06.02.1959
Efri deild: 65. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1176 í B-deild Alþingistíðinda. (1004)

75. mál, sameign fjölbýlishúsa

Frsm. (Eggert Þorsteinsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur nú á milli umræðna yfirfarið frv. þetta á allmörgum fundum og orðið sammála um að mæla með samþykkt þess með þeim þrem brtt., sem n. flytur einróma á þskj. 234.

Um aðdraganda málsins og málatilbúnað allan er óþarft að vera fjölorður. Fyrir minni persónulegu skoðun gerði ég grein við 1. umr. málsins og vísa því til þeirra orða minna þar hvað því við kemur.

Í grg. frv. eru rakin þau atriði, er urðu til þess, að frv. þetta var samið, svo og ummæli frumvarpssemjenda um meginefni frv. Frv. skiptist í fjóra kafla, er bera heitin: Gildissvið laganna, Um skiptingu sameignarinnar, Um réttindi og skyldur sameigenda og Um sambýlisháttu.

1. kaflinn kveður svo á, að lögin nál til allra þeirra húsa, sem í eru fleiri íbúðir en tvær, að svo miklu leyti sem sameigendur hafa ekki samið á annan veg, en frá greinir í 3. kafla laganna.

2. kaflinn kveður svo á, að gerður skuli skiptasamningur um öll fjölbýlishús, og nánar frá greint, hver ákvæði þess samnings skuli vera, um hvaða hluta eignarinnar skuli sérstaklega fram tekið og eins hvað teljast skuli í óskiptri sameign.

Í 2. gr. er, eins og áður er sagt, gefinn möguleiki til þess að semja sig frá ákvæðum 3. kaflans um réttindi og skyldur sameigenda, enda er megintilgangur frv. sá að koma í veg fyrir sífelldar þrætur og málaferli í sambúð og sameign manna í fjölbýlishúsum, sem ekki hafa gert þar um sérstakan samning. Hin stórfellda aukning á byggingu húsa, sem fleiri en einn eigandi er að, knýr á um, að sett sé slík löggjöf sem þessi til þess, ef mögulegt reyndist, að tryggja sem bezt þá félagslegu sambúð, sem þar verður að vera.

Nefndin hefur að lokinni athugun leyft sér að flytja þrjár brtt. á þskj. 234, sem að mestu skýra sig sjálfar og eru að mestu til frekari glöggvunar. 2. brtt. okkar, við 5. gr., fjallar um nánari aðgreiningu hins skiptilega og óskiptilega hluta íbúðarinnar til þess m.a. að koma í veg fyrir, að einn eða fleiri íbúðareigendur verði þvingaðir til þátttöku í kostnaði við þá hluta hússins, sem þeir hafa engin afnot af. 1. og 3. brtt. eru nánast orðalagsbreytingar.

Nefndin sendi frv. til umsagnar allmargra aðila, eins og frá greinir á fyrrnefndu þskj., 234, sem hún taldi að málið snerti. Enginn þessara aðila hefur séð ástæðu til að svara, og er þó liðinn alllangur tími, síðan málið var til þeirra sent. Þetta afskiptaleysi þessara aðila teljum við í n. benda ótvírætt til þess, að á frv. þessu séu ekki taldir vera þeir agnúar, sem nauðsynlegt sé að gera athugasemdir við. Þögn þeirra verður því að gilda sem samþykki, a.m.k. hlutleysi.

Eins og áður er fram tekið, eru ákvæði frv. nokkuð rúm og gert ráð fyrir setningu reglugerða til nánari fyrirmæla. Ástæðurnar, er til þess liggja, eru fyrst og fremst þær, að hér er um frumsmið að ræða, því að erfitt var að fá fyrirmyndir erlendis frá, er samrýmdust íslenzkum staðháttum, og svo hitt, að rétt þykir að fá nokkra reynslu af lagasmíð þessari og endurskoða síðan í ljósi reynslunnar.

Viðstaddir nm. voru allir sammála um að mæla með samþykkt frv. með áðurgreindum brtt. Einn nm., hv. 11. landsk., var fjarstaddur afgreiðslu málsins í nefndinni.