12.08.1959
Sameinað þing: 10. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 552 í B-deild Alþingistíðinda. (271)

14. mál, skattur á stóreignir

Eysteinn Jónsson:

Það er ekki ástæða til að svara í löngu máli því, sem hv. þm. G-K. tók hér fram. Það er auðvitað ekkert nýtt, að ágreiningur sé um, hvernig eigi að framkvæma einstök lagaákvæði, bæði í sambandi við skattamál og annað. Það er heldur ekkert nýmæli, þó að eitthvert einstakt atriði í lögum reynist ekki standast fyrir dómstólunum. Og það ætti þessi hv. þm. að muna, að þegar við áttum sæti í stjórn saman og sett var löggjöf um stóreignaskatt, þá var líka talið mjög orka tvímælis um það, hvernig ætti að framkvæma einstök atriði þeirrar löggjafar og voru málaferli fram og aftur út af því, sem tóku sinn tíma. En niðurstaða varð að lokum þá og eins verður nú, og það er ástæðulaust hjá hv. þm. að vera nokkuð að blanda þessu hér inn í. Hitt hefði verið meiri ástæða fyrir hv. þm. út af því, sem hér hefur komið fram, að segja skýrt og skorinort álit sitt og síns flokks á því málskoti, sem hér er verið að framkvæma og lýst hefur verið í dag. En það gerði hv. þm. ekki enn, því að í staðinn fyrir að lýsa hreinlega andúð sinni og fordæmingu á því, að félagsskapur eins og þessi skuli leyfa sér að kæra íslenzk stjórnarvöld, Alþingi og hæstarétt erlendis fyrir það að níðast á þegnunum og brjóta á þeim almenn mannréttindi, þá kom ekki fram hjá hv. þm. enn, hvernig hann í raun og veru lítur á þetta, — og ekki fordæming á því, aðeins eintómar vífilengjur um málaferli og einstök atriði í stóreignaskattslögunum, sem þessu máli koma ekki við. Slíkt á að gera upp innanlands. Álit hv. þm. á því, sem hér hefur verið gert, kom ekki fram hreint.