11.03.1960
Efri deild: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (1346)

84. mál, lífeyrissjóður togarasjómanna

Frsm. (Friðjón Skarphéðinsson):

Herra forseti. Þetta frv. um breyt. á lögum um lífeyrissjóð togarasjómanna er flutt að beiðni félmrh., og efni þess er það, að bætt skuli einni mgr. inn í 9. gr. laganna um lífeyrissjóð togarasjómanna, um það efni, að iðgjöld sjóðfélaga og launagreiðenda skuli hvíla sem lögveð á hlutaðeigandi togara og ganga fyrir öllum öðrum veðum.

Rök fyrir því, að þetta frv. er borið fram, eru þau, að í ýmsum tilfellum hafa átt sér stað erfiðleikar um innheimtu þessara iðgjalda, en hingað til hefur engin veðtrygging verið fyrir greiðslu þeirra. Af því leiðir, að hætta er á, að iðgjaldagreiðslur innheimtist ekki og tapist með öllu í ýmsum tilfellum. Frv. er ætlað að koma í veg fyrir, að þetta eigi sér stað, ef að lögum verður. Trygging togarasjómanna er lögboðin, og af því leiðir, að tryggja verður, að tekjur lífeyrissjóðsins heimtist.

Frv. er flutt af nefnd. Er því ekki lagt til, að því verði vísað til n., en einungis, að því verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr.