09.05.1959
Efri deild: 115. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1244)

144. mál, stjórnarskipunarlög

Frsm. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mun ekki að þessu sinni flytja langa ræðu, en vil aðeins segja nokkur orð, bæði af því, að ég á visst erindi sem frsm. minni hl., en þó jafnframt vegna nokkurra atriða, sem komu fram í ræðu hv. 8. landsk. þm. (BjörnJ) hér í gær og snertu mig jafnvel persónulega lítils háttar.

Ég beið með nokkurri eftírvæntingu eftir ræðu hv. 8. landsk., því að vitað var, að Alþb. í heild hafði verið tregt til samninga í kjördæmamálinu, ekki talið það einboðið hagsmunamál fyrir sig og sumir ekki reiðubúnir að flokka það undir einboðið réttlætismál heldur. Svo kom ræðan, og hún var alls ekki hjáróma ræðum sjálfstæðismanna í neinu, sem máli skipti, en steig í sumu talsvert hærra, en ræður þeirra. Hún minnti mig á það, sem einhvers staðar stendur:

„Eldi heitari

brennur með illum vinum

friður fimm daga.“

En framhaldið muna menn vafalaust. Það þarf nú ekki endilega að setja það í samband við fyrri hlutann hér, en ég vil þó leyfa mér að gera það:

„En þá slokknar,

er hinn sjötti kemur,

og versnar allur vinskapur.“

Nú eru enn ekki liðnir fimm dagarnir, en sá sjötti kemur einhvern tíma.

Hv. 8. landsk. þm. viðurkenndi, að Norðausturlandskjördæmi væri afskipt eftir þeim mælikvarða, sem notaður hefði verið við að semja frv., en tók fram, eins og hann hafði tekið fram í n., að hann stæði með þessu eigi að síður. Hins vegar virtist hann sjá ástæðu til þess að álasa mér fyrir að hafa ekki flutt brtt. um leiðréttingu. Þegar ég heyrði undirtektir hans í n., sá ég ekki til neins að flytja um þetta brtt. Úr því að hann, sem viðurkenndi óréttinn og var málið sérstaklega skylt, vildi ekki styðja slíka till., þá hafði vitanlega enga þýðingu fyrir málið, að ég færi að flytja hana, og við framsóknarmenn höfum engar smærri till. borið fram, heldur aðeins till. um aðalatriði. Hitt er ég víss um, að ef hv. 8. landsk. þm. hefði haldið fast á rétti Norðausturlands, eins og honum var skylt að gera, þá hefði hann getað fengið þessu breytt, því að svo mikið lá þríflokkunum á samstöðunni. Hann hafði þá aðstöðu. Ég hafði hana enga. Hann getur því ekki komizt hjá ámæli fyrir þetta heima fyrir. Hann á, eins og málin stóðu, sök á þessu eins og aðrir þríflokkaþingmenn af þessu svæði alveg sérstaklega. Ef þeir hefðu allir staðið saman um þetta atriði, hefði þetta verið þeim leikur einn, það er ég víss um. En þeir hafa ekki lagt á þetta skylda áherzlu.

Svo vill hv. 8. landsk. halda því fram, að enginn þurfi að efast um samstöðu þm. allra flokka í hinum stóru fyrirhuguðu kjördæmum vegna málefna kjördæmanna, eða kjördæmísins, sem þá verður eitt. Honum fannst ljótt af mér að draga þá samstöðu í efa.

Segja má nú, að samstaðan hafi byrjað fallega í kjördæmamálinu sjálfu.

Hv. 8. landsk. var í ræðu sinni að reyna að fetta fingur út í þá samvinnu, sem ég nefndi sem dæmi, að veríð hefði milli þm. Ak. og mín um útvegun fjár til Akureyrarhafnar annars vegar og hafnarbóta í Flatey á Skjálfanda hins vegar. Hann nefndi þá mjög svo eðlilegu nágrannasamvinnu okkar hrossakaup. Öll orð má misnota, eins og hann gerði þarna. En þegar þau eru misnotuð, þá verða þau feilskot. Ég sýndi fram á, hvað slík samvinna sem okkar þm. á Ak. hefði verið fáliðaða staðnum Flatey mikilsverð. Með því hefði hann náð sínum rétti eins og fjölbýlisstaðurinn, af því að hann átti, fáliðaði staðurinn, sinn sérstaka þm. í einmenningskjördæmi. Ég leiddi rök að því, að þetta yrði ekki fyrir hendi, þar sem þm. af ýmsum flokkum ættust við innan stóru kjördæmanna, og mundi ekki verða framvegis, að því er snerti Akureyrí og Suður-Þingeyjarsýslu, í sama mæli og áður var. Þá yrði nefnilega Flatey og aðrir fámennir staðir miklu verr settir. Á stóru svæðunum tekst ekki sú heilbrigða samvinna milli manna af ýmsum flokkum, sem var með mér og þm. Ak. fyrir kjördæmi okkar, en hv. 8. landsk. þm. leyfði sér að nefna hrossakaup.

Það verður miklu heldur sú samvinna í stóru kjördæmunum, sem er nýafstaðin milli hv. 8. landsk. þm. og þm. Ak. við afgreiðslu málefna Akureyrar í sambandi við fjárlögin. Hvað vill hv. 8. landsk. kalla þá samvinnu? Kannske ósamtök. Nei, það er of veikt orð. Þar var í sumu maður á móti manni. Svona verður það í stóru kjördæmunum. Að kalla samvinnu, sem ég talaði um að verið hefði milli okkar fyrrv. þm. Ak., hrossakaup var ekki aðeins feilskot í venjulegri merkingu, það var fellskot, sem hitti skyttuna sjálfa.

Hv. 8. landsk. þm. talaði um það, sem hv. þm. Seyðf. (BjörgJ) minntist mjög vel á hér áðan, að einmenningskjördæmin hefðu haldið verkalýðshreyfingunni í skrúfstykki. Hv. þm. Seyðf. benti á það, að þetta skrúfstykki hefði þó ekki verið sterkara en svo, að verkalýðurinn hefði getað staðið í tveimur fylkingum. Satt að segja finnst mér, þegar svona er talað, að þá sé beinlínis stofnað til þess að rifja það upp, sem er raunalegt í sögu verkalýðsins, að hann gengur fram klofinn og hefur á því tapað miklu í verkalýðsbaráttu sinni og á margan hátt með því gert pólitíska lífið í landinu óheilbrigðara og misheppnaðra. l;g held þess vegna, að hv. þm. hefði átt heldur að biðja um þann kosningagrundvöll, sem væri enn sterkari til áhrifa um að sameina það, sem hefur ekki getað staðið saman í verkalýðshreyfingunni, en átt hefur að standa saman að öllum réttum lögmálum. En þetta virðist einhvern veginn snúa öfugt fyrir hv. 8. landsk. þm., því að það er ekki aðeins þetta, að hann kenndi einmenningskjördæmunum um klofninginn, einmenningskjördæmunum, sem eru grundvöllur samstöðu, eins og allir vita, heldur sagði hann, að með breytingunni yrði aflétt þeirri nauðung, sem verkalýðurinn hefur búið við í þessu efni. Einmitt með kjördæmabreytingunni verður verkalýðnum gert léttara að greinast enn meir. Þá verður þeim mönnum, sem búa yfir sundrungaranda, gefið enn betra tækifæri til þess að kljúfa og skapa sundraðan lýð. Ég held þess vegna, að þegar verkalýðssinnarnir eru á móti einmenningskjördæmum, en halda, að hlutfallskosningar séu lausn á þessum sundrungaranda þeirra, þá fari þeir algerlega villir vegar og biðji um handa sér það, sem þeim kemur verst.

Hv. 8. landsk. þm. sagði, að sterk og sameinuð verkalýðsstétt verði það eina afl, sem geti bugað afturhaldið og íhaldið. Verkamenn og bændur verði að beita sér saman til þess. Hefur hann nú ekki með afstöðu sinni til þessa frv. tekið stefnu í öfuga átt til að ná þessu marki? Er ekki einmitt verið að skapa enn fyllri grundvöll fyrir þessar stéttir, sem hann nefndi, þetta fólk í landinu, sem hann nefndi, til þess að vera sundraður lýður? Og af hverju var það, sem vinstri stjórnin féll? Nú erum við alveg á sömu skoðun, við hv. 8. landsk., um það, að það hafi verið skaði, að vinstri stjórninni auðnaðist ekki að starfa lengur. En hvað var það, sem gerði það að verkum, að sú samstaða, sem hafði um stund tekizt, rofnaði? Frá mínu sjónarmiði var það, sem kom í veg fyrir áframhaldið, að verkalýðurinn, sem tók þátt í þessari samstöðu, gat ekki komið sér saman um niðurstöður á Alþýðusambandsþingi. Og af hverju var það? Það var af því, að þar áttust við tveir pólitískir flokkar, sem kepptu um völd innan Alþýðusambandsins. Ég er afar hræddur um það, að meðan svo er, þá gangi aldrei að ná því marki, sem hv. 8. landsk. þm. taldi að væri nauðsynlegt að stefna að og ég tel líka rétt að stefna að. Okkur greinir þess vegna ekki á um markmiðið, heldur leiðirnar að markinu, og ég held, að leið sú, sem hv. 8. landsk. í þetta sinn vill fara, sé villigata.

Hv. 8. landsk. þm. minntist á Frakkland og var eitthvað að segja í þá áttina, að við framsóknarmenn teldum þar mikla fyrirmynd, þar væri búið að brjóta niður það, sem hann kallaði frelsi, og taka upp nokkurs konar einræði. Ég vil lýsa því yfir, að ég tel Frakkland ekki fyrirmynd, en ég tel Frakkland vera hræðu, sem þeir, sem unna lýðræði, verða að forðast. Sundrungin vegna hlutfallskosninga var komin á svo hátt stig í Frakklandi, að landið var pólitískt að liðast; lýðræðið var að drepa sjálft sig. Það var fyrir þetta, að fram kom aftur maður, sem tók þau hörðu tök, sem máske hafa verið nauðsynleg, — ég skal ekki segja um það, — en a.m.k. eru ekki æskileg. Þess vegna vil ég, að það sé rétt skilið — alveg rétt skilið, að við framsóknarmenn teljum ekki æskilegt, að það gerist í stjórnmálum, sem gerzt hefur í Frakklandi. En við teljum rétt að taka Frakkland sem dæmi um það, sem við eigum ekki að láta gerast hjá okkur. Og eins og Íslendingar eru óstilltir í pólitík, þá þykir mér ekkert líklegra, þegar búið er að setja upp hlutfallskosningakerfið um land allt, en að þá greinist þeir og leysi þeir upp sitt lýðræði á svipaðan hátt og gerðist í Frakklandi. Þess vegna er ég á móti hlutfallskosningunum. Og ég vil endurtaka það, sem ég sagði hér áður, að þó að hlutfallskosningar hafi verið í Reykjavík og ekki leitt af sér fleiri flokka, en þar hafa komið fram, þá er það því að þakka fyrst og fremst, að framboðin hafa verið miðuð í Reykjavík og flokkaskiptingin við landsmálaflokka. Einmenningskjördæmin sem aðalregla í landinu hafa komið í veg fyrir það, að smáflokkaþróunin yrði meiri, en raun hefur á orðið, líka í Reykjavík.

Hv. 8. landsk, þm. sagði, að Framsfl. miðaði till. sínar við það, að hann hafi sem mestan hagnað pólitískt, ef þær gangi fram. Þetta er rangt ályktað. Það getur vel verið, að það sé rétt, sem hv. þm. sagði, að t.d. fengi Framsfl. annan þm. á Akureyri. En till. um Akureyri er aðeins í samræmi við það, sem er annars staðar á landinu, sem sé í tvímenningskjördæmum, sem við höfum ekki viljað ganga svo langt í að flytja till. um að lögð yrðu niður, enda eru þau kjördæmi, sem hafa tvímenningskosningar hjá sér, sjálfstæðar félagsheildir. En það er ekki annað fyrir aðra flokka, en að auka fylgi sitt á Akureyri til þess að slá þennan möguleika niður, því að Framsfl. hefur engin sérréttindi, engin forréttindi. Það er rangt að túlka það svo, þó að hann hafi haft meira fylgi í ýmsum kjördæmum, en aðrir flokkar, þar sem aðrir flokkar hefðu líka getað aflað sér fylgis, ef þeir hefðu unnið eins vel fyrir þau svæði landsins og Framsfl.

En Framsfl. vill stjórnlagaþing. Hann hefur flutt tillögur um stjórnlagaþing, og hann er eini flokkurinn, sem hefur viljað, að þjóðin sjálf taki við málinu af hinum pólitísku flokkum, og með því hefur flokkurinn sýnt það og sannað, að hann vill ekki gera stjskr.-málið að hagsmunamáli flokka; hann einn flokkanna hefur bréf upp á það, að það hefur ekki verið hans stefna. En hinir flokkarnir hafa verið á móti því. Vegna hvers? Ja, frv. virðist vera sönnun þess, að það sé vegna þess, að þeir hafa viljað gera stjskr.-málið að pólitísku hagsmunamáli fyrir sig.

Hv. 8. landsk. sagði í sambandi við till. um stjórnlagaþing: Ef Framsfl. telur það beztu leiðina, að málið verði afgreitt á stjórnlagaþingi, hvers vegna sömdu þá framsóknarmenn um það við myndun vinstri stjórnarinnar að leysa stjskr.-málið með vinstri flokkunum?

Þegar samið var um það að leysa stjskr.-málið með vinstri flokkunum, þá er ekkert um það talað, á hvern hátt ætti að leysa það, aðeins talað um að leysa það, áður en kjörtímabilið væri úti. Vel var hægt að hugsa sér, að með því að bera saman bækurnar rólega og skynsamlega samkv. þessum samningi hefði það getað orðið niðurstaðan að fela stjórnlagaþingi málið, svo að það er engin mótsögn í þessu. En þar að auki, ef hægt hefði verið að leysa málið, stjskr.-endurskoðunina, í heild á viðunandi hátt öðruvísi, þá hefur náttúrlega Framsfl. út af fyrir sig ekki sagt, að það kæmi alls ekki til mála. Ef nú vinstri flokkarnir hefðu á sínu stjórnartímabili getað leyst endurskoðun stjskr. á þann hátt, að heillavænlegt hefði mátt telja og því máli samboðið, þá hefði Framsfl. vitanlega getað sætt sig við það og látið niður falla till. um stjórnlagaþing.

En hann sagði annað í sambandi við þetta, hv. þm. Hann sagði, að Framsfl. hefði svikið þennan samning. Það er ákaflega mikil rangtúlkun. Kjörtímabilið var ekki á enda. Framsfl. hafði gengizt fyrir því, að n. var skipuð af stjórnarflokkunum til þess að vinna að þessu máli, og það stóð ekki á framsóknarmönnum að vinna í þeirri nefnd. Mér skilst, að það hafi staðið á öðrum, jafnvel að maður frá Alþb. hafi hvað eftir annað vikið sér undan að mæta á nefndarfundum til að ganga frá því. Og málið var alls ekki komið í eindaga, heldur miðað við kjörtímabilið. Samningurinn var bara um það að leysa það fyrir lok kjörtímabilsins.

Nú segi ég ekki, að það hafi verið Alþb., sem endanlega brást í því að leysa þetta mál eða rauf samninginn um það. Ég segi það ekki. Það var hinn samstarfsflokkur Framsfl., sem gekk úr leik, áður en Alþb. gerði það, og þess vegna tel ég fyrir mitt leyti, að engin svik af hálfu Alþb. hafi komið fram gagnvart þessum samningi vinstri stjórnarinnar. Ég tel það ekki, eins og málin leiddust út, þó að einhver fulltrúi hans hafi haft einhver undanbrögð, sem seinkuðu verkum í málinu; en málið var sem sagt ekki komið í eindaga þrátt fyrir það.

En það er hreinasta fjarstæða að halda því fram, að Framsfl. hafi svikið þann samning, sem gerður var um að ganga frá endurskoðun stjskr. fyrir lok kjörtímabilsins. Það voru aðrir, sem ollu því, að þetta varð ekki hægt.

Hv. 8. landsk. þm. gerði svolítinn útúrdúr úr ræðu sinni frá aðalefninu, — það gera menn oft, þegar svona stórt mál er á ferðinni, sem reyndar er ekki heldur hægt að segja endilega nákvæmlega um, hvar hefur sín landamerki. Hann var að segja, að Framsfl. færist ekki að tala sterklega sem dreifbýlisflokkur undir öllum kringumstæðum, þar sem hann t.d. vildi gegnum Samband ísl. samvinnufélaga draga alla innflutnings- og útflutningsverzlun til Reykjavíkur. Þetta er mjög skökk ályktun, sem er ekki hægt að láta vera að mótmæla, og hv. 8. landsk, hlýtur líka að fallast á það, ef hann hugsar betur um málið. Samband ísl. samvinnufélaga hefur nefnilega með skipakosti sínum og skipulagi unnið að því að beina verzluninni beinar leiðir milli framleiðenda og neytenda í mjög stórum stíl. Hitt er það, að viðskiptalífið í landinu er þannig upp sett, að í mörgum tilfellum er örðugt að komast fram hjá höfuðstaðnum, Reykjavík, og það er eitt það lögmál, sem gerir það að verkum, að Reykjavík verður stór og sterk og nýtur mikils frá landsbyggðinni.

Hv. 8. landsk. var að tala um aðhlátursefni, ég man nú ekki gerla, hvernig hann orðaði það, — ég man ekki, um hvað hann taldi að hlátur væri eðlilegastur í sambandi við þetta mál. En hlátur er góður, og hann lengir lífið. Við skulum ekki vera neitt að vanþakka það, ef koma fram hlátursefni. Íslendingar hlæja alls ekki of mikið. Og eftir ræðu hv. 8. landsk. fann ég, að kjördæmamálið, þó að alvarlegt sé, getur þó haft í för með sér hlátursefni. Það er hlátursefni, ef réttlínumennirnir í Alþb. — ég segi réttlínumennirnir í Alþb. — halda því fram eins sterklega og hv. 8. landsk. gerði, að þeir séu mestir lýðræðissinnar á Íslandi í þeim efnum, þeir séu hinir einu, sem ekkert eigi sökótt við fortíðina að því er lýðræðið snertir, þeir séu aðeins með kjördæmamálinu af því, að þeir vilji efla hið fullkomna, sanna lýðfrelsi. En þetta var þungamiðjan í ræðu hv.8.landsk. Og hann lýsti svo sterklega lýðræðisstefnu sinni og samherja sinna, að þó að hv. þm. sjálfstæðisins, hv. þm. N-Ísf. og hv. 6. þm. Reykv., væru áður að tala um lýðræðisást sina og flokks síns, eftir því sem þeir virtust hafa kraftana til, verður það, sem þeir sögðu, eins og hjóm eitt, eftir að hv. 8. landsk. þm. talaði. Haldi hann og línubræður hans svona áfram, þá vantar ekki hlátursefni í kosningunum í sumar. Þá verður hlegið um allt Ísland. Það verður hollur hlátur. Við hann munu margir vitkast í þessu máli.

Í stjskrn. hreyfðum við framsóknarmenn hugmynd um, að ákvæði í frv. — fleiri eða færri — yrðu ekki látin taka gildi, nema kjósendur við sérstaka atkvgr. samþykktu ákvæðin. Meirihlutamennirnir vildu ekki taka undir þetta þá. En talað var um að hugsa þetta eitthvað betur, og við framsóknarmenn gátum þess í nál. okkar, að það gæti verið, að við bærum fram tillögu eða tillögur í þessa átt. Nú hefur hv. frsm. meiri hl., hv. form. stjskrn., skýrt mér frá því, að meiri hl. fallist ekki á till. um fyrirvara af þessu tagi í neinni mynd. Og þá höfum við nm. stjskrn. af hálfu Framsfl. ákveðið að bera ekki fram till. um þetta nú við 3. umr., vegna þess að við sjáum, að það hefur í sjálfu sér enga þýðingu, þær munu verða felldar, og við höfum enga sérstaka ánægju af því að vera að tefja þetta mál meira, en rétt er til þess að ræða það.

Og auðvitað teljið þið, hv. þingmenn þríflokkanna, ykkur hafa framgang þessa frv. í hendi ykkar. Og það er alveg rétt. Þið eigið létt með það atkvæðamagnsins vegna að ráða afgreiðslu frv. hér. En málinu er, eins og hv. þm. Seyðf. sagði, ekki þar með lokið. Eftir er annar leikur og jafnvel tveir leikir, og það er ekkert víst, að þið vinnið þá leiki.