29.04.1960
Efri deild: 67. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3146 í B-deild Alþingistíðinda. (1448)

57. mál, orlof húsmæðra

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Ég benti á það, að mér fyndist rétt að gera ráð fyrir því, að kvenfélög og héraðasambönd mættu, ef þau vildu, leggja fram eitthvað í orlofssjóð húsmæðra, ef þeirra ástæður leyfðu, en ekki það, að ég tæki sérstaklega fram, að það ætti að vera bindandi í lögum, hvað þau legðu fram, heldur að þegar gert er ráð fyrir því í 3. gr., að í fyrsta lagi húsmæður greiði sérstakt gjald, í öðru lagi að sjóðurinn fái tekjur af gjöfum og áheitum, í þriðja lagi með framlögum sveitar- og bæjarfélaga og í fjórða lagi með framlögum ríkisins, þá fyndist mér ekkert óviðeigandi, að í fimmta lagi verði gert ráð fyrir því, að frá kvenfélögum og héraðasamböndum kæmi einhver fjárstuðningur, ef þeirra fjárhagur leyfir, án þess þó að það sé lagalega bindandi upphæð. Mér finnst ekki ástæða til að binda upphæðina sérstaklega í lögum, en hins vegar finnst mér eðlilegt að gera ráð fyrir því, að þau leggi eitthvað fram og þau séu nefnd á nafn í þessu sambandi. En mér finnst aftur á móti, að við eigum að binda lagalega framlag bæjar- og sveitarfélaganna.