28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 806 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

1. mál, fjárlög 1959

Eysteinn Jónsson:

Ég ætla ekki að þreyta langar kappræður nú um raforkuáætlunina og rafmagnsmálið, þótt þar sé um eitt stærsta mál að ræða, sem komið hefur upp nú síðustu dagana, alveg nýtt, en aðeins segja örfá orð út af ræðu hv. frsm., 2. þm. Eyf. (MJ). Hann hafði stór orð um minn málflutning og sagði, að ég hefði farið með blekkingar. Ég ætla að rifja upp með fáeinum setningum, hvað hér hefur farið fram.

Hv. 2. þm. Eyf. sagði í sinni framsöguræðu, að með 45 millj. kr. lánaframlagi væri hægt að koma í veg fyrir, að raforkuáætlunin þyrfti að tefjast. Ég skrifaði það eftir honum. Hann sagði líka, að með nýju áætluninni væri hægt að minnka kostnað við lokaframkvæmdir 10 ára áætlunarinnar um 88 millj. kr. Þetta sagði hv. þm., og hæstv. fjmrh. sagði um sama mál, að upphaflega áætlunin, sem nú væru eftir af 288 millj. kr., væri fjarstæða og að það sama mætti fá fyrir 200 millj. kr. og sparnaður væri þess vegna 88 millj. Og núna í seinni ræðu sinni bætti hv. 2. þm. Eyf. því við, að það, sem hér væri að gerast, væri aðeins sú eina breyt., að 110 sveitabæir væru ekki með, en jafnmargir bæir kæmu þó annars staðar á landinu í áætlunina. Þetta er nú málflutningurinn.

En hvað sagði hæstv. forsrh. um þetta mál, sem ég hygg að hafi líka raforkumál með höndum? Hæstv. forsrh. staðfesti algerlega allt, sem ég hafði um þetta sagt, því að hann sagði orðrétt, „að það ætti að fresta nokkrum vatnsvirkjunum og línum á milli byggða, setja upp í staðinn dísilstöðvar, sem gætu orðið varastöðvar síðar,“ — ekki endanlegt úrræði, heldur varastöðvar síðar. — Með þessu væri hægt að lækka kostnaðinn á þessum 10 árum um 88 millj., ekki kostnað 10 ára áætlunarinnar í heild, heldur kostnaðinn á þessum 10 árum, um 88 millj. kr. Þetta staðfestir alveg nákvæmlega það, sem ég sagði um þetta mál, enda eru þetta staðreyndir, sem hæstv. forsrh. segir. Það eru ekki blekkingar, sem hann segir um þetta. Hann greinir skýrt og greinilega frá, en hv. 2. þm. Eyf. og hæstv. fjmrh. fóru með blekkingar í málinu. Þeir töluðu eins og sú staðreynd væri ekki til, að eftir þessari nýju áætlun á að standa þannig upp eftir 10 ár, frá því að byrjað var, að framkvæmdir verða óunnar fyrir 88 millj. kr. af raforkuáætluninni, eins og hún var í upphafi. Það er staðreyndin, sem fyrir liggur og hæstv. forsrh. sagði hreinskilnislega frá. En þessir hv. ræðumenn láta sér það sæma að segja hér hvað eftir annað, að það eigi að verða 88 millj. kr. sparnaður og að eina breytingin, sem á verði, sé sú, að einhverjir tilteknir 110 sveitabæir fái ekki rafmagn á þessum tíma, en aðrir sveitabæir í staðinn. Hvað eru blekkingar, ef það er ekki málflutningur hv. 2. þm. Eyf. í þessu og hæstv. fjmrh., alveg gagnstætt við það, sem hæstv. forsrh. upplýsti?

Þetta læt ég algerlega nægja, enda komið langt fram á nótt. — Þetta flettir einnig alveg ofan af málflutningi þeirra manna, sem leyfa sér að bera öðrum á brýn blekkingar. Staðreyndirnar eru sýndar í réttu ljósi. Þetta er alveg nægilegt til þess að sýna hið rétta og ég sé ekki ástæðu til þess að fara að endurtaka hér þann dóm eða þær yfirlýsingar og þær kröfur, sem ég bar fram í sambandi við þetta mál hér í kvöld, því að það stendur allt af minni hendi, sem þá var sagt um það.