02.06.1960
Efri deild: 91. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2890 í B-deild Alþingistíðinda. (1088)

112. mál, útsvör

Frsm. meiri hl. (Auður Auðuns):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. hefur ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. n., eða við þrjú, sem stöndum að nál. á þskj. 588, leggjum til, að frv. verði samþ. óbreytt, en minni hl. mun skila sérnál.

Það er orðið alllangt síðan frv. þetta kom fyrst fram hér á hv. Alþ. Þm. hefur því gefizt rúmur tími til að kynnast efni þess og mynda sér um það skoðun, enda hefur það mikið verið rætt, bæði innan þings og utan, þ. á m. í dagblöðunum. Við 1. umr. málsins hér í hv. Ed. fylgdi fjmrh. frv. úr hlaði með ýtarlegri ræðu, og ég get því orðið um það fáorð.

Við 1. umr. málsins tóku hér til máls hv. þm., andstæðingar frv. Þar var m.a. vikið að ályktunum frá fulltrúaráðsfundi Sambands íslenzkra sveitarfélaga. Ég vil bæta því við, að það er síður en svo, að í þeirri ályktun, sem vitnað var til, komi fram andstaða fundarins gegn megintilgangi þessa frv., og nægir um það að benda til till., sem fram kom á þessum fulltrúaráðsfundi, sem ég leyfi mér hér að lesa upp, með leyfi hæstv. forseta. Sú till. var svo hljóðandi:

„Þar sem fulltrúaráðsfundurinn telur, að sjálfsákvörðunarréttur sveitarfélaganna um sín innri mál sé einn af hyrningarsteinum tilveru þeirra og sjálfstæðis, mótmælir hann eindregið fram komnu frv. um bráðabirgðabreytingu á l. um útsvör, þar sem það gerir m.a. ráð fyrir lögboðnum útsvarsstigum, og skorar á Alþ. að fella frv.“

Þessi till., sem fram var borin þarna á fundinum, var felld af yfirgnæfandi meiri hl., og það gefur nokkra vísbendingu um það, að fundurinn hafi ekki verið frv. andvígur í meginatriðum, enda þótt sú ályktun, sem hér hefur verið vitnað til áður við l. umr. málsins, feli í sér ábendingar um einstök atriði í frv., sem talið er að þurfi nánari athugunar við, og þar á meðal ætla ég að séu ýmis atriði, sem engar líkur eru til að sveitarstjórnarmenn yfirleitt séu á einu máli um. Þar eru viss atriði, sem maður veit að skoðanir eru mjög skiptar um, jafnt meðal sveitarstjórnarmanna sem annarra.

Ég hlýt af þessu að draga þá ályktun, að fulltrúaráðsfundurinn hafi ekki lagzt gegn megintilgangi frv., sem sé heildarsamræmingu á útsvarsálagningu sveitarfélaganna og lögfestingu á hámarki veltuskatts, og ekki heldur gegn þeim megintilgangi, sem reyndar felst í heildarsamræmingu, að það séu lögboðnir útsvarsstigar, þó að lengi megi sjálfsagt um það deila, hvernig þeir verði bezt úr garði gerðir.

Það hefur verið fundið að því af hv. andstæðingum frv., að það hafi ekki verið nóg til undirbúnings þess vandað. Eins og fram

kemur í grg, með frv., hafa unnið að samningu þess menn, sem eru þaulkunnugir sveitarstjórnarmálum og skattheimtu sveitarfélaganna. Og þeir kvöddu sér aftur til ráðuneytis um einstök atriði aðra menn, sem höfðu langa reynslu í þeim efnum.

Eins og fram kom reyndar í ræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins hér í d., hafa komið fram ítrekaðar óskir um samræmingu á útsvarsálagningu sveitarfélaganna. Hv. 1. þm. Norðurl. e. (KK) spurði við 1. umr. málsins hér, hvort sveitarfélögin hefðu óskað eftir slíkri lagasetningu sem þessu frv. Ég held nú, að ef sveitarfélögin hefðu hvert um sig átt að gera till. um slíka lagasetningu, þá hefðu till. í einstökum atriðum sjálfsagt orðið jafnmargar eða allt að því jafnmargar og sveitarfélögin eru, og hefði þá, ef freista átti að fá á komið nokkurri samræmingu, orðið að fara þar einhvern meðalveg. En ég býst við, að öruggasti leiðarvísir við slíka lagasetningu séu þær reglur, sem sveitarfélögin um árabil hafa skapað sér við niðurjöfnun útsvara eftir efnum og ástæðum, eins og hún hefur verið og er nú.

Með hliðsjón af þessum reglum, sem undirbúningsnefnd frv. að sjálfsögðu hafði orðið sér úti um, hafa verið samdir útsvarsstigar með heimild til hækkunar og lækkunar og reglur, sem að fróðustu manna yfirsýn er talið að eftir atvikum geti annars vegar mætt tekjuþörfum sveitarfélaganna og hins vegar tryggt gjaldþegnana gegn handahófslegri útsvarsálagningu eða svo hárri, að ósanngjarnt megi teljast.

Þó að ýmsir hafi haft sitthvað við þetta frv. að athuga, og ég held nú reyndar, að það verði vandsett sú skattalöggjöf, að ekki þyki einhverjum á sig hallað, þá verður því ekki á móti mælt, að með þessu frv. er stigið stórt spor í þá átt að samræma útsvarsálagninguna í hínum ýmsu sveitarfélögum landsins. Og það má segja, að það sé einmitt tímabært að gera þetta nú, þegar í fyrsta sinn rennur til sveitarfélaganna hluti af söluskatti skv. nýsamþykktum lögum um jöfnunarsjóð sveitarfélaganna. Sem kunnugt er, stendur yfir heildarendurskoðun útsvarslaganna, og við, sem stöndum að nál. meiri hl. heilbr.- og félmn., teljum, að þetta frv. stefni í meginatriðum í rétta átt og að mikilvægt sé, að reynsla fáist af því í framkvæmd nú á þessu ári, — reynsla, sem geti orðið ómetanleg vísbending fyrir þá menn, sem vinna að heildarendurskoðun útsvarslaganna. Við leggjum því til, að frv. verði samþ. óbreytt.