14.04.1959
Neðri deild: 107. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1172)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Olgeirsson:

Herra forseti, góðir áheyrendur. Í frv. því til stjórnarskrárbreytingar, sem hér liggur fyrir til 1. umr., felst ekki aðeins mikilvæg lýðræðisleg réttarbót fyrir Íslendinga almennt, heldur sérstaklega þýðingarmikil réttarbót fyrir allan íslenzkan verkalýð. Samkvæmt manntalinu frá 1950 taldist réttur helmingur þjóðarinnar til verkamannastéttarinnar, ef talið var eftir atvinnustétt framfæranda, og 1/6 hluti þjóðarinnar til starfsmannastéttarinnar, þannig að samtals eru launþegastéttirnar rúmlega 2/3 hlutar allrar þjóðarinnar. Núverandi kjördæmaskipun er þannig, að þótt allur verkalýður Íslands, sem nú er meiri hluti þjóðarinnar, stæði sameinaður í einum verkalýðssflokki, eins og hann vegna lífshagsmuna sinna ætti að gera, þá hefði hann engan möguleika til þess að fá helming þingsæta, hvað þá meiri hluta á Alþingi, af því að hann er samþjappaður í bæjum og kauptúnum landsins og nýtur þar af leiðandi ekki fulls réttar á við aðra landsmenn. Svona er kjördæmaskipunin ranglát, svona er lýðræðið ófullkomið á Íslandi enn þá. Meira að segja þótt allir launþegar Íslands, 2/3 hlutar þjóðarinnar, stæðu sameinaðir í einum flokki eða einu kosningabandalagi, þá gæti svo farið, að þessir 2/3 hlutar þjóðarinnar fengju ekki meiri hluta á Alþingi. Það væri m.ö.o. hugsanlegt, að 1/3 hluti þjóðarinnar næði meiri hluta á Alþingi móti 2/3 hlutum þjóðarinnar, sem yrðu í minni hluta á þingi. Það þarf ekki að fara lengra aftur í tímann, en til alþingiskosninganna 1956 til þess að sjá, að tveir flokkar, Framsfl. og Alþfl., gerðu beinlínis samsæri um að reyna að ná meiri hluta á þingi, þótt þeir hefðu samanlagt aðeins 33.9% eða ekki einu sinni 34% allra atkvæða, og það munaði minnstu, að það tækist, aðeins nokkrum atkvæðum.

Kjördæmaskipun, sem býður upp á það, að þriðjungur þjóðarinnar geti ráðið yfir meiri hlutanum, dæmir sjálfa sig úr leik. Íslenzkt lýðræði þolir ekki slíka skipan og hlýtur því að víkja henni til hliðar. En frá sjónarmiði verkalýðsins og allrar alþýðuhreyfingar Íslands er það beinlínis skilyrði fyrir vexti verkalýðshreyfingarinnar og viðgangi, fyrir möguleikum alþýðunnar til hagsmunabaráttu á Alþingi og til endanlegs sigurs fyrir málstað alþýðunnar á Alþingi Íslendinga, að kjördæmaskipunin gefi verkalýðnum hvort tveggja í senn, möguleika til þess að sameinast og meiri hluta á Alþingi, ef verkalýðurinn og bandamenn hans fá meiri hluta hjá þjóðinni.

Núverandi kjördæmaskipun gerir hvorugt. Í fyrsta lagi torveldar hún verkalýðnum að sameinast með því að skipta honum upp í 27 kjördæmi, þar sem hann víða klofnar fyrst og fremst milli tveggja borgaraflokka, og í öðru lagi gerir hún honum ómögulegt að fá meiri hluta á Alþingi, þótt verkalýðurinn þrátt fyrir þessar torfærur sameinaðist í einn flokk eða eitt kosningabandalag og hefði meiri hluta þjóðarinnar á bak við sig. Þess vegna hefur það frá upphafi verið baráttumál íslenzkrar verkalýðshreyfingar að fá landinu skipt í nokkur stór kjördæmi með hlutfallskosningum og landskjörna uppbótarþingmenn að auki.

Barátta verkalýðsins fyrir bættri kjördæmaskipun er barátta íslenzkrar alþýðu fyrir jafnrétti og lýðræði í landi voru. Þess vegna var það till. Sósfl. 1942, er núverandi kjördæmaskipun var upp tekin, að landinu yrði skipt í nokkur stór kjördæmi. Það féll í minn hlut að vera fulltrúi flokks míns í stjórnarskrárnefnd þessarar hv. d. 1942, og í nál. meiri hl. stjórnarskrárnefndar Nd., dags. 8. maí 1942, hef ég látið bóka álit mitt á, hvaða breytingu bæri þá að gera á kjördæmaskipuninni, á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Einar Olgeirsson lýsir því sem áliti sínu, að heppilegust mundi sú breyting á kjördæmaskipuninni, að landið yrði nokkur stór kjördæmi t.d. 6, yrði þorri þingmanna, t.d. 38, eins og nú er, kosnir í þeim með hlutfallskosningum, og væri tala þingmanna í hverju kjördæmi í hlutfalli við kjósendatölu þess, en 11 uppbótarsæti yrðu auk þess, svo sem nú er. Slík skipun mundi í senn tryggja jafnrétti allra kjósenda og draga stórum úr skaðlegri hreppapólitík, en virða þó áhrifavald hinna einstöku landshluta og hindra ofræði flokksstjórna. En þar sem ekki er kostur á því að fá breytingu sem þessa samþykkta nú á þingi, telur hann þýðingarlaust að bera fram brtt. þessa efnis og fellst því á frv. með þeim brtt., sem meiri hluti nefndarinnar hefur orðið sammála um.“

Hér lýkur tilvitnuninni í nál. 8. maí 1942. Síðan þetta gerðist eru liðin 17 ár. Mér er það því mikil ánægja í dag að vera meðflm. ásamt hv. þm. G-K. og hæstv. forsrh. að því frv., sem hér liggur nú fyrir til umræðu og fer nærri því að skapa það form fyrir kosningabaráttu íslenzkrar alþýðu, er flokkur minn áleit henni heppilegast og þjóðinni réttlátast 1942. En þessi 17 ár, sem síðan eru liðin, og einkum þó síðasti áratugurinn hafa verið hættutímabil fyrir íslenzka alþýðu í kjördæmamálinu. Í 10 ár hefur sú hætta sífellt vofað yfir, að tveir stærstu þingflokkarnir, Sjálfstfl. og Framsfl., sameinuðust um að breyta kjördæmaskipuninni á þann veg að afnema landskjör og hlutfallskosningar og breyta öllum kjördæmum í einmenningskjördæmi, t.d. Reykjavík kannske í 17 einmenningskjördæmi, og torvelda þannig gífurlega alla pólitíska sigurvinninga verkalýðsins og gera þingið að skrípamynd af þjóðarviljanum. En svo mikil var gifta íslenzkrar alþýðu, að allan þennan áratug gátu þessir tveir flokkar aldrei sameinazt um slíkt samsæri gegn íslenzku lýðræði og alþýðuhreyfingu landsins, þótt þeir annars hefðu löngum helmingaskipti um allt annað, er íslenzkri þjóð var til ófarnaðar.

En hvernig stendur þá á því, að nú í dag skuli meiri hluti þings og þjóðar geta sameinazt um tiltölulega réttláta kjördæmaskipun og alþýðan losnað ekki aðeins við óttann af ranglæti eintómra einmenningskjördæma, heldur og við þá úreltu kjördæmaskipun, sem komið var á 1942?

Það liggur við, að rétt sé að segja, að slík eining þessara þriggja flokka sé fyrst og fremst yfirgangi Framsóknarforustunnar að þakka. Það gerðist svo: Í alþingiskosningunum 1956 hafði Framsókn líf Alþýðuflokksins í hendi sér. Hún lét hann þá mynda með sér Hræðslubandalagið alræmda. Með þrauthugsuðum klækjum þaulvanra reiknimeistara skyldu gallar núverandi kjördæmaskipunar misnotaðir til þess að gefa þessum flokkum, er höfðu 33% þjóðarinnar, meiri hluta á Alþingi. Það átti að nota núverandi kjördæmaskipun sem þjófalykil að Alþingi, og innbrotsþjófnaðurinn hafði næstum tekizt.

Með þessu atferli Hræðslubandalagsins dæmdi Framsfl. núverandi kjördæmaskipun úr leik. Eftir það, sem þjóðin þá sá framan í, var ekki hægt að viðhalda þessari kjördæmaskipan með þeim einmenningskjördæmum, er buðu misnotkuninni heim. Íslenzk alþýða og allt íslenzkt lýðræði hlaut að knýja fram gagngerðar breytingar, er firrtu þjóðina þeirri hættu, að svo mætti falsa þjóðarviljann sem fyrirhugað var 1956. Það varð að svipta afbrotaaðilana þjófalyklinum.

Þegar við Hannibal Valdimarsson, hv. 7. þm. Reykv., komum til fyrsta fundar við forustumenn Framsfl. í júlí 1956 til þess að hefja samninga um myndun vinstri stjórnar, tilkynntum við þeim, að það væri krafa Alþb. og verkalýðshreyfingarinnar, að á þessu kjörtímabili yrði kjördæmaskipuninni breytt í viðunandi lýðræðislegt horf. Við minntum þessa foringja Framsóknar á, að tvisvar á 25 árum hefði verkalýður Íslands orðið að leysa kjördæmamálið með íhaldinu, og báðum þá að sýna nú þau pólitísku hyggindi og framsýni að knýja ekki íslenzka alþýðu til þess í þriðja sinn á 30 árum. Foringjar Framsóknar hétu góðu. Loforð um lausn kjördæmamálsins var tekið upp í stjórnarsáttmálann.

Við þingmenn Alþb. tókum mildum höndum á afbrotaflokkunum, er til kasta þingsins kom. Þeir höfðu lofað bót og betrun um að reyna ekki að brjótast inn í Alþingi aftur og lofað að láta eyðileggja þjófalykilinn. En svo kom til efndanna. Eftir ítrekaðar áminningar var loks skipuð nefnd í málið, en þá voru liðin rúm tvö ár, frá því að fyrirheitin höfðu verið gefin, og ekki var nefndin enn kölluð saman. Loks í nóv. 1958, þegar Framsókn hafði þegar afráðið að sprengja vinstri stjórnina, kom hluti nefndarinnar saman, en ekkert var gert, og Framsfl., sem hafði heitið því hátíðlega, að lokið yrði á starfstíma stjórnarinnar endurskoðun stjórnarskrár lýðveldis og kosningalaga, rauf vinstri stjórnina upp á sitt eindæmi 4. des. án þess að hafa nokkuð í þessu máli gert.

Í tvö og hálft ár hafði Framsfl. tækifæri til þess að leysa kjördæmamálið með íslenzkum verkalýð í vinstri stjórninni. Í 21/2 ár hafði forusta Framsóknar möguleika á að bæta fyrir brot sitt gegn íslenzku lýðræði og íslenzkri alþýðu. En forusta Framsóknar sveik loforð sín og gerði Framsókn um leið að flokk hinna glötuðu tækifæra. Íslenzk stjórnmálasaga á fá dæmi slíks hroka og skammsýni sem forusta Framsóknar hefur sýnt í allri meðferð þessa máls, allt frá upphafi Hræðslubandalagsins til stjórnarslitanna 4. des., þegar afturhald Framsóknar hjó á böndin við íslenzka verkalýðshreyfingu í öruggri vissu um að geta myndað afturhaldsstjórn með íhaldinu um þá 8% lögboðnu launalækkun, sem Framsókn heimtaði þá af launþegum Íslands, eftir að hafa svikið þá um jafnrétti við aðra Íslendinga í kosningunum.

Menn skyldu nú halda, að eftir að sú von afturhaldsins í Framsókn brást að mynda nýja helmingaskiptastjórn með íhaldinu um launarán, hefði Framsóknarforustan séð eftir því að hafa drepið vinstri stjórnina og viljað nú eitthvað til vinna að friðmælast við verkalýð Íslands á ný, þó að almennt sé talið of seint að iðrast eftir dauðann. En því fór fjarri. Framsóknarforustan hafði ekkert lært og engu gleymt í 25 ár, hún bara forhertist. Hún kallaði saman flokksþing um miðjan marz, og þar lét hún samþykkja svo hljóðandi boðskap til alþýðunnar í kjördæmamálinu:

„Flokksþingið telur, að stefna beri að því að skipta landinu í einmenningskjördæmi utan R-víkur og þeirra kaupstaða annarra, sem rétt þykir og þykja kann að kjósi fleiri en einn þingmann. Með hæfilegri fjölgun kjördæmakjörinna þingmanna falli niður uppbótarlandskjörið. Telur flokksþingið, að einmenningskjördæmi sem aðalregla sé öruggastur grundvöllur að traustu stjórnarfari.“

Þessi samþykkt Framsóknarforustunnar var ekki aðeins fjandskaparyfirlýsing við allt lýðræði, svipað og hjá fasistum Frakklands, og pólitísk blinda, slík að furðu sætir, heldur er hún og hnefahögg í andlit íslenzkrar verkalýðshreyfingar. Þetta er yfirlýsing Framsóknarforingjanna um, að þeir neiti eigi aðeins verkalýðnum um endurbætur frá því, sem nú er, og jafnrétti, heldur hóti líka að svipta hann öllu því, sem hann hefur áunnið í 25 ára lýðræðisbaráttu, landskjörinu og auknum hlutfallskosningum. Þetta er yfirlýsing Framsóknarforustunnar um, að hún vilji ekki við verkalýðinn semja, heldur aðeins knésetja hann og kúga. En íslenzk alþýða lætur ekki kúga sig. Um þann rétt, sem Framsókn neitar henni, semur nú verkalýðshreyfingin við sjálfan höfuðandstæðing sinn, flokk Reykjavíkurauðvaldsins, Sjálfstæðisflokkinn, í þriðja sinn á 28 árum á þeim grundvelli, sem við óskuðum eftir fyrir 17 árum. Þessa andstæðinga hefur nú Framsóknarforustan enn einu sinni barið saman í blindu sinni.

Það er vissulega tími til kominn, að bændur Íslands og vitrir menn í Framsókn rísi upp til að velta af sér þessari misvitru forustu. Íslenzkir bændur og ærlegir vinstri menn sveitanna verðskulda vissulega betri forustu, en þetta glórulausa afturhald, sem aldrei getur lært. Það vantar aðeins eitt til þess að fullkomna þetta afturhald. Framsóknarforustan sagði 1944, að með nýsköpun atvinnulífsins og kaupunum á nýsköpunartogurunum, sem settu öruggan grundvöll undir atvinnulíf dreifbýlisins, væru kommúnistar að vinna markvisst að upplausn og eyðileggingu ríkjandi þjóðfélagsskipunar. Það vantar nú aðeins, að sama Framsóknarforustan segi, að nýja kjördæmaskipunin sé vélabrögð kommúnista til þess að eyðileggja jafnrétti, mannréttindi og lýðræði á Íslandi, og sjáið þið til, það mun líka koma. Það er engin firra svo fáránleg, að rökþrota menn grípi ekki til hennar, þegar þeir þurfa að verja ranglæti sitt og forréttindi í þjóðfélaginu. Forréttindi Framsóknarforustunnar eru, að þrjú atkvæði með henni gilda eins og 8 atkvæði með Alþýðubandalaginu. Það er þetta ranglæti, sem Framsóknarforustan er að verja með blekkingum sínum, og það er þetta ranglæti, sem íslenzk alþýða ætlar ekki að þola lengur, hún ætlar að afnema það í ár.

En hvernig stendur á því, að Sjálfstfl., flokkur Reykjavíkurauðvaldsins, skuli reynast frjálslyndari í samningum við verkalýðinn í þessu máli en Framsfl.? Vart er það af hugsjónaást hans á lýðræðinu einni saman. Sjálfstfl. hefur vissulega undanfarinn áratug alveg eins og Framsókn ágirnzt að ná meiri hluta á Alþ. með minni hluta hjá þjóðinni. Kosningar eftir kosningar hefur Sjálfstfl. skorað á kjósendur að gefa sér meiri hluta á Alþ. með því að bæta við sig 300–400 atkv. í réttum kjördæmum, þá hefði hann meiri hluta á Alþ. með 40% kjósenda. Sjálfstfl. hefur líka á undanförnum áratugum verið að dekra við hugmyndina um eintóm einmenningskjördæmi á Íslandi, t.d. 17 einmenningskjördæmi í Reykjavík. Það var á tímum helmingaskipta hans og Framsóknar. Það átti þá að eyðileggja þingræðislega möguleika verkalýðsins, eins og nú er gert í Frakklandi. Það voru vissulega helmingaskipti milli Framsóknar og Sjálfstfl. um hugmyndir ranglætisins þá. En til allrar hamingju pössuðu helmingarnir aldrei saman. Og nú er Sjálfstfl. snúinn til betri vegar til fylgdar við hlutfallskosningar og stór kjördæmi. Af hverju? Ég held af því, að hann býst við að geta unnið meiri hluta á Alþ. án þess að hafa rangt við, — unnið meiri hluta þjóðarinnar til fylgis við sig. Í því liggur það, að Sjálfstfl. fylgir stefnu verkalýðshreyfingarinnar í þessu máli í dag, og í þessari von hans um að ná meiri hluta þjóðarinnar felst líka hættan, sem vofir yfir þjóðinni í dag. En þeirri hættu verður ekki afstýrt með því að viðhalda rangri og úreltri kjördæmaskipun. Sá, sem hefur meiri hluta þjóðarinnar, á að hafa meiri hluta á Alþingi.

Íslenzk alþýða sigrar ekki Reykjavíkurauðvaldið með því að hafa rangt við í þeim leikreglum borgaralegs lýðræðis, sem við nú heyjum baráttu vora undir. Íslenzk alþýða sigrar auðvaldið aðeins með því að vinna af því það fylgi alþýðustétta, sem það hefur aflað sér, aðeins með því að sameinast öll á móti því og reka djarfa og viturlega pólitík gegn því, þegar alþýðan getur haft áhrif á stjórn landsins. Þess vegna semur alþýða Íslands hiklaust við íslenzka auðvaldið í dag um að koma á réttum leikreglum í stað rangra í alþingiskosningum á Íslandi, í öruggri vissu um það að, að lokum verður það alþýðan, sem sameinast um lífshagsmuni sína í þeim átökum milli stéttanna, sem allar alþingiskosningar eru, og ber sigur af hólmi, af því að hún er yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar og málstaður hennar er málstaður framfara, frelsis og velferðar vinnandi stéttanna.

En hvað með Alþfl.? Af hverju stendur hann núna með stjórnarskrárbreytingunni? Alþfl. greip þó til ranglætisins og kosningasvindlsins til þess að reyna að bjarga sér inn á Alþ. í síðustu kosningum og sveik með því alla stefnu sína í mannréttindamálunum frá upphafi vega, en svikin reyndust honum samt flotholt þá. En nú dregur aftur að kosningum. Skuldadagarnir nálgast, og nú á þessi flokkur enn yfir höfði sér þá hættu að fá makleg málagjöld launalækkunarinnar með því að detta út úr þinginu, og þá sér hann á síðustu stundu, að réttlætið, sem hann sveik 1956, er það eina, sem getur bjargað honum inn. Og sjá, nú aðhyllist hann jafnréttið af sömu hvötum og hann braskaði í misréttinu 1956.

En er nú þessi kjördæmaskipun, sem nú skal upp taka, ekki óþjóðleg, eins og Framsfl. segir? Brýtur hún ekki niður dýrar erfðir og fornar venjur? Við skulum athuga það.

Fyrir 1.030 árum skópu forfeður vorir hér á landi eitt merkilegasta stjórnskipulag mannkynssögunnar, löguðu hið forna, alþjóðlega ættarsamfélag að sérstökum staðháttum og þörfum hinnar ungu íslenzku þjóðar. Fyrir tæpum 1.000 árum, líklega árið 965, tóku þeir upp skiptingu landsins í fjórðunga, og sú skipting hélzt allar aldir þjóðveldisins. Hver er sú skipting landsins, sem vér leggjum til að framkvæma nú, 1.000 árum síðar? Höfuðdrættir skiptingarinnar í frv. því, sem hér liggur fyrir, eru þessir: Vestfirðingafjórðungur skal hafa 10 þm. í 2 kjördæmum. Norðlendingafjórðungur skal hafa 11 þm. í 2 kjördæmum. Austfirðingafjórðungur skal hafa 5 þm. í 1 kjördæmi. Sunnlendingafjórðungur skal hafa 11 þm. í 2 kjördæmum. Reykjavík sem tákn hins nýja Íslands borganna, er upp rísa, skal hafa 12 þm. í einu kjördæmi. Og 11 landsk. þm. skulu jafna metin milli flokka, stétta og skoðana, svo sem unnt er.

Hin nýja skipan styðst við það skipulag, sem traustast var í hinu forna þjóðveldi, fjórðungaskipunina, og það mun sýna sig, að fjórðungarnir og fólkið, sem í þeim býr, verður sterkara og samheldnara fyrir þessa skipan, sem nú verður tekin upp. En ekki nóg með það. Í hinu forna þjóðveldi gátu þm. kosið sér goða, hvar sem var innan sama fjórðungs, eða með nútíma orðalagi gátu kjósendur kosið sér þm., hvar sem var innan sama fjórðungs. Með þeirri skipan, sem nú er upp tekin, er stigið stórt spor í sömu átt. Kjósendur geta kosið sér þm. innan fjórðungs eða fjórðungshelmings, hvern er þeir vilja, en eru ekki bundnir við sýslur þær, sem á komust, eftir að þjóðveldið féll.

Það er því með þeirri stjórnarskrárbreytingu, sem nú er lagt til að gera, verið að stíga stór spor í áttina til þess að samræma kjördæmaskipunina því traustasta í vorri fornu þjóðarerfð, þjóðveldinu sjálfu, og kosningarréttinn þeirri kröfu til jafnréttis allra manna, sem einkennir lýðræðisstefnu nútímans.

En hvað er það í hinu nýja Íslandi, sem knýr oss fram til stærri heilda, þrýstir á að stækka kjördæmin, auk jafnréttiskröfunnar og möguleika stéttanna til sameiningar?

Stjórnin á Íslandi er fyrst og fremst orðin stjórn á þjóðarbúskapnum. Nútíma atvinnurekstur krefst víðast hvar sameiginlegs rekstrar í stórum stíl. Sýslur og bæir, hálfir og heilir fjórðungar þurfa að vinna saman af víðsýni og samheldni til þess að ráðstafa aukinni fjárfestingu í byggðarlögunum rétt, svo að þau bæti í sífellu lífskjör íbúanna. Nútíma stórrekstur þolir ekki fjötra hreppapólitíkurinnar. Samvinna fólksins í heilum og hálfum fjórðungum er það afl, sem mun tryggja byggðarlögin gegn landeyðingarstefnu Framsóknar og annarra hernámsflokka og lyfta fjórðungunum, sem eyðingin vofði yfir, með stórhuga nýsköpun atvinnulífsins upp til þeirrar velsældar, sem bíður alþýðu alls Íslands, ef þjóðarbúskapnum er stjórnað með hag fólksins sjálfs og fólksins alls fyrir augum.

Íslenzk alþýða! Þessi kjördæmabreyting skapar að vísu ekki fullt réttlæti, ekki fullt jafnrétti kjósenda alls staðar á landinu, en hún er stórt spor í áttina til þess að skapa verkamannastéttinni sem heild og íslenzkri alþýðu jafnrétti til áhrifa á við aðrar stéttir. Eftir að þessi kjördæmaskipun er komin á, þarf ekki lengur 8 verkamenn í Reykjavík eða annars staðar á Íslandi til þess að vega upp á móti 3 Framsóknarforstjórum. Starfandi stéttir Íslands til sjávar og sveita! Þessi nýja kjördæmaskipun gefur ykkur möguleika til að skapa með ykkur sterkari og meiri einingu en nokkru sinni fyrr. Þessi nýja kjördæmaskipun veitir ykkur jafnrétti á við aðrar stéttir, sem þið hafið ekki notið hingað til. Fylkið ykkur þétt saman um þessa kjördæmaskipun. Hún er ykkur dýrmætt vopn í lífsbaráttunni, í frelsis- og mannréttindabaráttu vinnandi stéttanna, og um leið og þið aflið ykkur þessa vopns, þá sýnið, að þið kunnið að beita því.

Sameinizt gegn því launaráni, sem þegar er framkvæmt. Sameinizt gegn þeirri réttindaskerðingu, sem þið hafið verið beittar. Sameinizt gegn hernáminu og landeyðingunni. Sameinizt gegn þeirri gengislækkun og því atvinnuleysi, sem yfir vofir, ef sameiginleg stefna hernámsflokkanna þriggja nær fram að ganga. En umfram allt: Sameinizt um að knýja fram það jafnrétti, þau mannréttindi, sem í þessu stjskrfrv. felast. Gerið Ísland að ríki, þar sem verkamannastéttin er ekki sett skör lægra, en allar aðrar stéttir hvað kosningarréttinn snertir.

Sigur þessa máls er mikill sigur mannréttinda og lýðræðis á Íslandi, og okkar dýru þjóðarerfð hefur aldrei stafað hætta af því, að allir menn væru metnir jafnt í þjóðfélaginu. Það er misréttið, en ekki jafnréttið, sem var Íslands ógæfuvaldur fyrr á öldum. En það er manngildið, jafnrétti allra Íslendinga, sem mun gera þjóð vora gæfusama í framtíðinni. — Góða nótt.