05.02.1959
Neðri deild: 71. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 62 í C-deild Alþingistíðinda. (1429)

93. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Flm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að hafa hér langt mál fyrir því frv., sem fyrir liggur, þar sem flest af því, sem meginmáli skiptir varðandi málið, kemur fram í grg. með því og þeim fskj., sem grg. eru samferða á þskj. 208.

Ég get rétt aðeins rifjað það upp, að nú munu liðin um 38 ár síðan fyrstu tilraunir voru gerðar hérlendis með dragnót sem veiðarfæri. Það var gert veturinn eða á vertíðinni 1921 á 12 tonna bát, sem þeir gerðu út, útgerðarmennirnir Gísli Johnsen og Gísli Magnússon í Vestmannaeyjum. Höfðu þeir haft spurnir af þessu veiðarfæri, dragnótinni, í Danmörku og höfðu fengið hingað danskan mann til þess að gera veiðitilraun, gerðu sér vonir um að veiða þorsk með henni. Sú tilraun fór þannig, að þeir veiddu lítið sem ekki af þorski, en hins vegar veiddu þeir mikið af þykkvalúru. En með því að þá var enginn markaður fyrir þann fisk, þá lögðust þessar veiðar niður um skeið og hófust ekki aftur hér á landi, a.m.k. svo að orð væri á gerandi, fyrr en eftir 1930, en þá fóru þessar veiðar smávaxandi, og 1937 setur Alþ. lög um veiðarnar.

Á árunum eftir 1930 og allt fram til 1952 voru dragnótaveiðar allmikið stundaðar hérlendis og aðallega fiskaður í þetta veiðarfæri flatfiskur af ýmsu tagi, einnig verulegt magn af steinbit og ýmsu. Þessar veiðar voru ákaflega mismunandi miklar hér við land á því tímabili, sem ég hér hef nefnt, enda gekk á ýmsu í okkar nágrannalöndum á þessu tímabili. Heimsstyrjöldin síðari tók alveg fyrir allar veiðar útlendinga af þessu tagi eða allar flatfiskveiðar við Ísland svo sem aðrar veiðar útlendinga. Sátu þá Íslendingar einir að veiðunum og efldu þær mjög, enda var ágætt verð á flatfiskinum á þeim árum. En þegar stríði lauk og útlend togveiðiskip og dragnótaskip sóttu hingað að landinu af miklu kappi og fiskuðu hér allt inn að gömlu 3 mílna landhelgislínunni og raunar var allmikið um það, að þeir brytu af sér og veiddu einnig innan hennar, þá var hér um ofveiði að ræða á flatfiskstofnunum og raunar ekki síður á ýsu, og á því tímabili fengu margir þá hugmynd, að dragnótin væri mikill bölvaldur og væri því veiðarfæri sem slíku um að kenna, að á fiskistofnana gekk og veiðarnar fóru minnkandi þrátt fyrir aukna ásókn.

Það var þess vegna fullkomlega tímabært það, sem gert var 1952, þegar sjútvmrn. gaf út sína reglugerð um friðunarsvæðin við Ísland, þ.e.a.s. 4 mílna landhelgisreglugerðina. Þá var öll dragnótaveiði og togveiði innan 4 mílna beltisins bönnuð jafnt Íslendingum sem útlendingum og fór þá svo, að dragnótaveiðar má kalla að hafi alveg lagzt hér af á tímabili, en hin erlendu veiðiskip — einkum voru það brezkir togarar og belgískir frekar lítillar gerðar — tóku þá mjög að iðka flatfiskveiðarnar rétt við 4 mílna mörkin og varð æ betur ágengt með hverju árinu sem leið, og sýna opinberar skýrslur, að veiðar þessar hafa farið stöðugt vaxandi, og á síðasta 5 ára tímabilinu, sem skýrslur ná yfir, hefur veiðin vaxið á Íslandsmiðum af skarkolanum einum saman, þannig að á árinu 1953 var veiðin hér talin vera 4.653 tonn, — ég skal vekja athygli á því, að það er ein prentvilla í grg. frv. á bls. 3, þar sem þessi tala hefur örlítið snúizt við, ég hef ekki séð ástæðu til þess að láta prenta þskj. upp sérstaklega fyrir það, en mun gera ráðstafanir til þess, að það verði leiðrétt, — og í það, að á árinu 1957, sem er síðasta árið, sem skýrslur ná yfir, var skarkolaveiðin við Ísland orðin 9.603 lestir.

Af fiskifræðingum er talið, að eins og nú er komið hafi fiskistofnarnir rétt við, eftir að 4 mílna friðunin gekk í garð, og þoli fiskistofnarnir þessa veiði. Og fram á þetta sýna þeir sérfræðingar, sem kunnugastir munu þessum málum okkar, bæði Árni Friðriksson fiskifræðingur og sömuleiðis fiskifræðingar fiskideildar atvinnudeildar háskólans, og kemur álit þeirra fram í fskj. frv. Íslendingar sjálfir veiða svo til ekkert af þessum fiski eða hafa ekki veitt nú á undanförnum árum. Aðeins hefur hlutdeild Íslendinga verið frá 71/2% veiðanna og allt niður í 3.3% veiðanna.

Nú liggur það í augum uppi, að með þeim breyt., sem gerðar hafa verið á fiskveiðilandhelgi Íslands, með því að tekin er upp 12 mílna fiskveiðilandhelgi, eru útlendingar útilokaðir frá þessum veiðum. Þessar veiðar verða ekki framkvæmdar með neinum verulegum árangri á svo djúpu vatni sem viðast hvar er utan við 12 mílna mörkin. Íslendingar koma ekki heldur til með að veiða flatfiskinn að neinu ráði, nema því aðeins að íslenzk stjórnarvöld gefi þeim leyfi til þess að nota það eina veiðarfæri, sem tiltækilegt er, eins og nú standa sakir, til þess að ná þessum fiski, en það er dragnótin. Ég vil benda á, að það er ekki einasta hagsmunamál Íslendinga að framkvæma þessar veiðar, ég skal síðar koma að því, að hér er um stórkostlegt hagsmunamál íslenzka þjóðarbúsins að ræða, heldur er það einnig skylda Íslendinga að framkvæma veiðarnar. Eitt af þeim rökum, sem Bretar hafa hvað tíðast haft uppi varðandi það, að Íslendingar hafi gengið lengra en hófi gegndi með stækkun fiskveiðilandhelgi sinnar í 12 mílur, er eins og Bretar segja: Við þurfum að fæða 50 millj. manna, en Íslendingar þurfa ekki að fæða nema 160 eða 170 þús. manna. Það eru þess vegna ekki rök fyrir því, að þeir banni okkur veiðar á sínum svæðum.

Auðvitað eru þetta engin raunveruleg rök hjá Bretum, þar sem það hefur aldrei staðið til hjá Íslendingum, að þeir ætluðu sjálfir að neyta alls þess, sem úr íslenzkri fiskveiðilandhelgi fengist, heldur hefur ævinlega staðið til að senda aflann út á heimsmarkaðinn og ekkert síður til Breta, en til annarra þjóða. Ef við hins vegar með stækkun landhelginnar komum í veg fyrir það, að 14.500 tonn af flatfiskí, sem veiðzt hafa á Íslandsmiðum að undanförnu og af okkar eigin sérfræðingum er talið að stofnarnir þoli að veidd séu, — ef við ætlum að koma algerlega í veg fyrir það, að hér verði nokkrar veiðar af þessu tagi á næstunni, þá erum við að gera það, sem Bretar hafa haldið fram gegn okkur í landhelgisdeilunni, að rökum.

Það hefur auðvitað ekki vakað fyrir Íslendingum að hafa matvæli af heimsmarkaðinum. Við viljum hins vegar fá að framkvæma veiðarnar sjálfir í okkar landhelgi, og við viljum geta fylgzt með og sett eðlileg takmörk fyrir veiðunum, þannig að ekki verði gengið á fiskistofnana.

Algert bann við þessum veiðum er eð mínu viti mikil fásinna og mundi létta nokkuð róðurinn fyrir þá, sem leita eftir rökum gegn okkur í landhelgismálinu.

Efnahagslega mundi leyfi til dragnótaveiða við Ísland hafa ákaflega góð áhrif á íslenzka þjóðarbúið. Það er almennt viðurkennt, að ef við Íslendingar gætum búizt við viðlíka mikilli aukningu á fiskveiðum okkar á árinu 1959 frá s.l. ári eins og við fengum á árinu 1958, miðað við árið 1957, þá væru þar með leyst öll efnahagsvandamál þjóðarinnar. Þá þyrfti ekki að grípa til neinna kaupkúgunarlaga, og þá mundu þær greiðslur, sem íslenzka þjóðarbúið og íslenzkur atvinnurekstur á að standa undir, ekki þurfa að verða verðbólgumyndandi á neinn hátt.

Ég get að sjálfsögðu ekki um það sagt, hve samþykkt þessa frv. mundi þýða mikinn arð í íslenzka þjóðarbúið. En á árunum 1940–1950 var það algengt, að verðmæti flatfisksins væri þrefalt, fjórfalt og allt upp í það að vera fimmfalt á við verðmæti þorsks. Þar af leiðandi liggur í augum uppi, að 14.500 tonn af flatfiski mundu að verðmæti jafngilda á að gizka 50.000 lestum af þorski eða öðrum tilsvarandi dýrmætum fiski. Öll framleiðsluauking okkar á s.l. ári nam um það bil 74 þús. tonna. Ef við gætum reiknað með því, að flatfiskveiðarnar, dragnótaveiðarnar, sem lagt er til að leyfðar verði eftir þessu frv., gæfu okkur sem svaraði að verðmætum til 50 þús. tonn af þorski í viðbót, þá erum við býsna langt á leið komnir með að bæta hag íslenzka þjóðarbúsins, svo að vandræðalaust sé með öllu og án allra kaupþvingunarlaga að greiða úr þeim fjárhagsmálum, sem hér hafa myndazt.

Ég skal einnig benda á það, að þessar veiðar væru að því leyti sérstaklega hagkvæmar, að verulegur hluti af fiskibátaflota okkar stendur algerlega ónotaður á þeim tíma árs, sem þessar veiðar mundu verða leyfðar. Frystihúsakerfi okkar, sem nú er orðið tiltölulega fullkomið á fjölmörgum höfnum í okkar fiskibæjum, er líka verkefnalítið einmitt á þeim tíma, sem þeim mundi berast flatfiskurinn til vinnslu að frumvarpinu samþykktu. Enn fremur ber nokkuð á því, a.m.k. á sumum stöðum, að verkafólk og sjómenn hafi rýra atvinnu á þeim tíma, sem ráðgert er að stunda þessar veiðar. Annars eru þessar veiðar þess eðlis, að þær heimta ekki mjög mikinn fjölda sjómanna, en hins vegar allmikinn fjölda landverkafólks.

Það væri því gert allt í senn með samþykkt frv. þessa. Það væri stórbættur hagur íslenzka þjóðarbúsins og íslenzka sjávarútvegsins sem slíks. Einnig mundi hér verða séð fyrir drjúgri atvinnu handa verkafólki og sjómönnum. Og sömuleiðis mundu frystihúsunum verða færð mjög arðbær verkefni á þeim tímum, sem þau annars hafa litið að gera.

Frv., sem hér liggur fyrir, er að verulegu leyti sniðið eftir l. þeim, sem hér voru í gildi á árunum 1937–52, um bann gegn dragnótaveiðum í landhelgi. Í þeim lögum var dragnótaveiði þó leyfð á tímabilinu frá 1. júní til 1. des. Hér er þrengt að miðað við þau lög í þessu frv.., þannig að lagt er til, að veiðarnar verði aðeins leyfðar í 5 mánuði að hámarki, frá 1. júní til 1. nóv. Enn fremur er í þessu frv. gert ráð fyrir því, að vísindalegt eftirlit verði haft með veiðum þessum, að fiskideild atvinnudeildar háskólans verði falið það sérstaka verkefni að fylgjast með veiðimagninu á hverjum tíma og gera till. um það, að veiðin verði takmörkuð eins og skynsamlegt telst frá fræðilegu sjónarmiði, þannig að ekki ætti að verða hætta á því, að hér yrði um ofveiði að ræða. Þá eru samkv. frv. ráðuneytinu gefnar heimildir til þess að takmarka veiðarnar enn frekar, en gert var í þeim l., sem um þetta giltu á því tímabili, sem ég hér hef nefnt, þannig að á hverjum tíma megi rn. takmarka bæði veiðisvæðin og veiðiskipafjöldann eftir því, sem skynsamlegt þykir, og eftir till. atvinnudeildar háskólans. Þá er það og nýmæli í þessu lagafrv. og hefur ekki verið hér í l. áður, að á því tímabili, sem dragnótaveiði er ekki leyfð, sé ekki heldur leyft að hafa dragnætur um borð í fiskibátum, sem lögin taka til. Er þetta gert til þess að auðvelda eftirlit með því, að lög þessi, ef samþykkt verða, yrðu ekki brotin. Og enn fremur til frekara öryggis því, að ekki yrði um brot að ræða á lögum og reglugerðum um þessi efni, þá er einnig gert ráð fyrir því í 10. gr. frv., að rn. verði heimilað að banna öllum veiðarfæragerðum hérlendis að riða dragnætur með minni möskvastærð, en lögin leyfa. Allt er þetta í þá áttina að fyrirbyggja, að til brota geti komið á þessum lögum, og er mér fullkomlega ljóst, að það er mikil þörf á því, að hér sé af opinberri hálfu bæði haft eftirlit með því, að fylgt sé lögum og reglum, og einnig, að lögin séu þannig úr garði gerð, að rn. eigi auðveit með að hafa hendur í hári þeirra, sem kynnu að hafa tilhneigingu til þess að brjóta lögin.

Það er á allra vitorði, að ekkert eigum við til dýrmætara, en fiskistofnana á okkar miðum, og allt, sem miðar að því, að þeir séu skemmdir, er í rauninni stærstu afbrot, sem gagnvart þessari þjóð er hægt að fremja. Þar af leiðandi hlýtur okkur Íslendingum að vera það mikið í mun, að til slíkra brota geti ekki komið. En á hinn bóginn tel ég, að það sé jafnfjarri öllu viti, að við af einstrengingshætti einum saman bönnum, að eðlilegar veiðar séu framkvæmdar, því að eðlilegar fiskveiðar eru raunar okkar líf, og öll okkar lífsafkoma er undir því komin, að þær séu stundaðar. Þar af leiðandi tel ég það vera skyldu Alþingis að finna skynsamlega lausn á því í samráði við okkar vísindamenn, að veiðarnar séu stundaðar þannig, að ekki sé spillt fiskistofnum, en þó sé reynt að hafa því sem næst hámarksverðmæti af þeim fiskistofnum, sem við okkar land eru.

Herra forseti, að þessari umr. lokinni legg ég til, að frv. verði vísað til sjútvn.