14.08.1959
Sameinað þing: 13. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 521 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

8. mál, stjórnarskrárendurskoðun

Bjarni Benediktsson:

Herra forseti. Það er ástæðulaust fyrir okkur hv. þm. S-Þ. (KK) að deila um, með hverjum hætti n. hafi horfið frá störfum. Ég vil þó segja, að hans minni hefur skolazt í því, að ég hafi aldrei innt meðnm. mína eftir því, hvort þeir vildu koma á fund, vegna þess að ég gerði mér það að reglu um nokkurt bil að spyrja þá öðru hverju um það hér í þingsölum, hvort þeir teldu það hafa þýðingu, að n. kæmi saman eða ekki og svörin voru ætíð þau sömu, að þeir teldu það þýðingarlaust. (Gripið fram í.) Það hefur fallið niður m.a. vegna þess, að það var talað um það í ríkisstj. undir forsæti Steingríms Steinþórssonar, hvort n. ætti að halda áfram og hvort hann sem forsrh. teldi ástæðu til að tilnefna mann í n. í stað prófessors Ólafs Jóhannessonar og forsrh. sá ekki ástæðu til þess og það varð samkomulag um það í þáverandi ríkisstj. og það fyrsta, sem varð ætlazt til af stjórnvöldum, að þau gerðu, ef það var í raun og veru alvara, að n. tæki til starfa, var, að forsrh. skipaði mann í n. í stað þess, sem sagt hafði af sér. Síðan hafa verið forsætisráðherrar Steingrímur Steinþórsson, Ólafur Thors, Hermann Jónasson og Emil Jónsson. Enginn þeirra hefur skipað mann í n. í stað þess, sem sagt hafði af sér, svo að það liggur alveg ljóst fyrir, að það er með vitund og vilja allra flokka og allra ríkisstjórna, sem síðan hafa starfað, að þessi n. hefur ekki haldið fundi síðan snemma á árinu 1953.

Tillögur okkar sjálfstæðismanna voru bornar fram í nóvember 1952, ef ég man rétt. (Gripið fram í.) Nóvemberlok, já. Nefndarmenn fengust engir til þess að styðja þær tillögur eða taka neina afstöðu til þeirra. Hins vegar hygg ég, mig muna það rétt, að þegar hv. þm. S-Þ. kom með sína till., þá varð strax ljóst, að hún hafði ekki byr í n., en hún var í raun og veru að efni til þess eðlis, að n. átti að ljúka störfum með því einu að gera till. um, að efnt yrði til sérstaks þjóðfundar eða stjórnlagaþings. Ákvörðunin um það var eins einfalt atriði og fremst gat veri, og enginn þarf að segja mér, að það sé fyrir athafnaleysi mitt eða annarra samnefndarmanna hins ágæta þm. S-Þ., að hann hefur aldrei flutt frv. um þetta. Ef hann hefði talið, að það yrði til að greiða fyrir málinu eða væri líklegt til samþykktar, þá hefði hann að sjálfsögðu einhvern tíma borið fram um það till. hér á Alþ. Það hefur hann aldrei gert.

Að öðru leyti sé ég ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, það liggur alveg ljóst fyrir. Mér finnst eðlilegt, að það sé nú athugað, með hverjum hætti málið sé tekið upp og því sé sjálfsagt, að málið gangi til nefndar og verði athugað af þingflokkum með venjulegum hætti. Eins er það eðlilegt, að þegar Alþ. kemur saman í haust, kosið þannig, að það verður réttari mynd af þjóðarviljanum en verið hefur, þá ákveði það Alþ., hvernig framhaldi þessa starfs skuli háttað.