28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 803 í B-deild Alþingistíðinda. (441)

1. mál, fjárlög 1959

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja brtt. við 16. gr. fjárlaganna, A. 53. d., þ. e. sauðfjársjúkdómavarnir, nýjar girðingar, að fyrir 400 þús. komi 440 þús.

Fyrir skömmu gerðist sá válegi atburður, að mæðiveiki reyndist upp komin í Reykhólasveit í Barðastrandarsýslu vestan sauðfjárveikigirðingar. Samkv. skýrslu Guðmundar Gíslasonar læknis til sauðfjársjúkdómanefndar hefur mæðiveiki fundizt í 13 kindum á fjórum bæjum á Reykjanesi í Reykhólasveit. Milli Berufjarðar í Reykhólasveit og Klettháls í Múlahreppi hefur verið svokallað öryggishólf. Þetta öryggishólf hefur takmarkazt af girðingum að austan og vestan. Það var upphaflega hugsað sem vörn gegn því, að mæðiveiki bærist til vesturhluta Vestfjarða, þ. e. til þeirra héraða, sem bjargað hafa sauðfjárrækt ýmissa landsmanna með sölu líflamba. Nú er þetta ekki lengur öryggishólf, því að mæðiveikin, sem kom upp á Reykjanesi, er einmitt í þessu hólfi.

Sauðfjársjúkdómanefnd er nú að undirbúa varnarráðstafanir vegna þessara atburða. Að sjálfsögðu verða þessar varnarráðstafanir m. a. fólgnar í nýjum girðingum, sem þarf að koma upp. Það hafa komið fram nú þegar 3 till. um varnarlínur: Sú fyrsta að girða af Reykhólasveit vestan Berufjarðargirðingar. Í öðru lagi að tvöfalda girðinguna úr Kollafirði í Ísafjörð. Og í þriðja lagi að koma upp nýju varnarhólfi milli Klettháls og Þingmannaheiðar. Enn hafa ekki verið teknar ákvarðanir um það hjá sauðfjársjúkdómanefnd, hvort þessar ráðstafanir verða gerðar allar eða aðeins sumar þeirra. En eitt er víst, að koma þarf upp nýjum kostnaðarsömum girðingum. Sú fjárveiting til varnargirðinga, sem er í frv., getur þess vegna ekki staðizt, eftir að mæðiveikin er upp komin þarna vestra. Sú fjárveiting er byggð á þeim till., sem voru í fjárlfrv., en nú hefur þessi vágestur gert usla í þessu héraði og nú þarf nýjar ráðstafanir, sem kosta peninga. Hækkunin, sem ég fer fram á að verði veitt í þessu skyni, er ekki mikil, aðeins 40 þús. kr., en hún ætti að sýna það, að þm. séu sammála um, að hér sé brugðizt skjótt við til að verja Vestfirði fyrir þeirri plágu, sem nú steðjar þarna að.

Ég vænti þess fastlega, að hv. þm. viðurkenni þá nauðsyn, sem hér er á ferðinni, með því að fallast á þessa hóflegu till.

Önnur till. á sama þskj. er við 20. gr., þ. e. nýr liður, Patreksfjarðarflugvöllur, með 150 þús. kr. Hv. 3. minni hl. fjvn. flutti till. um 200 þús. kr. í þennan flugvöll, en sú till. var felld af stjórnarflokkunum hér í þinginu. Ég hef því leyft mér að lækka þessa upphæð og kem með þessa till. um einar 150 þús. kr.

Eins og hv. þm. er kunnugt, hafa Vestfirðingar haft flugsamgöngur með sjóflugvélum um langa hríð. Nú liggur fyrir full vitneskja um það, að þessar samgöngur falla með öllu niður á komandi hausti, þar sem síðasta sjóflugvélin verður þá tekin úr umferð vegna slits. Einn af lendingarstöðum þessara sjóflugvéla hefur verið Patreksfjörður. Þar er nokkurt fjölmenni, sem notið hefur mikils gagns af þessum samgöngum, auk þriggja nágrannahreppa, svo að á þessu svæði mun búa um 1.400 manns. Með haustinu verður allt þetta fólk svipt þessum gagnlegu samgöngum.

Flugmálastjórnin hefur ákveðið, að einn af hinum væntanlegu flugvöllum Vestfjarða verði á Patreksfirði. Það er mjög aðkallandi, að hafizt sé handa sem allra fyrst um byggingu flugvallar á þessum stað, svo að þetta tiltölulega fjölmenna hérað þurfi ekki að bíða þess í fjöldamörg ár að fá flugsamgöngur á ný. Eitt hið þýðingarmesta við þessar flugsamgöngur hefur verið það, að vegna þeirra hefur verið unnt að koma sjúklingum, sem orðið hafa fyrir slysum eða bráðum sjúkdómum, undir læknishendur á skömmum tíma. Þar sem sjúkraflugvellir eru, hafa þeir bætt mjög úr í þessu efni. En ekki er þeim til að dreifa í þessu héraði. Á Patreksfirði, í Rauðasandshreppi og í Tálknafirði er enginn slíkur sjúkraflugvöllur til. Það verður því ekki gripið til þeirra þarna, þegar háska ber að höndum vegna slysa eða sjúkdóma. Vegna þessarar aðstöðu fólks í þessu byggðarlagi er enn meiri nauðsyn á því, að hafizt sé nú þegar handa um byggingu flugvallar á Patreksfirði, þótt fjárveiting í þessu skyni yrði ekki há. En hún gæti samt orðið til þess, að fyrsti áfanginn nægði sem flugbraut fyrir sjúkraflug og að því er stefnt með þessari hóflegu till., sem ég flyt.

Ég vona, að hv. þm. setji sig í spor þessa fólks, sem er að missa flugsamgöngur og hefur ekki einu sinni sjúkraflugvöll til afnota, hvað þá annað,

Síðasta till., sem ég flyt á þessu þskj., er vegna tilmæla sýslumannsins á Patreksfirði út af því slysi, sem kom fyrir sjúkrahúsið þar, að miðstöðvarkerfi þess reynist nú gerónýtt og verður að leggja nýtt. Um þetta ritaði sýslumaðurinn mér fyrir örfáum dögum, og sendi ég hv. fjvn. það bréf daginn eftir. Hún hefur þó ekki getað fallizt á að taka upp fjárveitingu í þessu skyni. Samkv. þessu bréfi sýslumannsins hefur komið í ljós, eins og ég sagði, að miðstöðvarkerfi sjúkrahússins hefur reynzt ónýtt og óhjákvæmilegt er að leggja nýtt kerfi í sjúkrahúsið, ef á að halda starfrækslu þess áfram. Þó hefur sýslusjóður Vestur-Barðastrandarsýslu þegar lagt um 100 þús. kr. til viðgerðar á þessu kerfi, en það hefur ekki reynzt varanlegt, svo að nú er ekki um annað að gera, samkv. bréfi sýslumannsins, en að leggja nýtt kerfi. Sýslumaðurinn telur sýslusjóðnum með öllu ofvaxið að standa straum af þessum kostnaði og því fer hann þess á leit, að hæstv. Alþingi verði við beiðninni.

Það óhapp, er hér hefur komið fyrir, er alvarlegt fyrir rekstur þessa sjúkrahúss, ef á það er litið, að það er rekið með miklum rekstrarhalla árlega. En þrátt fyrir mjög takmarkaða fjárhagsmöguleika sýslusjóðs hefur hann orðið að bera þennan rekstrarhalla og verður nú að bæta á sig þessum bagga, ef ekki fæst hér nokkur hjálp frá hæstv. Alþ. Með till. þessari er ég ekki að sækja um beina fjárveitingu. Ég fer aðeins fram á það, að hæstv. ríkisstj. verði heimilað að greiða allt að 75 þús. kr. vegna miðstöðvarkerfis í sjúkrahúsið, en þó aldrei yfir helming kostnaðar. Hæstv. ríkisstj. mun svo að sjálfsögðu athuga það rækilega, hvort nauðsyn er á þessari aðstoð og ég ætlast ekki til, að þetta verði greitt, fyrr en hæstv. ríkisstj. hefur kannað það, að full þörf er á henni.

Í þessum umr. hér í dag hefur rafmagnsmál borið nokkuð á góma og þætti mér betur, ef hæstv. raforkumálaráðherra gæti hlustað á mig örfáar mínútur. Hann skýrði nokkuð frá þessu máli hér áðan og skal ég ekki fara langt út í það mál. Það var þó helzt á honum að skilja, að um langan tíma hafi verið uppi ráðagerðir hjá raforkumálastjóra um breytingar á tíu ára áætluninni um raforkuframkvæmdir. Ég hygg þó, að það sé ekki raforkumálastjóri, sem gerbreytir slíkri áætlun, heldur ríkisstj. og enginn annar en ríkisstj. Og merkilegt má það heita, ef slíkar ráðagerðir hafa verið uppi svo lengi hjá raforkumálastjóra, að þm. hafi ekki verið gert neitt kunnugt um það, því að ekki hef ég t. d. heyrt neitt um slíkar breytingar fyrr en í gær og ég efast um, að fyrrv. hæstv. ríkisstj. hafi verið kunnugt um slíkar ráðagerðir.

Hæstv. ráðh. gat þess og staðfesti þar með það, sem hér er komið fram, að ráðgerðar séu verulegar breyt. á raforkuáætluninni, m. a. að fresta línum og fresta rafvæðingu, en láta koma í staðinn, a. m. k. að einhverju leyti, dísilstöðvar. Nú stendur þannig á, að í mínu héraði er á þessari tíu ára áætlun svokölluð Króksfjarðarneslína. Það er rafmagnslína frá Þverárvirkjun í Steingrímsfirði til Króksfjarðarness með línum þaðan síðan út um sveitirnar. Hæstv. ráðh. gat þess m. a., að tímaröðinni verði vikið við til hagsbóta fyrir neytendur, eins og hann orðaði það. Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðh.: Hvernig á að víkja við tímaröðinni í framkvæmd Króksfjarðarneslínunnar? Í tíu ára áætluninni er ákveðið, að hún skuli lögð á árunum 1958, 1959 og 1960. M. ö. o.: henni á að verða lokið næsta ár samkv. tíu ára áætluninni. Nú er ekki farið að leggja þessa línu, en sú fjárhæð, sem var áætluð á árinu 1958, mun hafa verið notuð samkv. því, sem raforkumálastjórnin segir mér, til þess að kaupa efni. Hins vegar er auðvitað ekkert farið að nota þær fjárhæðir, sem áætlaðar voru á árunum 1959 og 1960. En hvernig verður tímaröðinni fyrir þetta fólk, sem átti að fá þetta rafmagn, vikið við því í hag, úr því sem komið er? Ég leyfi mér því að spyrja hæstv. ráðh.: Á að hætta við rafmagnslínuna frá Þverárvirkjun í Króksfjarðarnes? Og ef á að hætta við hana, á þá dísilstöð að koma í staðinn? Og hvenær á hún að koma?

Það má ekki minna vera en þm. gefist kostur á fullri vitneskju um þessar fyrirhuguðu breyt., svo að fólkið í þessum héruðum, sem búið er að bíða eftir þessum framkvæmdum, fái a. m. k. að vita, hvort á að hraða rafmagninu til þeirra eða hvort á að seinka því. Verði ekki þessar rafmagnslínur komnar í þessi héruð á næsta ári, þá verður tímaröðinni ekki þarna vikið við í hag fólksins. Ef það er aftur á móti hugmyndin að seinka raflögnum til þessa fólks, þá vildi ég gjarnan fá svör um það nú, ef þess er kostur, hvað á að seinka þeim mikið. Ég veit, að fólkið í þessum héruðum mun hlusta eftir því, hvaða svör koma við þessu, alveg eins og mér skildist á hv. þm. Vestm. í dag, að Vestmanneyingar mundu taka eftir því, hverju þeir eiga von á samkv. hinni breyttu áætlun, sem hæstv. ríkisstj, hefur nú skýrt frá. Ég tók eftir því áðan, að hæstv. ráðh. svaraði hv. þm. A-Sk. því, að þar yrði hraðað raflögnum vegna þessara breyt. Það er því von, að ég spyrji: Á þá líka að hraða rafmagninu til fólksins í Austur-Barðastrandarsýslu, sem átti samkv. tíu ára áætluninni að vera búið að fá rafmagn á næsta ári ?