13.08.1959
Efri deild: 9. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (109)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Ég get ekki fallizt á rök þau, sem hv. þm. S-Þ. flutti fyrir þeirri brtt., sem borin er fram á þskj. 39 og hann ásamt hv. þm. Str. er flm. að, eins og ég get ekki heldur fallizt á þau rök, sem fram hafa verið færð í sambandi við þetta atriði í málgagni Framsfl. Hér er raunverulega ekki verið að ganga á rétt neinna manna í þessu máli. Það er verið að skipa máli hér á fullkomlega lýðræðislegan hátt. Og hverjum ætti að vera betur trúandi til þess að ákveða endanlega um þetta atriði en sjálfu Alþingi? Fólkið, sem á að búa við þetta skipulag, hefur sjálft kjörið þá menn til Alþingis, sem ákveða, hverjir skuli fara með þessi embætti úti í sveitum landsins. Ég held, að það sé alveg vonlaust verk að telja nokkrum manni trú um, að á þennan hátt sé verið að ganga á rétt þeirra manna, sem sjálfir hafa sett sína umboðsmenn til þess að ákveða, hvernig fara skuli með málið.

Ég get því ekki fallizt á að leggja til, að þessi till. verði samþykkt. Ég sé ekki ástæðu til að ræða um það langt mál, en þetta er skoðun mín, og þess vegna get ég ekki fallizt á að leggja til, að till. verði samþykkt.

Í samþandi við aths. frá hv. 1. þm. N-M. við 1. gr. vil ég taka það fram, að eins og hann gat sjálfur um, er ekki hægt að breyta þessu með einföldum lögum, þar sem þetta er ákveðið í stjórnarskránni,og þar af leiðandi engin ástæða til þess að tefja málið til þess að taka það aftur til n. af þeim ástæðum. Ég vænti því, að hann geti fallið frá þeirri kröfu.

Hann benti á, að ef 9. gr. væri samþ. óbreytt, eins og hún er í frv., gæti farið svo, að það væru engir menn til þess að taka við, ef bæði aðalmenn og varamenn skyldu falla frá á tímabilinu. Ég held, að það þyki nokkurn veginn örugg ráðstöfun, bæði í sambandi við ein og önnur embætti í landinu, sem kosið er til, að kjósa fulla tölu varamanna og ef svo skyldi nú samt sem áður til takast, að allir aðalmenn og allir varamenn væru horfnir héðan úr þessum heimi, svo að yrði að taka til einhverra ráða um að fá nýja menn, þá væri þó mögulegt fyrir hæstv. dómsmrh. að gefa út bráðabirgðalög, ef þing væri ekki komið saman og ákveða þannig með bráðabirgðalögum, hvernig skyldi bjarga því máli við, ef ekki væru neinir af þeim mönnum, sem kjörnir hafa verið. En ég hygg nú, að það þyrfti ekkert að gera því á fæturna, það sé alveg óþarfi að breyta greininni þess vegna, að það sé ekki nægilega um hnútana búið að kjósa bæði fulla tölu aðalmanna og fulla tölu varamanna.

Í sambandi við aths. hans um 6. gr. skýrði ég frá því, að þetta hefði verið til umr. í n., og ég sé ekki ástæðu til þess að taka málið aftur til n. af þeim ástæðum. Það var fyrst og fremst rætt um þetta í sameiginlegu n., og þar vildi sú n. ekki ganga lengra, en leggja til að lækka töluna niður í 15. Og það var einnig rætt um þetta við n. þessarar hv. d., sem vildi ekki heldur breyta því ákvæði og taldi, að það væri nægilegt að gefa þá yfirlýsingu, sem ég gaf hér áðan.

Ég hef ekki trú á því, að framsóknarmenn eða sjálfstæðismenn eða nein pólitísk hreppsnefnd fari að beita slíkum tökum að leggja niður kjördeild bara af því, að allir kjósendurnir séu af einum flokki. Auk þess er vitað, að kosningin er leynileg, þannig að aldrei er hægt að dæma um það, hvernig menn kjósa. En ætti að fara lengra niður með þessa tölu, en gert er hér í frv., þ.e.a.s. niður í 15 manns í kjördeild, þá rís sannarlega upp sú spurning og henni var hreyft mjög ákveðið í nefndunum, hvort ætti ekki að taka upp leyfi til þess að hafa kosningu á sjúkrahúsunum? Hvers vegna eiga sjúklingar að missa kosningarrétt sinn, þótt þeir sitji þar á kjördegi? Svo má ræða um ýmis önnur atvik. Það þótti vera gengið of langt og nálgast of mikið heimakosningu. Og ég verð að segja það, að ef á að fara niður fyrir 15, niður í 12 eða 10 manns, þá held ég, að hægt sé að benda á, að þar væri maður kominn í heimakosningu, og hví þá að leyfa einu heimili uppi á fjöllum, í Möðrudal eða einhvers staðar annars staðar, að kjósa, af því að það eru 10 kjósendur á heimilinu, en leyfa ekki neinum öðrum aðilum, sem eiga kannske erfiða aðstöðu, að kjósa þá á sínu heimili? Það er engin ástæða fyrir mig sem formann n. að tefja málið með því að fara með það til n. aftur af þeim ástæðum.

Ég legg því til, að málið verði afgr. nú við þessa umr. og með þeim breyt., sem n. hefur borið fram,og hafði búizt við því, að hæstv. forseti tæki strax annan fund eftir 2. umr. og lyki málinu hér og ég hafði ekki hugsað mér að kalla n. saman aftur í sambandi við þessi atriði.