07.04.1959
Efri deild: 96. fundur, 78. löggjafarþing.
Sjá dálk 1173 í B-deild Alþingistíðinda. (996)

105. mál, samband íslenskra berklasjúklinga

Björn Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð varðandi ræðu hv. 6. þm. Reykv., í fyrsta lagi varðandi það, sem hann sagði, að félagslið Sjálfsbjargarfélaganna mundi aðeins vera um 10% af öryrkjum í landinu. Ég veit ekki, hvernig hv. þm. fer að fá þetta út, en hið sanna í málinu er, að samkvæmt lögum þessara samtaka geta allir orðið þar meðlimir, sem hafa glatað einhverju af starfsorku sinni vegna örorku, og félagsskapurinn er hugsaður sem félagsskapur allra öryrkja annarra en þeirra, sem þegar hafa myndað sín samtök, þ.e.a.s. annarra en berklaöryrkja og blindra manna. Þessi fullyrðing hv. þm. er því fjarri öllum sanni. Ég hef haft lög þessa félags undir höndum, og man ég þetta áreiðanlega rétt, að þannig eru lög þessa félagsskapar og þannig er hann byggður upp. Mér er líka kunnugt um það, að sums staðar úti á landi, m.a. á þeim stað, þar sem ég er kunnugastur, eru því nær allir öryrkjar í þessum félagsskap. Það er því alrangt að gefa þá hugmynd, að þarna sé aðeins um að ræða tíunda hlutann af öryrkjum í landinu. Þarna er um að ræða miklu meira, jafnvel þótt þessi samtök hafi ekki fullkomlega lokið því að byggja upp sinn félagsskap enn þá, enda er þess naumast að vænta, þar sem félögin eru ekki mynduð fyrr, en fyrir rúmlega hálfu ári.

Hv. þm. endurtók mér til mikillar ánægju þau ummæli sín frá í gær, að það væri öruggt, að því yrði mjög vel tekið, þegar þessi samtök færu fram á að fá fjárhagslega aðstoð Alþingis, og það væru ómakleg orð, sem ég hefði viðhaft, þar sem ég sagði, að ég teldi að þessi félagssamtök yrðu ekki sniðgengin í framtíðinni. Ég skil nú að vísu ekki, að í þessu fellst nein aðdróttun til þingsins. En hins vegar mun það geta sannazt, áður en margar vikur eða margir dagar líða, hvernig Alþingi tekur á þessum málum, bæði á málum Sjálfsbjargarfélaganna og eins málefni Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra, því að erindi hafa bæði þessi samtök sent til fjvn., og mun koma til gerða þingsins að taka ákvörðun um þau erindi, þannig að hv. þm. og aðrir, sem kynnu að telja að ég hefði viðhaft einhver móðgandi orð um þetta, sem ég held að sé ekki, munu geta afsannað allar slíkar getsakir, frá hverjum sem þær kynnu að koma fram.