03.03.1959
Efri deild: 78. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1094 í B-deild Alþingistíðinda. (897)

45. mál, búnaðarmálasjóður

Sigurður Ó. Ólafsson:

Herra forseti. Ég hef ekki getað orðið sammála meðnm. mínum í landbn. um afgreiðslu þessa máls. En það er um það, eins og hv. frsm. landbn. gerði áðan grein fyrir, að á árunum 1958–61, að báðum meðtöldum, þ. e. í fjögur ár, skuli greiða ½% viðbótargjald af söluvörum landbúnaðarins og það gjald skuli renna til Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda og því varið til að reisa hús félaganna við Hagatorg í Reykjavík. M. ö. o.: það á að taka 1½–2 millj. króna á ári í fjögur ár af brúttóverði seldra landbúnaðarvara, hvort sem í hlut eiga ríkir eða fátækir bændur. Þetta er m. ö. o. nokkurs konar veltuskattur á seldar vörur, hvort sem sá, sem gjalda skal, hefur efni til þess eða ekki. Og síðan á að verja þessu fé til að flýta byggingu stórhýsisins við Hagatorg, ég segi flýta og kem að því síðar.

Sú bygging, sem hér um ræðir, er um 1.000 m2 að flatarmáli, sjö hæðir auk útbygginga og getur orðið 25 þús. m3. Þessar upplýsingar gaf 1. flm. frv. í Nd., hv. 1. þm. Skagf. Ekkert liggur fyrir með vissu um það, hvað húsið muni kosta uppkomið, en það er talað um 20, 25 eða 35 millj. kr. Allt er í óvissu, hvað þetta verður mikil upphæð.

Í grg. fyrir frv. á þskj. 75 er lýst þörf Búnaðarfélags Íslands fyrir aukið húsrými. Þetta minntist frsm., hv. 1. þm. N-M., einnig á í sinni ræðu, starfsemi félagsins sé orðin svo umfangsmikil, en húsakynni gömul og lítil, að til vandræða horfi. Þetta viðurkenna allir að hafi við rök að styðjast, og allir, sem eru kunnugir þessum málum, vita það.

Þá er einnig bent á, að Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda höfðu fyrir nokkrum árum komið sér saman um að reisa í félagi hús fyrir starfsemi beggja þessara samtaka bændastéttarinnar. Nú er svo komið, að byrjað er á þessu húsi og búið að ákveða stærð þess og staðsetningu og annað slíkt. Þegar mál þetta er rætt og athugað, er eðlilegt, að spurt sé, hvort nauðsynlegt sé að byggja svo stórt sem hér á að gera. Eins og ég gat um, er hér um að ræða hús, sem er mikið stórhýsi, 1.000 m2, 7 hæðir og allt að 25 þús. m3. Það er viðurkennt, að bændasamtökin þurfa ekki á þessu húsrými að halda til sinna nota. Það hefur komið fram t. d., að gert er ráð fyrir, að á neðstu hæð verði verzlanir, veitinga- og sýningasalir. Gefur auga leið, að annaðhvort verður að selja þessa hæð eða leigja hana út og svo mun verða um meira af húsinu, þegar allt er komið upp.

Það er af þessu ljóst, að þörf bændasamtakanna fyrir húsnæði krefst ekki þessa stórhýsis, enda hefur komið fram, að það liggur annað á bak við það, hvernig húsið er byggt og hvað það á að vera stórt og rúma mikið, — það liggur á bak við það, að staðurinn, sem það er staðsett á, gerir þessa kröfu eða skipulag þess staðar gerir þá kröfu til hússins, að þannig skuli það byggjast.

En hvað um það. Húsinu hefur verið valinn þessi staður og það hefur verið gengið að þeim skilyrðum, sem honum fylgdu, og það hefur einnig verið byrjað á húsinu. Og ég er samþykkur þeim mönnum, sem halda því fram, að það verði ekki aftur snúið, enda er það ekki hugmynd mín, að hætt verði við þessa byggingu og ég get sem sagt tekið undir með þeim mönnum, sem þannig líta á málið, og mig grunar, að sumir af þeim fylgi þessu máli vegna þess, að þeir hafa opin augu fyrir því, að á þessari braut er ekki hægt að snúa aftur, úr því sem komið er.

En það er annað, sem ég hef við þetta að athuga, og skal ég þá vekja athygli á því fyrst, hvort nauðsynlegt sé og rétt að skattleggja bændur á þann hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, til þess að koma húsinu upp í því formi, sem hugsað er. Það má geta þess hér, að raddir hafa komið fram frá einstökum bændum og bændasamtökum, þar sem skattlagningu þessari er harðlega mótmælt. Bent er á, að leita hefði átt eftir vilja bænda, áður en málinu var ráðið til lykta og flutt inn á Alþingi, en það hefði ekki verið gert. Ég segi, að þessu er haldið fram, bæði af einstaklingum og bændasamtökum, síðan þetta mál kom til meðferðar hér á Alþingi, og skal þetta sjónarmið fyllilega viðurkennt, því að auðvitað var auðvelt að bera málið upp í hreppabúnaðarfélögum landsins, áður en aðalfundur Stéttarsambands bænda var haldinn í byrjun september s. l., en þar var samþykkt till. um að fela stjórn sambandsins að koma þessu máli áleiðis. Og með því að bera þetta undir hreppabúnaðarfélögin mátti fá úr því skorið, hver vilji bændanna væri yfirleitt í þessu máli. Ef hann hefði verið jákvæður, þá væri ekki um nein eftirköst að ræða. En vegna þess, að þetta var ekki gert, nema þá með örfáum undantekningum, hefur málið orðið að leiðindaþrætumáli, bæði hér á Alþingi og eins meðal bændastéttarinnar. Þessum staðreyndum verður ekki neitað.

Ég skal svo ekki gera það að umræðuefni, hve réttlátt það er, að bændur séu með lögum skyldaðir til að láta af hendi 1½–2 millj. kr. á ári af takmörkuðu rekstrarfé sínu og það fjárfest í húsbyggingu í Reykjavík. Það er mál út af fyrir sig. En ég vil víkja aftur að því, hvort þörf sé og nauðsyn á þessari skattheimtu. Eins og þegar er fram tekið, er húsbyggingin þegar hafin, kjallarinn hefur verið steyptur og lokið við fyrstu hæðina, — ja, mér er líklega óhætt að segja fyllilega að steypa hana með lofti yfir.

Þetta, sem lokið er við af húsinu, er greitt með peningum, sem til voru í byggingarsjóði, þegar verkið var hafið. Og eftir þeim upplýsingum, sem fengizt hafa, eru um 2 millj. kr. enn til í byggingarsjóði. Þá verða á þessu yfirstandandi ári vitanlega til ráðstöfunar þau árlegu tillög, sem Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsambandið leggja í byggingarsjóðinn. Ekki hef ég upplýsingar um, hvað það nemur mikilli fjárupphæð. En sýnilegt er af þessu, að byggingin er ekki nú eins og stendur í þeirri fjárþröng, sem ætla mætti, ef haft er í huga, með hve miklum ákafa mál þetta er rekið hér á hæstv. Alþingi. En nú skyldum við samt sem áður setja svo, að fyrirsjáanlegt væri, að byggingin stöðvaðist vegna fjárskorts síðar á þessu ári. En í því sambandi má benda á, að hús, stór og smá, hafa verið byggð hér í Reykjavík á þann hátt, að uppsteyptar hæðir þeirra, t. d. kjallarar og næsta hæð, hafa verið seldar eða leigðar með þeim skilmálum, að leigutaki taki að sér að sjá um innréttingu og kostnaður við það kæmi upp síðar í leigunni. Eftir því sem fram hefur komið, er húsið á einhverjum bezta og glæsilegasta stað hér í höfuðborginni. Þetta er viðurkennt og fram tekið við umr., sem fram hafa farið um þetta mál. Eru nú ekki einhverjir aðilar, sem nú þegar vildu tryggja sér athafnapláss, t. d. á neðstu hæð hússins og greiða fyrir það nú þegar, þó að ekki væri nema um leigu að ræða? Væri þá ekki mögulegt á þann hátt að nota það fé, sem þannig fengist, til áframhaldandi byggingar á næstu hæð eða næstu hæðum? Ég minntist á þetta undir meðferð málsins í landbn., en meðnm. mínir hv. vildu ekki neitt um þessa hlið málsins ræða. En ég fæ ekki betur séð, en að á þennan hátt, væri hægt að koma húsinu áfram án þess að taka af bændum 2 millj. kr. á ári í næstu fjögur ár.

Ég kemst þá að þessum athugunum loknum að þeirri niðurstöðu m. a., að bændasamtökunum er nauðsyn á að fá viðunandi húsnæði fyrir starfsemi sína, að ekki er annað að gera , en halda áfram með byggingu þá, sem þegar er hafin. Að þessu leyti er ég öðrum landbn.mönnum sammála. En að mínu áliti liggur alls ekki fyrir, að nauðsynlegt sé að skattleggja bændur á þennan hátt, sem frv. gerir ráð fyrir, nú strax og í fjögur ár til þess að koma húsinu upp. Það mundi komast áfram upp án þess að innheimta þennan skatt. Eins og margtekið er fram, segir í frv., að á árunum 1958–61 skuli ½% gjald tekið af brúttóverði landbúnaðarvara. Það er í fjögur ár l½–2 millj. kr. á ári. Samkv. því, sem ég þegar hef sagt, get ég ekki verið með frv. óbreyttu, en ég vil heldur ekki ganga algerlega á móti því, eins og komið er, eða leggja til, að það verði fellt. Ég flyt því brtt. á þskj. 294, þess efnis, að í stað þess að ákveða nú að taka þetta gjald í fjögur ár, verði það aðeins tekið í eitt ár, og að mínu áliti er það nokkru skaplegri afgreiðsla, en að samþykkja frv. eins og það liggur fyrir. Ef till. mín yrði samþykkt, mætti t. d. fyrir næsta aðalfund Stéttarsambands bænda leita álits hreppabúnaðarfélaga landsins um það, hvort framlengja bæri skattheimtuna í fleiri ár og ef það þá sýndi sig betur en nú er, að það væri óhjákvæmilegt til að koma húsbyggingunni áfram, þá væri ekkert um það að segja. Ef meiri hluti félaganna samþykkti að greiða þetta gjald og slík samþykkt lægi fyrir næsta aðalfundi Stéttarsambands bænda, mundi öðruvísi horfa, en nú gerir, kæmi málið aftur til kasta Alþingis.

En sem sagt, eins og málið stendur nú, er ekki að mínu áliti rétt, svo að ekki sé fastar að orði kveðið, að samþykkja frv. óbreytt. ég mun því, ef brtt. mín verður felld, greiða atkv. á móti frumvarpinu.