26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3187 í B-deild Alþingistíðinda. (1540)

121. mál, vitabyggingar

Flm. (Einar Sigurðsson):

Herra forseti. Sú var tíðin, að siglingar voru hvað mestar til Austurlands af öllum landshlutum. Það var skemmst þangað frá löndum þeim, sem Íslendingar höfðu lengst af mest skipti við, og þar var blómlegt atvinnulíf til lands og sjávar.

Fiskveiðar voru miklar fyrir Austurlandi, en fiskur gekk þar líka einna fyrst til þurrðar, því að stytzt var á Austfjarðamiðin, t.d. fyrir Breta. Mörg mið eru enn á vörum þjóðarinnar, en þó ekkert þeirra sem Hvalbakur. Þarna jusu togarar, íslenzkir sem erlendir, upp ógrynni af fiski árum saman. Mið þetta er kennt við samnefnt sker, sem liggur um 17.8 mílur frá landi, þar sem stytzt er í land að Kambanesi. Sker þetta má sjá í góðu skyggni af Staðarskarði, hvar brýtur á því. Þetta er langt sker, þó nokkuð stórt um sig, og má einna helzt líkja því við Faxasker við Vestmannaeyjar, þótt það sé nokkru stærra. Sker þetta er grunnlínupunktur, og á meðan landhelgin var 4 mílur, var hægt að toga fyrir innan Hvalbak, enda þótt 4 mílna landhelgi væri umhverfis hann. Nú er að sjálfsögðu allt friðað fyrir togurum fyrir innan Hvalbak.

Það gefur að skilja, að sker á jafnfjölfarinni siglingaleið og Hvalbakur er hlýtur að vera sjófarendum hættulegt, enda er vitað um slys þar. En hin eru þó sjálfsagt fleiri, sem enginn veit um, og sjórinn hefur máð út öll vegsummerki. Það er því mikil nauðsyn að koma þarna upp vita, ljósvita og hljóðvita og endurkastara, og fá Hvalbak tekinn inn í vitalögin. Mjög nauðsynlegt væri, að þarna væri unnt að hafa afdrep fyrir skipbrotsmenn, þegar vitabyggingin yrði reist, með talstöð til þess að geta haft samband við umheiminn, enn fremur nokkurn matarforða, enda mundi hvort tveggja vera nauðsynlegt, þó að ekki væri nema þegar verið væri að sinna vitanum, því að þarna mun allerfið aðstaða til að athafna sig, þar sem þetta er fyrir opnu hafi svo að segja á alla vegu og mjög brimasamt við skerið. Þetta er eitt af fjarlægari skerjum við Ísland frá ströndinni, og væri líka frá því sjónarmiði að undirstrika sem bezt umráðarétt. Íslendinga yfir fiskveiðilandhelginni gott að reisa þarna mannvirki og það sem fyrst.

Allir sjófarendur mundu mjög fagna því, ef góður viti, sem jafnframt væri skipbrotsmannaskýli, yrði reistur á Hvalbak og það sem fyrst. Ég legg því til, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.