23.07.1959
Neðri deild: 3. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 54 í B-deild Alþingistíðinda. (7)

1. mál, stjórnarskipunarlög

Óskar Jónsson:

Herra forseti. Hér í þessari hv. deild hefur verið lagt fram á þskj. 1 frv. til stjórnarskipunarlaga um breytingu á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands, 17. júní 1944 og er þetta frv. samhljóða frv., sem samþykkt var á síðasta Alþingi. Samþykkt þess þá leiddi m.a. til þess, að Alþ. var rofið og efnt til nýrra kosninga, sem fyrst og fremst, já, einvörðungu áttu að snúast um þetta mál.

Kosningarnar eru nú um garð gengnar og ávöxtur þeirra er það þing, sem nú er nýtekið til starfa og hefur það höfuðverkefni að fjalla um breytinguna á kjördæmaskipuninni, sem fram kemur í frv. því, sem hér liggur fyrir til 1. umr. Nú segja þeir hv. þm., sem að þessu frv. standa: Þjóðin hefur fellt sinn dóm og samþykkir, að kjördæmabreytingin skuli ná fram að ganga og öll andstaða gegn því sé héðan af tilgangslaus og neikvæð. — En þar er ég og skoðanabræður mínir á allt öðru máli.

Höfuðrök okkar gegn því, að stjórnarskrárbreytingin sé raunverulega ekki lögformlega samþ., eru þau, að núv. stjórnarfl. mistúlkuðu þetta mál í kosningunum í sumar með því að segja kjósendum ósatt. Þeir sögðu bæði í blöðum og á framboðsfundum, að ég tali nú ekki um í einkaviðtölum, að kosningarnar snerust að meginþætti um allt annað en kjördæmabreytinguna. Sjálfstfl. sagði, að kosið væri um ávirðingar vinstri stjórnarinnar undir kjörorðinu: Aldrei framar vinstri stjórn. — Alþb. sagði, að kosningarnar snerust um landhelgismálið og dýrtíðarráðstafanir núv. ríkisstj.Alþfl. hampaði eigin efnahagsráðstöfunum og þeim kjarki að þora að taka stjórn á skipi íhaldsútgerðarinnar. Og svona mætti lengi telja. Allir þessir flokkar ásökuðu Framsfl. fyrir að taka málið eins og vera bar og töldu, að hann færi hamförum um landið í þessu máli. Sannleikurinn er sá, að Framsfl. einn gekk réttilega að þessum kosningum og túlkaði einn allra flokka eingöngu það málið, sem stjórnarskráin gerir ráð fyrir að kosningarnar snerust um. Allir hinir flokkarnir notuðu meiri og minni blekkingar í kosningaáróðri sínum og gerðu visvítandi tilraunir til að leiða hugi kjósenda frá meginatriði kosninganna, sem var kjördæmabreytingin, og til þess var flokksvaldið notað óspart.

Það er vert að hugleiða í þessu sambandi, að það atriði í stjórnarskránni, að þegar samþ. er breyt. á kjördæmaskipun, skuli efnt til almennra kosninga og breytingin skuli þá taka gildi, er hið nýja þing hefur samþ. hana, er gamalt og flokkar í þeirri mynd, sem nú er, voru þá ekki til staðar. Þá voru einstaklingarnir minna háðir flokkunum og flokksaga og því frjálsari í ákvörðunum sínum, en nú er. Þetta er staðreynd. Og í þá daga kom fram sannari mynd af þjóðarviljanum í almennum kosningum. Að þetta sé staðreynd, má sjá af því, að í stjórnarskránni er gert ráð fyrir, að ef samþ. sé breyt. á kirkjuskipuninni, þá skuli fram fara þjóðaratkvgr. um þá breytingu. En þá voru einmitt kirkjumálin viðkvæmustu þjóðmálin og skiptu þjóðinni í harðsnúna flokka. Þess vegna var nauðsyn að blanda kirkjumálunum ekki saman við önnur mál, svo að sannur þjóðarvilji kæmi í ljós. Þennan hátt hefði þurft að hafa í málinu um breyt. á kjördæmaskipuninni, sökum þess að eins og nú er staðið að málum, fæst ekki hinn rétti þjóðarvilji, vegna þess, hve nú er ruglað saman óskyldum málum í almennum kosningum, svo sem áður greinir.

Að þetta sé rétt, sannast á því, að mjög margir kjósendur, sennilega miklu fleiri, en nokkurn grunar, höfðu mjög ólík viðhorf til þeirra mála, er flokkarnir sögðu þeim að ráða ættu úrslitum um atkvæði þeirra á kjördegi. Hvað átti sá kjósandi að gera, sem vildi fyrir alla muni undirstrika með foringjum Sjálfstfl. með atkvæði sínu: Aldrei framar vinstri stjórn, — en var hins vegar á móti kjördæmabreytingunni? Eða sá, sem var mjög ánægður með efnahagsaðgerðir núv. ríkisstj. og vildi ljá þeirri stefnu fylgi með atkvæði sínu, en var á móti kjördæmabreytingunni? Eða sá, sem vildi styðja réttlínukommúnista, en var þó á móti kjördæmabreytingunni? Eða sá kjósandi, sem aðhylltist landsmálastefnu Framsfl., en vildi vera með kjördæmabreytingunni? Hvernig á að samræma þessi mismunandi sjónarmið? Er ekki hætt við, að flokkssjónarmiðum hafi verið haldið fast að kjósendum og til þess notuð ýmis meðul, jafnvel þvinganir, er kjósandi hefur opinskátt látið í ljós, að hann hafi hugsað sér að kjósa í þetta sinn á móti sínum flokki og láta þá kjördæmabreytinguna ráða afstöðu sinni? Ljóst dæmi um þetta má sjá í fregnmiða frá Sjálfstfl., þar sem m.a. er talað um rangfærð ummæli manna, eins og t.d. ummæli Kristins Jónssonar í Borgarholti í Holtum í Rangárvallasýslu, þar sem hann er sagður taka aftur eða segja, að rangt hafi verið eftir honum viðhöfð ummæli í Kjördæmablaðinu. En hann gefur svo í Tímanum skriflega yfirlýsingu, að aðeins eitt af því, sem eftir honum sé haft í Morgunblaðinu og fregnmiðanum, nefnilega það, að hann sé sjálfstæðismaður, en óánægður með kjördæmabreytinguna, sé rétt, annað eftir honum í áðurnefndum blöðum sé ekki rétt. Næst á eftir þessu segir Mbl., að Kristinn hafi ekki ætlazt til, að þessi skriflega yfirlýsing yrði birt og er talað um ölteiti í því sambandi. Hvað kom Sjálfstfl. til að fara að ráðast að Kristni í Borgarholti, þó að hann léti í ljós skoðanir sínar á kjördæmamálinu í Kjördæmablaðinu, jafnvel þó að hann sé áður og sé ef til vill enn sjálfstæðismaður og pína hann til að slaka á sínum eigin ummælum um það mál? Var hann ekki sjálfráður að hafa sínar skoðanir? Maður getur efazt um, að svo hafi ekki verið álitið. Hvaða tegund stjórnmálabaráttu er þetta?

Mér er kunnugt um það, að fyrrv. alþm. V-Sk., Jón Kjartansson, var mjög á móti kjördæmabreytingunni í núv. mynd og lét þau boð ganga til sinna kjósenda í Vestur-Skaftafellssýslu, eftir að kjördæmamálið kom á dagskrá hér í hv. Alþ. á síðasta vetri, að hann væri á móti málinu, nema því aðeins að 7 þingmenn yrðu í Suðurlandskjördæmi. Með þessu róaði hann sína kjósendur, sem horfðu hrelldir fram á það, að þeir mundu sviptir fulltrúa úr sinni sýslu að öðrum kosti. Þótti mönnum afstaða Jóns hin drengilegasta. En hvað skeður? Þegar kemur að atkvgr. málsins í hv. efri deild Alþingis, þar sem Jón Kjartansson átti sæti, er hann allt í einu orðinn með málinu í núv. mynd. Hvað hafði skeð? Svar við þessu fékkst á þingmannafundi á Suðurnesjum í vor, eftir því sem mér er tjáð, þar sem hv. þm. G-K, form. Sjálfstfl., Ólafur Thors, segir frá því, að kjördæmabreytingin hafi verið komin í algera hættu, þar sem Jón Kjartansson, þáv. þm. Sk., og hv. 5. landsk. þm., Finnbogi R. Valdimarsson, mundu báðir vera á móti kjördæmabreytingunni og þannig ásamt Framsfl. hindra, að málið fengi framgang í Ed. Alþ. og yrði það þar með úr sögunni, hefði hann þá orðið að verja heilu kvöldi til að tala um fyrir Jóni Kjartanssyni og loks eftir ýtrustu tilraunir fengið hann til liðs við málið og bjargað því á þann hátt.

Það má skjóta því hér inn í, að í vor, er hv. þm. G-K., Ólafur Thors, kom á flokksfund austur í Vík, hældi hann Jóni Kjartanssyni fyrir ötula og skörulega forustu í kjördæmamálinu á Alþingi. Hvað kalla menn nú svona vinnubrögð og málsmeðferð? Er ekki hugsanlegt, að svona aðferðir gangi nokkuð nærri anda stjórnarskrár og kosningalaga?

Þegar staðið er þannig að grundvallarstjórnskipunarlögum, er þá ekki viðbúið, að hin rétta mynd málefnanna skekkist í augum hins almenna kjósanda og málið sé í raun og veru lagt á rangan hátt fyrir þjóðina, að forsendurnar fyrir hinum sanna og rétta þjóðarvilja séu brostnar og kjördæmabreytingin í raun og sannleika afgreidd á óviðeigandi hátt? Það er m.a. á þessum forsendum, sem við framsóknarmenn teljum að málið þurfi endurskoðunar við.

Ekki verður hjá því komizt að ræða um kjördæmabreytinguna almennt við þessa umr., þó að mikið sé búið um það að ræða á vetrarþinginu. Sú spurning kemur í hugann: Hver hefur beðið um þessa kjördæmabreytingu? Ekki er vitað um, að nein beiðni um að leggja niður núv. kjördæmi hafi komið utan af landsbyggðinni. Hins vegar er kunnugt um, að margs konar mótmæli gegn kjördæmabyltingunni hafa hvaðanæva borizt utan af landinu, sem hafa verið að engu höfð af hv. Alþ. Hvað kemur til? Það er eðlilegt, að þannig sé spurt. Kunnugt er, að á liðnum árum hafa komið fram beiðnir um að skipta kjördæmum og smækka þau, — má þar til nefna skiptingu Ísafjarðar- og Húnavatnssýslna í tvö kjördæmi, — beiðnir um að gera ýmsa kaupstaði að sérstöku kjördæmi og hefur Alþ. orðið við þeim beiðnum. Þetta sýnir og sannar, að landsmenn yfirleitt hafa viljað kjördæmin smærri, en ekki stærri og með því undirstrikað, að betur sé haldið á málum hinna einstöku héraða með því, að þau hafi sinn sérstaka fulltrúa, sem fólkið þekkir og á auðvelt með að ná til með málefni sín, heldur en ef þingmaðurinn er búsettur fjarri kjósendum sínum og sérstaklega lítt kunnugur mönnum og málefnum heilla byggðarlaga. Þar á ofan bætist það, sem ekki er hvað veigaminnst, að eftir að búið er að koma á stóru kjördæmunum, eigi kjósendur miklu erfiðara með að ráða því, hverjir verða í kjöri, eða skipta um þingmann, ef þeim líkar ekki við hann. Það er næstum útilokað. Við þetta bætist svo, að miklar líkur eru fyrir því, að flokksvaldið verði of ráðríkt í þessum efnum og þeir einir skipi örugg sæti á framboðslistum, sem flokksforustan vill þar hafa. Þetta stefnir ekki í lýðræðis- eða réttlætisátt og er sízt til þess fallið að sýna sanna mynd af þjóðarviljanum.

Nú eru önnur viðhorf, en verið hafa. Mótmæli og óskir hvaðanæva af landinu eru nú virt að vettugi og að engu höfð á hinu háa Alþingi. Hvaða vit er í þessum vinnubrögðum? Halda hv. alþm., að virðing Alþingis aukist við þetta Nei, vissulega ekki. Hvaða sjónarmiðum er þá verið að þjóna með kjördæmabreytingunni? Svarið virðist liggja opið við. Það er verið að gera tilraun til að efla flokksvald vissra flokka og ekki hikað við að gera það á kostnað þeirra, sem erfiðasta hafa aðstöðuna í okkar stóra og harðbýla landi. Er þetta réttlæti? Ég mótmæli því. Höfðatöluregla skapar ekki réttlæti, ein út af fyrir sig. Er ekki talað um það, að mesta réttlæti sé í því fólgið að skapa mönnum sem jöfnust lífskjör? Jú, vissulega. En fæst það með því, að atkvæðisréttur sé sem jafnastur meðal íbúa landsins? Nei, aldeilis ekki. Hér í Reykjavík hafa allir sama atkvæðisrétt. Eru ekki lífskjörin misjöfn fyrir því? Í mínu kjördæmi hafa allir sama atkvæðisrétt, — en sitja þar allir við sama borð? Nei, ég er nú hræddur um ekki. Einn bóndi býr á góðri jörð með góðan akfæran veg heim að býli sínu. Annar, kannske næsti nágranni, býr á kotbýli og moldargötur ófærar öllum nútíma farartækjum, a.m.k. í misjöfnu veðri, heim að bæ hans. Það er erfitt að skapa öllum jöfn lífskjör. Á hitt má hiklaust benda, að aðstaða þeirra, er í þéttbýlinu búa, er margfalt betri til alls konar úrræða og útréttinga, en þess fólks, sem heima á í hinum strjálu byggðum. Það hefur yfirleitt meiri önn og erfiði og fábrotnara og þægindasnauðara líf. Þetta fólk er fjármálalega og félagslega hinn smái í þjóðfélaginu, en vinnur þó það þýðingarmikla hlutverk að halda landinu í byggð við óhagstæð skilyrði, en til ómetanlegs gagns fyrir þjóðarheildina.

Hvaða frambærileg rök eru fyrir því að ráðast nú að þessu fólki á þann hátt að minnka lýðréttindi þess og stjórnarfarslegt sjálfstæði að nauðsynjalausu gegn eindregnum mótmælum þessa sama fólks í orði og verki, sem sannaðist einnig vel í nýafstöðnum kosningum? Hér ber enn að sama brunni. Þetta er óbein valdníðsla af hendi þéttbýlismanna að óþörfu. Þetta þykir e.t.v. harkalega til orða tekið hér á hv. Alþ. En ef svo er, hvað þýddi þá fyrirsögn Morgunblaðsins í aukablaði, sem gefið var út á kjördag, prentuð með bláu letri yfir þvera siðu, svo hljóðandi: Í dag beita Reykvíkingar valdi sínu. — Á hverjum átti það vald að bitna? Ég býst við, að svarið liggi opið við. Atkvæðafjöldi reykvískra kjósenda átti sýnilega að sveigja vilja hinna færri og smærri undir sinn stóra og sterka hæl, ofurveldi Sjálfstfl, fyrst og fremst. Bendir þetta ekki óþægilega í vissa átt pólitísks einræðis?

Það er vitað mál, að þessi kjördæmabylting átti fyrst og fremst rætur að rekja til þess að hnekkja Framsfl. og gera hann sem áhrifaminnstan á löggjafarþingi þjóðarinnar. Þess eiga nú hinar dreifðu byggðir að gjalda, að Framsfl. hefur í þeim kjördæmum átt mestu fylgi að fagna. Enginn skyldi halda, ef Sjálfstfl. eða hver annar flokkur sem var, hefði þar átt verulegt meirihlutafylgi, að honum hefði komið til hugar að ljá máls á þessari kjördæmabreytingu. Þá hefðu þessir sömu flokkar talið rétt, að kjördæmunum væri ekki breytt. Þá hefði það verið kallað réttlæti, sem nú er kallað óréttlæti. Þetta sýnir, að það, sem verið er að gera með þessari kjördæmabyltingu, er aðeins pólitísk spilamennska til að þjóna stundarhagsmunum.

Sjálfstfl. telur það sem höfuðástæðu, að stofnað var til kjördæmabreytingarinnar, að umbótabandalag Framsfl. og Alþfl. var stofnað fyrir kosningar 1956 og þessu bandalagi gefið það að sök að ætla að hrifsa til sín meirihlutavald á Alþ. eftir ólýðræðislegum leiðum. Fyrirmyndin að þessu var nú e.t.v. frá Sjálfstfl., sem við kosningarnar 1953 fann það út, að aðeins vantaði örfá atkvæði á vissum stöðum, til þess að hann fengi hreint meirihlutavald á Alþ., þó að hann hins vegar væri langt frá að hafa meiri hl. kjósenda í landinu á bak við sig. Þá var þetta ágætis réttlæti. Þessi rök hitta því ekki í mark, og það verður alveg eins opin leið eftir kjördæmabyltinguna að mynda flokkasamsteypur, ef henta þykir til framgangs mála, eftir sem áður.

En hvers vegna ber svo brýna nauðsyn til að minnka áhrif Framsfl.? Aðeins vegna þess, að hann er í raun og veru sá flokkur, sem einarðlegast og á skeleggastan hátt hefur beitt sér fyrir sönnum umbótum í landinu, bæði í sveit og við sjó, og sá flokkur, sem bezt hefur barizt á móti yfirgangsstefnu og einræðisbrölti Sjálfstfl. Þetta er þjóðin farin að skilja og þess vegna hefur hún nú í þessum síðustu kosningum gefið Framsfl. aukinn mátt og styrkleika, einnig vegna þess, að verkalýðsflokkarnir, sem svo vilja kalla sig, hafa látið að vilja Sjálfstfl. í kjördæmamálinu og eru nú, eins og sjá má hér á hv. Alþ., saman safnaðir sem ein hjörð undir verndarvæng ritstjóra Morgunblaðsins, hv. 1. þm. Reykv., forseta Sþ., Bjarna Benediktssonar.

Heldur svo Alþb. og Alþfl. eftir hrunið í síðustu kosningum í samvinnu við Sjálfstfl. um að hrinda fram kjördæmabyltingunni, að það, sem nú hefur gerzt, sé vegurinn til lífsins? Er hér ekki á ferðinni, ein þvingunin enn. Frambjóðandi Alþb. í Vestur-Skaftafellssýslu sagði í sambandi við samvinnu Alþb. og Sjálfstfl., að því mætti líkja við samning Sæmundar fróða við vissa persónu, sem allir þekkja. Ég er nú ekki viss um, að hv. 3. þm. Reykv. (EOl), þó að hann hafi sín fræði lært fyrir austan járntjald, hafi ráð 1. þm. Reykv., er nam vestan tjalds, svo í hendi sér sem Sæmundur fróði selsins forðum og mætti svo fara, að báðir biðu tjón á sálu sinni. Eða treystir hann sér, 3. þm. Reykv., til þess að viðhafa aðferð Sæmundar með Saltaranum á réttu augnabliki? Hver veit?

En landsmenn vita nú, svo að ekki er um að villast, að ekki er til í landinu nema einn flokkur, sem hægt er að treysta í andstöðunni við íhaldið í landinu og það er Framsfl., flokkurinn, sem kjördæmabyltingin átti fyrst og fremst að knésetja. Væri ekki rétt fyrir verkalýðsflokkana, sem enn kalla sig því nafni, að athuga nú sitt ráð, áður en það er of seint og ganga nú hreint til verks, fresta frekari aðgerðum í kjördæmamálinu og taka til endurskoðunar alla stjórnarskrá lýðveldisins í fullri alvöru? Mér finnst vera kominn tími til þess, að svo verði gert, þar sem því var lofað strax, er lýðveldið var endurreist 1944. Ja, það verður nú ekki með sanni sagt, að þeir hv. alþm., sem að þeirri samþykkt stóðu og hafa verið á Alþ. allar götur síðan, hafi staðið vel í stöðu sinni á þessu sviði, að skapa þjóðinni ný stjórnskipunarlög við hennar hæfi. Ég held, að þjóðin yrði þakklát fyrir þá röggsemi, að nú þegar yrði að því unnið, jafnframt því að tekið væri höndum saman um að leysa aðkallandi vandamál þjóðarinnar á öðrum sviðum. Sýndist svo vera sem þannig vinnubrögð mundu ólíkt heilladrýgri, en verja tímanum í óraunhæfa kosningabaráttu, sem litlu eða engu breytti nema eyða tíma og fjármunum. Við verðum alltaf sama fólkið, sem glímir við sömu vandamálin, hvað oft sem kosið er og hvernig sem kjördæmunum verður breytt.

Við framsóknarmenn hér á Alþingi teljum, að við séum fyrst og fremst kjörnir á þetta þing sem og önnur til að vinna að alþjóðarhag og velferð. Við teljum, að við gerum það bezt með því að vinna í þessum anda. Við ætlumst til, að hver maður í þjóðfélaginu ræki skyldu sína sem bezt og drengilegast, hvar í stétt og stöðu sem hann stendur, við land sitt og þjóð. Hví skyldum við ekki gera þá kröfu til vor sjálfra og ganga á undan með góðu eftirdæmi?

Í blárri bók, sem gefin var út af Sjálfstfl. í vor fyrir kosningarnar og ber titilinn „Kjördæmamálið“, stendur yfirskrift á fremstu lesmálssíðu, svo hljóðandi: Tímamót í íslenzkum stjórnmálum. — Önnur málsgrein í þessari bók hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrri kosningarnar í sumar marka lokaþátt stjórnmálatímabils í sögu þjóðarinnar, sem margir munu telja að hefjist með valdatöku Framsfl. fyrir um það bil 30 árum.“

Svo mörg eru þau orð. Mikið er hér sagt og réttilega. Vissulega hefur Framsfl. haft höfuðforustuna um helztu umbætur í landinu á liðnu 30 ára tímabili. Þetta er rétt og satt. En fyrst svo er að sögn sjálfstæðismanna, hvað gengur þeim þá til að vilja hnekkja þessum ágæta flokki, jafnvel helzt gera hann áhrifalausan um löggjöf landsins og hlaupa til þess með fljótræðislegri breytingu á kjördæmaskipun landsins, sem enginn hefur beðið um? Hyggst flokkurinn taka upp nýja stefnu, stefnu kyrrstöðu og afturhalds á öllum sviðum? A.m.k. er talað um í þessari ágætu bók, að síðari kosningarnar í haust ættu að verða upphaf nýs tímabils, — nýs tímabils! Sennilega þá andstætt því tímabili, sem mótað var af stefnu Framsfl., stefnu umbótanna. Þá er einnig talað um í þessari sömu bók, að þessi kjördæmabreyting sé aðeins spor í réttlætisátt. Nú afneita sjálfstæðismenn því, að þeir vilji gera landið allt að einu kjördæmi, og sverja og sárt við leggja. Hvert liggja þá þau spor, sem óstigin eru í réttlætisáttina? Mér er bara spurn: hvert liggja þau? Varla til enn stærri kjördæma? Eða þá til baka aftur, það kemur varla til mála? Það er óhugsandi annað en flokkurinn standi nokkurn veginn jöfnum fótum, þegar göngunni er lokið. Getur það verið, að skrefið, sem eftir er, sé að afnema öll kjördæmi? Til er í veraldarsögunni a.m.k. að afnema alla flokka með valdboði, þegar tækifæri hafa gefizt. Það virðist vera, að tilgangurinn með kjördæmabyltingunni hafi verið sá, svo sem að framan er greint, að þurrka út áhrif Framsfl. Ef það tækist, er ekki mikið eftir. Hinir flokkarnir virðast komnir í höfn og varðveitast af móðurlegri umhyggju í bili.

En Framsfl. þurrkast ekki út með kjördæmabreytingunni, heldur eflist og það til mikilla muna. Þess vegna getur Sjálfstfl. rólegur frestað framgangi kjördæmabreytingarinnar, vegna þess að höfuðforsenda þess máls er brostin. Fólkið í landinu vill áframhaldandi umbótastefnu framsóknarmanna í landsmálum, en fordæmir stöðnun og afturhald.

Herra forseti. Ég fer nú að ljúka máli mínu. Að lokum vil ég draga saman í stuttu máli þau rök, sem ég hef hér að framan gert að umtalsefni til stuðnings því, að taka beri frv. það, sem hér liggur nú fyrir til 1. umr., til frestunar og nýrrar endurskoðunar:

1) Vegna þess, að því var haldið mjög að kjósendum af þríflokkunum, sem að þessu kosningafrv. standa, að kosningarnar í vor snerust engu síður um önnur þjóðmál, en kjördæmabreytinguna og því náðist ekki fram hinn sanni þjóðarvilji í því máli, sem raunverulega átti um að kjósa. Málið var því ekki lagt nógu hreint og greinilega fyrir þjóðina.

2) Vegna þess, að gengið hafi verið með óhóflegum hætti að því að beita flokkavaldinu gegn því, að kjósendur mættu greiða atkvæði samkv. skoðunum sínum á kjördæmamálinu einu út af fyrir sig.

3) Enginn hefur beðið um þessa kjördæmabreytingu. Þvert á móti hefur Alþ. borizt fjöldi mótmælabréfa og samþykktir hvaðanæva af landinu gegn þessari breytingu. Hér er því unnið gagnstætt þeirri stefnu, sem Alþ. hefur oftast í heiðri haft, að virða vilja fjöldans, sem borið hefur fram óskir til Alþingis.

4) Vegna þess, að önnur og þýðingarmeiri verkefni bíða nú Alþ. en að efna til deilna og kosningabaráttu, sem er algerlega óraunhæf fyrir þjóðina. Þess vegna ber alþm. nú þegar að snúa sér að því af alhug að sinna aðkallandi verkefnum, sem raunverulega þola enga bið.

5) Skylt er að leggja áherzlu á, að nú þegar verði hafizt handa um að setja landinu nýja stjórnarskrá, svo sem margsinnis hefur verið lofað og eigi fyrr kosið á ný, en því verki er lokið, sem ekki ætti að verða seinna en vorið 1961.

Afstaða mín til frumvarps þessa, sem hér er til umr., mótast af framansögðu.