07.01.1959
Sameinað þing: 19. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 17 í D-deild Alþingistíðinda. (1861)

20. mál, fiskileitartækjanámskeið

Frsm. (Karl Guðjónsson):

Herra forseti. Fjvn. hefur haft þessa till. um námskeið í meðferð fiskileitartækja til athugunar á nokkrum fundum sínum. Hún hefur leitað umsagnar Fiskifélagsins um till. og einnig átt viðræður við fiskimálastjóra um hana.

Það dylst engum, að námskeið í meðferð þessara tækja er nauðsynlegt að skipstjórnarmenn á íslenzka fiskiflotanum fái, þannig að þeir geti, eftir því sem föng eru á, lært meðferð tækjanna. En þar kemur allmargt til greina, til þess að þau geti komið vel að notum, bæði að skipstjórnarmennirnir hafi þekkingu á gerð tækjanna og einnig hitt, að þeir geti hagnýtt sér þá vitneskju, sem tækin færa þeim. En hvorugt af þessu er eins einfalt mál og halda mætti að óathuguðu.

Fiskifélag Íslands gekkst fyrir námskeiði hér í Reykjavík á árinu 1957 í meðferð þessara tækja og hafði raunar á þessu hausti þegar áformað nokkur fleiri slík námskeið, en fjárhagsgrundvöllur fyrir þau var ekki tryggður, og má heita, að hann sé það ekki enn þá. Einu slíku námskeiði er nýlokið. Það var haldíð nú á milli hátíða í Vestmannaeyjum, og sóttu það um 80 skipstjórnarmenn af fiskibátaflotanum þar, og standa vonir til, að þessir skipstjórnarmenn standi betur að vígi um notkun tækjanna eftir en áður. En fiskiskipafloti okkar er að sjálfsögðu dreifður um strönd landsins, og þarf að gera skipstjórnarmönnum, hvar sem þeir búa á landinu, kleift að geta notið þessarar kennslu, og hefur Fiskifélagið enda áformað að halda slík námskeið í öllum landsfjórðungum, þannig að ætla megi, að allir skipstjórnarmenn, hvar á landinu. sem þeir eru búsettir, geti átt þess kost án verulegra óþæginda að sækja slík námskeið.

Það má þess vegna segja, að ef fjárlög hefðu verið til afgreiðslu á venjulegum tíma, hefði máske ekki verið eins nauðsynlegt að samþykkja till. hér um. En með því að þau eru nú enn ekki komin til afgreiðslu fyrir árið 1959, þá þykir sjálfsagt og nauðsynlegt, að þessi till., sem felur í sér, eins og fjvn. hefur gengið frá henni í sinni brtt., heimild fyrir ríkisstj. til þess að greiða kostnað við þessi námskeið, verði samþ. nú þegar.

Fjvn. hefur gert brtt. við till., eins og hún var lögð fram, í samræmi við þær upplýsingar, sem ég hér hef gefið varðandi þá athugun, sem fjvn. hefur gert á málinu, og leggur n. einróma til, að till. verði samþ. í því formi, sem gert er ráð fyrir í nál. fjvn. á þskj. 137.