23.05.1958
Neðri deild: 103. fundur, 77. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

186. mál, útflutningssjóður o. fl.

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Samkomulag náðist ekki í fjhn. um þetta mál, og liggja fyrir þrjú nál. um frv. 1. minni hl. n. hefur lagt fram álitið á þskj. 534. Við, sem stöndum að því áliti, hv. þm. Hafnf. og ég, mælum með því að frv. verði samþykkt, en við flytjum í samráði við ríkisstj. nokkrar brtt. við frv. Eru þær prentaðar með nál. okkar á þskj. 534.

1. brtt. er aðeins lagfæring á orðalagi.

2. brtt., viðbót við 3. gr., er ekki heldur efnisbreyting, en til nánari skýringar.

3. brtt. er við 7. gr. frv. Er þar lagt til, að ákvæði verði sett um, að grunnlaun sjómanna samkvæmt ákvæðum kjarasamninga um kauptryggingu þeirra skuli hækka frá 1. júní n. k, eftir því, sem ákveðið er í 52. gr., en sú grein fjallar um hækkun á launum.

4. brtt., við 12. gr., er leiðrétting. Þar á að koma 15. maí í stað 14. maí.

Þá er 5. brtt. við 18. gr. frv. Sú grein frv. er um greiðslu vátryggingariðgjalda af fiskibátum fyrir tímabilið 1. jan. til 14. maí þ. á. Í brtt. er lagt til, að ríkisstj. skuli heimilt að ákveða, að útflutningssjóður greiði einnig vátryggingariðgjöld af bátunum fyrir hinn hluta ársins eftir reglum, sem þar eru settar.

6. brtt. er við 26. gr. Er brtt. um það, að vextir af útlendum yfirdráttarlánum og öðrum erlendum lausaskuldum þeirra banka, er verzla með erlendan gjaldeyri, skuli vera undanþegnir yfirfærslugjaldi og að bankarnir skuli ekki heldur fá yfirfærslubætur á vaxtatekjur af erlendum innstæðum og verðbréfum.

Í 32. gr. frv. segir, að vinnulaun erlendra ríkisborgara hér á landi til 14. maí 1958 skuli vera undanþegin yfirfærslugjaldi samkv. 21. gr. Í 7. brtt. okkar er lagt til, að í stað 14. maí komi 1. júní. Hefur verið á það bent, að samningar við útlendinga, sem starfað hafa við sjávarútveg hér í vetur, hafi verið bundnir við 1. júní.

8. brtt. er um það, að bætur samkvæmt lögunum um atvinnuleysistryggingar skuli hækka um sama hundraðshluta og bótaupphæðir samkvæmt 2. kafla laganna um almannatryggingar, en ákvæði um þetta eru í 53. gr. frv.

Þá er loks 9. og síðasta Brtt. á þskj. 534. Hún er við 56. gr. Í brtt. segir, að við útreikninga á verðlagsgrundvelli landbúnaðarvara 1958 skuli laun bónda og verkafólks hans ákveðin 5% hærri en þau hefðu orðið, ef ekki hefði verið ákveðin 5% hækkun á grunnlaunum samkv. 52. gr. frv. Er talið, að með þessu orðalagi sé ákvæðið gert skýrara, en það er nú í frvgr. og þannig, að engum misskilningi geti valdið.

Eins og tekið er fram í aths. með frv. þessu, miðar það að þrennu:

1. Að stuðla að hallalausum rekstri útflutningsatvinnuveganna og ríkisbúskaparins.

2. Að jafna aðstöðu þeirra atvinnugreina, sem afla þjóðarbúinu gjaldeyris, frá því, sem verið hefur, og gera framkvæmd nauðsynlegs stuðnings við þær einfaldari.

3. Að draga úr því misræmi í verðlagi, sem skapazt hefur innanlands undanfarin ár, bæði milli erlendrar vöru og innlendrar og milli erlendra vörutegunda innbyrðis.

Ef rekstur útflutningsatvinnuveganna dregst saman eða stöðvast vegna hallarekstrar, veldur það almennum vandræðum í þjóðfélaginu, atvinnuleysi og skorti. Slíkt má ekki koma fyrir. En til þess að afstýra þeim vandræðum eru óhjákvæmilegar nýjar ráðstafanir, og þess vegna er frv. þetta borið fram. Mikið hefur þegar verið rætt og ritað um málið, en enginn hefur borið brigður á, að atvinnuvegirnir hefðu þörf fyrir þann stuðning, sem þeim er ætlaður í frv. Þvert á móti halda ýmsir því fram, að einstakar atvinnugreinar þurfi á meiri aðstoð að halda. Af þessu er ljóst, að úr aðstoðinni er ekki unnt að draga, og þá einnig hitt, að tekjuöflun þá, sem ráðgerð er í frv., má ekki skerða.

Málið er þess eðlis, að það hefði þurft að fá skjóta afgreiðslu í þinginu, og var lögð áherzla á það af hálfu hæstv. stjórnar, þegar hún lagði frv. fram. Nú er liðið á aðra viku síðan og drátturinn á afgreiðslu frv. þegar orðinn til tjóns. Mun það enn aukast og því meira sem lengur dregst að ljúka afgreiðslu málsins.