23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 76 í B-deild Alþingistíðinda. (10)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Hv. 3. þm. Reykv. vildi ekki viðurkenna, að hann hefði stungið fyrstu skóflustunguna í því verki að grafa undan vinstri stjórninni. Hann sagði, að það hefði strandað á kauplækkunarkröfum Framsfl. Framsóknarmenn gerðu till. í efnahagsmálum, sem voru miðaðar við, að fallið yrði frá nokkrum vísitölustigum. Það þótti góð pólitík að falla frá vísitölustigum sumarið 1956, af því að þá var meining hv. 3. Reykv., að vinstri stjórnin skyldi lifa í bili. En þegar búið var að ákveða, að henni skyldi slitið, þá var það orðin kauplækkun og áníðsla á verkalýðnum að gera það sama og gert var með þeirra samþykki 1956.

Svo kemur spurningin: Hefur alþýða manna í landinu grætt á því, að vinstra samstarfinu var slitið? Ég segi nei. Það hefði verið heppilegra fyrir alþýðu í landinu, að þessu samstarfi hefði verið haldið áfram og þær till. framkvæmdar, sem Framsfl. lagði fram.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði ýmislegt um kjördæmamálið út af því, sem ég lýsti eftir. Ég lýsti eftir því, hverjir væru sérstakir hagsmunir verkalýðsins í landinu í sambandi við þá kjördæmabreyt., sem nú ætti að innleiða, miðað við þær till., sem Framsfl. hefði gert. Hv. þm. svaraði þessu algerlega út í hött og fór að ræða hér um einmenningsfyrirkomulagið og afstöðu verkalýðsins.

Nú veit hv. 3. þm. Reykv. það vel, að við höfum boðið upp á miðlunartill. í þessu máli og það er þess vegna enn algerlega óleyst verkefni að gera grein fyrir því, hvað gat verið raunverulega í vegi fyrir því, að samkomulag næðist á þeim grundvelli, sem Framsfl. lagði til í miðlunartillögum sínum. Hv. þm. var aðeins að víkja ofur lítið að útjaðri þessa máls með því að segja, að það þyrfti að setja upp stór kjördæmi, til þess að verkalýðurinn hefði veruleg áhrif í kosningum. En þetta er vitanlega hinn herfilegasti misskilningur eða mistúlkun, vegna þess að það eru áreiðanlega sízt minni áhrif, sem verkalýðurinn getur haft í héraðakjördæmunum, en með því fyrirkomulagi, sem nú er stefnt að. Og getur hver sagt sér þetta sjálfur með því að íhuga, hvernig ástatt er að þessu leyti.

Þá sagði hv. þm., að Framsfl. hefði aldrei verið reiðubúinn til þess að semja um kjördæmamálið. En þetta er algerlega rangt hjá hv. þm., af þeirri einföldu ástæðu, að Framsfl. lýsti því ætíð yfir, að hann vildi semja um kjördæmamálið á þeim grundvelli, að héraðakjördæmin héldust, en bæta þm. við í þéttbýlinu og mundi á það vilja fallast, að uppbótarsætin stæðu áfram. Þessu var margyfirlýst og þetta vissu leiðtogar hinna flokkanna mjög vel og geta því á engan hátt með rökum skotið sér á bak við fullyrðingar um annað.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að það hefðu verið kommúnistar, sem hefðu haft forgöngu um stórútgerð úti um land. Ég ætla ekkert að fara að hafa af þeim í því, en hitt vil ég fullyrða, að það hefði aldrei tekizt að dreifa togaraflotanum út um land á nýsköpunarárunum, ef ekki hefðu komið til áhrif frá framsóknarmönnum til þess að kveða niður þær raddir í nýsköpunarflokkunum, sem ekki vildu dreifa togaraflotanum. Og ef Framsfl. hefði ráðið eftir stríðið, þá hefði mun meira af gjaldeyri landsmanna verið lagt til hliðar til uppbyggingar, en gert var og voru till. frá Framsfl. um að leggja mun meira af gjaldeyrinum til raunverulegrar nýsköpunar, en gert var.

Varðandi dreifbýlið, varnarliðsvinnuna og Framsfl., þá er því til að svara, að fyrir forgöngu framsóknarmanna var fækkað í varnarliðsvinnunni úr rúmlega 3 þús. manns niður í rúmlega 1 þús. manns, sem það var komið niður í, áður en vinstri stjórnin var sett á fót. Við þurfum því síður en svo nokkurn kinnroða að bera í sambandi við það mál. Og þessar þúsundir höfðu farið í atvinnulíf landsmanna, án þess að nokkurt atvinnuleysi kæmi til.

Varðandi stjórnarsamstarf og ekki stjórnarsamstarf vil ég segja, vegna þess að ég hef ekki tíma til að ræða það nánar, að mér er það algerlega ljóst, að ef ekki hefði þurft að kjósa, ef ekki væru kosningar fyrir dyrum, þá væri hv. 3. þm. Reykv. búinn að koma því fram innan Sósfl. að mynda stjórn með Sjálfstfl. Og það er eingöngu af því, að hann hefur ekki þorað að gera þetta fyrir kosningarnar, að þetta hefur ekki þegar átt sér stað. Og menn skulu taka eftir því, að ef honum tekst þetta, — ég segi ekkert um, að honum takist það, því að það er eins og ég sagði hér í ræðu minni í dag, það getur margt skeð á langri leið og jafnvel líka á stuttri leið, jafnvel margt skeð til haustsins eða til næsta vetrar og það er þess vegna alls ekki víst, að hv. 3. þm. Reykv. takist að koma þessari sérkennilegu hugsjón sinni um vinstra samstarf í framkvæmd, — en ef honum tekst þetta, þá mundi sannarlega ekki verða horft í að slaka til um eins mörg vísitölustig og þyrfti til þess að koma stjórninni saman og það mundi þá ekki verða kölluð kauplækkun.

Ég mun síðar í þessum umr. ræða nokkuð um þá stefnu í efnahagsmálum, sem einmitt tengir saman hugsunarhátt hv. 3. þm. Reykv. og þeirra, sem mestu ráða í Sjálfstfl. og er undirrót þeirrar meginlínu, sem nú er komin upp í íslenzkri pólitík, en það er m.a. fjárfestingarstefnan, sem þeir eiga sameiginlega.