29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 368 í B-deild Alþingistíðinda. (233)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Forsrh. ( Emil Jónsson ):

Herra forseti.

Þetta mál er komið hingað frá hv. Nd., þar sem það hefur nú verið afgreitt við þrjár umr. og ekki hljóðalaust, svo að hv. alþm. í þessari virðulegu deild hafa sjálfsagt ekki komizt hjá því að kynnast efni málsins og þeim rökum, sem eru fyrir því, að það er flutt, svo að ég tel, að þess vegna sé ástæða til að ætla, að ég þurfi ekki að hafa fyrir því eins ýtarlega framsögu og annars mundi vera ástæða til.

Í stuttu máli eru rökin fyrir því, að þetta frv. er fram borið þau, að verðbólgan tók ískyggilega mikinn kipp á s. l. ári, þar sem framfærsluvísitalan hækkaði úr 191 stigi upp í 225 stig, sem hún mundi hafa farið í, ef engar aðgerðir hefðu verið gerðar um nýárið eða hækkaði með öðrum orðum um 34 vísitölustig. Kauplagsvísitalan hækkaði tilsvarandi, þannig að hún er nú í 202 stigum. Það er alveg greinilegt, að ef svo heldur fram, þá er stefnt í hreinan voða með verðbólguaukninguna. Sérfræðingar hafa reiknað, að hún mundi vaxa á þessu ári til næsta hausts, þannig að framfærsluvísitalan mundi komast upp í 270 stig og kauplagsvísitalan upp í 250 stig. Afleiðingarnar af þessu eru auðsæjar og hafa verið margraktar, svo að ég skal ekki fara út í að rekja það neitt hér nú.

Leiðirnar, sem til eru út úr þessu vandamáli, eru, að því að talið er, ekki nema tvær: Annars vegar að reyna að stöðva við það, sem er og afla nýrra tekna til þess að greiða útflutningssjóði það, sem hann þarf til viðbótar og afla tekna í ríkissjóð fyrir hans auknu útgjöldum, sem af þessu mundi leiða. En niðurstaðan af athugun þeirrar leiðar hefur orðið sú, að til þess að ná árangri eftir þessari leið mundi þurfa að afla svo gífurlega mikilla skatta, að það var talið hyggilegra að fara hina leiðina, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, að reyna að lækka tilkostnað og fá eftirgefinn hluta af launum manna, sem yrði notaður til þess að mæta þeim erfiðleikum, sem hér er um að ræða.

Í þeim umr., sem fram hafa farið á milli fulltrúa ríkisstj, og útvegsmanna, hefur það komið í ljós, að ef rekstrarkostnaður útvegsins yrði miðaður við 185 vísitölustig, þá mundi þurfa að styrkja þessa starfsemi umfram það, sem nú er gert, með 158.6 millj. kr. á árinu 1959 og er þó ekki þar gert ráð fyrir öðru, en bæta þá hækkun, sem orðið hefur á rekstrarkostnaði þessara aðila vegna þeirrar hækkunar, sem orðið hefur á kaupgjaldi og verðlagi, síðan síðasti samningur var gerður. Hins vegar hefur það líka komið í ljós, að ef hægt væri að halda vísitölunni niðri í 175, þá þyrftu þessar bætur ekki að vera nema 77.7 millj. kr., eða 80.9 millj. kr. lægri. Ég skal ekki fara út í þessa samninga að öðru leyti, en við þessa tölu, 175 vísitölustig, hefur verið staðnæmzt. Framfærsluvísitalan í dag er 212 stig og kauplagsvísitalan samkvæmt því 195 stig, þannig að það þarf til þess að ná þessu marki að vera hægt að lækka kauplagsvísitöluna úr 195 stigum niður í 175. Þessu er hugsað að ná og er talið vera hægt að ná samkvæmt umsögn sérfræðinganna með því að fá launþega alla, sjómenn og bændur, iðnaðarmenn og aðra, sem taka laun fyrir sitt starf á einhvern hátt, til þess að gefa eftir sem svarar 10 vísitölustigum af sínu kaupi, eða 5.4%. Þá er talið, að hin 10 stigin muni nást með hinni almennu verðlagslækkun, sem af kauplækkuninni muni leiða. Þetta er að vísu nokkur fórn, eða virðist vera fórn a. m. k. fyrir þá, sem þetta nær til. En því er til að svara, að það er engin lausn til á þessu dæmi, sem ekki verður á einhvern hátt til þess að skerða kaupmátt launa frá því, sem nú er og það miklu meira, ef aðrar leiðir eru farnar. Það er sem sagt niðurstaðan af þeim athugunum, sem gerðar hafa verið um þetta mál, að þessi leið, sem hér er farin, sé sú, sem minnst kemur við almenning í landinu og heppilegust muni reynast til þess að ráða fram úr vandanum.

Kaupmáttur launa verður samkvæmt þessu eða með vísitölunni 175 þó hærri eða lítið eitt meiri, en kaupmáttur launa var í októbermánuði s. l. Og heildarlaunahæð í krónum árið 1959 verður, þó að þessi leið verði farin, ekki lægri, heldur örlítið hærri, en hún var hjá sömu mönnum og við sömu aðstæður 1958.

Um frv. sjálft þarf ég ekki að vera margorður. Það gerir ráð fyrir því, að allar greiðslur, sem fylgja kauplagsvísitölu, skuli eftir 1. febr. n. k. miðast við vísitölu 175 stig. Þó er gert ráð fyrir, að 1. marz og þar á eftir verði kaupið leiðrétt eftir framfærsluvísitölu, miðaðri við vísitölu 100, sem gengið verði út frá 1. marz n. k.

Í frv. eru svo ýmis ákvæði, sem skilgreina betur, hvernig frá málinu verði gengið og tel ég mig ekki þurfa að fara frekar út í það. En nýmæli tvö auk þessa aðalatriðis eru líka í frv. Annað er það, að eftir 1. marz skuli reiknað eftir nýjum vísitölugrundvelli, sem kauplagsnefnd og hagstofan hafa unnið að nú um nokkurt skeið og talið er að fylgi hinni almennu neyzlu betur, en gamli grundvöllurinn, sem er orðinn um 20 ára gamall, en eins og kunnugt er, hafa neyzluvenjur í þessu landi breytzt mjög á þessu tímabili. Ætti því þessi nýi grundvöllur undir framfærsluvísitöluna að gefa sannari mynd og réttari af neyzluskiptingunni, heldur en gamli grundvöllurinn gerir og þar með fást réttara álag á kaup, samkvæmt breytingum á verðlaginu. Hin nýmælin í frv. eru þau, að hjá bændum er tekin upp endurskoðun á vöruverði landbúnaðarins á þriggja mánaða fresti eða fjórum sinnum á ári, eins og hjá verkamönnum og öðrum launþegum, til þess að bændur fái sín laun umreiknuð í verðlagsgrundvöllinn eftir þeim breytingum, sem orðið hafa á þessu þriggja mánaða tímabili, en hafði áður verið gert einu sinni á ári.

Þetta eru nýmæli auk meginatriðisins, sem gengur í gegnum allt frv. og er eins og ég hef lýst, að allir, bæði verkamenn og aðrir launþegar, bændur, sjómenn, iðnaðarmenn og aðrir, gefi eftir 10 vísitölustig eða 5.4% af launum.

Um þetta frv. hefur verið leitað umsagnar bæði Alþýðusambands Íslands og ýmissa annarra launþegasamtaka, svo sem Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Sambands ísl. verzlunarmanna, Farmanna- og fiskimannasambands Íslands, Sambands ísl. bankamanna og Iðnnemasambands Íslands. En þessi samtök öll hafa með sér samvinnu um efnahagsmál og hafa gert nokkrar till. til breytinga á frv., eftir að þau höfðu fengið tækifæri til þess að athuga það, og hafa þær sumar hverjar verið teknar til greina, eftir því sem mögulegt hefur verið.

Alþýðusamband Íslands eða stjórn þess hefur klofnað í málinu og hefur meiri hluti stjórnarinnar samþykkt að vara við samþykkt frv. og telur fyrir því ýmis rök í sínu bréfi. En minni hlutinn telur í sinni umsögn, að þrátt fyrir yfirlýsingu síðasta þings Alþýðusambands Íslands um að stöðva við vísitölu 185 verði að telja, að þingið hafi ekki tekið afstöðu gegn þeirri leið, sem felst í umræddum till. ríkisstj., ef tryggt er, að kaupmáttur launa verði ekki rýrður frá því, sem hann var í október s. l. — og það liggur fyrir. Samkvæmt því er þess vegna umsögn minni hluta stjórnar A. S. Í. jákvæð við frv., en meiri hlutans neikvæð, og skipting meiri hluta og minni hluta er þannig, að 5 af 9 stjórnarmeðlimum A. S. Í. mynda meiri hlutann, en 4 minni hluta. Stéttarsamband bænda hefur í meginatriðum tjáð sig fylgjandi þeirri stefnu, sem í frv. felst, en hefur óskað eftir að koma á framfæri nokkrum breytingum, sem sumar hverjar hefur verið unnt að taka til greina og aðrar ekki. Bandalag starfsmanna ríkis og bæja hefur líka látið í té umsögn um málið og verður að telja hana jákvæða fyrir afgreiðslu frv. í meginatriðum. Samband ísl. verzlunarmanna hefur í sínu bréfi lýst yfir, að það telji, að niðurfærsluleiðin, sem hér er farið fram á að framkvæma, hafi ótvíræða kosti fram yfir ýmsar aðrar leiðir, sem farnar hafa verið í þessu skyni á undanförnum árum. Farmanna- og fiskimannasamband Íslands hefur sent mér umsögn sína rétt á þessari stundu, þannig að ég hef ekki fengið tækifæri til að yfirfara hana gaumgæfilega, en það segir í þessari umsögn, að sambandið sé samþykkt stöðvun verðbólgunnar, en telur sig ekki geta tekið afstöðu til málsins í heild að öðru leyti, og er það nokkuð óljós afstaða að vísu.

Ég veit ekki, hvort það er ástæða til eftir allar þær umr., bæði í útvarpi og á venjulegan hátt, sem fram hafa farið um málið, að ég sé hér að rekja það nákvæmlega. Þetta, sem ég hef nú greint frá, eru aðalefnisatriði málsins.

Í heild má segja, að til lausnar á þessum vanda, sem hér er við að glíma, sé ekki margra góðra kosta völ, en ég tel — og það telur ríkisstj. öll, að þessi leið, sem hér er bent á að fara, sé sú skásta af þeim, sem komið hafa til greina.

Eins og hv. þdm er kunnugt, er gildistaka frv. miðuð við 1. næsta mánaðar, 1. febr., og væri af því mikið tjón, ef ekki næðist að afgreiða málið fyrir þann tíma. Ég bendi t. d. á, að ef þetta frv. hefði verið tilbúið 1. jan. í staðinn fyrir 1. febr., þá hefði mátt spara útflutningssjóði útgjöld til útvegsins, sem námu um 7 millj. kr., og ég efast ekki um, að ef afgreiðsla þess dregst fram yfir 1. n. m., þá muni það skapa miklu meiri útgjöld, vegna þess að aflinn í þeim mánuði verður væntanlega meiri, en janúaraflinn, svo að útgjöld útflutningssjóðs vegna núverandi vísitölu í stað vísitölu 175 mundu verða miklu meiri en þau, sem bæta þyrfti fyrir janúarmánuð.

Ég vildi þess vegna leyfa mér að óska eftir því við hæstv. forseta þessarar d., að hann leitaðist við að flýta afgreiðslu þessa máls svo sem frekast eru föng á og svo, að heildarafgreiðsla þess fyrir 1. febr. yrði tryggð. Ég vil líka benda á í því sambandi, að ég fór fram á það við hæstv. forseta Nd., að hann leitaði eftir því við fjhn. þessarar hv. d., að hún sæti fundi með fjhn. Nd., þegar hún athugaði málið og ætti þess vegna að vera fyrir hv. fjhn. þessarar d. auðleystara og fljótara að ganga frá málinu heldur en ella.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að óska eftir því, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til hv. fjhn.