11.04.1959
Neðri deild: 105. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (537)

122. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Frsm. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Um nokkur undanfarin ár hafa verið í gildi lagaákvæði um lækkun skatts á lágtekjum. Frv., sem hér liggur fyrir, er um það að framlengja slík ákvæði fyrir árið, sem leið, þ. e. a. s. við álagningu skatta nú á þessu ári á tekjur ársins 1958. Ákvæðin um þetta í frv. eru nákvæmlega eins og þau, sem sett voru á síðasta þingi og giltu fyrir árið í fyrra.

Þetta frv. var lagt fram af ríkisstj. í hv. Ed. og afgreitt þar ágreiningslaust. En þessari deild höfðu borizt tvö önnur frumvörp frá Ed. um breyt. á skattalögunum.

Það fyrra er á þskj. 95 og er um breyt. á einum staflið í 7. gr. laganna. Það er ákvæði um, að ef maður selur fasteign, sem hann hefur átt skemur en fimm ár, en kaupir aðra innan eins árs eða byggir hús, áður en tvö ár eru liðin frá söludegi, þá skuli sölugróði ekki skattlagður, þó að um hann sé að ræða, ef hin keypta fasteign eða hið nýreista hús er jafnhátt eða hærra að fasteignamati heldur en eignin, sem seld var. Nú hefur komið hér till. um að lengja þennan frest, þegar um húsbyggingar er að ræða, um eitt ár, úr tveim árum í þrjú ár, vegna þeirra erfiðleika, sem oft eru við að ganga að fullu frá byggingum. Það er kunnugt, að húsbyggingar taka oft langan tíma. Þetta — að setja þarna þrjú ár í staðinn fyrir tvö — var afgreitt ágreiningslaust frá Ed. og fjhn. þessarar d. mælir með því, að það verði samþykkt.

Þá hafði einnig borizt annað frv. frá Ed. áður, flutt af hæstv. ríkisstj., og það er 107. mál þingsins. Það er um að hækka þann sérstaka frádrátt, sem sjómönnum á fiskiskipum hefur verið veittur að undanförnu, þannig að þessi sérstaki frádráttur verði 1.500 kr. fyrir hvern mánuð í staðinn fyrir 850 kr., sem var s. l. ár. Auk þess hafa fiskimenn svokallaðan hlífðarfatafrádrátt, þannig að sú upphæð, sem þeir mega draga frá tekjum, verður, ef þetta verður samþykkt, samtals 2.000 kr. á mánuði í staðinn fyrir alls 1.350 kr. á mánuði árið, sem leið.

Fjhn. þessarar d. hefur þótt rétt að sameina þessi frv. í eitt frv., þar sem þarna er um að ræða breytingar á sömu löggjöfinni og leggur til í nál. sínu, að það verði gert. Þegar n. afgreiddi málið, var einn nm., hv. 5. þm. Reykv., fjarverandi, var forfallaður, en hinir 4 nm. allir á einu máli um að leggja til, að frv. verði samþykkt með breyt., sem eru í nál. En þar er aðeins um að ræða að fella í eina heild þessi þrjú frv., sem öll eru komin frá Ed., eins og ég þegar hef rakið.