12.11.1958
Sameinað þing: 9. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (1925)

32. mál, vinnuheimili fyrir aldrað fólk

Flm. (Halldór E. Sigurðsson):

Herra forseti. Á síðasta Alþ. flutti ég ásamt hv. 1. þm. Árn. till. til þál. um vinnuskilyrði fyrir aldrað fólk. Sú till. var ekki útrædd á því þingi, og þess vegna höfum við nú ásamt nokkrum öðrum þm. Framsfl. hafið flutning málsins á ný með flutningi þáltill. á þskj. 52. Till. er nú flutt í nokkuð öðru formi, en þá. Ég vil nú með nokkrum orðum gera grein fyrir málinu.

Eins og fram kemur í grg. þeirri, er till. fylgir, fjölgar því fólki í landinu, er nær háum aldri. Þessi þróun stendur í beinu sambandi við bætt lífsskilyrði og aukna heilsugæzlu. Samkvæmt þeim upplýsingum, sem ég hef fengið um þetta efni, munu 10–12 þús. manns vera hér á landi, sem eru 67 ára eða eldri. Á næstu árum mun þessu fólki fjölga nokkuð, þar sem margt fólk tilheyrir þeim aldursflokkum, er næstir eru að aldri.

Það er því ástæða til að huga nokkuð að þessu máli með tilliti til þess viðhorfs, sem í því er. Það er kunnara, en frá þurfi að segja, að þegar fólk lætur af lífsstarfi sínu, þá býr það að jafnaði yfir nokkurri starfsorku. Sú þróun virðist eðlileg, að fólk láti af lífsstarfi, áður en orka þess er að öllu þrotin, þar sem lífsstörf manna krefjast að jafnaði fullkominnar starfsorku. Hitt er líka nauðsynlegt, að næstu kynslóð sé gefinn kostur á að taka þátt i athafnalífi þjóðarinnar, meðan áhugi hennar og starfsorka er mest.

Hins vegar er það mikið áhyggjuefni fyrir það fólk, sem af lífsstarfi sínu lætur, að hafa ekki að neinu starfi að hverfa. Það er líka hvort tveggja til, að það er öldruðu fólki mjög á móti skapi og óeðlilegt, þó að því hafi tekizt að spara eitthvað saman á langri starfsævi, að þurfa að nota það sér til lífsviðurværis í ellinni, en hjá því verður ekki komizt, þar sem ellilaun hrökkva skammt til framfærslu þess, þó að þau yrðu hækkuð. Það er því tvennt til, að starfið mundi gleðja þetta fólk mjög mikið, þar að auki mundi því takast að drýgja ellilaun sín, svo að þær tekjur, sem það gæti skapað sér með starfinu, gætu nægt því til framfærslunnar. Það er því ekki lítið atriði frá sjónarmiði þjóðfélagsins, að þetta fólk taki þátt í sköpun verðmæta áfram, svo að það þurfi ekki að taka framfærslu sína af geymdum eyri eða hjá öðrum. Það er því höfuðsjónarmið flm., að leitað verði eftir því að skapa öldruðu fólki skilyrði til vinnu við sitt hæfi, hvort sem það verður gert með því að stofna vinnuheimili, eins og um er rætt í till., eða á annan hátt.

Meðan þjóðlíf Íslendinga var með þeim hætti, að þjóðin bjó að mestu í dreifbýli og heimilin voru fjölmenn, þá sáu þau að jafnaði fyrir gömlu fólki, enda hafði það þá eitthvað sér til dundurs, á meðan heilsan leyfði. En með þeim breyt., sem á hafa orðið í okkar þjóðlífi á síðustu áratugum, hefur þjóðin meir og meir farið að búa í fjölbýli, í þéttbýli, og þegar heimilin gerast svo fámenn sem raun er á orðin, þá eru möguleikar til þess, að aldrað fólk dvelji hjá niðjum sínum eða vandamönnum, að fjara út. Vistheimili fyrir þetta fólk eru því að verða meiri og meiri nauðsyn.

Elli- og hjúkrunarheimili hafa verið rekin hér á landi um aldarfjórðungsskeið. 1922 var Elliheimilið Grund stofnað hér í Reykjavík, og á sama ári tók elliheimili til starfa á Ísafirði. Nú munu þessi heimili vera um 11 talsins og hafa vistrúm fyrir 6–7 hundruð manns. Af því getur Grund tekið um helming af þessu fólki.

Enda þótt vistheimili fyrir aldrað fólk hafi verið starfrækt hér um aldarfjórðungsskeið, hefur engin löggjöf verið sett um þessar stofnanir. Þær hafa notið ríkisstyrks vegna þess, að við flest þeirra hafa starfað hjúkrunardeildir, sem hafa verið styrktar eins og hver önnur sjúkrahús. En elliheimilin hafa ekki notið annars styrks af ríkisfé en þess, sem hefur verið samþykktur á fjárl. hverju sinni.

Það er því orðin þörf á því, ekki sízt eftir því sem þörf fyrir elliheimili fer vaxandi, að sett verði heildarlöggjöf um þessar stofnanir, þar sem mörkuð verði stefna um þátttöku ríkisins og annarra aðila í stofnkostnaði. Ekki getur það talizt óeðlilegt, að ríkið taki þátt í stofnkostnaði slíkra stofnana á borð við sjúkrahús. Í sambandi við löggjöf um vinnu- og vistheimili fyrir aldrað fólk, ber að taka tillit til þess höfuðsjónarmiðs, að fólkinu verði gefinn kostur á vinnuskilyrðum, eftir því sem við verður komið. Það er einnig nauðsynlegt að hafa það hugfast, þegar slík heimili eru byggð, að hjón, sem dveljast þar, geti myndað sér þar á ný nokkurs konar heimili innan veggja þessarar stofnunar.

Þar sem gera má ráð fyrir, að mörg sveitar og jafnvel sýslufélög standi að stofnun slíkra heimila, þarf löggjafinn að ákveða um þátttöku þeirra í stofn- og rekstrarkostnaði, hvernig þátttökunni verði fyrir komið.

Ég hef hér að framan drepið á örfá atriði í sambandi við till. okkar á þskj. 52. Að þessu sinni sé ég ekki ástæðu til að ræða málið ýtarlegar. Ég vil að lokum taka undir það, sem fram hefur komið, að það sé mælikvarði á menningu þjóðar, hvernig hún búi að öldruðu fólki. Íslendingar hafa jafnan sýnt mikinn áhuga í félagsmálum. Ég efast því ekki um, að þjóðin taki þessu máli vel. Það fer líka vel á því að, að þeirri kynslóð, sem mest hefur orkað til framfara á landi hér, verði vel búið í ellinni. Ég treysti því hv. alþm. til að taka þessu máli vel, svo að það megi ná fram að ganga hér á Alþingi.

Herra forseti. Ég vil svo leyfa mér að leggja til, að till. verði vísað til síðari umr. og fjvn.