28.04.1959
Sameinað þing: 43. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 823 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

1. mál, fjárlög 1959

Frsm. 3. minni hl. (Karl Kristjánsson):

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hagar venjulega mjög varlega orðum sínum. Þeirri venju brá hann ekki í dag, þegar hann tók hér til máls. Hann minntist á, að ég hefði sagt, að það væru brigð við þá, sem beðið hafa eftir framkvæmd tíu ára áætlunarinnar um rafvæðingu landsbyggðarinnar, ef nú væri horfið frá henni í þeim stíl, sem slegið hefði verið föstum. Hann sagði, að hér væru alls engin brigð fyrirhuguð. Og hann sagði, að ég held orðrétt, því að ég skrifaði það hjá mér: Það er ætlunin að framkvæma raforkuplanið á hagkvæmari og ódýrari hátt fyrir þjóðarbúið.

Þarna kemur fram í orðum hæstv. ráðh. mjög greinilega, hvað er á ferðinni og hvað á milli ber. Það er ætlunin að framkvæma raforkuplanið á hagkvæmari og ódýrari hátt, en áður fyrir þjóðarbúið.

Nú býr mikill meiri hluti þjóðarinnar við hlunnindi og þægindi raforkunnar. Þessi mikli meiri hluti er kominn í höfn að þessu leyti. Hið opinbera, er hálfnað eða meira en það, með raforkuplanið um sveitir landsins og kauptún. Að þessu hefur verið unnið með hag þeirra fyrir augum, sem rafmagnsins hafa átt að njóta, eins og líka sjálfsagt er. Markmiðið hefur verið sem beztur hagur fyrir notendurna. En nú á að brjóta blað, eins og hæstv. ráðh. sagði. Framkvæmdaplanið á að framkvæma sem hagfelldast og ódýrast fyrir þjóðarbúið, en ekki notendurna. Þannig á að láta þá, sem beðið hafa eftir rafmagninu samkvæmt tíu ára áætluninni, hafa miklu lakari úrlausnir en hinir hafa fengið. Þetta eru rangindi. Þetta eru brigð. Þetta er það, sem mótmælt er.

Á það mun treyst af þeim, sem ætla að brjóta blaðið, að þeir, sem hafa fengið rafmagn, láti sig þetta litlu skipta. Og hinir geta ekki rönd við reist, þar sem þeir eru dreifðir og eiga bráðum að missa sína kröfuhörðu sérstöku fulltrúa.

En athugum nú, hvers vegna verið er að rafvæða sveitir og kauptún landsins, hvers vegna það er gert? Það er til þess, að fólkið geti unað þar hag sínum og haldizt þar við. Og hvers vegna er heppilegt, að fólkið haldist þar við? Það er af því, að það er ekki til hagsbóta fyrir þjóðarbúið, að Íslendingar allir safnist til höfuðstaðarins og á Suðurnes. Þjóðarbúið þarfnast þess hagsmuna sinna vegna, að lífvænlegar byggðir verði ekki yfirgefnar.

Þegar málið er skoðað niður í kjölinn, þá er stefnubreytingin í rafvæðingarmálunum óholl, bæði þeim, sem bíða rafvæðingarinnar og þjóðarbúinu. Ég bið hæstv. fjmrh. að endurskoða afstöðu sína og ég bið hæstv. forsrh. að gera það líka. Hann talaði fyrst í þessu máli eins og breytingin væri sjálfsögð og fjarstæða að vera á móti henni. Í seinni ræðum sínum kepptist hann hins vegar við að þvo hendur sínar af því að hafa átt þessa hugmynd eða í raun og veru vilja bera ábyrgð á henni. Ég leyfi mér að vænta þess, að hann þvoi þessar hugmyndir af sér hið fyrsta.

Hv. frsm. 1. minni hl. var svolítið argur — og er hann þó ekki gremjugjarn — yfir því, að ég sagði frá því, að sjálfstæðismenn vildu ekki þiggja það, að við framsóknarmenn flyttum með þeim tillöguna um niðurgreiðslu áburðarins. Við sóttumst ekki eftir því, framsóknarmennirnir, að flytja þessa till. með sjálfstæðismönnum, en við töluðum svolítið um það til að stríða þeim, af því að þeir litu á þessa till., sem ekki er nú sérstaklega merkileg, eins og blóm í hnappagatinu.

Þá talaði hv. þm. Eyf., frsm. 1. minni hl., um það, að Framsfl. hefði skilið illa við fjárhirzlur ríkisins. Þetta er mikið öfugmæli. Ég hef orðið þess var, að honum hefur þótt í öðru sambandi mjög dýrmætur tekjuafgangur frá fyrra ári og tollaleifarnar og gjaldeyrisvöruleifarnar. Hann hefur ríghaldið um þetta eins og nirfill um óvæntan arf.

Enn minntist hv. 2. þm. Eyf. á það, að við framsóknarmenn bærum ekki fram neinar till. um lausn efnahagsmálanna, t. d. tekjuöflun handa útflutningssjóði. Við lögðum fram okkar till. í efnahagsmálunum í nóv. s. l. Þær voru í aðalatriðum að halda kaupgjaldsvísitölunni í 185 stigum og kaupmætti launa eins og hann hafði verið í október. Þetta var reiknað út að væri hægt að gera með því, að 15 stigum væri slegið af vísitöluhækkun og að öðru leyti á, til þess að gera auðveldan hátt. Þessum till. var hafnað og hæstv. núverandi ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hófu sitt merki í efnahagsmálunum í staðinn. Hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa undir þessu merki fært niður vísitöluna og reynt að færa niður verðlagið í landinu og ákveðið geysilegar niðurgreiðslur, sem kosta útflutningssjóð á annað hundrað millj. kr. Þessir flokkar eiga því að sjá í þessari lotu fyrir þessum málum.

Eitt svar, ein setning, hefur geymzt mjög vel frá Brjánsbardaga. Það svar gaf Íslendingur. Annar maður bað hann að taka við stríðsmerki og bera það. Íslendingurinn svaraði: „Ber þú sjálfur fjanda þinn.“ Ég segi nú við minn góða kunningja, hv. 2, þm. Eyf., sem heldur á baráttumerki stjórnarflokkanna, a. m. k. í þessum umr.: Reikna þú sjálfur þitt efnahagsmáladæmi, sem þú og þið hafið sett upp. Ber þú sjálfur þitt merki. — Og við hæstv. ríkisstj. og þá, sem að henni standa, vil ég segja: Berið þið sjálfir fjanda ykkar í þessu sambandi, a. m. k. fram yfir næstu kosningar, sem þið hafið ákveðið að stofna til.