01.06.1960
Efri deild: 90. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 2961 í B-deild Alþingistíðinda. (1134)

162. mál, verðlagsmál

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég hef leyft mér að bera hér fram brtt. við það frv. um verðlagslög, sem hér liggur fyrir. Það hefði að sjálfsögðu verið eðlilegra, að ég hefði borið þær fram við 2. umr., en ég varð of síðbúinn með þær, og þess vegna koma þær nú ekki fyrr en við 3. umr., en þessar breyt., sem hér er um að ræða, varða skipun verðlagsdóms.

Samkv. núgildandi ákvæðum laga og eins og gert er ráð fyrir í frv., þá er verðlagsdómur þannig skipaður, að í honum eiga sæti tveir menn, þ.e.a.s. hlutaðeigandi héraðsdómari, sem er formaður dómsins, og einn meðdómandi, skipaður með þeim hætti, sem þar nánar segir. Síðan er svo tekið fram í 16. gr. frv., og það ákvæði er líka raunar samhljóða því, sem er í núgildandi lögum, að ef ágreiningur verður á milli dómara, skeri atkv. formanns úr. Ég legg til, að þessu verði breytt á þá lund, að í verðlagsdómi skuli eiga sæti þrír menn, hlutaðeigandi héraðsdómari, sem er formaður dómsins eftir sem áður, og tveir meðdómendur, skipaðir með hliðstæðum hætti og þessi eini meðdómandi áður. Ég legg svo til, að 16. gr. verði breytt á þá lund, að ef ágreiningur verði í verðlagsdómi, ráði atkvæði þar úrslitum.

Þessi skipun, sem nú er á verðlagsdómi, er mjög óvenjuleg skipun dóms. Ég held, að hún sé alveg einstæð. Ég held, að það sé ekki neinn annar fjölskipaður dómur hér skipaður með þessum hætti. Það er engan veginn óþekkt og hefur reyndar heldur farið í vöxt og getur verið gott eitt um það að segja, að leikmenn taki þátt í dómsstörfum, að það séu meðdómendur. En ef þeir eiga að starfa, verða þeir að mínum dómi að starfa á nokkrum jafnréttisgrundvelli með þeim reglulega héraðsdómara, því að annars gætir þeirra lítið og verður lítið gagn að því að hafa meðdómendur. Markmiðið með því að hafa meðdómanda í verðlagsdómi er auðvitað það, að almenningur geti fylgzt betur en ella með þessum dómum og beri meira traust til þess dóms en ella væri, og svo líka, eins og almennt er um meðdómendur, að með þeim hætti sé skapað nokkurt aðhald að þeim reglulega embættismanni, sem dóminn skipar.

Þessum tilgangi held ég að varla verði náð með þeirri skipan, sem gert er ráð fyrir í frv. og reyndar er í núgildandi lögum, því að ég held, að þar sem meðdómandi á einn að sitja með héraðsdómara og það er fyrir fram vitað, að þótt hann geri sératkvæði, þá ræður atkvæði dómarans, komi sjaldan til þess, að slíkur einn meðdómandi geri sératkvæði, enda hygg ég, að það sé í reyndinni í þessum dómi afar fátítt, að það hafi átt sér stað.

Ég held, að sú skipan, sem ég legg til í mínum brtt., sé á allan hátt eðlilegri, sé í betra samræmi við það, sem almennt gerist um skipan fjölskipaðra dóma hér, og sé líklegri til þess, að tilgangur þessa ákvæðis náist, heldur en með því fyrirkomulagi, sem frv. gerir ráð fyrir.

Ég held, að þetta mál sé út af fyrir sig svo ljóst, að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð um það. Og þar sem gerðar hafa verið breytingar á frv. í þessari hv. d., svo að það þarf hvort eð er að fara til Nd. aftur, getur það ekki staðið í vegi fyrir því, að menn samþ. þessa breyt., ef þeim sýnist hún eðlileg. Um þessa brtt. þarf ég svo ekki að hafa fleiri orð, en vona, að menn geti fallizt á, að það sé ástæða til þess að breyta þessu í það horf, sem minar brtt. gera ráð fyrir.

Ég ætla nú ekki að fara að ræða þetta mál hér almennt, vildi aðeins mæla fyrir þessari brtt. Ég vil þó, úr því að ég tók til máls, benda á það ákvæði, sem nú hefur verið sett í 1. gr. um skipun verðlagsnefndar og ég verð að telja ákaflega óeðlilegt. Það er sjaldgæft, að ég hygg, jafnvel einsdæmi um 5 manna nefnd, sem kjörin er af Alþ., að það sé skotið þar við 6. manninum, sem á að eiga þar sæti samkv. sinni embættisstöðu. Það er venjulega hafður sá háttur á um nefndir, að þær eru látnar standa á stöku, ef þess er kostur. Sú breyt., sem hér var á gerð í þessu efni, var rökstudd með því, að með þeim hætti kæmi þingviljinn betur í ljós og stæði betur að baki þeirrar nefndar, sem kjörin væri, ef kosnir væru 5 í stað 4. En hvað á þá að gera við þennan 6. mann? Hvers vegna er ekki nóg að hafa 5 þingkjörna menn og ráðh. skipi svo einn úr þeirra hópi formann nefndarinnar, eins og venjulegt er, þegar um þingkjörnar n. er að tefla? Hvers vegna er verið að taka þarna ráðuneytisstjórann í viðskmrn. og setja hann þarna sem 6. manninn og gera þannig tölu nm. jafna, með þeim afleiðingum, að svo verður að ákveða það, ef atkv. verða jöfn, að þá ráði þó atkv. þessa sjálfkjörna embættismanns? Ég held, að þetta sé mjög óvenjuleg skipun, og mér finnst hún satt að segja heldur óeðlileg. Úr því að þingviljinn á þarna að vera aðalatriðið, er bezt að láta hann ráða út í gegn og vera ekki að bæta við þessum ráðuneytisstjóra.

Satt að segja hélt ég líka, að þessi ágæti maður, ráðuneytisstjórinn í viðskmrn., sem reyndar er jafnframt ráðuneytisstjóri í efnahagsmrn., hefði ærið á sinni könnu, þó að ekki væri þetta sett á hann til viðbótar. Og það fer ekki hjá því, að maður eiginlega leiti skýringar á því, hvers vegna er verið að setja hann á þennan varðpóst. Það er alveg áreiðanlegt, að hann hefur nóg við að fást, þó að honum sé sleppt við þetta. Ég skal ekki segja, hvaða ástæða er til þessa, en það fer ekki hjá því, að það hvarfli að manni, að það sé vilji stjórnarsinna að tengja þennan ráðuneytisstjóra, Jónas Haralz, við þetta mál með þessum hætti. Maður heyrir það í umræðum manna á milli, ekki sízt hjá stjórnarsinnum, að þeir eigna þær aðgerðir, sem heldur eru nú óvinsælar í sambandi við þessi mál, mjög Jónasi Haralz og öðrum hagfræðingum. Er það kannske meiningin, ef allt fer nú illa, sem margir ætla, að skella þá skuldinni á Jónas Haralz og aðra hagfræðinga og einmitt líka í sambandi við þessi verðlagsmál? Ég skal ekkert segja um það. En það er a.m.k. eitt víst, að þegar þennan ágæta mann ber hér á góma í umr., er það jafnan rækilega undirstrikað af sjálfstæðismönnum, að það eitt sé vitað og upplýst um flokkspólitíska afstöðu þessa ágæta manns, að hann hafi eitt sinn verið sósíalisti, en sjálfstæðismaður sé hann örugglega ekki. Það gæti bent til þess, að nefnd spá rættist seinna, ef á þyrfti að halda að koma einhverju á hann.

Um þetta verðlagsmál skal ég ekki annars segja annað en það, að það er náttúrlega, eins og margtekið hefur verið fram í þessum umræðum, í æpandi ósamræmi við allt hið mikla skraf um frelsi, frelsi í viðskiptamálum, og það er eiginlega táknrænt, að það skuli verið að afgreiða þetta verðlagsmál elnmitt á þessum mikla frelsisdegi, sem nú er talinn upprunninn, því að manni skilst nú, að ef raunverulegt viðskiptafrelsi væri hér komið á, engin leyfi þyrfti til innflutnings, hver og einn gæti gengið í bankana og fengið gjaldeyri fyrir þeirri vöru, sem hann hyggst flytja inn, þá væri allt verðlagseftirlit nokkuð óþarft. Ég verð að segja það sem mína skoðun, að ég held að vísu, að það sé ekki ýkjamikið hald í verðlagseftirliti og það sé erfitt að koma því við, en ég vil þó ekki fullyrða, að það sé gagnslaust. Og þess vegna vil ég fyrir mitt leyti ekki leggja neinn stein í götu þessa verðlagseftirlits, en það haldi áfram að vera hér. En þetta frv. sýnir með vissu, að hæstv. ríkisstj. og stuðningsmenn hennar hafa ekki eins mikla trú á viðskiptafrelsinu og þeir vilja vera láta.