25.05.1960
Neðri deild: 88. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2828 í B-deild Alþingistíðinda. (1065)

112. mál, útsvör

Einar Olgeirsson:

Herra forseti. Það gerast ýmis tíðindi nú í vorri hv. d. og auðséð, að allmiklar breytingar virðist eiga að gera á gömlum þjóðfélagsháttum, sem eru ekki til bóta. Það lítur út fyrir, að sú braskarastétt, sem nú er að reyna að brjótast hér til valda sem agent fyrir vestrænt auðvald, ætli sér að róta burt sem mestu af því, sem hefur verið hefðbundið í okkar þjóðfélagi. Það gerðist hér í gær, að samþ. var hér frv. á Alþingi, sem þó fyrir 10 árum var óhugsandi hér, enda slíkum tilraunum þá hrundið. Ég á við, þegar meiri hlutinn í þessari hv. d. samþ. að ræna Kristfé, stela úr fátækrasjóði í sambandi við þá jarðasölu, sem þá var ákveðin. Ég hafði heyrt utan að mér, að á meðan sá eini klerkur, sem sæti á þinginu, átti enn þá sæti í landbn., hefði hann ekki kunnað við það, kinokað sér við það að vera staðinn að því að stela Kristfé, en eftir að stórbóndinn á Akri tók við af honum, þá lét hann sig hafa það með allan Sjálfstfl. í eftirdragi að fremja álíka verknað og það hefði þótt forðum daga að brjótast inn í kirkju og stela þar þeim sjóðum, sem ætlaðir voru fátækum.

Það er ákaflega leitt, að það virðingarleysi, sem virðist vera að grípa um sig fyrir gömlum stofnunum okkar þjóðfélags, skuli hafa fært sig inn í sali Alþingis. Maður er máske ekki hissa á því, þótt sumir stórbændur, þegar þeir eru búnir að fá nýtízkutæki eins og ýtur, plægi niður gamlar klausturrústir, en að meiri hlutinn á Alþ. skuli láta hafa sig í þessa verknaði, jafnvel með kristindómsorð á vörunum, það er hart.

Nú erum við með annað frv., þar sem sömuleiðis er verið að vega að og róta upp elztu samfélagsháttum, sem til eru á Íslandi, og er það þó svo við þær umr., að það hefur ekki verið hægt að fá hér upp á Alþ. einu sinni almennilegar umr. um, hvað þarna væri verið að gera, vegna þess að meiri hluti þm. virðist bókstaflega varla gera sér það ljóst. Það, sem um er að ræða í sambandi við það frv., sem hér liggur fyrir, er að gerbreyta þeim háttum, sem hafðir hafa verið á um sjálfstæði sveitarfélaga á Íslandi um langan aldur. Það lagafrv., sem hér liggur fyrir, 1. gr. þess, ákveður, að í stað ákvæðanna, sem hafa verið í 3., 4. og 6. gr. útsvarslaganna, skuli koma allt önnur ákvæði. Og hver eru þessi ákvæði, sem verið er að afnema? Það eru þau, að útsvör skuli leggja á eftir efnum og ástæðum. Það eru þessi grundvallarréttindi íslenzkra sveitarfélaga, sem verið er að afnema, verið er að gerbreyta með því lagafrv., sem hér liggur fyrir, og það er vert, að menn geri sér það ljóst, eða a.m.k. vil ég reyna að gera það, sem ég get, til þess, að menn hafi dálitla hugmynd um, hvað þeir eru að gera, þegar verið er að samþ. þetta.

Það hefur ýmislegt verið gert til að skerða sjálfstæði íslenzkra sveitarfélaga á undanförnum áratugum, en þetta er raunverulega rothöggið. Þetta er stærsta sporið, sem stigið hefur verið til þess að svipta sveitarfélögin þeirra efnahagslega sjálfstæði, þeirra sjálfsforræði. Hrepparnir eða sveitarfélögin eru elzta form samfélags, sem til er á Íslandi. Hrepparnir eða sveitarfélögin eru það form, sem íbúar þessa lands skapa sér, áður en þeir skapa sér þjóðfélag og áður en þeir skapa sér ríki, af því að þetta er frumstæðasta samfélag mannanna yfirleitt og á dýpstar rætur af öllum þeim samfélögum, sem mennirnir hafa skapað sér. Það er þess vegna vert, að menn geri sér alveg ljóst, hvað þeir eru að gera, þegar menn eru að vega að rótum þessa samfélags. Þetta samfélag einkenndi alla okkar fornu löggjöf. Eitt af fyrstu ákvæðunum, sem samþ. voru, þegar lög yfirleitt voru sett á Íslandi, það var, að löghreppar skyldu vera á Íslandi, og það hélzt allan þjóðveldistímann. Það er fyrst þegar útlent vald, útlent sterkt ríkisvald og síðar meir einveldi konunga kemur til, sem smám saman er farið að draga úr sjálfsforræði þessara hreppa og þessara sveitarfélaga, og að lokum er verið að svipta þau sjálfsforræði sínu. Og þó hygg ég, að það hafi verið svo, að hreppsfundirnir hafi lifað, þó að hvergi hefðu þeir stoð í lögum þær aldir, sem myrkastar voru hér á Íslandi, og þjóðarerfðin haldizt á þessum hreppafundum, á meðan annars ekkert lýðræði var hér til og eingöngu konungseinræði. Þarna er yfirleitt um að ræða sjálfsákvörðunarrétt þeirra samfélagsheilda, sem demókratískastar eru og þess vegna höfuðundirstaðan í því þjóðfélagi, sem við erum að reyna að byggja upp.

Hvað snertir það efnahagslega sjálfsforræði þessara sveitarfélaga, þá hefur það alltaf byggzt á þessu ákvæði, og þegar hrepparnir fá aftur sitt sjálfsforræði eftir að hafa lotið einveldi konungs eins og aðrar samtakaheildir Íslendinga, þá er það einmitt það, sem þeirra sjálfsforræði fyrst og fremst felst í, að ráða sjálfir sínum álögum eftir efnum og ástæðum. Það, sem menn verða hins vegar að gera sér ljóst, þegar verið er að ræða þetta er, að það er ekki verið að ræða um það, hvort það sé lagt á réttilega eða ranglega í sveitarfélögum, hvort útsvör eða útsvarsstigar, sem notaðir eru í hinum og þessum sveitarfélögum, séu hagnýtir eða ópraktískir, hvort þeir séu réttlátir eða hvort þeir séu ranglátir. Það er óskaplega margt, sem mátt hefur gagnrýna í öllu okkar hreppaskipulagi frá upphafi vega og ekki sízt lengi vel eftir að við fengum sjálfsforræði aftur. En það, sem er þó höfuðatriðið þarna í, og það, sem er rétt að menn geri sér ljóst að nú er á vogarskálinni, það er þeirra sjálfsforræði, það er, hvort þessi sveitarfélög skuli sjálf ákveða, hvernig þau leggja á; eða hvort það skuli vera ríkisvaldið, sem gerir það. Það er þetta prinsip, sem verið er að taka ákvörðun um núna.

Hér hafa menn ákaflega mikið rætt um það í þeim umr., sem fram hafa farið, að það hafa verið mismunandi stigar í hinum ýmsu sveitarfélögum í landinu. Sumir hafa lagt á svona og aðrir hafa lagt á hinn veginn. Ég er ekki að ræða um það. Það er hægt að verja hina og þessa skattstiga, útsvarsstiga, sem hin og þessi hreppsfélög hafa lagt á eftir, eða ráðast á þessa útsvarsstiga. Spurningin, sem þarna er lögð fram, er sú, hvort þessi hreppsfélög eigi að ráða þessu eða hvort þau eigi ekki að ráða þessu, hvort það eigi nú með lögum endanlega að svipta þau valdi til að ráða þessu eða hvort það eigi ekki að gera það. Það er sú höfuðregla, sem verið er að taka ákvörðun um með þessum lögum, með þessu lagafrv., sem liggur hér fyrir, og það er nauðsynlegt, að menn geri sér það ljóst.

Ákvæðið um að leggja á eftir efnum og ástæðum er búið að standa um áratugi. Í því felst vald, ákveðið vald til handa sveitarfélögunum. Sveitarfélögin geta notað þetta vald vel eða illa, róttækt eða íhaldssamt eða afturhaldssamt. Það er ekki það, sem ég er hér að tala um. Það er um það, hvort þau eigi að hafa þetta vald áfram eða hvort þeir, sem hér sitja á Alþ, nú, ætli að svipta þau þessu valdi. Og það er rétt, að menn geri sér ljóst, að það er það, sem þarna er um að ræða. Með þessum lögum er meiri hlutinn, sem samþ. þetta, að ákveða, að íslenzk sveitarfélög skuli héðan af ekki hafa rétt til þess að ákveða sjálf að leggja á eftir efnum og ástæðum, heldur skuli héðan af Alþ. og ríkisvaldið fyrirskipa sveitarfélögunum, hvernig þau skuli leggja á. Menn eru líklega ákaflega lítið fyrir nú á tímum, þessum tímum vélrænunnar, að ræða prinsip, að ræða hugsjónir eða að ræða höfuðreglur. Það er verið að ræða það, sem sé praktískt, hvort veltuútsvar eigi að vera 2 eða 3% eða slíkt eða 2 eða 3, eða annað þess háttar, hvort það megi leggja á veltuútsvar eða hvort það megi ekki, hvort það skuli vera svona og svona hátt á efnuðum einstaklingum eða svona og svona hátt á gamalmennum, og allt annað slíkt. Það er allt saman mál, sem sjálfsagt er að ræða og eðlilegt er, að skiptar séu skoðanir um. En það, sem er hið stóra mál, liggur fyrir í þessu sambandi, og bezt er, að menn geri sér það alveg ljóst, svo að það komi engir á eftir, sem þykist vera fulltrúar fyrir einhver bæjarfélög eða sveitarfélög úti á landi, og segist ekki hafa vitað, hvað þeir voru að gera. Það er bezt, að þeir viti, hvað þeir eru að gera; þegar þeir eru að leggja sveitarfélög sín í rúst, þegar þeir eru að svipta þau sjálfsforræði, og það er það, sem ég held að hafi nokkuð mikið skort á um ýmsa menn, sem telja sig vera fulltrúa t.d. sveitarfélaga úti á landi, að þeir geri sér það ljóst.

Spurningin, sem hér liggur fyrir, er ekki sú, hvort það eigi að vera einn eða tveir eða þrír eða tíu mismunandi útsvarsstigar á Íslandi, hvort það skuli vera hár eða lágur útsvarsstigi í Reykjavík, hvort það skuli vera hæstir útsvarsstigar í sveitum eða kaupstöðum. Það er ekki þessi spurning, sem liggur fyrir í dag. Spurningin er þetta, hvort þessi sveitarfélög á Íslandi eigi að hafa nokkurn skapaðan hlut með það að gera að ákveða, hvernig þau leggja á, eða hvort ríkið eigi að ákveða það. Það er það prinsip, sem verið er að innleiða nú, ef haldið er áfram með þetta frv. eins og það nú er. Þá er verið að ákveða, að héðan af er það Alþ., sem ákveður, hvernig útsvör skuli lögð á í hreppunum á Íslandi. Héðan af er það Alþ. Héðan af er það ekki réttur Ísafjarðar, Hafnarfjarðar, Reykjavíkur, Akureyrar eða einhverra annarra slíkra, svo að ég tali ekki um Akrahrepp eða eitthvað slíkt. Það er ekki þessara hreppa að ákveða, hvað skuli gert viðvíkjandi niðurjöfnun útsvara, það verður Alþingis, það verður ríkisvaldsins að ákveða það. Hvort ríkisvaldið ákveður það svona í dag, eins og lagt er fyrir með þessu frv„ eða öðruvísi á morgun, það er svo aftur annað mál. En ríkisvaldið er að taka í sínar hendur þessa ákvörðun með samþykkt þessa frv., og það er það, sem er rétt að menn geri sér ljóst.

Sveitarfélögin eru frumstæðasta samfélagsheild manna hér á Íslandi, eins og þau hafa verið í flestum eða öllum öðrum löndum. Allan þann tíma, sem þessi sveitarfélög hafa verið til, hafa þau átt í vissu höggi við ríkisvaldið vegna þess, að eftir að ríkisvaldið er myndað, þá sækir það á um að ráða yfir sveitarfélögunum, og þar sem ríkisvald hefur gerzt mjög sterkt í sögu þjóðanna, hefur ríkisvaldið svo að segja innlimað sveitarfélögin í sig. Það hefur gert sveitarfélögin að verkfærum í sinni hendi. Það hefur snúið sveitarfélögunum, þessum frumstæðu samfélögum, úr því að vera samhjálparheild mannanna, lítilla hópa upphaflega, eins og þeir voru í fornöld hér hjá okkur, þegar þau voru í senn samhjálp við framfærslu og samhjálp um tryggingar, — það hefur snúið henni yfir í það að vera verkfæri í höndum ríkisvaldsins á móti bændunum og íbúunum í þessum hreppi. Það hefur þess vegna verið höfuðatriði allra þeirra, sem gerðu sér gildi þessara sveitarfélaga ljóst, að berjast fyrir sjálfstæði þeirra gagnvart ríkisvaldinu, að reyna að halda því uppi, að þessi sveitarfélög hafi einhvern sjálfsákvörðunarrétt, sem ríkisvaldið geti ekki alveg keypt, m.ö.o.: að þessi sveitarfélög væru frumstæðar, lýðræðislegar heildir í mannfélaginu, sem tækju ákvarðanir um vissa hluti, sem þessar samfélagsheildir fengju sjálfar að ráða. Það er þetta, sem verið er að brjóta niður með þessu, og það er rétt, að menn geri sér það ljóst, þeir sem taka þátt í þessu, að þeir séu að brjóta þetta niður. Það má vel vera, að þeir vilji ýmsir þeirra segja sem svo, sem það gera: Ríkið mun stjórna betur, réttlátar og annað slíkt en hrepparnir, sveitarfélögin eða kaupstaðirnir hafa gert. — Það álitu vafalaust einvaldskonungarnir líka, þegar þeir sviptu okkur þessu valdi, og það er hægt að koma fram með ýmis rök um það, að oft og tíðum hafi ríkisvaldið breytt réttar og hrepparnir verið á rangri hillu og gert það, sem rangt var. En það, sem er höfuðatriðið í þessu, er hitt, að með því að innlima þessi sveitarfélög í ríkisvaldið, gera þau að tæki þess, svipta þau sínu sjálfsforræði, þá er verið að brjóta niður frumstæðustu lýðræðisheildina í okkar mannfélagi. Það þýðir ekki, að það þurfi ekki að vera til löggjöf um þessa hluti. Hún verður að vera. Það þýðir ekki, að ríkið þurfi ekki á ýmsan hátt að setja um það ákveðnar takmarkanir á ýmsum sviðum hvað mannréttindi snertir og annað slíkt. En hitt er höfuðatriðið, hvort þessar heildir eiga að fá að halda sínu efnahagslega sjálfstæði eða ekki.

Nú vil ég alveg sérstaklega vekja athygli þeirra hv. þm. Sjálfstfl. og Alþfl., sem hér kynnu að vera í þessari d. og fulltrúar væru fyrir kjördæmi úti á landi, — ef nokkrir væru þeir, sem mættu mál mitt heyra, þá vildi ég vekja athygli þeirra á, hvað þeir eru að gera, því að það eru ef til vill einmitt þeir og þeirra samfélög eða þau sveitarfélög, sem þeir eru fulltrúar fyrir, sem hér eiga mest í húfi.

Það er komið svo, að meiri hl. allra Íslendinga er búsettur í þeim gamla, forna Seltjarnarneshreppi, í Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi. Meiri hluti allra Íslendinga er búsettur þar, sem fyrir nokkrum áratugum, réttara sagt kannske tveimur öldum, var enn þá einn hreppur. Og nú á eftir þessu frv. að leiða það í lög, gefa fordæmi um það, að meiri hl. hér á Alþ. geti ákveðið, hvernig útsvör skuli lögð á í öllum hreppunum á Íslandi. M.ö.o.: það vald, sem sú hreppsnefnd, sem kjörin var og verður í hinum og þessum sveitarfélögum á Vesturlandi, Norðurlandi, Austurlandi, það vald, sem sú hreppsnefnd eða niðurjöfnunarnefnd í kaupstöðum áður hafði, það vald færist nú burt frá þessari hreppsnefnd eða viðkomandi bæjarfélagi og raunverulega yfir til Alþ. Nú tekur með þessari löggjöf Alþ. í sínar hendur að ákveða, hvernig útsvör skuli lögð á, eftir hvaða stiga í Hafnarfirði, Ísafirði, á Siglufirði eða Seyðisfirði, á hverjum þeim stað á Íslandi, sem þeim, sem koma hér á eftir okkur, þóknast að ákveða. Í dag yrði kannske ákveðið, að það sé einn skali fyrir Reykjavík, annar fyrir nokkra kaupstaði, þriðji fyrir sveitir. Það getur eins á næsta þingi verið ákveðið, að það séu 10 mismunandi skalar. Það er eins hægt að fara inn á að ákveða, að svona skuli lagt á í Hafnarfirði, svona skuli lagt á á Ísafirði. Það er eins hægt, — og það er verið að nefna Reykjavík sérstaklega, — það er eins hægt að ákveða, að svona skuli leggja á í hreppum á Suðurlandi, svona skuli leggja á í hreppum á Norðurlandi. Það verður hér eftir Alþ., ef farið er inn á þessa braut, sem ákveður, hvernig sveitarstjórnir skuli haga sér um álagningu útsvara, og það er bezt, að þeir, sem greiða atkv. með þessu frv. nú, geri sér það ljóst og standi frammi fyrir því í sínum kjördæmum, að þeir eru að afsala sínum sveitarfélögum þessum aldagamla rétti.

Spurningin stendur ekki um það, eins og ég vil taka einu sinni enn þá fram, hvort útsvarsstiginn verði þægilegri, réttari, sanngjarnari en útsvarsstigi hafði verið á Siglufirði, Ísafirði, Hafnarfirði eða Norðfirði. Baráttan stendur ekki um það. Baráttan stendur um, hvort þessir bæir eigi að fá að ráða því sjálfir, hvers konar útsvarsstiga þeir leggi á hér eftir. Það er í þessum lögum hægt að gefa þeim eitthvað rúmt viðvíkjandi því, hvað skalinn megi vera mismunandi, hann geti verið 10–20% frá þessu, þeir megi kannske taka Reykjavíkurskala eða kaupstaðaskala eða eitthvað annað slíkt, þeir megi e.t.v. leggja á veltuútsvar. En ef farið er inn á þessa leið, þá er eins hægt að ákveða á morgun hér á Alþ., að það skuli leggja alls staðar á veltuútsvar eða það megi hvergi leggja á veltuútsvar. Þá eru það ekki sveitarfélögin, sem ráða þessu lengur, þá er það Alþ., sem ræður. Það er þetta prinsipmál, það er þetta spursmál um reglu, sem ég vil að mönnum sé ljóst, þegar þeir eru að taka þær ákvarðanir, sem hér liggja fyrir, þegar menn eru að afsala, hvort það er Ísafjörður, Akureyri, Hafnarfjörður eða Seyðisfjörður, sjálfsákvörðunarrétti sínum til útsvarsálagningar.

Það hefur verið sá rýmsti réttur, sem menn hafa haft til skattlagningar á Íslandi, sem sveitarfélögin hafa haft. Ríkisvaldið hefur að vísu raunverulega reynt að taka sjálft sig og sínar eignir undan með því valdi, sem því er gefið, en annars hafa þessi sveitarfélög getað lagt á eftir efnum og ástæðum, eftir því sem þau hafa álitið og sá meiri hluti, sem þar er á hverjum tíma, hefur álitíð sanngjarnt og nauðsynlegt.

Út frá þeirri mynd, sem ég var að draga upp hér áðan, að meiri hluti íslendinga er nú í þeim forna Seltjarnarneshreppi, Reykjavík, Kópavogi og Seltjarnarnesi, þá er það gefið, að með því að fara inn á þessa leið, — það vil ég sérstaklega segja við þá fulltrúa, sem hér eru utan af landi í stjórnarflokkunum, — þá er verið að fara inn á þá leið að gefa okkur hér í Reykjavík og þeim, sem eru hér í kring, ef við stæðum saman, réttinn til þess að ákveða allar útsvarsálagningar í öllum sveitarfélögum landsins, gefa meiri hluta þjóðarinnar þann rétt. Að vísu óskum við, sem skoðum okkur sérstaklega fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar hér á Alþ., ekki eftir þessu. Þvert á móti, við, sem erum fulltrúar verkalýðsins hér í Reykjavík, viljum viðhalda þessu sjálfsforræði sveitarfélaganna. Við viljum ekki láta brjóta þessa frumstæðustu lýðræðisheild í íslenzku samfélagi niður. Við viljum láta sveitarfélögin viðhalda þessu valdi sínu að geta lagt á eftir efnum og ástæðum, að geta reynt að bjarga sér hvert um sig sjálft í þeim erfiðleikum, sem þar eru, eins og þau sjálf álita bezt og sanngjarnast og réttlátast. Það eru aðrir, sem standa að þessu, heldur en fulltrúar verkalýðsins í Reykjavík. Það eru fulltrúar auðvaldsins hér í Reykjavík, sem gjarnan vilja koma því ástandi á, að þeir ráði ekki aðeins um alla skattálagningu viðvíkjandi ríkinu, heldur líka alla útsvarsálagningu allra sveitarfélaga á landinu. Það er auðvaldið hér í Reykjavík, sem vill svipta sveitarfélögin því sjálfstæði, sem þau hafa haft meira eða minna, frá því að landið byggðist, með þeim undantekningum, þegar meira eða minna einveldi útlendra konunga ríkti hér. Og það er gott, að mönnum sé þetta ljóst, að menn afgreiði ekki þetta mál án þess að gera sér ljóst, hvað þarna er um að ræða.

Við, sem skoðum okkur sérstaklega fulltrúa verkalýðsins hér í Reykjavík, álítum þetta að öllu leyti óréttmætt og rangt og prinsipielt vitlaust að fara inn á þessa leið. Við þekkjum það af sárri reynslu undanfarinna áratuga, hvað það þýðir fyrir sveitarfélögin, ekki sízt sveitarfélögin úti á landi, að hafa sem mest sjálfsforræði og hafa þann rétt að mega leggja á eftir efnum og ástæðum. Sveitarfélögin úti á landi eiga í þeim erfiðleikum oft og tíðum að reyna að útvega atvinnu handa þeim, sem þar búa. Og ég skil ekki blindni þeirra manna, sem eru fulltrúar fyrir sveitarfélög úti á landi, ef þeir sjá ekki, að sú hætta vofir nú yfir svo að segja öllum sveitarfélögum þar, að það kunni að verða nokkrir erfiðleikar fyrir þau sveitarfélög að tryggja atvinnu í sínum byggðarlögum. Saga Íslands á þessari öld segir frá því, hvernig sveitarfélögin úti um land hafa sjálf orðið að grípa til sinna ráða og þeirra oft róttækra til þess að reyna að bjarga sér út úr atvinnuleysi eða kreppu, bjarga sér, þegar atvinnutækin voru flutt af stöðunum, og þá var venjulega ekki annað fyrir hendi en sveitarfélögin yrðu sjálf að ráðast í eitthvert atvinnufyrirtæki til þess að halda lífinu í fólkinu. Þannig var samvinnuútgerðin á Ísafirði stofnuð og bæjarútgerðin í Hafnarfirði. Þannig hafa bæjarstjórnir bæði á Akureyri og Siglufirði ráðizt í framkvæmdir. M.ö.o.: þessi sveitarfélög hafa getað notað það efnahagslega sjálfsforræði, sem þau hafa haft, til þess að reyna að sjá íbúum sínum farborða, og þau hafa getað þetta í krafti þess, að þau voru á vissan hátt efnahagslega sjálfstæðar heildir. Þau höfðu rétt til þess að leggja á eftir efnum og ástæðum, og þau voru óháð ríkisvaldinu um þetta. Það þýddi ekki, að þau ættu ekki í sífellu undir högg að sækja. Ríkisvaldið hefur haft miklar tilhneigingar til þess að leggja á þessi sveitarfélög kvaðir, að skikka þau með lögum til þess að borga svo og svo mikið. Þetta er lagt á í ýmsum opinberum útgjöldum og öðru slíku, sem þau hafa vart getað staðið undir. Ríkisvaldið hefur oft sýnt sig mjög ágengt þannig gagnvart sveitarfélögunum. Og sveitarfélögin hafa oft jafnvel í sjálfsvarnarskyni bundizt samtökum til þess að verjast slíkri ágengni. En með þessu frv. er svo að segja öxin reidd að rótum trjánna af hálfu ríkisvaldsins. Með þessu frv. er ríkisvaldið beinlínis að höggva þær rætur, sem sjálfstæði og sjálfsforræði sveitarfélaganna byggist á, með því að svipta þau réttinum til að leggja á eftir efnum og ástæðum og ákveða sjálft svo í lögum, hvernig sveitarfélögin skuli leggja á. Hvort það er í dag, eins og ég tók fram áðan, með einum útsvarsstiga eða þremur eða tíu, það er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er hitt, að það er ríkisvaldið, sem ætlar að taka það í sínar hendur í dag að ákveða útsvarsstiga til handa sveitarfélögum á Íslandi. Það þýðir, þegar þetta efnahagslega sjálfstæði sveitarfélaganna hefur verið höggvið niður, þá koma þau til með að eiga erfiðara að bjarga sér á eftir. Þau koma til með að eiga erfiðara með að koma af stað þeim fyrirtækjum, sem þau ætla að koma af stað. Þau koma til með að verða miklu meira upp á ríkisvaldið komin með allt saman, og það hefur stundum þótt nóg um það, stundum verið kallað kvabb af hálfu sveitarfélaganna um land allt. Og við þekkjum það núna, hvernig þau verða að gera út heilar sendinefndir hingað til Reykjavíkur til þess að reyna að biðja um að bjarga sér, og það er þó aðeins byrjunin á því, sem mun verða, ef svona verður haldið áfram, eins og nú er verið að byrja á með þessu frv.

Það hefði verið nær af ríkisvaldinu að létta eitthvað þær álögur, sem það hefur lagt á sveitarfélögin, hvort heldur það var viðvíkjandi almannatryggingum, skólum eða öðru slíku, og sjá heldur sjálft um að útvega sér tekjur til þess að bera meiri hluta en hingað til af þeim útgjöldum, en gefa sveitarfélögunum nokkru meiri möguleika til þess að standa undir þeim erfiðleikum, sem þau koma til með að eiga í á næstu árum, a.m.k. ef þeirri stefnu, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, verður fram haldið. Og stefnan, sem núv. hæstv. ríkisstj. hefur tekið upp, er sú, að atvinnurekstur skuli standa á eigin fótum, eins og hún hefur svo fagurlega orðað það, m.ö.o., að atvinnurekendur skuli bjarga sér sjálfir án þess að njóta sérstakra styrkja eða uppbóta frá ríkinu. Að vísu virðist okkur þetta í reyndinni munu verða á þann veg, að ef ríkið kynni að draga eitthvað úr sínum uppbótum eða nefna þær öðru nafni, þá eigi atvinnurekendurnir að standa því fastar á fótum bankanna, ríkisbankanna, og þeir að styðja þá því betur, svo að ekki hallist á hjá þeim. En ástandið í okkar landi er þannig, að meiri hlutinn og sérstaklega allir stærstu og sterkustu atvinnurekendur landsins eru hér í Reykjavík og nágrenni. Megnið af þeirri raunverulegu auðmannastétt, sem til er á Íslandi, er hér saman komið. Það þýðir, að öll hin fjölmörgu sveitarfélög úti um allt land verða mikið að reyna til að bjarga sér sjálf og hafa kannske ekki einu sinni á neina atvinnurekendur og þeirra fætur að treysta, heldur verða oft og tíðum að koma sjálf af stað þeim bjargræðisatvinnuvegum, sem fólkið á að lifa af, ef það á ekki að flosna upp. Það þýðir, að ef þessi sveitarfélög úti um allt land eiga að geta skapað öruggan grundvöll fyrir atvinnulíf fólksins á þessum stöðum, þá þurfa þessi sveitarfélög að hafa sem mest efnahagslegt sjálfsforræði og vald til þess að geta beitt þeim samtakaþrótti, sem þau geta komið upp hjá sér, í þágu sinnar sveitarfélagsheildar, til þess að reyna að byggja efnahagslegan grundvöll, atvinnulegan grundvöll fyrir þeirra bæjareða sveitarfélög.

Allri þeirri sjálfsbjargarviðleitni, sem bæjarfélögin og sveitarfélögin úti um allt land hafa orðið að beita á undanförnum áratugum, er stefnt í hættu með þeim ákvörðunum, sem hér er verið að taka, með því að taka í hendur ríkisins ákvarðanirnar um útsvarsálagninguna í þessum stöðum. Það er oft talað um það í sambandi við ríkið sjálft og okkar þjóðfélag, að okkar sjálfstæði byggist á okkar efnahagslega sjálfstæði, sem sé okkar pólitíska sjálfstæði byggist á okkar efnahagslega sjálfstæði, og er nokkuð rétt í því. En þetta á ekki síður við hvað snertir sjálfsforræði sveitarfélaganna. Séu þau raunverulega svipt sínu efnahagslega sjálfstæði, þá er þar með verið að grafa grunninn undan þeirra sjálfstæði, undan þeirra tilveru. Ég veit, að það er til mikil íhaldssemi í gömul réttindi hjá ýmsum sveitarfélögum á Íslandi, þegar um tiltölulega smá atriði er að ræða, eins og t.d. um hreppamörk og annað slíkt, og getur þá oft verið erfitt að koma fram þeim málum, sem skynsamleg eru. En ég er hissa á, að þeir þm. hér á Alþingi, sem á undanförnum árum og áratugum hafa oft verið viðkvæmir, þegar um einhver mál hefur verið að ræða, sem kölluð eru að vera hreppapólitísk, — ég er hissa á, að þeir skuli ekki sjá, hvað er verið að gera með þeim ráðstöfunum, sem hér er verið að ákveða í dag, þegar verið er að vega raunverulega að sjálfri grundvallartilveru þessara sveitarfélaga sem sjálfstæðra heilda.

Það er nokkurn veginn vitanlegt, enda hef ég orðið var við það nú strax, þegar farið er að róta svona um í þessum gömlu málum, ég hef orðið var við það nú strax, að það kemur upp hjá sumum þm. sú tilhneiging, hvort það eigi ekki bara að afnema allt, sem heitir útsvör, hvort það eigi ekki að gera bara útsvör og tekjuskatt að einu og sama fyrirbrigðinu og leggja hann á með lögum frá ríkinu um allt land. Vissulega er það miklu hagkvæmara upp á innheimtuna. En ég veit ekki, hvort þeir menn, sem gera slíka till., gera sér ljóst, að þar með er verið að strika út þá raunverulegu tilveru sveitarfélaganna sem sjálfstæðra aðila á Íslandi. Það er vafalaust hægt að færa ýmis rök fyrir því frá fjárhagslega tæknilegu sjónarmiði, að það sé úrelt að vera að láta einhverjar og einhverjar niðurjöfnunarnefndir, sem einhverjir og einhverjir karlar úti á landi séu að kjósa, vera að jafna niður á menn, það sé eins gott að láta bara einhver skattayfirvöld setja einn skatt á alla landsmenn í slíkum efnum. (Gripið fram í: Hvað með útsvörin sjálf?) Útsvörin sjálf? Það fer eftir því, í hvaða formi maður vill taka þau. Upphaflega ákvörðunin er sú, að menn skuli á hreppamótum jafna niður því, sem þarf til þess að ala önn fyrir þeim, sem vegna fátæktar eða ómegðar þurfa að leita hjálpar sinna félagsbræðra. Í Grágás eru þau fyrirmæli, að á hreppamótum, ég held vor og haust, skuli þessi ákvörðun tekin, og þá, eftir því sem fram kemur í Íslendingasögunum, bjóða menn sig sjálfir fram og gefa sjálfir fríviljuglega svo og svo mikið til þess að hjálpa þessum félagsbræðrum sínum, og væri hægt að tilgreina mjög hrífandi myndir af slíkum íslenzkum hreppamótum frá tíundu og elleftu öld til þess að sýna, hvernig menn hafa í þessum litlu hreppum, sem þá voru í a.m.k. 20 búendur, litið á sig eiga að hjálpa hver öðrum. Ef við þess vegna viljum taka útsvör í þeirri mynd, sem þau upphaflega voru, að það sé framlag þeirra aðila, sem betri hafa efni og ástæður heldur en aðrir, til þess að hjálpa þeim, sem lélegri hafa efni og ástæður, þá eru þau raunverulega þúsund ára gömul. En þá er að vísu peningagildið ekki komið sem aðalatriði, og það er ekki jafnað niður, en menn gefa kannske sauð, kannske eitthvað annað, sem gat hjálpað til þess að framfleyta þeim, sem sjálfir höfðu annaðhvort mikla ómegð eða bjuggu við fátækt eða höfðu orðið fyrir óhöppum. Og á þessum sömu hreppamótum er þá líka sameiginlega jafnað niður þeim skaða, sem hreppsfélagið tók þátt í, ef menn urðu fyrir bruna, fjárfelli eða öðru slíku, því að þessi samfélög voru um leið á þjóðveldistímanum tryggingarsamfélög.

Þess vegna er raunverulega, þó að þetta sé í annarri mynd hjá okkur nú á tímum, öðruvísi fyrir komið og hafi á þeim myrku tímum erlends ríkisvalds á Íslandi fengið á sig allt það óorð, sem enn þá loðir við orðið hrepp í sambandi við hreppaflutninga og annað slíkt, þá var þetta upphaflega gott fyrirbrigði og gæti verið enn, svo framarlega sem það fengi að þroskast á réttan máta.

Þegar þess vegna farið er inn á þá stefnu, sem þetta frv. markar, þá verða sveitarfélögin smátt og smátt lögð að velli sem sjálfstæð samfélög eða þá innlimuð þannig í ríkisvaldið, að þau séu einvörðungu gerð að eins konar innheimtukerfi eða jafnvel framkvæmdakerfi þess, í staðinn fyrir að verða sjálfstæðar heildir, þar sem menn stjórna og ákveða sín eigin mál, hver heildin út af fyrir sig, og síðan geta menn metizt á um það, einn getur sagt, að það sé vel stjórnað á Akureyri, og annar sagt, að það sé illa stjórnað kannske á Siglufirði, og þessi sagt, að það sé rétt stjórnað í Reykjavík, og hinn, að það sé vel stjórnað uppi í Kjós. Menn geta rifizt um, hvernig það sé hjá hinum ýmsu sveitarfélögum, og oft hefur það verið gert. Menn hafa metizt um þetta. En það, sem hefur þó einkennt þetta allt saman og verið grundvöllurinn fyrir því öllu saman, það er, að menn hafa ráðið því sjálfir í hverju af þessum sveitarfélögum, hvernig þar var stjórnað. Það var ekki ákveðið af Alþingi hér í Reykjavík, hvernig útsvörin skyldu vera í hreppunum í Húnavatnssýslu. Það var ákveðið í hverjum hreppi af íbúum þess hrepps. Ef það var illa gert, þá var það þeim sjálfum að kenna, því að það var þeirra meiri hluti, sem kaus þetta. Ef það var vel gert, þá áttu þeir sjálfum sér að þakka það. Þeir voru sjálfir sinnar gæfu smiðir, en það var ekki Alþingi hér, sem ákvað fyrir þá, hvernig þeir skyldu jafna niður sínum útsvörum.

Ég er ekki þar með að segja, að Alþingi geti ekki oft gert þessa hluti betur en þessi hreppsfélög mundu gera. Það getur oft verið svo, og væri vafalaust hægt að benda á, að það væru réttlátari ýmsar ákvarðanir, sem hér hafa verið teknar, heldur en t.d. ýmsar þær útsvarsálagningar, sem framkvæmdar hafa verið í ýmsum hreppsfélögum. Við höfum líka heyrt, og það jafnvel í þessum umr., að í þessu sveitarfélagi sé þetta gott og í hinu sveitarfélaginu sé það slæmt, og um þetta hefur oft verið deilt á undanförnum þingum og metizt um þetta í kosningum og í blöðum. En það, sem hefur verið grundvöllurinn að þessu öllu saman, er, að íbúarnir í þessum sveitarfélögum hafa ráðið þessu sjálfir og hafa síðan sjálfir orðið að súpa seyðið af því, ef það var slæmt, eða fengið að njóta þess, ef það var gott. Og það er þetta sjálfsforræði þeirra, hvort þau nota það vel eða illa, rétt eða rangt, — það er það, sem verið er nú að byrja að höggva niður með þessu, og það er það, sem ég vil að mönnum sé ljóst, þegar þeir eru að taka þessa ákvörðun.

Ég held alveg sérstaklega, að það sé rangt, vegna þess að eðlilega nýtur lýðræðið sín bezt í smáum heildum, og þegar menn kjósa í smáum heildum, eins og sveitarfélögunum, þá eiga að öllu jöfnu að vera meiri möguleikar á því, að menn stjórni sér þar svo að segja eins og þeir eiga skilið. Menn fylgjast þar það mikið með sínum eigin málum, eru það kunnugir öllu, sem þar er að gerast, að menn eiga að hafa þar mestar forsendur til þess að ráða sínu samfélagi í samræmi við sinn eigin vilja. Því fjær sem fulltrúarnir þannig verða, því erfiðara vill það oft verða, að lýðræðislegur vilji sjálfs meiri hlutans komi til framkvæmda. Sveitarfélögin eru þess vegna venjulega í mannfélaginu lýðræðislegustu einingarnar í uppbyggingu þjóðfélagsins, og þegar verið er að brjóta þær einingar niður, eins og nú er verið að gera, þá er þess vegna um leið verið að vega að einu af því, sem er líftaug í lýðræðinu, og yfirleitt sjálfsbjargarviðleitni fólksins.

Ég minntist á þetta við 1. umr., og ég minnist á þetta aftur núna, vegna þess að ég hef tekið eftir því, að í þeim umr., sem fram hafa farið, raunverulega bara með einni undantekningu, hefur ákaflega lítið verið inn á þetta komið. Jafnvel till., sem hér liggja fyrir á öðrum þskj., benda til þess, að meira að segja ýmsum af þeim þm., sem eru á móti þessu frv., sé ákaflega óljóst, hvert verið er að fara með samþykkt þessa frv., hvílík gífurleg stefnubreyting er að verða í afstöðunni á milli sjálfsforræðis sveitarfélaganna og ríkisvaldsins með þeim ákvörðunum, sem hér er verið að taka.

Það hefur stundum komið hér til umr. í sambandi við umr. um afstöðu Reykjavíkur og landsins, ég hef tekið það fram hér, að við, sem skoðum okkur fulltrúa verkalýðshreyfingarinnar í Reykjavík sérstaklega, við erum algerlega andstæðir því, að verið sé að brjóta niður sjálfsforræði sveitarfélaganna úti um allt land, eins og verið er að gera með þessu, og ég hef reynt einmitt fyrir hönd verkalýðsins í Reykjavík að vara fulltrúana utan af landi, hvaða flokki sem þeir annars tilheyra, við því, hvað þeir eru að gera. Þegar komið er inn á þessa leið hins vegar, sem hér er um að ræða, að það sé ríkið, sem eigi að fara að ákveða, hvernig útsvör skuli lögð á í öllum sveitarfélögum landsins, þá er allt mögulegt til. Það er hægt að mismuna eftir því, hvernig meiri hlutinn er á Alþ. á hverjum tíma. Mér ægja þessar aðferðir. Þegar ríkið á annað borð er búið að taka þetta í sínar hendur, þá vita menn alveg, hvar það endar. Ef einu sinni er horfið burt frá þeim grundvelli, að hvert sveitarfélag hafi sjálft valdið til þess að ákveða sínar álögur eftir efnum og ástæðum, þá er ómögulegt að segja, hvað út úr því kemur. Spurningin stendur þess vegna ekki fyrir mér í dag um það, hvort það séu þrír skalar; hvort Reykjavíkurskalinn sé lægstur, ekki heldur um hitt, þó að það væri settur einn skali fyrir allt landið, hvernig svo sem því yrði jafnað niður á eftir, eða þó að það væru settir tíu skalar, þó að það væri settur sinn útsvarsstiginn jafnvel fyrir hvert bæjarfélag á landinu. Spurningin stendur ekki um þetta, spurningin stendur um hitt, hvort menn ætla að vera með því, að ríkisvaldið taki þetta vald af sveitarfélögunum, og það er það, sem ég er fyrst og fremst á móti í þessu öllu saman. Þetta er að mínu áliti það, sem er númer eitt. Það er grundvallarlega rangt í stefnu þessa frv. að brjóta niður sveitarfélögin, brjóta niður þessar frumstæðu samtakaheildir mannanna, brjóta niður þessar lýðræðislegustu samtakaheildir í sjálfu mannfélaginu, fyrir utan þau félög, sem menn kunna að mynda og hinar ýmsu stéttir.

Það er greinilegt, að það er sú auðmannastétt hér í Reykjavík og fyrst og fremst verzlunarauðvaldið, sem nú er þar að reyna að brjótast til valda, sem hefur forgönguna um þetta. Það er þetta verzlunarauðvald, sem hefur tökin á núv. stjórnarflokkum og er að reyna að fría sig sem mest við tekjuskatt og um leið að losa sig sem mest undan útsvörum, og yfirleitt efnamenn þjóðfélagsins. Það er þetta verzlunarauðvald, sem er nú að vega að sveitarfélögunum og þeirra sjálfsforræði, og það er fyrsta og aðalatriðið í þessu frv.

Annað aðalatriðið í þessu frv. er svo árás þessa sama verzlunarauðvalds á samvinnuhreyfinguna, á samvinnufélögin í landinu. Það er atriði, sem ég kom líka inn á við 1. umr. þessa máls, og er alveg greinilegt, hvert stefnt er þar. Það er stefnt að því að reyna að hindra, að sá almenningur, sem hefur skapað sér samtök til þess að verjast árásum á sín lífskjör, geti reynt að fá ódýrari vörur með því að starfa í samvinnufélögum og losa sig þannig að einhverju leyti undan arðráni verzlunarauðvaldsins. Með þeirri breytingu, sem verið er að gera sérstaklega með 13. gr. þessa frv., er verið að brjóta niður rétt manna til þess að reka þá verzlun, sem sé ekki rekin í gróðaskyni. Það er máske ekkert undarlegt á þeim tíma, sem gróðalöngun og gróðaþorsti nokkurra auðmanna í landinu á að fara að verða það afl, sem á að fara að stjórna Íslandi, þó að það verzlunarauðvald, sem vill gera þennan gróðaþorsta að sínum guði, vilji reyna að brjóta niður réttindi samvinnufélaganna. Og það er eftirtektarvert, að þetta tvennt er látið fylgjast að í þessu frv., að samtímis því sem á að brjóta niður réttindi og sjálfsforræði sveitarfélaganna, þessara frumstæðu samtakaheilda, þá er einnig verið að reyna að brjóta niður einmitt þá samtakaheild almennings, sem frá því að verzlunareinokun útlends verzlunarauðvalds hvíldi yfir Íslandi hefur mest unnið að því að bæta kjör almennings á verzlunarsviðinu. Það er máske engin tilviljun, að slík árás á samvinnuhreyfinguna skuli gerð á sama tíma sem reynt er að koma Íslandi undir járnhæl vestrænna auðhringa og ofurselja efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar, eyðileggja útflutningsatvinnuvegi hennar og framleiðslu með verzlunarpólitík, sem sé einvörðungu í þjónustu auðhringa utanlands og innan. Það er ekki til neins í slíku sambandi, þegar verið er að ræða um þá árás á samvinnufélögin og samvinnuhreyfinguna, sem hér er verið að gera, að reyna að vitna í það, að einstakir forustumenn í samvinnuhreyfingunni kunni að hafa gert einhverjar vitleysur á undanförnum árum eða misstigið sig, eins og í því að fara í of náið samstarf við auðhringana hér í Reykjavík. Slíkt er engin afsökun af hálfu verzlunarauðvaldsins fyrir þeirri árás, sem verið er að gera á samvinnufélögin með þessum lögum, og alþýðusamtökin í landinu þurfa einmitt sérstaklega á því að halda, þegar eins illa er að þeim vegið og nú er gert með skipulagðri dýrtíð af hálfu stjórnarvaldanna, að geta fengið að reka sín samvinnufélög með þeim réttindum, sem þau hafa búið við á undanförnum áratugum og kostaði langa baráttu fyrir alþýðu Íslands að knýja fram. Og eitt er víst, að verkalýðshreyfingin, sem skoðar samvinnuhreyfinguna sem annan þátt í sinni starfsemi, mun ekki verða mildari í sínum kröfum og sinni baráttu, þegar hún finnur til þess, að það er sótt að henni beggja vegna frá, bæði með kerfisbundnum launalækkunum og launaráni og vísitölusviptingu og svo hins vegar með skipulagðri dýrtíðaraukningu, og um leið reynt að hindra verkalýðshreyfinguna í því að geta hagnýtt samvinnufélögin á eðlilegan hátt til þess að vinna á móti þeirri dýrtíð. Það er þess vegna eðlilegt frá sjónarmiði verzlunarauðvaldsins, að í sama frv., sem það er að ráðast á sveitarfélögin og þeirra sjálfsforræði, þá ráðist það líka á þá sjálfsbjargarviðleitni, sem samvinnufélögin eru almenningi. Það er hins vegar um leið auðsætt, að alþýða Íslands mun setja sig til varnar gegn svona árásum, og þó að alþýðu manna úti um land sé það máske ekki ljóst enn þá, hvaða árás er verið að fremja á hennar sjálfsforræði með þeirri innlimun sveitarfélaganna í ríkisvaldið, sem hér er verið að framkvæma, þá mun henni verða það ljóst von bráðar, og þá mun hún gera sakirnar upp við þá fulltrúa sína hér á Alþingi, sem koma þessu á.

Ég hef nú gert að umtalsefni það, sem ég álit höfuðatriðin í þessu frv.: Annars vegar árásina á sjálfsforræði sveitarfélaganna, sviptingu þeirra raunverulega á sínu gamla sjálfsforræði, og hins vegar árásina á samvinnufélögin. Það er þetta tvennt, sem ég álít vera höfuðeinkenni á þessu frv.

Hér hefur verið ýtarlega rætt um ýmsa aðra hluti, veltuútsvörin, skattstigana eða útsvarsstigana á hinum ýmsu sviðum. Um það mætti margt segja. Það er furðulegt raunverulega, að mönnum skuli detta það í hug að vera að tala um útsvarsstiga af eins lágum tekjum og hér er lagt til, sérstaklega í 6. gr. og 7. gr., á sama tíma sem menn hafa verið að státa af því að reyna að létta sköttum af lágtekjunum. Það sýnir bezt, hvers konar hrákasmíð þetta frv. allt saman er, og undarlegt raunverulega, að það skuli virkilega vera til meiri hl. alþm. í þessari hv. d., sem vill bera ábyrgð á því að fara að setja svona útsvarsstiga í sveitarfélögunum. Ég veit, að það hafa verið settir ósköp vitlausir og ranglátir útsvarsstigar í ýmsum sveitarfélögum. En þau um það. Þetta hafa þau sjálf gert. Þetta hafa þau þá á lýðræðislegan hátt ákveðið hjá sér, þeirra meiri hl. komið sér saman um, að svona skuli þetta vera. Vilji þau breyta þessu, þá geta þau gert það næst þegar þau kjósa, kosið öðruvísi. En að meiri hl. í þessari hv. d. af alþm. skuli geta verið þekktur fyrir það að setja svona ákvæði fyrir hreppsfélögin úti um allt land, eins og þarna er í 6. og 7. gr., það undrar mig, vitandi það, að jafnvel þó að um leið sé sagt við þessa hreppa og þessi sveitarfélög: Ja, þið megið breyta þessu ofur lítið, þið megið hafa einhverja tilbreytingu í þessu, — þá er svo sem alveg eins hægt næst, þegar einu sinni er komið inn á þetta, að ákveða þennan útsvarsstiga án þess, að það séu nokkrir möguleikar til slíks. Fordæmið er gefið, að það er Alþ., sem ákveður útsvarsstiga og tekur það í hendur ríkisvaldsins, en lætur ekki sveitarfélögin og þeirra stjórnir gera það.

Ég mun þess vegna ekki gera þau atriði, sem annars hafa verið mjög rækilega rædd hér, og margt er rétt og vel sagt í því sambandi, — ég mun ekki gera það að umtalsefni. Hitt er fyrir mér höfuðatriðið, það verzlunarauðvald, sem nú er á rústum svikinna kosningaloforða að brjótast til valda hér á Íslandi. Það er að reyna að brjóta undir sig ríkisvaldið, það er að reyna að einoka það fyrir sína einkahagsmuni, það er að reyna að brjóta niður samtök almennings, sveitarfélögin, samvinnufélögin, allar lýðræðislegar eindir í þjóðfélaginu. Það hefur þegar sýnt sig í því að skerða samninga allra verkalýðsfélaga á landinu. Og þetta sama verzlunarauðvald er svo, á sama tíma sem það er að framkvæma þetta með þessu frv. og öðrum, þá er það að fórna hagsmunum útflutningsins og framleiðslunnar á Íslandi fyrir sína skítugu hagsmuni, fyrir sitt gróðabrall. Þannig stöndum við frammi fyrir því í dag, að Landssamband íslenzkra útvegsmanna og Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna viðurkenna, að það sé raunverulega enginn grundvöllur til þess að reka framleiðsluna á Íslandi, vegna þess að frekja þessa verzlunarauðvalds er slík, að það er verið að móta þjóðfélagið einvörðungu með tilliti til þess, þeirra brasksjónarmiða, sem vaða uppi hjá því, án nokkurs skilnings, án nokkurs vits og án nokkurrar ábyrgðartilfinningar fyrir þjóðarheildinni.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er einn þáttur í þessari árás, er einn þáttur í þeirri gagnbyltingu, sem þetta verzlunarauðvald er að reyna að framkvæma á Íslandi til þess að leiða aftur yfir okkur kreppu og ófremdarástand fyrri ára. Og það er bezt, að þeir fulltrúar úr stjórnarflokkunum utan af landi, sem standa með þessu frv., geri sér það ljóst, þegar þeir koma hér svo aftur svo að segja við hverjar einustu umr., sem hér fara fram, og kvarta fyrir hönd sinna sveitarfélaga, að með því að samþ. svona frv. eins og þetta eru þeir að svipta sín sveitarfélög möguleikanum til þess að geta bjargað sér sjálf, höggva niður þeirra efnahagslega sjálfsforræði, sem þó hvað eftir annað hefur verið það, sem gert hefur þessum sveitarfélögum mögulegt á undanförnum áratugum að forða sér undan þeim hörmungum, sem fánýtt verzlunarauðvald hefur verið að leiða yfir þessi sveitarfélög. Hins vegar sé ég það, eins og oftar, að þeir fulltrúar stjórnarflokkanna utan af landi, sem ættu máske að hafa einhvern snefil af ábyrgðartilfinningu fyrir þeim sveitarfélögum, sem þeir eru úr, í þessu efni, þeir sjást hér lítið, fást lítið til að hugsa og skilja máske enn þá minna. En ég vil segja þessi orð engu að síður, til þess að þegar dagur reikningsskilanna kemur, þá standi þeir þó frammi fyrir því, að það hafi verið reynt að segja þeim, hvað þeir væru að gera, þó að þeir vissu það kannske ekki sjálfir.