02.06.1960
Neðri deild: 93. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2639 í B-deild Alþingistíðinda. (1007)

169. mál, Búnaðarbanki Íslands

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Ég gat því miður ekki mætt á fundi í fjhn. þessarar hv. d., þegar þetta mál var til umr. þar, óg . vil þess vegna gera nokkra grein fyrir minni afstöðu og Alþb. til þess.

Við teljum eðlilegt, að það sé hafður sá háttur á um bankaráð Búnaðarbankans, að þar sé. 5 manna bankaráð og allt kosið af Alþ., og ég álít, að það væri heppileg aðferð líka með aðra banka að beita þeirri aðferð, og þess vegna erum við sammála þeim ákvæðum í 1. gr.

Viðvíkjandi því, sem fram hefur komið í sambandi við þær umr., sem hér fóru fram, ég held, að það. hafi verið við 1. umr., — um ástæðurnar til þess, að breyta þurfti til, vil ég hins vegar taka það fram, að ég er á nokkuð annarri , skoðun en mér virtist þá koma fram hjá hæstv. landbrh. og nokkuð hefur borið á í umr. í blöðunum. Mér finnst alveg eðlilegt, að bankaráðin í bönkunum séu skipuð hlutfallslega í samræmi við samsetningu Alþ., þegar þau eru skipuð eða. kosin, og það getur náttúrlega þýtt, þegar þau eru kosin, hvort það er til 4 ára eða hvaða tíma sem það nú er, —, það getur náttúrlega þýtt stundum, þegar kosningar fara fram t.d. á milli, ef hlutföll breytast mikið, að bankaráðið sé e.t.v. ekki alveg í samræmi við þann meiri hl. í ríkisstj., sem þá skapast um eitthvert ákveðið árabil. Ég álít m.ö.o. eðlilegt, að bankaráðin séu skipuð þannig, að þau séu hlutfallslega réttir fulltrúar og spegilmynd af vilja Alþ., eins og það er á hverjum tíma.

Hvað snertir afstöðu ríkisstjórnar, og þar á ég við hvaða ríkisstj. sem er, hvort sem það er þessi hæstv. ríkisstj., sem nú situr, eða önnur, þá finnst mér það ekki óhjákvæmilegt, að hver ríkisstj. þurfi endilega að hafa meiri hluta á hverjum tíma í bankaráðum viðskiptabankanna, — ef þau endurspegla að öðru leyti styrktarhlutföllin á Alþ. rétt, þegar þau hafa verið kjörin, þá sé það ekki óhjákvæmilegt, það getur þá liðið nokkur tími, þangað til slíkt gerðist, en það yrði aldrei langur tími. Hins vegar álít ég alveg nauðsynlegt og alveg eðlilegt og hef sagt það áður hér, einmitt þegar bankamál hafa verið til umr. í tíð vinstri stj., að ég álít alltaf eðlilegt og óhjákvæmilegt, að ríkisstj. hafi meiri hlutann í stjórn Seðlabankans. Það, sem ég á við með þessu, er: Það er ekki endilega nauðsynlegt, að ríkisstj. á hverjum tíma ráði þannig beint viðskiptabönkum landsins, ef þeir að öðru leyti eru í beinu samræmi við styrktarhlutföllin á Alþ., þegar bankaráð þeirra hafa verið kosin, vegna þess að það er ekki meiningin, að viðskiptabankar séu svo háðir hverri ríkisstj, sem er, að ríkisstj. beinlínis geti ráðið yfir þeim og jafnvel óbeint haft áhrif á útlán þeirra. Það, sem hins vegar er óhjákvæmilegt, eins og verið hefur, og verður líklega lengst af í okkar landi þrátt fyrir það ævintýri, sem nú er verið að leggja út í, er það, að ríkisstj. ráði seðlabanka á öllum tímum, að pólitík, sem seðlabanki rekur á öllum tímum, sé í samræmi við pólítík ríkisstj. En með því tekst líka seðlabankanum með því valdi, sem hann hefur, að framfylgja þeirri heildarpólitík, sem ríkisstj. á hverjum tíma vill hafa í fjárhagslegri pólitík landsins. — Ég vil aðeins taka þetta fram út af þeim umr., sem fram fóru, af því að ég hef áður sagt þetta hér, að ég álíti, að þennan mun eigi að gera viðvíkjandi viðskiptabönkum og seðlabanka og afstöðu ríkisstj. til þeirra.

Hér hefur nokkuð verið rætt um og raunar líka deilt um aðstöðu Búnaðarbankans og víssa erfiðleika, sem hann á í. Ég vil aðeins minna á í sambandi við þær umr., sem hér hafa farið fram um það, að þar mega að nokkru leyti þeir tveir flokkar þingsins, sem mestu hafa ráðið um þessa hluti á undanförnum áratugum, Sjálfstfl. og Framsfl., sjálfum sér um kenna. Við áttum, Sósfl., allmikinn þátt í því upphaflega með flutningi frv. hér á Alþ. á nýsköpunartímunum að leggja grundvöll að byggingarsjóðnum og fleiri sjóðum, sem reynzt hafa landbúnaðinum vel. Og eitt af því, sem við gerðum og var höfuðatriði á þeim tímum, var, að útlánin úr þeim sjóðum væru með lágum vöxtum. Alveg eins og Jónas frá Hriflu í gamla daga, meðan hann var og hét, barðist fyrir því 1927, að vextirnir úr landnámssjóðnum og byggingarsjóðnum væru lágir, en það hefur breytzt seinna, þá börðumst við fyrir því þá, vegna þess að fyrir landbúnaðinn eins og hverja aðra atvinnugrein á Íslandi eru lágir vextir höfuðatriði fyrir hvern, sem vill vinna að velferð þessara atvinnuvega og þeirra manna, sem eiga að lifa af þeim. Í byggingarsjóðnum voru vextirnir upphaflega 2%, þegar við höfðum með það að gera að leggja grundvöllinn að þessu. Siðan var tekið upp á því, einmitt þegar Framsókn og Sjálfstfl. fóru inn á Marshall-aðstoðina og fóru að láta útlendinga og útlenda hagfræðinga skipta sér af málum okkar hér á Íslandi og segja fyrir um, hvernig við skyldum stjórna málum okkar, þá var farið inn á það að hækka vextina til þessara sjóða, sem Búnaðarbankinn geymir, allt upp í 51/2 %. En til að byrja með var útlánsvöxtunum haldið þeim sömu, með stórtöpum fyrir bankann, eins og við bentum á, þegar þessi mál þá voru til umr. hér í þinginu og látið var undan þessari útlendu fyrirskipun um að hækka vextina, — það var um það leyti, sem Framkvæmdabankinn var stofnaður, á lánunum til þessara sjóða upp í 51/2 % til þess að hlýða Ameríkönum. Það er rétt, að það sé rifjað upp, svo að menn muni það og læri af því.

Síðan gerðist það nokkru seinna, 1954, að Sjálfstfl. og Framsókn í helmingaskiptastj. fóru inn á það að hækka vextina út úr þessum sjóðum. Þeir voru þá hækkaðir, ef ég man rétt, upp í 31/2 % , útlánsvextirnir, einmitt ofur lítið í áttina við amerísku vextina. Síðan hafa með nýjasta stökkinu, sem gert var í vetur, þessir vextir verið hækkaðir upp í 6% .

Þetta er slæm þróun, vitlaus þróun, sköpuð hér á Íslandi undir útlendum áhrifum, erlendar fyrirskipanir útlends auðvalds, sem vill fá að ráða, hvernig við Íslendingar búum að okkar eigin fólki, og búandkörlum á Íslandi hefði einhvern tíma þótt það hart að láta útlenda auðkónga fara að skipa sér þannig fyrir, hvernig hlutirnir skyldu vera.

Ég vildi aðeins rifja þetta upp í sambandi við það, sem hér hefur verið talað um. Það var alltaf vitlaust, þegar farið var inn á þá leið að taka þessi tillit, og hefur valdið Búnaðarbankanum eins og öðrum bönkum og atvinnuvegum landsins skaða. Og þegar nú er verið að fara inn á þá braut að valda atvinnuvegunum enn þá meiri skaða með þeirri pólitík, sem núv. hæstv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa farið inn á, að hækka þessi lán, sem áður voru þó svona, — ja, ég veit ekki, hvað 5–6% lán eru kölluð núna, það eru anzi há lán, en þau rúmuðust þó a.m.k. innan takmarka okurlaganna. Nú er hins vegar farið að hækka lánin meira, þannig að meira að segja þau lán, sem áður var haldið niðri í 2%, eru sem sé sett alla leið upp í 61/2, eins og áður voru almennustu lán á Íslandi, þegar hæst var.

Það, sem ég hins vegar er ósammála í þessu frv., eru ákvæðin í 4. efnismálsgr., þar sem segir í síðari málsgr. þar: „Heimilt er bankaráði að fjölga bankastjórum í 2 að fengnu samþykki ráðherra.“ Það er reynsla manns, þegar svona heimildir eru settar, að þær verði notaðar, og af því að það hefur áður verið hér til umr., þó að alllangt sé liðið síðan, að fjölga bankastjórum við Búnaðarbankann og ég hef tekið afstöðu á móti því þá, þykir mér líka rétt, um leið og ég tek afstöðu á móti því núna, að gera nokkra grein fyrir, hvernig á því stendur.

Við vitum það af reynslu okkar á undanförnum árum og áratugum varðandi stærstu viðskiptabankana, sem um leið annast útlend viðskipti og verið hafa um tíma ríkustu bankarnir hér, Landsbankann og Útvegsbankann, að farið hefur verið inn á þá leið að hafa þar við hvorn banka 3 bankastjóra, og þetta hefur orðið til þess, að venjulegast, — það eru til undantekningar frá því, — hefur það farið svo, að um skipan bankastjóra við þessa banka hafa allmikið ráðið pólitísk tillit, þannig að það er svo að segja orðinn siður, að slík tillit sitji í fyrirrúmi fyrir hinu, að t.d. bankastarfsmenn verði bankastjórar. Það er að vísu til við þá banka, en það eru þó undantekningar.

Að mínu áliti verðum við, sem gegnum Alþ. og þau bankaráð, sem það kýs, óbeint stjórnum málum ríkisbankanna, að gæta okkar dálítið í þessum efnum. Við höfum nú verið á þessu þingi t.d. að samþykkja að koma upp einum algerum einkabanka hér í ríkinu, sem yrði þannig beinlínis samkeppnisbanki við banka ríkisins. Við verðum að hafa það í hyggju, þegar við ræðum þessi mál, að við gerum banka ríkisins þannig úr garði, að þeir séu sem bezt samkeppnisfærir um þá almennu verzlunarhætti, um þær peningabúðir, sem bankarnir eru. Ég held, þegar um er að ræða einn bankastjóra við banka, þá verði það oftast nær ofan á, a.m.k. hefur reynslan orðið sú bæði viðvíkjandi Búnaðarbankanum og Iðnaðarbankanum, að þá veljast í þessi embætti menn, sem fyrst og fremst eru bankastarfsmenn og eru þá valdir einmitt með tilliti til hæflleika sinna sem bankastarfsmenn. Og ég álít, að það hafi gefizt vel, og ég álít t.d. hvað Búnaðarbankann snertir og þann bankastjóra, sem þar hefur verið yfir svo stórum banka þennan tíma, bráðum tvo áratugi, þá álít ég, að það hafi gefizt vel. Og einmitt þegar till. hafa komið fram um að breyta þessu hér á Alþ. fyrir nokkrum árum, var ég þá þar á móti því, og þó að ég réði ekki miklu á Alþ. þá, var það aldrei samþykkt. Ég held þess vegna, að ef það væri aðeins einn bankastjóri við Búnaðarbankann, mundi það að líkindum verða þannig, að það væru fyrst og fremst starfsmenn bankans, sem veldust í slíkt. Og það mundi þýða, að hinir pólitísku flokkar í landinu mundu svo að segja allir álíta, að þeir hefðu svo að segja jafnan aðgang að slíkum starfsmanni og hann tæki aðeins tillit til þess, sem bankanum er heilbrigt, og þess tilgangs, sem bankinn á að þjóna. Þegar hins vegar bankaráð væru orðin þannig skipuð eins og lagt er til hér, hefðu hinir pólitísku flokkar og ríkisstj. á hverjum tíma vissulega það mikla aðhald að bankastjóra, sem slík bankaráð alltaf hafa. Ég held þess vegna, að einmitt með tilliti til þess að gera hvort tveggja í senn, að hindra það, að fjölgað sé hálaunuðum embættum í ríkisbákninu, og með tilliti til hins, að reyna að tryggja sem mest hlutleysi þeirra bankastjóra, sem kjörnir eru, þá held ég, að það mundi nást betur með einum bankastjóra en með tveimur. Ég er hræddur um, að það, sem kemur strax upp, ef eigi að hafa tvo bankastjóra þannig við einn banka, sé það, að tveir voldugir pólitískir flokkar, eða jafnvel kannske ekki alltaf endilega voldugir flokkar, vilji fara að skipta slíku á milli sín, m.ö.o. að tilhneigingin, sem hefur verið ákaflega rík í þeim tveimur stóru viðskiptabönkum hér, færist þá yfir á Búnaðarbankann líka. Ég held það væri ekki heppilegt. Þess vegna álít ég, að þarna væri bezt farið, að einn bankastjóri væri, og ég held, að það mundi verða aðhald að bankaráðinu að velja hann þannig, að hann nyti sem almennasts trausts. Og þótt við náttúrlega vitum, að í okkar mjög svo pólitíska landi hafi menn venjulega pólitískar skoðanir, líka þeir menn, sem eru bankastarfsmenn, og aðrir slíkir, þá sé þó með slíku mestur möguleiki á því, að sem flestir af hinum ólíkustu pólitísku sauðahúsum geti treyst bankastjórum, og eru það þá fyrst og fremst tillitin til bankans sjálfs, sem ráða.

Ég vil þess vegna leyfa mér að flytja þá brtt. við 1. gr. í þessu frv., að í 4. efnismálsgr. falli burt síðasti liðurinn, sem orðast svo: „Heimilt er bankaráði að fjölga bankastjórum í tvo að fengnu samþykki ráðherra.“ Þá mundi sú málsgr. hljóða þannig, með leyfi hæstv. forseta: „Bankaráð skipar einn bankastjóra, aðalbókara og aðalféhirði.“

Ég vil biðja hæstv. forseta, þar sem þessi brtt. er skrifleg, að leita afbrigða fyrir henni, svo að hún megi koma fyrir.