20.04.1959
Sameinað þing: 41. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 658 í B-deild Alþingistíðinda. (398)

1. mál, fjárlög 1959

Utanr.- og fjmrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson) [frh.]:

Herra forseti. Er fundarhléið var gefið, var ég að ljúka við að gera grein fyrir tillögum um fjárveitingar til viðhalds þjóðvega. Ég kem þá næst að ræða nokkuð um skipaútgerðina. Lagt er til, að fjárveiting til hennar sé lækkuð um 6 millj. kr. Eins og áður hefur verið fram tekið, byggist þessi lækkun á því, að skipaútgerðin þurfti ekki á 4 millj. kr. að halda á s. l. ári af þeirri fjárveitingu, sem henni var ætluð. Fékk skipaútgerðin þó ekki þá tekjuhækkun, sem henni var veitt, fyrr en í septembermánuði s. l., þannig að hún naut ekki þess tekjuauka nema mjög óverulegan hluta af árinu. Auk þess er þessi till. byggð á því að, að undanförnu hefur skipaútgerðin greitt yfir 3 millj. kr. í tryggingariðgjöld af skipum sínum. Um áramótin voru skipin tekin úr tryggingu, vegna þess að reynslan hafði sýnt, að kostnaður vátryggingarfélaga við viðgerðir á skipunum var ekki nema tiltölulega lítill hluti af iðgjaldinu og þótti því borga sig betur að taka skipin úr tryggingu. Að sjálfsögðu fylgir þessu nokkur áhætta, en þetta er þó sá háttur, sem víða er á hafður hjá þeim, sem mörg skip eiga, að þeim þykir heppilegra að hafa þau í eigin tryggingu. Með tilliti til þessa held ég, að áætlunin um skipaútgerðina verði að teljast eðlileg.

Hv. þm. S-Þ. sagðist telja það mjög óráðdeildarlegt af ríkisstj. að hafa tekið skipin úr tryggingunum og hann gat þess um leið, að hann tæki forstjóra skipaútgerðarinnar mjög trúanlegan og vildi fara eftir hans tillögum. Hann gat þess að vísu í sambandi við annað, en þetta sýndi þó þá trú, sem hann hefur á forstjóranum. Nú get ég upplýst þennan hv. þm. um það, að skipin voru úr tryggingu tekin samkv. till. forstjórans, og vænti ég, að þessi þm. breyti því snarlega um skoðun um þetta atriði, ef hann ætlar að halda sinni trú á forstjóranum.

Hv. þm. S-Þ. ræddi mikið um niðurskurðar- og sparnaðarliði ríkisstj. og það var alveg sama, hvert hann leit og hvar hann gætti að, hann sá aldrei og hvergi nokkurn skapaðan hlut, sem hægt var að spara. Hvergi var hægt að færa neitt niður, öllu var svo vel í hóf stillt, að lengra varð ekki komizt niður á við.

Það kann að vera, að þetta sé raunverulega skoðun þessa hv. þm. En illa trúi ég því, að sveitungar hans í Suður-Þingeyjarsýslu séu honum sammála um það, að svo vel og sparlega sé haldið á fjármálum ríkisins, að þar megi hvergi neitt spara. Ég hygg, að hans sveitungar gætu e. t. v. bent honum á einhvern llð í ríkisbákninu, sem mætti niður fær, og einhverja hluti, sem eitthvað mætti spara á og verð ég sannast að segja að halda, eftir að ég hlustaði á ræðu hv. þm. S-Þ. hér áðan, að honum veitti ekki af slíkum ábendingum, því að hvergi sá hann neitt sjálfur. Hann minntist auk þeirra liða, sem ég hef talað um hér áður, sérstaklega á nokkra, sem ég vil víkja að.

Hann talaði um það, að lagt er til, að felldar séu niður úr fjárlagafrv. 2 millj., sem veittar eru til kaupa á jarðræktarvélum. Það hefur komið fram í umr., að fyrir nokkrum árum voru sett lög um þessi vélakaup. Var þar ákveðið, að verja skyldi 6 millj. kr. til vélakaupanna og þær veittar úr ríkissjóði á þremur árum með 2 millj. kr. árlega. Á s. l. ári var lokið við þessar fjárveitingar. Þær voru þá að fullu veittar og fullu greiddar, en ekki var notaður af þeim á síðasta ári nema tæpur helmingur og er 1.2 millj. kr. geymd hjá ríkissjóði. Þm. minntist á, að það hefði ekki verið hugmyndin, að þessar fjárveitingar skyldu niður falla, þegar þessi þriggja ára tími, sem lögin ákváðu, væri liðinn. Ég hygg, að þetta sé einhver misskilningur hjá þessum hv. þm., því að ég veit ekki betur en það væri einmitt gert ráð fyrir því, þegar lögin voru sett, að þau væru sérstaklega miðuð við þennan tíma og engu slegið föstu um það, hvað skyldi gerast að honum loknum.

Þá minntist hann á tollgæzluna utan Reykjavíkur og taldi, að þar væri ekkert hægt að spara. Fjárveiting á s. l. ári í þessu skyni var 1.7 millj. kr. eða rösklega það, en frv. gerir ráð fyrir nú, að í þetta sé veitt 2 millj. 55 þús. kr. Á allra seinustu tímum hefur tollþjónum verið fjölgað talsvert úti á landi, og þeir, sem skyn bera á tollgæzlu og þarfir í þeim efnum, geta ekki almennilega áttað sig á, hvað sumir af þessum tollþjónum geta verið að gera, með hliðsjón af því, hvar þeir eru staðsettir. Við tollgæzlu virðist þeirra ekki þörf og virðist eðlilegt og sjálfsagt að spara á þessum lið. Það er að vísu rétt, að sumum af þessum mönnum þarf að segja upp með fyrirvara, en alls ekki öllum og hefur fjmrn. þegar í undirbúningi aðgerðir í þeim efnum.

Þá hefur verið minnzt hér á atvinnuaukningarféð og það átalið, að lagt er til að færa það niður um 3½ millj. kr. Ég vil ekki draga í efa þörf á fjárveitingu í þessu skyni og veit, að hún hefur komið að miklu gagni, þangað sem hún hefur verið veitt, hvað sem um þá veitingu er nú yfirleitt að segja. En við þetta er þó að athuga, að nú er farið að veita lán úr atvinnuleysistryggingasjóði í mjög stórum stíl. Þar er um það verulegar fjárhæðir að ræða, að þær geta komið a. m. k. að einhverju leyti til þess að bæta upp, þó að dregið verði úr atvinnuaukningarfénu.

Þá hefur hér verið minnzt á það, að 5% niðurskurðurinn á að taka til jarðræktarstyrkjanna og þetta talið fráleitt, vegna þess að þeir eru bundnir með lögum. Það er rétt. Greiðsla jarðræktarstyrkja er ákveðin í lögum og fer eftir ákveðnum reglum. Fé það, sem greitt verður í þessu skyni á árinu 1959, er veitt fyrir jarðarbætur unnar á árinu 1958. Á árinu 1958 var greidd rösklega 21 millj. kr. fyrir jarðarbætur unnar 1957 og mér er svo frá skýrt, að jarðarbæturnar 1958 hafi sízt verið meiri en 1957, þannig að á árinu 1959 á ekki að vera þörf hærri fjárveitingar í þetta en það, sem notað var á s. l. ári. Þarna mætti því jafnvel koma til meiri niðurfærsla en þessum 5% nemur, þannig að hægt verði að standa að fullu við allar þær skuldbindingar, sem á ríkissjóði hvíla lögum samkvæmt.

Þá hefur loks nokkuð verið rætt um það, að lagt er til að fella fjárveitingu út úr fjárlagafrv. til stjórnarráðshúss, 1 millj. kr. Það hefur verið minnzt á það hér, að leiga sú, sem ríkið borgar fyrir sínar skrifstofur í bænum, sé það mikil, að það megi ekki dragast að koma stjórnarráðshúsinu upp og þess vegna megi þessi fjárveiting ekki niður falla. Ég skal sízt af öllu gera lítið úr þeirri þörf, sem er hér orðin á byggingu stjórnarráðshúss. Hún er brýn og hún er mikil. En við þetta er það að athuga, að nú eru til í sjóði til þessara framkvæmda 8 millj. kr. eða ríflega það.

Þessir peningar liggja ónotaðir og ég hygg, að það lægi langtum beinna við að hefja nú hið allra fyrsta byggingu á stjórnarráðshúsi, til þess að það kæmist upp, eins fljótt og hægt væri og það er áreiðanlegt, að þó að þessi fjárveiting falli niður nú og hægt væri á þessu ári að byrja á byggingunni, þá mun það ekki tefja framkvæmdirnar hið allra minnsta.

Dálítið fannst mér það koma úr óeðlilegri átt, þegar hv. 1. þm. S-M. var að hneykslast mjög á því, að þessi fjárveiting skyldi látin niður falla og byggingu stjórnarráðshúss ekki hrundið í framkvæmd hið fyrsta. Hann hefur nú sjálfur haft um allmörg ár möguleika á því að hrinda þessari byggingu í framkvæmd, hann hefur haft góðar fjárfúlgur til að byrja þá starfsemi og komast vel á veg með hana, hann hefur haft síðasta árið 8 millj., talið er, að byggingin kosti öll röskar 12 millj. kr., þannig að vel hefði hann getað byrjað á þessari byggingu og hafið þannig þann sparnað, sem ríkissjóði er þörf á, í sambandi við húsaleiguna. Og það má minna á, að ekki hefur alltaf verið passað eins vel upp á og skyldi, að ríkissjóður og ríkisstofnanir kæmu yfir sig húsnæði til þess að þurfa ekki að leigja hjá öðrum og hafa þannig af því stór útgjöld. Það er t. d. svipað, að Áfengisverzlun ríkisins á stórar fjárhæðir í byggingarsjóði. Hún hefur mikla þörf á því að byggja yfir sig sjálf og borgar stórar leigur og hefur af því mikil útgjöld. En ég veit ekki betur, en að þessum sjóði hafi að verulegu leyti verið varið til þess að lána prívatmönnum hann, svo að þeir gætu byggt og síðan leigt Áfengisverzlun ríkisins og étið sjóðinn upp. Það er líka vitað um útvarpið. Það á stóra sjóði, það hefur mikla þörf fyrir húsnæði og er í stórkostlegum húsnæðisvandræðum. Byggingarsjóður útvarpsins hefur verið lánaður öðrum og útvarpið verður að leigja og éta sína sjóði upp. Mér finnst, að þeir, sem hafa farið þannig með byggingarsjóði opinberra stofnana, ættu ekki að vera að deila á okkur, þó að við á þessu ári viljum spara þessa milljón í húsbyggingarsjóð stjórnarráðsins, þar sem vitað er, að nægt fé er fyrir hendi til þess að ráðast í bygginguna þegar í stað og halda látlaust áfram þetta ár og fram á það næsta, án þess að á þeirri millj. kr. þurfi að halda, sem hér er verið að fella niður.

Ég hef þá gert nokkra grein fyrir þeim tillögum til lækkunar, sem hér hafa verið bornar fram og athugasemdir hafa verið gerðar við: Virðast mér allar þær athugasemdir, sem fram hafa komið, vera hinar ósanngjörnustu og óeðlilegustu og till. þær til niðurfærslna, sem bornar hafa verið fram, í alla staði eðlilegar og raunhæfar.

Ég ætla þá aðeins að víkja nokkrum orðum að þeirri till., sem hv. 2. minni hl. fjvn. hefur borið hér fram um niðurfærslu á útgjaldahlið fjárlaganna.

Ég get tekið undir það með tillögumanni, að í rekstri sjálfs ríkisins og stofnana þess má spara mikið og stórar fjárhæðir, og á þetta vissulega við margar af þeim greinum, sem nefndar eru í hans till. hér. Hitt er annað mál, að það tekur talsvert mikinn undirbúning og talsverða vinnu að koma á þeim breyt., sem nauðsynlegar eru, til þess að slíkar niðurfærslur geti komizt í framkvæmd. Sá tími, sem núv. ríkisstj. hefur haft til umráða og hefur til umráða, er það takmarkaður, að það er með öllu vonlaust fyrir hana að gera þær breyt. þannig, að raunhæfar verði. En af þeirri reynslu og þeim kynnum, sem ég hef haft af þessum hlutum, þá er það sannfæring mín, að mikið megi niður færa og mikið megi spara í ríkisbákninu. Það hefur verið minnzt á utanríkismálin í þessu sambandi og minnzt á fækkun sendiráða. Á það atriði var líka minnzt í fyrrv. ríkisstjórn. Ég benti á það, að sú samfærsla og sá sparnaður, sem mér finnst að þar liggi beinast við og nauðsynlegt er að koma á, sé samfærsla hinna tveggja sendiráða, sem við höfum í París. Sú samfærsla er nauðsynleg, hún er sjálfsögð. En til þess að hún geti orðið raunveruleg og einhver sparnaður að henni, þarf að gera vissar ráðstafanir, sem þegar eru í undirbúningi og athugun hjá ríkisstj. En á meðan það mál er ekki lengra á veg komið en nú er, mundi vera óraunhæft að færa niður útgjöld fjárlaga í sambandi við það.

Um aðra einstaka liði í þessum till. held ég að ekki sé ástæða til að ræða umfram það, sem fram hefur komið í ræðu minni hér á undan.

Hv. 1. þm. S-M. ræddi nokkuð um fjárlögin í heild og afkomu útflutningssjóðs og fannst allar þær aðgerðir, sem hér hafa verið uppi hafðar, mjög óraunverulegar, bæði að því er varðar fjárlögin og útflutningssjóð. Hann spurði um það, hvað stjórnarflokkarnir ætluðu sér að gera í haust að því er varðar útflutningssjóðinn. Þá mundi hann áreiðanlega vanta miklar tekjur, ef unnt ætti að vera að halda framleiðsluatvinnuvegunum gangandi. Þessi hv. þm. sagði líka. Það verður ekki hægt að láta í haust eins og menn sjái ekki halla útflutningssjóðs. — Það er alveg rétt, að ef halli er á útflutningssjóði, þá er ekki hægt að láta eins og maður sjái hann ekki, frekar en ef halli er á fjárlögunum. Og þessi hv. þm. sagði líka: Það er ekki hægt að falsa fjárlög nema einu sinni. — Allt þetta sagði hann og allt eru þetta mjög réttar og skynsamlegar hugleiðingar. En hvað gerði hann, hvað gerði þessi hv. þm.? Það er fróðlegt að athuga það. Hann stendur hér að nál. og tillögum, sem fram hafa verið bornar af flokksbræðrum hans, hv. 3. minni hl. fjvn. Þessar till. eiga að vera lausn á fjárlögum og efnahagsmálunum í heild. Og hvernig ætlar hann að leysa þau? Það er sáralítið, sem hann telur að eigi að hækka tekjuáætlunina. Það má taka tillit til hækkana á áfengi og tóbaki. Engu öðru vilja þeir bæta við að því er tekjurnar varðar. Þeir vilja ekkert skera niður, þeir vilja ekki láta taka greiðsluafganginn frá árinu 1958 og samt ætla þeir að láta endana ná saman, samt á enginn halli að vera á neinu. En hvernig gera þeir það? Þeir fella bara alveg niður allar fjárveitingar í sambandi við framleiðsluatvinnuvegina. Þeir strika bara með einu litlu pennastriki út þær 154 millj., sem eru það minnsta, sem framleiðsluatvinnuvegirnir verða að fá, til þess að hægt sé að halda þeim gangandi. Allt þetta vilja þeir bara strika út, öllu þessu vilja þeir sleppa. Og svo koma þessir heiðursmenn hér og segja: Það verður ekki hægt að láta í haust eins og menn sjái ekki halla á útflutningssjóði. — Það getur verið, að hann verði orðinn það stór, hallinn, einhvern tíma áður, en langt um líður, að hv. 3. minni hl. fjvn. sjái hann. En ég vil spyrja: Hvað þarf þessi halli að verða stór til þess að sjá hann, úr því að þeir sjá ekki 154 millj.? En umfram allt finnst mér, að þeir, sem að slíkum tillögum standa, ættu ekki að vera að tala um ábyrgðarleysi af öðrum og ekki vera að tala um, að aðrir séu að falsa fjárlög eða tekjuáætlanir í sambandi við útflutningssjóð.

Ég hef þá gert grein fyrir þeim atriðum í þessu máli, sem ég sé ástæðu til að víkja að. Ég vil að lokum taka fram, að þegar núv. ríkisstj. var mynduð, tók hún sér fyrir hendur að vinna það verk að stöðva verðbólguna, ráða fram úr erfiðleikum framleiðsluatvinnuveganna og það án þess að leggja nýja skatta á almenning. Við þetta hefur ríkisstj. staðið. Hún hefur stöðvað vöxt verðbólgunnar og fært hana niður. Hún hefur gert þetta án þess að leggja nýja skatta á almenning. Hún hefur gert það með því að skera niður útgjöld ríkisins og hækka verðlag á áfengi og tóbaki auk annarra hliðstæðra ráðstafana.