12.05.1959
Neðri deild: 125. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í C-deild Alþingistíðinda. (1441)

93. mál, dragnótaveiðar í fiskveiðilandhelgi

Frsm. 1. minni hl. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Ég þykist verða þess var, eftir því sem tímar líða fram, að sú hugmynd, sem í frv. felst, að leyfa beri, að landsmenn nýti flatfiskstofninn eftir skynsamlegum þar til settum reglum, eigi vaxandi fylgi að fagna hjá þjóðinni. Og þess verður t.d. vart í þeirri till., sem hv. þm. V-Húnv. hefur hér lagt fyrir, að menn leitast nú mjög við að gera frv. þannig úr garði, að þeir geti fylgt því, og er mér ekki grunlaust um, að þar séu að verki öfl, sem gjarnan hafa getað hugsað sér að láta hjá líða á þessu þingi fram undir þetta, að frv. yrði samþ.

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um málið, eins og nú er komið, enda svo áliðið þingtímans, að ég vil ógjarnan tefja umr. um það. Þó get ég ekki alveg látið hjá líða að veita nokkru fyllri upplýsingar varðandi þær efasemdir, sem fram komu í ræðu hv. frsm. 2. minni hl. sjútvn. um málið, þm. N-Þ., þar sem hann virtist ekki alveg hafa glöggvað sig á því, hvað við væri átt í nál. þess minni hl., sem ég er aðili að, þar sem segir um þær umsagnir, sem Alþ. hafa borizt, og þau erindi, sem Alþ. hafa borizt um málið, að þeir aðilar, sem meðmæltir séu frv., séu í miklum meiri hl. meðal þeirra, sem sent hafa Alþ. erindi sín. Þetta hefur hv. frsm. 2. minni hl. viljað draga svolítið í efa, og skilst mér, að hann miði þá þar við þá eina, sem hv. sjútvn. hefur beðið um umsagnir um málið, og ekki við aðra. Það er einnig mjög hæpið, að hinir meðmæltu séu ekki einnig í meiri hl. meðal þess hóps manna eða þess hóps félagssamtaka, sem sent hefur n. umsagnir. Hann telur, að einungis þrír hafi beinlínis mælt með samþykkt frv., og það er rétt samkv. þeim bréfum, sem n. hefur fengið. Á hinn bóginn hefur n. nú fengið fleiri upplýsingar, en í bréfum. Ég get tekið sem dæmi, að fiskifélagsdeildin á Snæfellsnesi hefur í rauninni sent n. sín meðmæli, þótt ekki væri í bréfi, heldur var það í tilkynningu eða skilaboðum, sem þeir komu til þm. kjördæmisins, og hann hefur látið n. þær upplýsingar í té, að meiri hl. þeirra, sem um málið hafa fjallað í fiskifélögunum á Snæfellsnesi og í deild Fiskifélagsins þar, séu því meðmæltir, að málið nái fram að ganga. Ég tel þess vegna alveg ástæðulaust að telja ekki hiklaust, að úr þeirri átt hafi komið meðmæli með frv. En það eru raunar miklu fleiri aðilar, sem sent hafa Alþ. álit sitt, heldur en þeir, sem n. hefur beinlínis um það spurt, og ég veit, að hv. frsm. 2. minni hl. er ekki í vafa um það, að þar eru þeir, sem mæla með frv., í miklum minni hl. Það hafa raunar allir, sem sent hafa Alþ. umsagnir með þeim hætti, mælt með frv., að einum aðila undanskildum, hreppsnefndinni í Gerðahreppi.

Ég þykist þá hafa útskýrt, hvað við er átt í nál., þar sem segir, að þeir séu í meiri hl. og í miklum meiri hl. meðal þeirra, sem sent hafa Alþ. erindi sín, sem mæla með samþykkt frv.

Varðandi brtt., sem fyrir liggur á þskj. 518 frá hv. þm. V-Húnv., þar sem gert er ráð fyrir því, að einstök héruð geti ákveðið, að úti fyrir þeirra landi verði ekki leyfðar dragnótaveiðar, þá get ég tekið það fram, að ég tel alls ekkert óeðlilegt, að slík till. verði samþ. Ég tel, að á hverjum stað megi íbúarnir gjarnan ráða fram úr því við sina sýslunefnd eða bæjarstjórn, hvort þessar veiðar séu heppilegar á þeirra slóðum eða ekki, og get ég vel fallizt á það til samkomulags og til þess að greiða fyrir framgangi málsins að vera meðmæltur því, að efni þessara till. sé tekið inn í frv. — Læt ég svo útrætt um það að sinni.