06.08.1959
Neðri deild: 11. fundur, 79. löggjafarþing.
Sjá dálk 378 í B-deild Alþingistíðinda. (81)

3. mál, kosningar til Alþingis

Frsm. minni hl. (Páll Þorsteinsson):

Herra forseti. Stjskrn. hefur unnið að athugun á þessu máli, fyrst sameiginlega stjórnarskrárnefndir beggja deilda og síðar n. þessarar hv. d. Stjskrn. Nd. hefur gert úr garði margar brtt. við frv. og eru þær prentaðar á þskj. 14 og hefur frsm. hv. meiri hl. n. nú gert grein fyrir þeim. Niðurstaðan varð þó sú, að n. varð ekki einhuga um afgreiðslu málsins í heild og höfum við, sem skipum minni hl., við hv. þm. N-Þ. (GíslG), skilað sérstöku nál. á þskj. 17.

Breytingum þeim, sem stefnt er að því að koma á skv. þessu frv., má skipta í tvo þætti. Annars vegar eru breytingar, sem eru bein afleiðing af stjórnarskrárbreyt. þeirri, sem nú liggur fyrir hv. Alþingi. En hins vegar eru svo ýmsar breyt. á gildandi kosningalögum, sem telja má lagfæringar eða leiðréttingar á ýmsum ákvæðum þeirra. Við, sem skipum minni hl. n., erum samþykkir brtt. þeim, sem n. flytur á þskj. 14, þó með þeim fyrirvara, sem hv. frsm. meiri hl. tók fram, að n. hefur í hyggju að athuga nánar milli umræðna einstakar brtt. og hefur ekki endanlega tekið ákvörðun um, hvort þær verða bornar fram við 3. umr. eitthvað breyttar eða ekki.

En í þessu frv. til kosningalaga eru ákvæði, sem við í minni hl. og Framsfl. getum ekki fallizt á. Í 5. gr. þessa frv. eru t.d. tekin upp ákvæði stjórnarskrárfrv. þess, sem nú er til umr. hér á hv. Alþ., um hina nýju kjördæmaskipun, sem þrír þingflokkar vilja lögleiða. Stjórnarskrárfrv. hefur ekki náð samþykki í hv. Ed. og er því ekki orðið að lögum nú, þegar þetta mál er hér til umr. og a.m.k. meðan svo er, getum við ekki, sem erum þessu andvígir í grundvallaratriðum, mælt með því, að þessi ákvæði verði lögfest í kosningalögunum.

Afstaða okkar í minni hl. til þessa máls er því sú, að við munum styðja þær brtt., sem n. flytur og að okkar dómi eru réttmætar, en mælum ekki með samþykkt frv. í heild. Við áskiljum okkur enn fremur rétt til þess að flytja sérstakar brtt. við frv. og fylgja brtt., sem fram kunna að koma.