05.03.1959
Efri deild: 79. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1404)

43. mál, póstlög

Alfreð Gíslason:

Herra forseti. Ég þakka hv. samgmn. fyrir að hafa aflað svara við þeim fimm spurningum, sem ég beindi til hennar fyrir nokkrum dögum, og formanni n., hv. þm. Seyðf., fyrir að hafa lesið upp þessi svör hér í hv. d. Svörin verð ég að telja eftir atvikum fullnægjandi, einkum þegar þess er gætt, að þau eru samin af fulltrúa póststjórnarinnar. En hún getur engan veginn talizt óvilhallur aðili í þessu máli. Ég skal ekki fara mörgum orðum um svarbréf póstmeistara, aðeins benda á örfá veigamikil atriði, sem málið varða.

Í alþjóðapóstsamningum eru engin bein ákvæði um eignarrétt póststjórna á álímdum frímerkjum á eyðublöð þeirra. Þannig segir orðrétt í svari póststjórnarinnar, og leiðréttir hún þar með fyrri ummæli sin í grg. til hv. samgmn. Það er lofsvert að viðurkenna yfirsjón sína. Á alþjóðapóstmótinu í Washington 1897 kom fram till. um að setja slíkt ákvæði í alþjóðasamninga, en till. náði ekki fram að ganga, og skil ég það vel. Það eru engin ákvæði í alþjóðapóstsamningum um eignarrétt póststjórna á notuðum frímerkjum. Þetta er upplýsing um mikilsvert atriði, máske það mikilsverðasta í þessu máli öllu.

Þá er það einnig athyglisverð upplýsing, að hið umdeilda ákvæði um eignarréttinn á þessum notuðu frímerkjum komst fyrst inn í íslenzka löggjöf árið 1940. Fyrir þann tíma höfðu viðtakendur póstsendinga verið árum saman sviptir frímerkjum sinum án lagaheimildar. Var þá stuðzt við einhvers konar reglugerð í u.þ.b. tvo áratugi, en sú reglugerð átti enga stoð í lögum. Þegar jörðin tók að brenna undir fótum póststjórnarinnar í þessu efni og til þess að losna við óþarfaþjark, eins og það er orðað í svarbréfinu, þá fékk póststjórnin ákvæðinu laumað inn í landslög árið 1940. Ég segi laumað inn í landslög, og marka það af því, að samkv. alþingistíðindum er hvergi í umr. minnzt á þetta nýja og hæpna ákvæði, hvorki í framsöguræðu né síðar í meðferð málsins. Er engu líkara, en þessu ákvæði 17. gr. póstlaga, hafi beinlínis verið smyglað inn í lögin. Þetta atriði segir líka sína sögu um gæði málstaðarins.

Loks kemur það skýrt fram í svarinu, að frímerkin eru póststjórninni ekki nauðsynleg vegna endurskoðunar póstreikninga, en því var haldið fram í fyrri grg. hennar. Nú er meira að segja bent á, að unnt sé að taka upp aðrar aðferðir, og ekki nefndar færri, en þrjár.

Batnandi manni er bezt að lifa, og má það segja um póststjórnina í þessu máli. Óneitanlega hefði þó verið viðkunnalegra, að hún strax í upphafi hefði gefið hv. samgmn. undanbragðalaust réttar upplýsingar um meginatriði þessa máls. Það gerði hún ekki, og á því kemur hún líklega til með að hagnast. Hv. n. mun ekki hafa í hyggju að breyta afstöðu sinni til samræmis við það, er sannara reynist. Hún hyggst varpa áhyggjum sínum á hæstv. ríkisstj., og máske er henni það ekki láandi. Það reynist okkur öllum erfitt að kryfja hvert mál til mergjar, og því freistumst við stundum til að byggja skoðanir okkar um of á umsögnum annarra.

Ég hef nú talað tvívegis við þessa umr. og læt máli mínu senn lokið. Ég flutti þetta frv. eingöngu vegna þess, að ég tel efni þess réttlætismál. Það snertir tvo aðila og er hagsmunamál beggja. Annars vegar er póststjórnin, sú virðulega stofnun, sem á hér sinna hagsmuna að gæta og hefur allt að því sérstöðu að vera dómari í eigin máli. Hins vegar eru hinir einstöku viðtakendur póstsendinga, viðskiptavinir póststjórnarinnar, en þeir eru dreifðir og samtakalausir. Til þeirra er ekki leitað um álitsgerð, enda ekki hægt um vik, en þó er hér einnig um þeirra hagsmuni að ræða. Næst þessum aðila málsins stendur efalaust Félag frímerkjasafnara. Hefur það félag fylgzt af áhuga með þessu máli, og í janúar s.l. var það rætt á fundi þess. Að loknum þeim umr. var samþykkt með shlj. atkv. að skora á hið háa Alþingi að samþykkja frv., sem hér liggur fyrir. Þessi fundarsamþykkt er svo hljóðandi, með leyfi forseta:

„Fundur í Félagi frímerkjasafnara, haldinn í Tjarnarcafé 12. jan. 1959, skorar á yfirstandandi Alþingi að samþykkja frv. Alfreðs Gíslasonar alþm. um breyt. á póstlögunum, er varðar eignarrétt á frímerkjum á innlendum fylgibréfum og póstávísunum. Fundurinn telur, að það sé rétt og sanngjarnt, að frímerki af öllum innlendum póstsendingum falli til viðtakenda.“

Þetta er samþykkt Félags frímerkjasafnara. Þótt hún kunni að mega sín lítils gegn álitsgerðum hinnar voldugu póststjórnar, þá mun hún vera í fullu samræmi við óskir og vilja þeirra mörgu, sem viðskipti eiga við póstmálastofnun ríkisins. Og að lokum þetta: Hér er um að ræða togstreitu um hagsmuni. Styrkur annars aðilans er fólginn í því að eiga innangengt hjá þingi og stjórn, en styrkur hins er réttur málstaður. Hvor skyldi sigra að lokum?