24.02.1959
Efri deild: 74. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 94 í C-deild Alþingistíðinda. (1470)

111. mál, Bjargráðasjóður Íslands

Flm. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Þótt okkur þyki vænt um ættjörð okkar, verðum við að viðurkenna, að Ísland er misærasamt land. Saga þjóðarinnar er hlaðin dæmum um það. Stundum er harðæri um land allt, oftar er það þó, sem betur fer, að ekki verður hallærisárferði nema í einhverjum landshluta í senn. Löngum verða hér á Íslandi tjón af náttúruhamförum, svo sem gosum eldfjalla, jarðskjálftum, sjávargangi, vatnavöxtum, snjóflóðum, jarðskriðuföllum. Það er því ekki vanþörf á, að þjóðin reyni að safna fé í sjóð til þess að geta gripið til, þegar að steðjar óvenjulega ill veðrátta eða af náttúrunnar völdum annar ófarnaður, sem er almenningi á stærri eða minni svæðum óviðráðanlegur án aðstoðar.

Lög um Bjargráðasjóð Íslands voru staðfest 10. nóv. 1913 og komu til framkvæmda 11. febr. 1914. Verkefni sjóðsins átti að vera að safna árlega fé til þess að afstýra hallæri. Stjórn sjóðsins átti með sjóðnum að veita ríkisstj. lið til þess að koma í veg fyrir hallæri, eins og það er orðað í lögunum frá þeim tíma. Árstekjur sjóðsins áttu að vera iðgjöld frá sveitarfélögum, 25 aurar fyrir hvern íbúa sveitarfélags, og frá landssjóði jafnhá upphæð. Það var talið, þegar lögin voru sett, að árstekjur sjóðsins mundu verða rúmlega 40 þús. kr. Þetta, iðgjöldin og heildartekjurnar, eru upphæðir, sem láta ekki hátt í eyrum nú, en þær voru þó nokkuð gildismiklar upphæðir þá. T.d. mun þá tímakaup verkamanna í Reykjavík hafa verið 30 aurar. Iðgjald sveitarfélagsins fyrir hvern mann var því 5/6 af tímakaupi verkamanns. Allar tekjur ríkissjóðs árið 1914 samkvæmt fjárlögum voru aðeins 1.800 þús. kr. Lán voru engin veitt úr sjóðnum fyrstu árin. Í árslok 1920 var sjóðurinn orðinn 300 þús. kr., og þótti það mikið fé. Í árslok 1925 var sjóðurinn orðinn 685 þús. kr., og þá hafði enn ekkert lán verið veitt úr sjóðnum. Saga sjóðsins er sögð í tímaritinu Sveitarstjórnarmál 1953, en þá var sjóðurinn 40 ára. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Á árinu 1925 eru sett lög á Alþingi um heimild til að veita lán úr bjargráðasjóði. Fyrr voru ekki lagaákvæði um slíkar heimildir. Aðalatriði þessara laga eru þau, að atvmrh. er veitt heimild til að fengnum tillögum stjórnar Bjargráðasjóðs Íslands að lána fé sjóðsins:

a) Hreppsfélögum og bæjarfélögum, sem eru nauðulega stödd vegna afleiðinga heimsstyrjaldarinnar miklu eða af öðrum ófyrirsjáanlegum atvikum.

b) Fóðurbirgðafélögum eða öðrum félögum eða stofnunum, er hafa það eitt að markmiði að koma í veg fyrir hallæri.

c) Hreppsfélögum, er koma á fót hjá sér bústofnslánadeildum.

Þá er og í lögum þessum það ákvæði að því er lán samkvæmt a-lið til hreppsfélaga og bæjarfélaga snertir, að meðan nokkuð er ógreitt af slíku láni, er hlutaðeigandi hreppsfélagi eða bæjarfélagi skylt að senda atvmrn. árlega nægilega snemma áætlun um tekjur sínar og gjöld, og má ekki, meðan svo stendur á, ráðast í neinar framkvæmdir án samþykkis ráðuneytisins, nema þær séu beinlínis lögskipaðar, enda er hreppsnefnd eða bæjarstjórn skylt að breyta áætluninni, ef ráðuneytið leggur svo fyrir. Þetta ákvæði jafngildir þannig eftirliti með fjárreiðum sveitarfélagsins, fái það lán úr sjóðnum samkvæmt a-lið.

Loks skal það nefnt, að í 6. gr. laga þessara segir, að ekki megi að jafnaði veita hærri lán, en sem svarar hluta þeirra í séreigninni og hinum sameiginlega sjóði. Þegar í ársbyrjun 1926 hefjast útlán úr sjóðnum samkvæmt lögum þessum. Fyrsta lánið er veitt 2. jan. 1926 Holtshreppi í Skagafirði, og virðist það veitt af ráðherra án samþykkis sjóðsstjórnar, því að sjóðsstjórnin leggur á móti lánveitingunni. Lánið er að upphæð 6.500 kr. Á þessu ári er tólf öðrum hreppsfélögum veitt lán úr sjóðnum, öllum gegn sýsluábyrgð og eftir till. sjóðsstjórnar og flestum til að koma upp bústofnslánadeildum, en nokkrum vegna örðugs fjárhags sveitarsjóðanna. Alls nema þessi lán á árinu 1926 44.400 kr. Nokkrum lánum er bætt við á árinu 1927, og í lok þess árs er hagur sjóðsins ágætur, því að þá á hann í handbæru fé um 800 þús. kr. og í útlánum rúmlega 63 þús. kr. Á árunum 1928 og 1929 vaxa lán til sveitarfélaganna ekki mikið, en á því ári er ríkissjóði veitt 300 þús. kr. lán úr bjargráðasjóði, en lán sveitarfélaga eru þá rúmlega 300 þús. kr. samanlagt.

Næstu árin eru veitt nokkur lán úr sjóðnum til sveitarfélaga, og sjóðurinn vex jafnt og eðlilega allt fram til ársins 1932. Á því ári voru sett á Alþingi lög um bráðabirgðabreytingu nokkurra laga. Þessi lög voru bæði af alþm. og öðrum kölluð bandormurinn. Eitt af mörgum ákvæðum þessara laga var það, að fresta skyldi greiðslu árlegs tillags sveitarfélaga og ríkissjóðs til Bjargráðasjóðs Íslands. Voru þar með aðaltekjur sjóðsins felldar niður um ófyrirsjáanlegan tíma. Jafnframt þessu áfalli tapaði bjargráðasjóður allmiklu af því fé, sem hann átti í útlánum hjá sveitarfélögum þeim, sem fóru undir skuldaskil í kreppusjóði sveitarfélaga 1936–1938. Var nú allur hagur sjóðsins næsta bágborinn og megn vanskil af hálfu sveitarfélaganna við sjóðinn, enda áttu þau í miklum fjárhagsörðugleikum velflest þessi árin.

En þá kom heimsstyrjöldin 1939, og þá tók fjárhagur hins opinbera að breytast aftur til batnaðar. Vigfús Einarsson skrifstofustjóri gekk að því með lagni og festu að fá inn vanskilaskuldir frá sveitarfélögum og varð vel ágengt. Í árslok 1940 er hagur sjóðsins þannig, að skuldlaus eign hans er 1 millj. og 312 þús. kr., og er eignaaukningin á árinu aðeins 8.276 kr. Sést af þessum tölum, að sjóðurinn hefur aðeins vaxið um rúmar 300 þús. kr. á áratugnum 1930–40. Í árslok 1941 féllu síðustu leifar bandormsins úr gildi, og hófust þá á ný greiðslur í bjargráðasjóð, bæði frá ríkissjóði og sveitarsjóðum. Er bandormurinn féll úr gildi og greiðslur til bjargráðasjóðs hófust að nýju 1942, var þess ekki gætt að breyta árgjaldinu til sjóðsins, eins og sjálfsagt hefði verið, og færa tillögin til hans til samræmis við það verðgildi, sem peningar höfðu þá fengið. Gjaldið hélzt þá óbreytt áfram. Það er 25 aurar af íbúa frá hverju sveitarfélagi og sama upphæð úr ríkissjóði. Í árslok 1943 er eign Bjargráðasjóðs Íslands 1.542.491 kr.“

Já, eignir sjóðsins voru ekki meiri orðnar, en þetta í árslok 1943. 1953 í árslokin, á fertugsafmæli sínu, var sjóðurinn samt orðinn 4 millj. króna. En það kom til á tímabilinu, að 1950 var l. um bjargráðasjóðinn breytt og tillagið hækkað úr 25 aurum upp í 2 kr. á hvern meðlim sveitarfélags og jafnhá upphæð úr ríkissjóði.

Þegar félmrn. var stofnað 1946, féll umsjón sjóðsins undir það, og var hann rekinn á vegum þess þar til 1. febr. 1953. Þá voru honum settar sérstakar reglur og skipaður sérstakur forstjóri, og síðan er hann rekinn sem sjálfstæð stofnun utan rn. En áður hafði hann verið á vegum rn., fyrst atvmrn., en síðan félmrn. frá 1946.

Nú hef ég við höndina aðalreikning bjargráðasjóðs fyrir s.l. ár, árið 1958, og tel við eiga að lesa hann upp hér. Það er reikningur fyrst yfir reksturinn, og tekjur sjóðsins hafa þá verið samkv. honum, fyrst bjargráðasjóðsgjöld sveitarfélaga frá árinu 1957, sem ekki höfðu innheimzt, sem sé 1957, 137.192 kr., bjargráðasjóðsgjöld sveitarfélaga árið 1958 198.476 kr., eða samtals eru gjöldin frá sveitarfélögunum 335.668 kr. Bjargráðasjóðsgjöld ríkissjóðs 349.800 kr., þau eru örlítið hærri, en hin upphæðin, því að innheimtan frá sveitarfélögunum gengur ekki svo jafnt, að ekki færist yfir áramót, en ríkissjóður borgar á hverju ári það, sem honum ber, miðað við mannfjöldann. Fjórði liður er vaxtatekjur, kr. 424.477.27. Fimmta: lántökugjöld 36.340, og rekstrarhalli kr. 131.583.43. Samtalan tekjumegin er þá kr. 1.277.868.70.

Svo eru gjöldin. Það er fyrst kostnaðarreikningur, kr. 257.338.70. Annar liður eftirgefin lán og styrkir 1.020.530 kr. Og sama samtala er gjaldamegin og ég las upp áðan um niðurstöðu tekjumegin. Hin eftirgefnu lán eru eftirgjafir af harðindalánum, sem ríkissjóður afhenti bjargráðasjóði með fyrirmælum um að slá af og fella niður hjá þeim skuldunautum, sem sérstaklega vanmegnugir væru að greiða. Og fyrir þær eftirgjafir er rekstrarhalli á reikningnum.

Þá er efnahagsreikningur. Það eru eignir: Séreignasjóður: a) innstæða frá fyrra ári kr. 3.314.585.60, b) viðbót á árinu 1958 kr. 338.509.30, eða séreignasjóður samtals kr. 3.651.094.90. Og annað sameignarsjóður: a) skuldabréfaeign kr. 17.574.995.55, b) fasteignir kr. 1.697.400.64, c) lausafé (þ.e. innbú o.fl.) kr. 97.244.49, d) bankainnstæða kr. 716.594.74, e) sjóðreikningur kr. 97.601.43, eða sameignarsjóður samtals kr. 20.183.836.85 og eignir því samtals kr. 23.834.931.75. En skuldir: 1) skuldabréf í Iðnaðarbanka Íslands 1 millj. 500 þús., 2) skuldabréf ríkissjóðs 1 millj. 500 þús., 3) hlaupareikningsskuld kr. 246.433.34, eða skuldir samtals kr. 3.246.433.34. Skuldlaus eign sjóðsins í árslok 1958 kr. 20.588.498.41 og samtala eins og eignamegin kr. 23.834.931.75.

Þannig er þá hagur sjóðsins nú.. Skuldlaus eign 20.5 millj. Vitanlega getur skuldabréfaeignin orðið eitthvað affallasöm, en segja má samt, að sjóðurinn hafi vaxið mikið þessi síðustu ár.

Svo er það þá þetta frv. til breyt. á lögum sjóðsins, sem fyrir liggur. Ef litið er yfir nýmæli þau, sem í frv. felast, þá eru þau aðallega, að mér virðist, þessi:

Fyrst: tillag í sjóðinn á að hækka úr 2 kr. upp í 5 kr. á hvern mann, bæði frá sveitarsjóðum og ríki, eða samtals að hækka um 6 kr. Þetta er talið réttmætt vegna breytinga, sem orðið hafa á gildi peninga, og nauðsynlegt vegna verkefna sjóðsins. Þegar litið er á gildi það, sem fyrsta tillagið í sjóðinn hafði, þá er þessi hækkun, borið saman við verðlag í landinu, ekki fullkomlega til samræmis við það, svo að mönnum þarf ekki þess vegna að vaxa hún í augum.

Þá er það annað, að það má telja nýmæli, að rýmkaðar eru til muna heimildir til að veita lán eða styrk þeim, sem bíða tjón af skemmdum á eignum af náttúruhamförum. Þær heimildir, sem ég las um í sögu sjóðsins upp úr Sveitarstjórnarmálum, voru teknar að miklu leyti út úr 1950, þegar l. var þá breytt, og ný ákvæði sett inn, og þau ákvæði eru mjög rýmkuð í þessu frv. að því er snertir, eins og ég sagði áðan, heimildir til þess að veita aðstoð, þegar einhverjar náttúruhamfarir, svo sem eldgos, vatnavextir, skriðuföll o.s.frv., ber að höndum.

Í þriðja lagi er það nýmæli, að bjargráðasjóði á að vera heimilt að greiða fyrir fjárhagsviðskiptum sveitarfélaga og sýslufélaga með því að veita þeim hagkvæm rekstrarlán til stutts tíma gegn öruggum tryggingum. Til þess að geta þetta, er sjóðnum heimilað — það er líka nýmæli — að gefa út og selja handhafavaxtabréf allt að 10 millj. kr., sem tryggð séu með eignum sjóðsins og ábyrgð ríkisins. Með þessum nýju ákvæðum er tekið tillit til hinnar miklu rekstrarfjárþarfar sveitarfélaganna, sem sverfur mjög að þeim oft og einatt, en það er gengið út frá því, að sjóðurinn sýni lit á því að veita þeim skyndilán, en þó aðeins gegn öruggum tryggingum fyrir endurgreiðslu. Verði þetta upp tekið, þá mun sjóðurinn ekki aðeins nota til þess það fé, sem hann fær vegna hinnar heimiluðu vaxtabréfaútgáfu, heldur einnig eitthvað af því lausafé, sem hann annars hefur í bankabókum. Verður það þá sveitar- og sýslufélögum til beinna og beinni nota, en það var áður eða nú.

Þá er fimmta nýmælið. Sjóðurinn er í tveim deildum, séreignadeild sýslna og bæjarsjóða og sameignardeild allra landsmanna. Í séreignardeildina hefur runnið helmingur árgjalda sveitarfélaga og sýslufélaga, en samkv. frv. er gert ráð fyrir, að 3/5 hlutar þessara árgjalda fari þangað.

Sjötta nýmælið í frv. er, að bjargráðasjóður megi geyma og ávaxta sjóði, sem eru í eigu eða umsjá sveitarfélaganna.

Sjöunda nýmælið er, að í stjórn sjóðsins verði fjölgað mönnum. Í stjórninni eiga, eins og nú er; sæti 3 embættismenn: ráðuneytisstjórinn í félmrn. og hann er formaður, formaður Búnaðarfélags Íslands og forseti Fiskifélags Íslands. Seta þessara manna í stjórninni er mjög eðlileg, þar sem verkefni sjóðsins er bæði til lands og sjávar. En samkv. frv. er lagt til, að tveim mönnum verði bætt í stjórnina og þeir verði kosnir af fulltrúaráði Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Það virðist ekki ósanngjarnt, að þar sem starfsemi sjóðsins er svo nákomin sveitarfélögunum og þau leggja fé í sjóðinn og svið hans verður útfært, þá fái þau einnig tækifæri til þess að eiga beina fulltrúa í stjórn sjóðsins, og það er einmitt auðvelt nú, en var ekki áður, — auðvelt nú vegna þess, að sveitarfélögin hafa myndað með sér samband, sem er eðlilegt að kjósi fulltrúana.

Loks er 8. nýmælið, en það er sú breyt. frá eldri lögum, að sjóðsstjórnin ræður samkv. frv. framkvæmdastjóra, ákveður honum laun og setur honum erindisbréf. Áður heyrði þetta samkv. reglugerð undir félmrn.

Ég held, að ég hafi þá tíundað öll nýmæli og breyt., sem máli skipta. Eitthvað fleira kann að finnast, sem lítur út fyrir að vera breyt., ef frv. er lesið saman við lögin, sem gilda, — og þau fylgja sem fskj., — en það mun þá vera tekið upp úr núgildandi reglugerð, en hafa þótt rétt að gera það að lagaákvæði, úr því að lögin er verið að endursemja.

Ég sé ekki ástæðu til þess að taka fleira fram við þessa 1. umr., nema til þess gefist sérstakt tilefni. Við hv. 2. þm. Árn., sem frv. flytjum, gerum það fyrir tilmæli frá stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga, sem hefur samið frv. Hún sneri sér til okkar með beiðni um að flytja það, vegna þess að við erum báðir í fulltrúaráði sveitarfélagasambandsins.

Loks vil ég benda á, að frv. fylgja fskj., er sýna, að landsfundur sveitarfélaga hefur óskað eftir því, að víkkað yrði starfssvið bjargráðasjóðs og hann efldur, enn fremur, að Stéttarsamband bænda hefur óskað hins sama.

Ég óska, að frv. verði vísað til 2. umr. Ég tel, að í raun og veru gæti verið hægt eftir eðli málsins að vísa því til tveggja af fastanefndum hv. d., það er fjhn. og heilbr.- og félmn. Ég legg ekki mikið upp úr því, hvor n. heldur fær málið til meðferðar. Þó finnst mér öllu eðlilegra að óska þess, að því verði vísað til heilbr.- og félmn., því að þetta er félagsmál skylt þeim málum, sem hún hefur tekið til meðferðar, síðan hún var stofnuð.