29.01.1959
Efri deild: 59. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 402 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

87. mál, niðurfærsla verðlags og launa o. fl.

Björn Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. lauk ræðu sinni með því að segja, að þeir mundu þurfa að svara til saka, sem hefðu svipaðar skoðanir á þessu máli og ég og væru að reyna að telja fólki trú um, að í þessu frv. fælist raunveruleg kjaraskerðing. Hæstv. forsrh. viðhafði einu sinni þau ummæli í öðru sambandi, að kauphækkanir væru glæpur. Það eru nokkuð mörg ár síðan, og verkalýðssamtökin í landinu hafa síðan á hverju ári verið að fremja þennan glæp að dómi hæstv. ráðh., og ég geri ráð fyrir því, að þau muni halda því áfram, þegar þau telja það hagsmunum sínum nauðsynlegt.

Það er ekki rétt, að ég eða mínir flokksbræður hafi á nokkurn hátt reynt að afflytja þetta frv., heldur þvert á móti. Við höfum reynt að segja fólki sannleikann um það og það verður þá sjálft að dæma eftir því, hvernig það lítur á málin. Hvorki ég né hæstv. ráðh. mun ráða miklu um það, hver verða viðbrögð manna í þessu efni eða hvaða tökum þeir taka þær aðgerðir, sem hér eru á ferðinni. Það verður fólkið sjálft, sem svarar fyrir sig.

Ég var að frétta það núna rétt áðan, að Félag járniðnaðarmanna í Reykjavík hefði tekið þetta mál fyrir á fundi sínum í gær og þar voru ekki bara samþykkt mótmæli gegn þessu frv., heldur einróma mótmæli. Það fannst enginn járnsmiður í Reykjavík, sem vildi ljá þessu frv. fylgi sitt og ég ætla, að þessi samþykkt og þessi afstaða félagsins, sem áreiðanlega er með þroskuðustu verkalýðsfélögum í landinu, muni spá nokkru um það, hvernig framtíðin verður í þessi efni.

Sannleikurinn er sá, að hver sem óskhyggja hæstv. forsrh. er í þessu efni, þá er þetta frv. óframkvæmanlegt. Það er ekki hægt að koma fram þessari kjaraskerðingu, sem hér er um að ræða, vegna þess að verkalýðshreyfingin í landinu hefur of góðan skilning á málefnum sínum og er of sterk til þess, að hún muni þola hana. Og það mun hvorki þurfa eggjunarorð frá minni hálfu né annarra til þess, að hún beiti sínum ráðum í samræmi við skoðanir sínar.

Það kom fram hjá forsrh. og hefur reyndar komið margsinnis fram í umr. þeirra ríkisstjórnarmanna um þessi mál og síðast í útvarpinu í gærkvöld, að þeir miða afleiðingar þessa frv. við það, sem hefði orðið, ef ekkert hefði verið aðhafzt. Nú er það svo, að allir stjórnmálaflokkarnir í landinu hafa lýst yfir ákveðinni stefnu um það, hvernig eigi að leysa þetta mál og þeir eru allir sammála um eitt atriði eða voru a. m. k. allir sammála um eitt atriði, það, að stöðva bæri verðbólguna við 185 stig, þangað til hæstv. ríkisstj. Alþfl. fann það allt í einu upp, að það mundi vera miklu betra, að stöðva hana við 175.

Þegar þess vegna er verið að dæma um leiðir í þessu efni, þá ber vitanlega að miða við aðrar leiðir, sem á hefur verið bent, því að enginn, bókstaflega enginn, hefur haldið því fram, að ekki bæri að stöðva verðbólguna. Og það er vitanlega við þetta, sem kjaraskerðingin verður að miðast, en ekki við það, sem yrði, ef ekkert yrði aðhafzt. Þarna er um grundvallarhugsanavillu að ræða í sambandi við allan rökstuðninginn fyrir málinu.

Hæstv. forsrh. þóttist hafa á því betri þekkingu en ég og má það vera, hvaða aðferðum hafi verið beitt í sjómannafélögunum, til þess að fá þennan samning samþykktan með skilningi ríkisstj. Ég hef þó góðar heimildir varðandi sjómannafélagið á Ísafirði, sem mun hafa verið eitt fyrsta félagið, sem samþykkti samningana, að þeir hafa lýst því yfir þar, forustumenn sjómannafélagsins, að þeir hefðu aldrei látið sér koma til hugar að samþykkja samninginn, ef þeir hefðu vitað, hvernig skilningur ríkisstj. var á fyrirvaranum.

Í Hafnarfirði hafði verið boðuð allsherjaratkvgr. um samningana, en á síðustu stundu setja bæði Alþfl. þar og Sjálfstfl. af stað pólitíska smölun í félaginu og nota meirihlutavald sitt í stjórn þess til þess að rifta ákvörðun um allsherjaratkvæðagreiðslu og boða til fundar í skyndi, þar sem samningurinn var samþykktur með eins atkvæðis meiri hluta.

Hv. 4. þm. Reykv. (EggÞ) var eitthvað að tala um notkun á lýðræðinu í sinni ræðu. Ég man nú ekki vel, í hvaða sambandi það var, en þetta mun líklega vera sú notkun, sem hann telur í beztu samræmi við sínar hugmyndir.

Þá vildi hæstv. forsrh. halda því fram, að sjómönnum í Vestmannaeyjum hefði ekki tekizt að hindra kjaraskerðingar, að kjaraskerðingarákvæðin bitnuðu á þeim og taldi, að samningar þeirra hefðu verið svo miklu verri á undanförnum árum en annars staðar, að þeir hefðu bara fengið fram leiðréttingar. Ég skal nú ekki deila um þetta atriði við hæstv. ráðh., en það hefur þó verið hald manna hingað til, að sjómannakjörin í Vestmannaeyjum væru meðal þeirra beztu á landinu. En hitt er staðreynd, að sjómannafélagið í Vestmannaeyjum var reiðubúið að semja án þessara breytinga, sem metnar voru 8–9 aurar á kg, ef kjaraskerðingarákvæðin giltu ekki fyrir félagið og þeir fengju að halda sínu fiskverði, þannig að það er óumdeilanlegt, að sjómennirnir í Vestmannaeyjum fengu sem svarar 8–9 aura hækkun á fiskkíló eingöngu vegna þess, að þeir vissu um fyrirætlanir ríkisstj., en þessi hækkun mun vera nálægt því að vega upp á móti skerðingarákvæðum frv.

Ég ætla þá, að ég hafi í aðalatriðum svarað aths. hæstv. forsrh. og vildi þá fara örfáum orðum um ræðu hv. 4. þm. Reykv., þó að ég muni að verulegu leyti geyma það þangað til síðar að taka til athugunar afstöðu hans og minni hl. í miðstjórn Alþýðusambands Íslands til þessa máls og þessara mála fyrr og síðar.

Það er út af fyrir sig mjög nýstárleg og athyglisverð aðferð hjá minni hl. í einum samtökum og hjá viðsemjendum við verkalýðssamtökin að fara að semja við minni hl. og taka hann til greina, en gera hins vegar ekkert með það, sem meiri hl. hefur fram að bera. Þetta er bæði nýstárleg aðferð frá hendi minni hl., að neita að sætta sig við þá afstöðu, sem tekin er á lýðræðislegan hátt og það er líka athyglisverð aðferð frá hendi þeirra, sem þarna þykjast vera að semja við viðkomandi samtök eða leita þeirra álits.

Hitt er svo aftur annað mál, að hæstv. ríkisstj. hefur komið þannig fram gagnvart þessum mönnum, sem hafa reynzt henni eins og hlýðin hjú, að þeir taka nálega ekkert mark á því, sem þeir segja. Það er aftur annar kapítuli í málinu.

Minni hl. í miðstjórn Alþýðusambands Íslands gerði það að skilyrði fyrir stuðningi sínum við frv., að fjár til niðurgreiðslunnar yrði aflað með niðurskurði á fjárl. Nú er það upplýst, að niðurgreiðslurnar eru a. m. k. um 100 millj. kr., en hæstv. forsrh. hefur ekki ýjað í þá átt, að það verði tekið meira með niðurskurði heldur en 40 millj. og eins og ég gat um í frumræðu minni, þá hefur sá flokkurinn, sem öllu ræður um þetta, lýst því yfir, að hann muni ekki leyfa svo til neinn niðurskurð. Þetta var fyrsta skilyrðið, sem þessi minni hl., sem virðist álíta, að hann hefði eitthvert vald til þess að semja um þessi mál fyrir verkalýðssamtökin, setti og vitanlega var ekki orðið við því.

Sama er að segja um frestun á fjárfestingarframkvæmdum. Það eru engin líkindi til þess, að við þeim óskum verði orðið, og a. m. k. er engin trygging fyrir því, að svo verði.

Þess var krafizt, að tekjuafgangur ríkissjóðs yrði notaður í þessar þarfir, sem ríkisstj. hefur skuldbundið sig til að svara. Jú, það hefur verið talað um, að 20 millj. yrðu teknar af 60 eða 70 millj.

Þá er það skilyrði, sem er nú frekar spaugilegt, að niðurgreiðslurnar verði það miklar, að öruggt sé, að vísitalan 1. marz verði aðeins 202. Ég held, að þetta sé eiginlega það eina, sem er alveg tryggt í sjálfu frv. að verði gert, vegna þess að kjaraskerðingarráðstafanirnar koma ekki að neinu haldi fyrir hæstv. ríkisstj. og fyrir atvinnurekendur og aðra, sem á henni eiga að græða, nema þetta verði gert. En hitt datt þessum minni hluta ekki í hug, að setja það skilyrði, að niðurgreiðslunum yrði haldið áfram allan tímann til 1. sept. Það datt honum ekki í hug, vegna þess að það getur kostað peninga að standa við það loforð og það hefði getað tryggt það, að kjaraskerðingin hefði orðið minni þetta tímabil, en hún verður, ef ríkisstj. greiðir vöruverð ekki niður allan tímann. Um það skal ég ekkert fullyrða, hvort svo verður eða ekki, en fyrir því er a. m. k. engin trygging í frv. Þar höfum við ekkert annað en orð ríkisstj., sem er nú ekki sterkari á svellinu en það, að enginn veit hennar endadægur, hvort það ber að á morgun eða hinn daginn.

Jú, það er rétt, að minni hl. fékk þá breytingu á frv., að atvinnuleysistryggingarnar mættu hækka bætur á sama hátt og aðrar tryggingar og þetta er náttúrlega sjálfsögð breyting. En þá einu aths. er við þetta að gera, að þetta er sjóður, sem verkalýðshreyfingin á sjálf og borgar sjálf allar bætur úr, svo að það verður ekki hægt að telja það sérstaka skrautfjöður í hatti hæstv. ríkisstj., þótt hún yrði við þessum tilmælum.

Þá fór minni hl. fram á það, að kjaraskerðingarákvæði 2. málsgr. 6. gr. þessa frv., sem eru áreiðanlega mjög veruleg, þótt ekki hafi mikið verið rædd hér, yrðu felld niður, þ. e. a. s. það ákvæði, að vísitöluuppbót á laun verkamanna, sem stafar af hækkun á afurðaverði, sem leitt hefur af vísitöluuppbótum launþega, komi ekki til útborgunar. Ég held, að það sé alveg fullkomin ástæða til þess að athuga þetta atriði sérstaklega.

Það var komið svo 1956, þegar verðfestingarlögin voru sett, að bilið á milli launa og landbúnaðarvöruverðs var orðið mjög mikið af þessum sökum, vegna þess að þetta ákvæði var þá í gildi, en það mun upphaflega hafa verið í gengisskráningarlögunum 1950. Sú hækkun á landbúnaðarvörum, sem átti að verða 1. sept. 1956 um 11.4%, hefði ekki fengizt uppi borin svo til að neinu leyti vegna þessa ákvæðis, þó að verkamenn hefðu ekki fallið frá neinum vísitölustigum, vegna þess að þessi hækkun var fyrst og fremst vegna verðlagsbóta, sem launþegar höfðu fengið og þessi staðreynd var ein af meginástæðunum fyrir því, að launþegasamtökin samþykktu verðstöðvunarlögin 1956, um 11.4%, hefði ekki fengizt uppi borin þetta bil á ný, svo framarlega sem vísitalan fer hækkandi og ég gæti vel trúað því, að þróunin yrði þannig, að þetta gæti munað fjölda vísitölustiga, áður en langt um líður. En ábending minni hl. Alþýðusambandsstjórnar varðandi þetta var ekki tekin til greina, vegna þess að hún þýddi eitthvað, hún þýddi eitthvað fyrir launamenn.

Þá er það um nýju vísitöluna. Ég skal ekki á þessu stigi neitt dæma um það, hvort það er til bóta eða ekki að taka upp hina nýju vísitölu. Um það eru mjög skiptar skoðanir í verkalýðshreyfingunni og einmitt hjá þeim mönnum í samtökunum, sem mest hafa kynnt sér það mál. En hinu verður þó ekki á móti mælt, að það er samningsákvæði milli hvers einasta verkalýðsfélags í landinu og atvinnurekenda, eftir hvaða reglum vísitöluuppbót verði greidd og það er vitanlega hvers einstaks félags og þeirra atvinnurekenda, sem við það gera samninga, að meta það, eftir hvaða aðferðum þessi vísitala verði greidd. En ég verð að segja, að það hefði þó a. m. k. verið viðkunnanlegra fyrir minni hl. í Alþýðusambandsstjórninni að ganga svoleiðis frá þessu atriði, að ekki væri beint og sýnilegt tjón af, sem það þó er, þó að kannske sé ekki í mjög stórum atriðum. En það er nú svo með fleira í þessu frv., að um það má segja, að lítið dragi vesalan, en þarna er það sem sagt ákveðið í síðustu málsgrein viðkomandi greinar, að hálft vísitölustig skuli falla niður. Það er í hverjum einasta samningi hvers einasta verkalýðsfélags í landinu ákvæði um það, að hálft stig skuli hækkað. Þessi eina breyting telst mér til að geti þýtt a. m. k. 500–600 kr. fyrir verkamenn á ári. Þar sem eitt stig í hinni nýju vísitölu jafngildir alltaf tveim vísitölustigum í þeirri gömlu, þá getur sýnilega skakkað þarna um eitt stig á þessu.

Þá setti minni hl. enn það skilyrði, að þess yrði gætt, að við álagningu útsvara yrði miðað við vísitölu 175. Ég hef nú sjaldan heyrt öllu broslegra skilyrði en þetta. Eins og það sé ekki sjálfgert, að hvert einasta bæjarfélag í landinu muni reikna með þeirri vísitölu, sem er lögbundin yfir árið. Það hefði verið eitthvað raunhæft í málinu, ef það skilyrði hefði verið sett, að útsvörin ættu að lækka hlutfallslega við launin. Það hefði verið eitthvert vit í því fyrir launamenn, ef slík ákvæði hefðu verið sett. En ég ætla t. d., að það verði lítil huggun fyrir launamenn í Reykjavík, sem fá á sig a. m. k. 30 millj. kr. útsvarshækkun, þó að borgarstjórinn í Rvík geti skýrt frá því, að það sé reiknað með vísitölunni 175. Ég ætla, að útsvörin komi jafnhart niður á menn fyrir því.

Ég ætla svo ekki að fara út í öllu fleira af því, sem hv. 4. þm. sagði, a. m. k. ekki á þessu stigi málsins, það gefst ef til vill tækifæri til þess að ræða við hann eitthvað nánar síðar um ýmis atriði í þessu sambandi. Aðeins vil ég segja það, að óneitanlega hefði ég getað kosið varaforseta Alþýðusambands Íslands betra hlutskipti, en að standa hér uppi á Alþingi til þess að verja þetta frumvarp.