21.04.1959
Neðri deild: 113. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1218 í B-deild Alþingistíðinda. (1116)

81. mál, bæjarstjórn í Hafnarfirði

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Í sambandi við frv. á þskj. 165, sem flutt er af hæstv. forsrh. um breyt. á lögum nr. 33 1929, um bæjarstjórn í Hafnarfirði, vil ég taka fram eftirfarandi:

Mér gafst ekki tækifæri til þess að ræða frv. á fundi hv. allshn. d., en til þeirrar n. hafði frv. verið vísað. Hins vegar var komið með nál. til mín til undirskriftar. Í nál. allshn. eru gerðar allverulegar breyt. frá því, sem frv. gerir ráð fyrir í upphafi. Breytingarnar munu vera gerðar í samráði við meiri hl. bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar og hreppsnefndar Garðahrepps. Einn af bæjarráðsmönnum Hafnarfjarðarkaupstaðar, Kristján Andrésson, var ekki samþykkur breytingunum og lét bóka eftirfarandi:

„1. Að ekkert liggur fyrir um afstöðu Alþ., er bendi til þess, að ekki verði fallizt á samþykkt bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar frá 2. des. s.l. um breytingar á lögsagnarumdæmi kaupstaðarins, og því ástæðulaust að hvika frá þeirri samþykkt.

2. Þar sem í fram kominni till. felst, að mjög stórt og dýrmætt byggingar- og ræktunarland er afsalað til Garðahrepps.“

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar voru svo breytingar á frv. samþ. með 6:2 atkv., einn bæjarfulltrúi var ekki mættur á fundinum.

Það liggur því fyrir, að um fram komnar breyt. er ekki full samstaða í bæjarstjórn kaupstaðarins.

Ég taldi rétt, að þessar upplýsingar kæmu hér fram, þar sem undir umr. var ekkert á þetta minnzt og ekki heldur í nál.

Fjórir af fimm nm. allshn. hafa skrifað undir nál. athugasemdalaust og hafa þar með lýst sig sammála síðari samþykkt meiri hl. bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar og hreppsnefndar Garðahrepps. Af þeim ástæðum m.a. tel ég litlar líkur fyrir því, að frv. í sinni upprunalegu mynd fáist samþ., og mun því greiða atkv. með brtt. n., enda mun sú afstaða n. tekin í samráði við hv. flm.