05.12.1959
Neðri deild: 13. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 335 í B-deild Alþingistíðinda. (161)

30. mál, bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Skömmu eftir að þing hóf störf, lagði ríkisstj. fram 4 frv. í hv. Ed. Þessi frv. voru:

1) Frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta ýmis gjöld 1960 með viðauka, og það er á þskj. 7.

2) Frv. til laga um framlenging á gildi III. kafla laga nr. 100/1948, um dýrtíðarráðstafanir vegna atvinnuveganna. Það er á þskj. 8.

3) Frv. til laga um bráðabirgðabreyting á lögum nr. 90/1954, um tollskrá o. fl., á þskj. 9.

4) Frv. til laga um bráðabirgðabreyting á lögum nr. 68/1949, um bifreiðaskatt o.fl.

Það kom víst engum á óvart, þó að þessi frv. væru lögð fyrir þingið. Þarna er um að ræða framlengingar á lagaákvæðum, sem nú gilda og lögfest hafa verið til eins árs í senn að undanförnu. Það mun vera þörf fyrir þær tekjur, sem frv. gera ráð fyrir, nú eins og áður. Þessi 4 frv. hafa þegar hlotið afgreiðslu fyrir nokkru í fjhn. Ed.

Skömmu síðar lagði ríkisstj. einnig fyrir þessa deild frv. til laga um heimild fyrir ríkisstj. til að innheimta skemmtanaskatt með viðauka. Það er á þskj. 17. Það er sama að segja um þetta frv. og hin 4, Ed.-málin, sem ég nefndi, að þarna er á ferðinni framlenging á ákvæðum, sem nú gilda og gilt hafa um mörg undanfarin ár, um skemmtanaskattsviðauka. Fjhn. þessarar d. hefur fyrir nokkru skilað áliti um þetta frv. og mælir einróma með því, að það verði samþykkt. Hefur það þegar gengið í gegnum tvær umr. í þessari deild.

En nú er hér á dagskrá fundarins nýtt stjórnarfrv. á þskj. 40. Það er frv. um bráðabirgðabreyting og framlenging nokkurra laga. Í þessu frv. er grautað saman efni hinna 5 frv., sem ég áður nefndi, og það mun vera ætlunin að láta öll þau eldri 5 daga uppi.

Í þessu nýja stjórnarfrv. er meðal annars okkar gamli góði kunningi skemmtanaskattsviðaukinn. Skemmtanaskatturinn hefur gengið til þess að styðja listir og ýmiss konar menningarstarfsemi í þjóðfélaginu. Hér er honum nú holað niður ásamt öðru. Hið nýja umhverfi hans er ákaflega nöturlegt og ólistrænt. Hann er settur hér næst á eftir gjaldi af gosdrykkjum og svonefndum kaffibæti, sem stundum gengur undir nafninu export og einnig nefnist rót stundum. Ég verð að segja það, að það er skothent klúður, sem hæstv. fjmrh. hefur hér látið frá sér fara á prenti.

En það liggur í augum uppi, hvers vegna ríkisstj. bregður út af fyrri venju um meðferð þessara mála og ber á borð þennan hrærigraut. Þetta er þáttur í baráttu hennar fyrir því að víkja þingmönnum frá störfum á Alþingi, áður en hér hafa verið tekin til meðferðar ýmis þau mál, sem ætti að fjalla um, áður en hlé verður gert á störfum þingsins.

Minni hl. fjhn. telur þetta aðfinnsluvert og mótmælir því, að þannig verði á málum haldið. Við mótmælum því, að Alþingi verði frestað, fyrr en 1. umr. um fjárlagafrv. hefur farið fram, fjmrh. hefur gert grein fyrir fjárhagsástæðum ríkisins, svo sem ætíð er gert við það tækifæri, og ýmis aðkallandi mál, sem liggja fyrir þinginu, fleiri en ég hef hér nefnt, þarf að taka til meðferðar, áður en þinghlé verður gert. Þingið skortir sannarlega ekki verkefni. 37 mál hafa þegar verið flutt á þinginu. Meðal þeirra eru mál, sem brýn þörf er að afgreiða fyrir þinghlé, önnur, sem eðlilegt er og sjálfsagt að þoka áleiðis með athugun í þingnefndum og á annan hátt, áður en þingi verður frestað.

Minni hl. fjhn. er ekki á móti þeim framlengingum laga, sem um getur í þessu frv. En við leggjum til, að málinu verði frestað um sinn, vegna þess að við teljum alls ekki tímabært að fresta þingi nú þegar og viljum ekki greiða fyrir því áformi ríkisstj. með því að samþ. þetta frv. að svo stöddu.

Nál. okkar er á þskj. 62. En á þskj. 59 flytjum við brtt. við frv. Hún er við 4. gr. þess og snertir söluskattinn. Við leggjum til, að ákvæðin um söluskattinn skuli ekki gilda lengur en til febrúarloka næsta ár.

Á fundi í gær voru samþykkt hér lög um heimild handa ríkisstj. til bráðabirgðafjárgreiðslna úr ríkissjóði tvo fyrstu mánuði næsta árs, þar sem sýnt er, að ekki muni takast að ljúka afgreiðslu fjárlaga fyrir áramótin. Við teljum það eðlilegt, sem skipum minni hl. fjhn., að lagaákvæðin um söluskattinn verði framlengd einnig til febrúarloka næsta ár. Er þá hægt, þegar þar að kemur, að setja ný ákvæði í lög um framlengingu hans, ef þörf þykir, í sambandi við afgreiðslu fjárlaganna.