29.12.1958
Neðri deild: 47. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1958 í B-deild Alþingistíðinda. (2383)

Stjórnarskipti

Forsrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Um þessi tvö atriði, sem hv. 1. þm. S-M. ræddi hér, skal ég aðelns segja þetta:

Hv. þm. sagði, að ekki hefði verið reynt að mynda allra flokka stjórn. Út af fyrir sig má kannske segja, að það hafi ekki verið gert formlega. En fyrir lágu í þessum samtölum alveg ákveðin ummæli frá talsmönnum Sjálfstfl., hv. þm. G-K. og hv. 1. þm. Reykv., um, að þeirra samstarf um nokkra stjórn væri bundið því skilyrði, að kjördæmamálið yrði afgreitt nú í vor og kosningar færu fram í vor. Og af hálfu fulltrúa Framsfl., þeirra hv. þm. Str. og hv. 1. þm. S–M., lá fyrir jafnákveðið, að þeir gætu ekki hugsað sér neitt stjórnarsamstarf, nema því aðeins að afgreiðslu kjördæmamálsins og kosningum yrði frestað til ársins 1960. Þegar af þessari ástæðu virtist mér alveg ljóst, að um þjóðstjórn eða samstjórn allra flokka gæti ekki verið að ræða, þar sem þessi tvö sjónarmið voru alls ósamrýmanleg.

Um afgreiðslu vandasamra mála með kosningar yfirvofandi skal ég ekki fjölyrða mikið. Hv. þm. vildi telja líklegt, að afgreiðsla þessara mála undir slíkum kringumstæðum mundi bera nokkurn keim af þeim kosningum, sem yfirvofandi væru. En ég vil í lengstu lög ekki trúa því, að menn vilji ekki, eða svo að ég segi það hreint út: þori ekki að taka ábyrga og eðlilega afstöðu til máls, þó að kosningar séu fram undan.