar upplýsingar um það, hverjar þær hækkanir séu, og það er ekki einu sinni í frv. um að ræða upplýsingar um það atriði, hvort miðað er við heilt ár eða ekki varðandi þessa 41 millj. Þetta er auðvitað mjög villandi og fráleitt að leyfa sér að hafa slíka túlkun á málinu. En samkv. þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta efni, mun frv, leiða til þess, að útgjöld ríkissjóðs á einu ári hækka um 80 millj. kr., þar af 40 millj. vegna yfirfærslugjalds, sem á er lagt í lögunum. En á móti er gert ráð fyrir því, að tekjur ríkissjóðs á einu ári hækki um 144 millj., og hækkunin á þessu ári mundi þá verða 96 millj. kr., sem fellur í hlut ríkissjóðs. Nú er þarna að vísu um frekari tekjuauka að ræða, vegna þess að eftir að fjárlög voru afgreidd, var ákveðin hækkun á áfengi og tóbaki, sem ég geri ráð fyrir að muni gefa ríkissjóði um 20 millj. kr., þannig að hann fái þarna allgóðan slurk. Ég veit að vísu, að hæstv. fjmrh. kann betur við að hafa dálítið í kassa hverju sinni, og það er að sjálfsögðu ekki að lasta það, en á þessu öllu verður nú að hafa verulegt hóf, þegar um það er að ræða að leggja á þjóðina stórkostlegar nýjar álögur.

Það var hér upplýst í dag af hv. þm. G-K., að samtals næmu álögurnar eftir þessu nýja frv. 790.4 millj. kr. Hæstv. menntmrh. taldi þennan útreikning mjög fráleitan og sagði, að eftir sömu röksemdum hefði mátt segja, að álögur á þjóðina hefðu verið 900 millj. kr., þegar gengisbreytingin var framkvæmd.

Ef þessar tölur eru sambærilegar, þá hlýtur hér að vera um að ræða sambærilegar ráðstafanir. Annars er ekki rétt að taka þetta sem samhliða tölur til samanburðar, og hæstv. ráðh. ræddi töluvert um þetta og byggði sinn málflutning gegn þessari upplýsingu hv. þm.

G-K. á þessu atriði, að þetta væri jafnfráleitt og að reikna út áhrif gengislækkunar og segja, að þar væri um að ræða nýjar álögur á þjóðina. Hæstv. ráðh. dró svo nokkuð í land, — hefur sennilega talið, að þetta væri ekki vel heppilegt, eftir að búið er að lýsa því hér yfir af ýmsum hæstv. ráðh., að þetta væri nú alls ekki gengislækkun, — og bætti því við, að gengisbreytingin 1950 hefði þó verið að verulegu leyti annars eðlis. Og ef það er rétt, að hún hafi verið annars eðlis, þá er heldur ekki hægt að gera samanburðinn, þannig að sú röksemd fellur þá einnig um sjálfa sig. Þessi tala er tvímælalaust rétt, 790.4 millj. Hitt er aftur á móti vert að taka fram, eins og hv. þm. G-K. líka gerði, að það eru vissar duldar greiðslur í þessu, sem getur verið vafi um, hvort rétt er að taka með, vegna þess að þær ganga út og inn til sama aðila. En að svo miklu leyti sem þessar álögur eru ekki endurgreiddar sama aðila, hlýtur að vera um að ræða nýja skattlagningu. Þetta liggur, að mér sýnist, í augum uppi, og það að tala um, að hér sé um að ræða millifærslu milli atvinnugreina og þjóðfélagsstétta, en ekki byrðar á þjóðina í heild, það er náttúrlega „teoretiskt“ atriði. Staðreynd málsins er sú, að það verða einhverjir einstaklingar hjá þjóðinni eða félög að borga alla þessa upphæð. Þeir njóta þess ýmsir að nokkru leyti aftur. En það er svo um meginhlutann af þeim fjárráðstöfunum, sem ríkið hefur með að gera og tekur til margvíslegra þarfa sinna, að borgararnir njóta þess að sjálfsögðu aftur í ýmsu formi þannig að dæmið er ekki hægt að setja þannig upp. Og þegar hæstv. ráðh. segir, að það sé alls ekki hægt að tala um þetta sem nýjar álögur, nema því aðeins að stjórnarandstæðingar geti sannað það, að með einhverri annarri aðferð, hefði verið hægt að hafa álögurnar minni, þá er það náttúrlega ákaflega lítil huggun fyrir það fólk, sem á að borga þessa peninga, þó að þeirri kenningu sé haldið fram, því að eftir standa álögurnar engu að síður. Það skiptir engu máli í því sambandi, hvort stjórnarandstaðan eða stjórnarliðið getur bent á, að það hefði verið hægt að gera þetta á einhvern annan hátt. Vissulega er æskilegt fyrir þjóðina, að það væri hægt að losa hana við þennan bagga að öllu leyti. Ég þori alls ekki að fullyrða að það sé hægt. Ég hef reynt að kanna þá hlið málsins, sem ég rakti hér áðan, hvernig ástatt væri með tekjuhorfur útflutningssjóðs og ríkissjóðs, miðað við óbreytt kerfi, og það, sem mér hrýs hugur við í þessu sambandi er, að þetta frv. hefur í för með sér svo stórkostlegar nýjar álögur fyrir einmitt þá aðila, sem eiga að njóta þessara tekna, bæði ríkissjóð og útflutningssjóð, að hinar raunverulegu þarfir sjóðanna verða ekki nema aðeins lítið brot af því, sem þeir þurfa nú samkv. frv. að fá í sinn hlut. En til þess að geta kannað þetta til hlítar þyrfti maður náttúrlega að fá betri aðstöðu og rýmri tíma til þess að athuga þetta ofan í kjölinn. Í því sambandi undrar mig nokkuð á því, að ekki skuli hafa komið fram þær till., sem oft hefur verið á minnzt, ekki hvað sízt af sósíalistum, þar sem þeir hafa talað um, að það væri auðvelt að spara mjög stórlega í ríkisrekstrinum. Það má sannarlega segja, að þó að oft hafi verið þörf, þá hafi nú verið nauðsyn að koma fram með slíkar sparnaðartillögur, því að ef þær hefðu verið fyrir hendi, þá hygg ég að hefði verið hægt að losna við a.m.k. ríkissjóðshlutann af þessum nýju álögum. En á því hefur ekki bólað, af hvaða sökum sem það er.

Þá er enn fremur þess að gæta, að þessar álögur leiða af sér fyrir ríkissjóðinn mjög verulegan samdrátt á verklegum framkvæmdum, og það hefði í rauninni mátt ná þessum tilgangi með fjáröflun til ríkissjóðs með því að skera þessar verklegu framkvæmdir niður um þá upphæð, sem hér er um að ræða, sem vafalaust eru 10–15 millj., því að það kemur auðvitað nákvæmlega eins út, hvort þær hefðu verið lækkaðar um þessa upphæð eða hvort vörurnar og vinnulaunin, sem þarf til að inna framkvæmdirnar af höndum, eru hækkaðar sem upphæðinni nemur.

Það hefur hér verið gert nokkuð að umtalsefni launaákvæði þessa frv. Ég skal ekki langt út í þá sálma fara. Það er verkalýðshreyfingarinnar sjálfrar að meta það, hvort hún telur sér hag í því að fá kaup sitt ákveðið með lögum. Hingað til hefur það verið stórkostlegt atriði hjá verkalýðshreyfingunni að hafa samningsfrelsi og að ekki væri með löggjöf gripið inn í samninga milli launþega og vinnuveitenda, og þetta samningsfrelsi er að sjálfsögðu einn af hyrningarsteinum þeim, sem frjáls verkalýðshreyfing byggist á. Það hefur áður verið fordæmt mjög heiftarlega, ekki hvað sízt af kommúnistum, ef það hefur verið gripið inn á þetta svið og annaðhvort takmörkuð vísitöluuppbót eða einhverjar aðrar ráðstafanir gerðar, sem taldar hafa verið hafa áhrif á laun. Nú virðist þetta allt vera gott og blessað í þeirra augum. Að vísu hafa verkalýðsforingjarnir margir lýst mjög eindreginni andstöðu gegn þessu frv. Ég skal ekki segja um, hvort það hafi verið sérstaklega gegn þessari lögbindinga á kaupinu. En það, sem vakti alveg sérstaka athygli mína og mig langaði til að minna á hér, sem ég hygg þó, að ekki hafi farið fram hjá neinum,er sú undarlega staðreynd, að það skuli hafa runnið upp fyrir ýmsum þessara manna og var að vísu mest áberandi hjá hæstv. sjútvmrh., — ég man nú ekki, hvort hæstv. menntmrh. kom inn á það, — að vísitölukerfið væri eiginlega mesta ólán og ógæfa fyrir verkalýðshreyfinguna. Að vísu var hv. 3. þm. Reykv, á allt annarri skoðun hér áðan og taldi vísitölukerfið vera mjög mikla tryggingu og öryggi fyrir launþega, en hæstv. sjútvmrh. taldi í ræðu sinni, að það væri sérstaklega slæmt fyrir láglaunafólk og það væri þess vegna ekkert á móti því, að það væri fundið upp eitthvert annað kerfi, og þó að horfið væri frá þessu, eins og gert er í þessu frv., og teknar vísitöluuppbæturnar af launþegum, þá væri það ekki svo alvarlegt atriði. Það er vissulega rétt, að vísitölukerfið út af fyrir sig getur verið hættulegt, og sú sífellda hækkun verðlags og kaupgjalds, sem stafar af vísitölu og því kerfi, sem fylgt hefur verið í því efni, er auðvitað svikamylla að mörgu leyti. Hins vegar hefur alltaf verið litið á það af verkalýðnum sem mikið öryggi fyrir hann að hafa tryggingu fyrir því, að laun hækkuðu eftir vísitölu. Nú er það að vísu svo, sem hefur orðið sérstaklega áberandi í tíð hæstv. núverandi ríkisstj., að vísitalan er kannske ekki orðin svo mikils virði, vegna þess að það hefur allt verið gert til þess að koma í veg fyrir, að verðhækkanir hefðu áhrif á vísitöluna, og það er einnig gert nú í þetta sinn.

Ég fæ nú satt að segja ekki skilið, að það sé mögulegt, að 5% kauphækkun nú geti jafngilt þeim verðhækkunum, sem verða samkv. þessu frv. Þessi orð mín má enginn skilja svo, að ég telji, að það sé sjálfsagt, að kaupið verði hækkað meira. Það er allt önnur saga, og við vitum það auðvitað, að það er nú síður en svo ástatt þannig, að útflutningsatvinnuvegirnir geti borið hækkað kaupgjald. En kjarni þessa máls er auðvitað að segja rétt og satt frá þessum staðreyndum öllum.

Hæstv. menntmrh. sagði, að í rauninni kæmu þessar byrðar ekki niður á nema þá, sem hefðu yfir 60 þús. kr. tekjur, aðrir fengju þetta uppi borið með þessari 5% kauphækkun. Ég skil ekki, hvernig hann finnur þetta út. Ég býst t.d. við því, að hvort sem menn hafa 60 þús. kr. tekjur eða ekki, verði jafntilfinnanleg fyrir þá t.d. olíuhækkun, sem mér skilst að sé 24 eða 25% og er enginn smáræðisbaggi. Nú, mjólkurhækkunin, ég býst við, að þeir, sem hafa innan 60 þús. kr. tekna, þurfi mjólk handa sér og fjölskyldu sinni eins og aðrir, og ýmsar aðrar hækkanir, sem er óumflýjanlegt að hljóti að lenda á þessu fólki. 5% kauphækkun er ekki það mikil upphæð af ekki hærri launum, að ég get sannast sagna ekki skilið, hvernig þetta getur staðizt, og væri fróðlegt að fá á því nánari skýringar.

Það er vissulega eftirtektarvert og lærdómsríkt, sem komið hefur fram nú að undanförnu, að verkalýðshreyfingin hefur sýnt mikinn áhuga á stöðvun verðbólguþróunarinnar, og það er allt annað, sem þar er upp á teningnum, en meðan kommúnistar voru utan ríkisstj. og æstu þá stöðugt til verkfalla. Það er vissulega gott, að það sé aukinn skilningur fyrir hendi á þessari staðreynd, að dýrtíðarþróunin er til ógæfu fyrir verkalýðinn. En það er jafnframt lærdómsríkt, að það skuli ekki verða fyrr, en eftir að kommúnistar eru sjálfir komnir í ríkisstj. og þurfa að fara að bjarga sínu skinni, sem þeir hafa farið að ljá máls á því og prédika það sjálfir fyrir verkalýðnum, að það væri æskilegt að vinna gegn þessari þróun. Sjálfstæðismenn hafa haldið því fram í verkalýðsmálum, að verkalýðurinn ætti að meta sína kjarabaráttu út frá sínum eigin hagsmunum, en ekki láta beita sér fyrir pólitíska vagna í því efni.

Það kom hér fram nokkuð eftirtektarverð yfirlýsing frá hv. 3. þm. Reykv. (EOl). Hann minntist á, að það gæti farið svo, að það væri hægt að fá forustu fyrir þeim kröfum, sem hann taldi að sjálfstæðisverkamenn hefðu haldið uppi um hækkað kaup. Hvort hann býst við, að sú forusta komi, þegar þeir fara úr ríkisstj. og hafa þá ekki lengur áhyggjur af því, hvort stöðvun er á verðlagi í landinu eða ekki, skal ég ekki um segja. En ég get sagt honum hins vegar það og þykist vera viss um, að það er sá andi, sem ríkir hjá sjálfstæðismönnum innan verkalýðsfélaganna, að þeir vilja taka afstöðu sína í þessum málum alveg án hliðsjónar af því, hverjir eru við völd hverju sinni, enda er það hið eina heilbrigða, sem á að ráða í verkalýðshreyfingunni í sambandi við launamál, og hið eina heilbrigða fyrir þjóðfélagið í heild, að sú hugsun ráði þar.

Hvað felst í þessu frv., skal ég ekki mikið út í fara. Það hefur áður verið rakið hér, að það, sem í því væri, væri í rauninni tvenns konar stefnur, það væri annars vegar gengislækkun og hins vegar haldið í uppbótakerfið. Og það er stærsti gallinn á þessu frv., að hér er blandað saman ýmsum leiðum, sem sýnilega er gert til þess að bræða saman gerólík sjónarmið, og úr því vill náttúrlega alltaf verða meiri og minni grautargerð. Þjóðviljinn lýsir þessu mjög vel í dag. Hann stærir sig yfir því, að það sé nú alls ekki svo, að það hafi verið losnað við uppbótakerfið, það sé enn í fullu gildi, eins og þeir hafi viljað, en hins vegar sé raunverulega tekin upp gengislækkun, þó að dulbúin sé, og niðurstaðan er þó líklega sú, að frv. er í anda þriðju leiðar Alþfl., að þó að þeir hafi ekki fengið fram beina gengislækkun, þá hafi þeir þó fengið hana fram, að svo miklu leyti sem auðið var, til að kljúfa ekki þessa fylkingu þeirra og hafi þá sætzt á að hafa hvorar tveggja leiðirnar sem uppistöðu í þessu frv. En mig langar aðeins — og bið menn að afsaka, það þarf ekki að lengja mikið mitt mál — að láta þá félaga lýsa með nokkrum orðum kostum þeirrar leiðar, sem þeir hafa hér blandað saman og bjóða nú þjóðinni upp á í þessu frv.

Alþýðublaðið lýsti uppbótakerfinu þannig 30. marz: „Uppbótakerfið komið í öfgar. Mikil síldveiði mundi sennilega gera íslenzka ríkið gjaldþrota.“ Það eru nú hagsmunir ríkisvaldsins, að ekki veiðist of mikið. Ég vil því gerkanna það, hvort sömu áhrif verða af þessu frv., að það sé stórhættulegt, ef mikið veiðist. En staðreynd er það a.m.k., að uppbótakerfið helzt enn, svo að það má væntanlega gera ráð fyrir því, að þessi sama hætta sé yfirvofandi, ef svo illa skyldi nú fara, að það skyldi sæmilega aflast.

Áfram vil ég vitna í þetta ágæta blað hæstv. menntmrh. Það sagði svo á skírdag 1958: „Þjóðinni er nú orðið ljóst, að uppbótavitleysan öll, sem kommúnistar knúðu fram í desember 1956,“ — það virðist, að bjargráðin við síðustu áramót eigi að færast á þeirra reikning, — „er búin að skaða þjóðina mjög mikið og hefur þegar sett þjóðina í meiri gjaldeyrisörðugleika, en hún hefur lengi átt við að stríða. Því verður ekki neitað, að allveruleg hætta er nú á því, að leiðsögn kommúnista í efnahagsmálum á árinu 1957 kalli yfir þjóðina þann vágest, sem verstur er, atvinnuleysi,“ Og svo er manni sagt, að þetta frv. eigi að vera trygging gegn atvinnuleysi, — eða ber að skilja það svo, að kommúnistar hafi ekki komið nálægt þeim úrræðum, sem í þessu frv. eru? Hræddur er ég nú um, að einhverjir þeirra eigi þar æði stóran hlut í, a.m.k. hæstv. sjútvmrh., þó að hv. 3. þm. Reykv. vilji afneita því.

Og þá kemur lýsing Þjóðviljans á gengislækkunarhlið frv., en hann segir um það efni 25. marz 1958: „Gengislækkunin, sem vissir aðilar berjast nú fyrir af slíkri heift sem einu lausn efnahagsmálanna, hefur m.a. álíka kosti fyrir vissa aðila eins og vel heppnað innbrot fyrir ameríska bankaræningja.“

Tíminn segir svo í sama mánuði, 21. marz, — þá var þetta mjög til umræðu í öllum blöðunum, hvað gera ætti, — þá segja þeir, sem að vísu var vitað áður um þann fróðleik: „það var m.a. vegna þess, að framsóknarmenn höfðu ótrú á uppbótakerfinu, að þeir rufu samstarf við Sjálfstfl. og vildu freista samkomulags við aðra aðila um ný úrræði.“ Og þetta eru nú nýju úrræðin, miklu meiri uppbætur, en nokkru sinni áður, enda segja þeir í sömu grein: „Niðurstaðan hefur orðið sú, að hingað til hefur ekki náðst samkomulag um annað, en að halda uppbótakerfinu áfram með nokkuð svipuðum hætti og áður var.“ Og þetta sama ágæta blað hæstv. forsrh. segir svo: „Styrkjakerfið hefur gengið sér til húðar. Um það ætti ekki þurfa að deila.“

Þetta er ekki lýsing okkar sjálfstæðismanna á þeim úrræðum, sem eru í þessu frv., þeim tveim úrræðum, sem þar er blandað saman á mjög merkilegan hátt, heldur eru það þeirra eigin lýsingar, þeirra manna, sem unnið hafa saman að því að hræra þetta saman í þann graut, sem birtist í þessu frv.

En áður en ég lýk máli mínu langar mig til þess að vitna í nokkur atriði í grein, sem hæstv. sjútvmrh. skrifaði í Þjóðviljann 25. febr. og er ákaflega lærdómsrík grein. Ég veit að vísu ekki, hvort hann vildi lesa hana núna í þessum umræðum, ég er ekki alveg viss um það, en hún getur þá verið lærdómsrík fyrir aðra, og kannske les hann hana einhvern tíma seinna, þegar hann er kominn úr stólnum. Þar fræðir hann fyrst og fremst um það, sem hefur verið upplýst hér áður og hv. 3. þm. Reykv. gerði að sínum orðum. Hann vill enn standa við þessi orð, að það þurfi ekki nema 25 millj. kr. til útvegsins og 65 millj. kr. til Eysteins Jónssonar fjmrh., þá sé allur vandi leystur, það þurfi sem sagt 90 millj. kr. Hann gleymdi alveg í ræðu sinni í dag að útskýra fyrir þjóðinni, hvernig stæði á þeirri breytingu, sem hér væri á orðin, og hvaða óskapleg útgjaldaaukningarþörf hefði orðið síðan 25. febr. Það hlýtur að vera eitthvað stórkostlegt, sem gerzt hefur í þjóðfélaginu síðan, úr því að álögurnar eru nú orðnar margfaldar á við það, sem hann taldi þá nauðsynlegt. Og þetta er vitanlega, eins og hv. þm. G-K. sagði hér áðan, að svona lagaðar upplýsingar eru náttúrlega gersamlega til að villa um fyrir mönnum, því að menn verða þó að gera ráð fyrir því, að það sé eitthvað að marka það, sem hæstv. ráðherrar skrifa undir eigin nafni í blöð, og ekki sízt það, sem hæstv. sjútvmrh. skrifar um þetta mál, sem hann á að vera allra manna kunnugastur. Og þegar við erum krafðir um tillögur, þá er sannarlega full ástæða til þess fyrir okkur að vera með nokkrar vangaveltur um það, sem skiljanlegt er, til hvaða úrræða eigi að gripa, eftir því, hvort vantar 90 millj. eða 6–7 hundruð millj. Það er sannarlega ekki víst, að það gildi sama aðferð til þess að fá peningana, þegar svo mikill munur er á, enda er ég í engum efa um, að ef ekki vantaði meira en þetta, þá þyrftum við alls ekki að baksa með þetta frv., sem hér er. Það væri algerlega ástæðulaust. En það voru önnur atriði í þessari grein, sem mig langaði rétt aðeins til þess að lofa mönnum að heyra, ef þeir skyldu hafa gleymt þeim eða aldrei hafa lesið þau, vegna þess að þau lýsa dálítið stefnu ríkisstj. á undanförnum árum, Hæstv. sjútvmrh. segir:

„Áróðursmenn íhaldsins hafa haldið því fram, að núverandi ríkisstj. hafi ekkert gert í efnahagsmálunum annað, en að troða gamlar slóðir og viðhalda sömu stefnu og áður.“

Og ráðh. segir síðan:

„Hugleiðing þessi er alröng. Hið rétta er, að grundvallarmunur er á því, sem núverandi ríkisstj. hefur gert í þessum málum, og því, sem áður var gert.“

Í hverju er munurinn fólginn? Jú, hann er þessi:

„Allar voru þessar álögur þannig,“ — þ.e.a.s. hjá fyrrv. stjórn, — „að þær hlutu að koma fram í verðlaginu, enda engar tilraunir gerðar til þess að hindra hækkun á vöruverði.“ Og ráðh. segir:

„Þetta var kollsteypuleið íhaldsins, sú leiðin að taka eina kollsteypuna af annarri og hækka í sífellu allt verðlag í landinu, öllum til tjóns nema skuldakóngum og stóreignamönnum.“

Nú vitum við, fyrir hverja ríkisstj. er að vinna með þessu frv., sem hún leggur nú fram. Það eru skuldakóngar og stóreignamenn, sem græða á þessari nýju stefnu. Þessi leið stefnir auðvitað beint út í gengislækkun, því að útilokað er að halda þannig áfram lengi. Núverandi ríkisstj. hefur ekki valið þessa leið. Það var sem sagt í fyrra. En nú vill hún gjarnan velja leið, sem hæstv. ráðh. segir að sé mest í hag skuldakóngum og stóreignamönnum, hvað sem veldur breytingunni í hans huga um það efni, því að nú liggur það ljóst fyrir og er greinilega tekið fram í grg. frv. og efni þess, enda leiðir það í ljós, að ríkisstj. segir: Ja, nú er því miður ekki hægt að leggja á lúxusvörurnar. Það er alls ekki lengur hægt að láta þær standa undir þessu. — Það er sagt, að það stafi að vísu af því, að það hafi ekki verið til gjaldeyrir til að flytja lúxusvörurnar inn. En kunnugir segja nú, að það sé ekki eingöngu það, heldur hafi hið háa álag á þær verið orðið svo mikið, miðað við kaupgetuna hjá þjóðinni, að það hafi stórlega dregið úr sölu þeirra af þeim sökum. En nú er líka horfið frá því ráði. Nú er ekki lengur verið að hlífa þessum nauðsynjavörum og láglaunafólkinu. Nú er beint farið í nauðsynjarnar og sagt, að nú sé það eina úrræðið til að leysa vandann að leggja á nauðsynjarnar líka. Og nú er það eina huggunin, eins og ég áðan gat um, að hæstv. menntmrh. segir: Ja, það er nú nokkurn veginn tryggt, að þeir, sem hafa innan við 60 þús. kr. tekjur, sleppa þó sæmilega út úr þessu.

Hæstv. ráðh. sagði í sömu grein:

„Að því leyti sem álögurnar voru látnar hvíla á vöruverði, var reynt að gæta þess, að lúxusvörur eða aðrar þær vörur, sem minnst skipta máli í útgjöldum verkafólks og annars láglaunafólks, væru skattlagðar mest.“

Þannig var nú miðað við það að afla tekna vegna millifærsluleiðarinnar sem mest á kostnað hinna stóru og á kostnað eyðslunnar, en hagsmunir láglaunastéttanna hafðir í huga. Nú þarf ekki lengur að hafa þá í huga. Hér er um að ræða grundvallaratriði um aðra stefnu, en áður, stefnu, sem íhaldið hefði aldrei samþykkt, vegna þess að hún var gegn hagsmunum ýmissa máttarstólpa Sjálfstfl. Eftir lýsingum hæstv. ráðh. virðist hann hafa talið, að nú væri orðið tímabært að hlynna að hagsmunum máttarstólpa Sjálfstfl.

Ég hef orðið æði langorður um þetta, því að það eru að vonum mörg atriði, sem minnast þyrfti á. Það liggur nú ljóst fyrir varðandi þetta frv., sem hér liggur á borði fyrir framan okkur, að það er engin frambúðarlausn, og það er ekki aðeins, að það sé engin frambúðarlausn, heldur er ekki talið einu sinni, að það nægi eitt ár, og það hefur þó hingað til verið talið með þær ráðstafanir, sem gerðar hafa verið í efnahagsmálunum, að það yrði reynt að láta þær duga árið. (Gripið fram í: Þetta er 4 mánuðir upp á vatn og brauð.) Já, það er víst. Ætli það verði þá ekki tekið af bæði vatnið og brauðið eftir þann tíma?

Nú er okkur sagt í grg. frv. sjálfs, að það sé nokkurn veginn ljóst, að það þurfi að gera nýjar ráðstafanir í haust, eftir þessar 790 millj. kr. álögur er það aðeins bráðabirgðaúrræði, sem nægir til hausts, og þá verði að gera stór átök í málinu. Þetta er nú orðið svo aumt allt saman, — kannske þykir ekki sæmandi að tala um, að það sé broslegt, þegar um svona alvarleg vandamál er að ræða, en það er a.m.k. broslegt, hvernig hefur farið fyrir hæstv. ríkisstj. í allri þessari glímu, eftir öll stóru orðin. Það minnir mann á úr kunnri sögu kappa einn, sem sagði: Sjáið, hvernig ég tók hann, piltar, — þegar hann lá flatur sjálfur fyrir þeim, sem hann var að fást við. Það er eins með ríkisstjórnina, að hún hefur gersamlega gefizt upp við það vandamál, sem við er að glíma. Hún reynir að vísu enn að segja við þjóðina: Sjáið, hvernig ég tók hann, piltar. — En það verður jafnt brosað að henni fyrir þau orð sín eins og var brosað að þeim, sem þessi ummæli viðhafði á sínum tíma. Það er vissulega sorgarsaga, hvernig þessi þróun hefur verið og hversu hörmulega þessi barátta hæstv. forsrh. er nú að enda, því að hún er áreiðanlega að enda komin. Hann ætlaði sér að leiða þjóðina út úr eyðimörkinni. Hann hefur því miður komið henni út í svo stórkostlegt öngþveiti, að það er ekki með góðu móti sýnilegt í dag, hvernig hún verði farsællega út úr því öngþveiti leyst. Hv. 3. þm. Reykv. segir, að hún hafi glatað trausti verkalýðshreyfingarinnar, og það átti nú að vera hennar haldreipi, þannig að ég sé nú ekki með nokkru móti, hvernig ríkisstj. hyggst lengur sitja í sínum stólum. Að vísu skal ég taka undir það, sem hv. þm. G-K. sagði hér í dag, að það væri mjög miður farið, ef ríkisstj. færi strax frá völdum, hún þyrfti endilega að koma með þessi frambúðarúrræði sín í haust. En þau kannske gilda ekki nema einn mánuð. Úr því að hún er komin núna niður í fjóra, þá sennilega styttist nú alltaf tíminn með þessi úrræði, þangað til allt stöðvast. En það er að sjálfsögðu nauðsynlegt, úr því sem komið er, að þjóðin sjái glögglega, hvílíkur skrípaleikur hér hefur verið leikinn. Það getur kostað hana nokkuð, reynslan er oft dýrkeypt, en hún getur verið nauðsynleg, og hún er það í þessu tilfelli.

Það er dálítið gaman, þegar verið er að auglýsa hér eftir till. okkar sjálfstæðismanna. Hæstv. menntmrh. auglýsti mjög ákveðið eftir þeim hér í kvöld og byggði alla von sína á því, að hv. 9. landsk. mundi eitthvað upplýsa hann um það, hvað ætti að gera, af því að hann hefði hagfræðiþekkingu og af þeim sökum væri líklegt, að hann vissi um það efni. Ég efast ekkert um fróðleik hv. 9. landsk. í því efni og veit, að hann muni vera fús til að veita hæstv. menntmrh. einhverjar upplýsingar, ef hann er alveg rökþrota og ráðþrota. En þetta stingur dálítið kynduglega í stúf við ummæli, sem voru í Alþýðublaðinu 19. marz 1958. Þar segir svo: „Núverandi ríkisstj. á að hafa betri aðstöðu til þess en fyrirrennarar hennar að leysa efnahagsmálin, af því að Sjálfstfl. er kominn á réttan stað í íslenzkum stjórnmálum.“ Og svo erum við beðnir í dag, nokkrum vikum seinna, um að benda á nú, hvað ætti að gera til þess að forða út úr öngþveitinu, eftir að búið er með þessari kokhreysti að segja: Það er ekki mikill vandi núna, úr því að búið er að koma Sjálfstfl. burt frá öllum áhrifum.

Það er vitanlega hægt margt um efnahagsmálin að ræða og hvað þar þurfi að gera. Það eru auðvitað mismunandi úrræði, sem þar geta við átt, eftir því, hvernig ástatt er hverju sinni. Það eitt höfum við sjálfstæðismenn lagt áherzlu á, að glæða þyrfti með þjóðinni skilning á, að það væru engin töfrabrögð til, til að leysa þennan vanda. Og ástæða þess, að hæstv. ríkisstj. gengur nú svo illa að gera þjóðinni skiljanlegt það, sem hún er að fara í þessum efnum, er einmitt það, að þessi sama hæstv. ríkisstj. hefur látið málgögn sín og hún sjálf hefur neyðzt til þess að halda því fram við þjóðina, að það væru til einhver töfrabrögð til þess að leysa þennan vanda og það meira að segja til frambúðar. Það er ógæfan, sem við er að etja í dag. Við höfum haldið því fram, sjálfstæðismenn, að það þyrfti að glæða með þjóðinni skilning á því, að það er útilokað hverju sinni að taka af framleiðsluatvinnuvegum þjóðarinnar meira, en þeir gefa í arð, það eru þau mörk, sem aldrei er hægt yfir að stíga. Ef það er gert, verður að skila atvinnuvegunum því með einhverju móti aftur, ef þeir eiga ekki að stöðvast, og það er auðvitað höfuðatriði fyrir þjóðina, að framleiðslan og framleiðsla útflutningsverðmæta stöðvist ekki.

Það er mikið talað um gengislækkun, og vissulega getur svo að borið, að gengislækkun sé óumflýjanleg. Hún hefur verið framkvæmd áður í okkar þjóðfélagi. Það er hins vegar sjónarmið okkar sjálfstæðismanna, að gengislækkun sé fullkomið neyðarúrræði, sem ekki megi grípa til, fyrr en önnur ráð eru þrotin. Hvort svo standa nákvæmlega sakir í dag, veit ég ekki. Til þess þarf þetta mál að kannast allt miklu betur og vita allar þær athuganir, sem á því hafa verið framkvæmdar, til þess að gera sér grein fyrir þeirri staðreynd, og þær athuganir höfum við ekki í höndum. En sé þörf gengislækkunar eða einhverra annarra ráðstafana, þá er auðvitað á þeim tíma, þegar það liggur ljóst fyrir, ekkert um annað að ræða fyrir hvern og einn, en horfast í augu við það. En ég ítreka það, að það er fullkomið neyðarúrræði og getur enda aldrei verið nein lausn á þessu vandamáli, þar hlýtur margt annað að koma til greina. Og fyrir íslenzku þjóðina, sem vill berjast fyrir því að viðhalda sínum lífskjörum, er auðvitað eina leiðin að því marki að efla sína framleiðsluatvinnuvegi, reyna að stuðla að því með öllum tiltækum ráðum, að fleira fólk fari til framleiðslustarfa. Það er vitanlega alveg óhæfa og fráleitt, eins og hæstv. sjútvmrh. réttilega sagði hér í dag, að það skuli þurfa að flytja inn hundruð manna og jafnvel á annað þús. manns til þess að vinna á okkar fiskiskipaflota, að framleiðslu okkar útflutningsverðmæta. Slíkt verður að breytast, og það verður að vera hægt að sækja meiri verðmæti bæði í sjóinn og með öðrum ráðum.

Ég álít, að sjávarútvegurinn sé ekki einhlítur í þessu sambandi og við þurfum að leggja áherzlu á fleiri atvinnugreinar líka, þ. á m. stóriðnað, eftir því sem kostur er á og við höfum úrræði til. En hvaða atriði sem þar verður sérstaklega lögð áherzla á, það skal ég ekki meta á þessu stigi málsins, þá er hitt staðreynd, sem við getum ekki lokað augunum fyrir, að ef við ætlum að bæta okkar kjör og í rauninni, ef við ætlum að halda okkar lífskjörum óskertum, þá verðum við að efla okkar framleiðslu og það verður að fást skilningur hjá þjóðinni allri fyrir því, að framleiðslan verður að sitja í fyrirrúmi fyrir öllu öðru.

Það er talað hér um það, að fjárfestingin sé of mikil í landinu, og það má vel vera. Hins vegar hlýtur alltaf fjárfesting að vera mikil í landi, sem á svo margt ógert eins og við eigum hér á Íslandi. En það er a.m.k. eitt, sem ekki má koma fyrir, og það er, að óhæfilega verði dregið úr fjárfestingu til þeirra þarfa, sem skila okkur gjaldeyrisverðmætum í þjóðarbúið, þ.e.a.s. til framleiðsluatvinnuveganna. Framleiðsluatvinnuvegirnir verða auðvitað að geta þróazt á eðlilegan hátt, og vitanlega er farsælast, að þeir geti þróazt með því móti, að þeir geti styrkjalaust gengið í meðalárferði, þó að vitanlega geti þurft að hlaupa þar undir bagga, ef óvenjulega illa árar. En að það þurfi að halda þeim stöðugt uppi eftir einhverjum styrkjaleiðum, það hefur auðvitað í för með sér margvíslega ókosti, sem ég skal ekki fara hér nánar út í, þannig að vænlegust er vitanlega sú þróun mála, að þeim geti vaxið svo fiskur um hrygg, að svo geti orðið.

Ég hygg, að það sé ekkert ofmælt, þó að sagt sé, að þetta frv., sem hér liggur fyrir, stefni ekki á neinn hátt til jafnvægis í þjóðarbúskapnum. Því fylgir tvímælalaust mikil verðbólgualda. Hvort tekst að stemma stigu við þeirri öldu eitthvað á komandi hausti, það vitum við ekkert um í dag. Það er staðreynd, sem liggur fyrir, að þessar ráðstafanir muni hækka vísitöluna um allt að 19 stigum, og það er engin smáræðishækkun á nokkrum mánuðum. Ég er þess vegna mjög hræddur um, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki gerla áttað sig á því, hvernig hún ætlar að fást við þá skriðu, sem hún hleypir hér af stað. Vonandi tekst þar betur, en á horfist. En kjarni málsins er sá, að það er svo komið með þessa hæstv. ríkisstj., að þjóðin öll, einnig sá hluti hennar, sem hún taldi sig byggja alla tilveru á, verkalýðshreyfingin, hefur gersamlega misst á ríkisstj, allt traust, og þegar svo er komið, er auðvitað vonlaust, að slík ríkisstj. geti leyst þau vandamál, sem hér er við að glíma.