30.05.1960
Sameinað þing: 55. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3351 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

Almennar stjórnmálaumræður

Birgir Finnsson:

Herra forseti. Góðir hlustendur. Hvarvetna í lýðfrjálsum löndum hefur stjórnarandstaðan mikilvægu hlutverki að gegna, og þar sem lýðræðið hefur náð mestum þroska, sýnir það sig oft, að stjórnarandstaðan starfar af engu minni ábyrgðartilfinningu en stjórnarliðið. Þetta sýndi sig t.d. í Bretlandi nýlega, þegar brezki verkamannaflokkurinn undir forustu Gaitskills studdi afstöðu íhaldsstjórnarinnar í utanríkismálunum vegna atburðanna í París, þegar fundur æðstu manna fór út um þúfur, og svipaðir hlutir hafa þráfaldlega skeð í brezkum stjórnmálum. Hið sama skeði í Bandaríkjunum. Báðir flokkar þar studdu dyggilega forseta landsins og þá afstöðu, sem hann tók á Parísarfundinum. Á Norðurlöndum verður þess sjaldan vart, að ágreiningur sé um utanríkisstefnuna af hálfu annarra en kommúnista. Þannig mætti telja margt fleira því til sönnunar, að lýðræðissinnaðir stjórnarandstöðuflokkar annarra landa láta þjóðarhag sitja í fyrirrúmi fyrir flokkshagsmunum.

En hvernig er þessu farið hjá Íslendingum? Getur stjórnarandstaðan hjá okkur staðizt slík próf? Þeirri spurningu verður því miður að svara neitandi, og dæmin eru deginum ljósari, bæði fyrr og síðar.

Athugum t.d. landhelgismálið. Það er eitt okkar stærsta mál og jafnframt vandmeðfarið utanríkismál. Einhugur þjóðarinnar er ótvíræður, og alþýða manna vill, að flokkarnir standi saman í málinu. Sem betur fer hefur þetta að mestu leyti tekizt og farið eftir atvikum vel, þrátt fyrir það, að stjórnarandstaðan hefur gert alvarlegar tilraunir til að rjúfa eininguna um málið og torvelda störf hæstv. utanrrh., Guðmundar Í. Guðmundssonar, sem hefur staðið allt slíkt af sér með mestu prýði og haldið á málstað okkar af þrótti og einbeitni, landi og þjóð til hins mesta sóma, og með þeim árangri, að 12 mílna fiskveiðilandhelgin er orðin viðurkennd staðreynd, þótt ekki hafi verið sett alþjóðalög um 12 mílna regluna.

Það gönuhlaup stjórnarandstöðunnar, sem ég á einkum við, er afstaða hv. þm. Hermanns Jónassonar og Lúðvíks Jósefssonar á Genfarráðstefnunni um víðáttu landhelginnar til brtt. Íslands víð svonefnda bræðingstillögu Kanada og Bandaríkjanna, en sá bræðingur var eina till. á ráðstefnunni, sem líklegt var að mundi ná samþykki með tilskildum meiri hluta. Og ef svo hefði farið, að till. hefði verið þannig afgreidd, jafngilti það því, að við hefðum fyrst fengið 12 mílna landhelgi eftir 10 ár vegna ákvæðisins um sögulegan rétt og orðið að búa við 6 mílna landhelgi þangað til. Hvað var nú sjálfsagðara, þegar þessi hætta blasti við, en að bera fram brtt. við bræðinginn og gera þannig ýtrustu tilraun til þess að fá sérstöðu Íslands viðurkennda? Öll íslenzka sendinefndin á ráðstefnunni, að undanskildum leiðtogum stjórnarandstöðunnar, þeim Hermanni Jónassyni og Lúðvík Jósefssyni, var sammála um, að þetta skyldi gert, enda hefði þá tilganginum með sendiför okkar manna á ráðstefnuna verið náð, ef bræðingurinn hefði fengizt samþykktur þannig breyttur.

Allir vita svo, hvernig fór, og þarf ekki að rekja þá sögu, því að sjaldan eða aldrei mun þjóðin hafa fylgzt með fréttum af meiri athygli en meðan á Genfarráðstefnunni stóð. En í framhaldi af þessu er vert að hugleiða þá spurningu, hvað fyrir tvímenningunum vakti með afstöðu þeirra. Þeim var sýndur mikill trúnaður með því að senda þá sem fulltrúa á ráðstefnuna, en þeir brugðust hrapallega þeim trúnaði með því að kljúfa sendinefndina á örlagastundu í augsýn alls heimsins.

Eftir á hefur afstaða hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar verið útskýrð með því, að hann hafi talið, að Ísland væri að bregðast þeim þjóðum, sem vilja 12 mílna landhelgi af allt öðrum ástæðum en við og hafa að því leyti til átt samleið með okkur á alþjóðlegum ráðstefnum um víðáttu landhelginnar, að þeir miða við 12 mílur eins og við, en leggja allt aðra merkingu í hugtakið landhelgi. Það vakir t.d. ekki fyrst og fremst fyrir Rússum að tryggja sér 12 mílna fiskveiðilögsögu, eins og við beitum okkur fyrir. Þeir eru svo voldug þjóð, að þeir þurfa naumast að spyrja aðra, hversu stóra fiskveiðilögsögu þeir helgi sér. Þeirra keppikefli er fullnaðarlögsaga yfir 12 mílna landhelgi, fyrst og fremst með tilliti til hernaðar. Þannig hafa þeir þrátt fyrir yfirlýsta 12 mílna reglu leyft bæði Bretum og Japönum að veiða hjá sér upp að 3 mílum, og er það fordæmi sízt til þess fallið að styðja Íslendinga í baráttu þeirra fyrir 12 mílna fiskveiðilandhelgi og réttindum til að gera friðunarráðstafanir lengra út frá landi.

Afstaða Lúðvíks Jósefssonar í umræddu máli er þess vegna ekkert annað en venjuleg Rússaþjónkun, sem kemur ekki neitt óvænt úr þeirri átt. Og svo slæm sem frammistaða hans var, þá var þó hlutur Hermanns Jónassonar hálfu verri, því að um hann var a.m.k. ekki áður vitað, að hann væri sérlegur skósveinn Rússa eins og félagi hans og bandamaður. Sú skýring Hermanns Jónassonar, að hann teldi, að flutningur brtt. væri „taktísk skyssa“, þótti líka hin vandræðalegasta, og hér í sölum hv. Alþingis treysti formaður þingflokks Framsóknar sér ekki til að bera í bætifláka fyrir flokksformanninn, fyrst eftir að fréttin barst um það, að hann hefði klofið sendinefndina með fulltrúa kommúnista. Framkoma þeirra félaga í sambandi við þetta mál verður naumast útskýrð nema með því, að þeir eygðu þann möguleika, að brtt. Íslands yrði samþ., og þá hefði verið unninn stórsigur í landhelgismálinu undir forustu pólitískra andstæðinga þeirra. Þess vegna lögðust þeir gegn því, að brtt. yrði flutt, með venjulegri heift þeirrar stjórnarandstöðu, sem þessir menn hafa tamið sér. Það er sem sé viðtekin regla stjórnarandstöðunnar hér á landi, gagnstætt því, sem tíðkast í öðrum lýðfrjálsum löndum, að vera í einu og öllu á móti stjórninni, og er þá hvorki skeytt um fyrri afstöðu stjórnarandstæðinga til mála né þjóðarhags, heldur er allt miðað við þrengstu flokkshagsmuni, sem oft eru ímyndaðir, eins og í umræddu dæmi frá Genf, því að áreiðanlegt er, að hvorugur hv. þm. hefur vaxið í áliti meðal þjóðarinnar vegna þessa tiltækis.

Hinum hefðbundnu vinnubrögðum íslenzkrar stjórnarandstöðu lýsti hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson, á þessa leið við 1. umr. fjárl. fyrir árið 1958, með leyfi hæstv. forseta:

„Það hefur komið í ljós í umræðunum, eins og reyndar áður, að sjálfstæðismenn hafa ekkert til landsmálanna að leggja annað en pólitísk yfirboð og neikvæðan áróður. Það vottar ekki fyrir því, að þeir hafi nokkrar till. fram að færa til úrlausnar í framleiðslu- og efnahagsmálum. Það bólar ekki á því, eins og nærri má geta, að þeir geri hina minnstu tilraun til að sýna fram á, hvaða ávinningur gæti verið af því yfir höfuð, að þeim yrðu veitt meiri áhrif en þeir hafa nú. Mun mönnum yfirleitt og það einnig mörgum, sem fylgt hafa sjálfstæðismönnum að málum, blöskra fullkomlega framkoma þeirra í stjórnarandstöðunni og hafa orðið fyrir stórfelldum vonbrigðum í því sambandi.

Það verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir geri sér ljóst, að það er ábyrgðarstarf að vera í stjórnarandstöðu. Stjórnarandstöðunni ber skylda til að segja, hvað hún vill, ef hún ekki fellst á það, sem ríkisstj. og flokkar hennar aðhafast. Geri stjórnarandstaðan það ekki, þá svíkst hún um að gera skyldu sína.“

Þannig var dómur hv. 1. þm. Austf. um stjórnarandstöðuna, þegar hann var ráðh. Nú er taflinu snúið við. Nú er hann sjálfur og flokkur hans kominn í stjórnarandstöðu, og mætti þá ætla, að hann gerði sér far um að breyta samkvæmt þeim boðorðum, sem hann áður kenndi stjórnarandstöðunni alveg réttilega. En hvað skeður? Framsfl. beitir nú nákvæmlega sömu vinnubrögðum í stjórnarandstöðu sinni undir forustu hv. 1. þm. Austf. sem sá hinn sami maður fordæmdi í tilvitnuðum ummælum, og verður ekki á milli séð, hverjir hafa betur í kapphlaupinu um ábyrgðarlausa stjórnarandstöðu, framsóknarmenn eða kommúnistar, enda hafa þeir náið samstarf sín á milli. Vinnubrögð stjórnarandstöðunnar, sem ég hef leitazt við að lýsa lauslega, verða fyrst og fremst til þess, að málefnaleg barátta stjórnarandstæðinga missir marks, og er það út af fyrir sig ekki að lasta.

Þannig er það upplýst, að vorið 1958 lögðu framsóknarmenn fram í vinstri stjórninni till., þar sem viðurkenndir voru stærstu gallar uppbótakerfisins, svo sem erfið samkeppnisaðstaða iðnaðarins og erfiðleikar á því að auka eða efla aðrar atvinnugreinar en þær, sem hæstar fengu uppbæturnar. Einnig var þar viðurkennd af Framsókn sú hætta, sem fólgin var í því að afla efnahagskerfinu tekna með háum aðflutningsgjöldum á óþarfavörur og láta þær ganga fyrir á undan nauðsynjavörum í innflutningnum. Játað var, að þetta fyrirkomulag bæri í sér þá hættu, að framleiðslan minnkaði stórlega og að þjóðartekjurnar og þar með lífskjör almennings yrðu mun rýrari en verið gæti og mundu halda áfram að rýrna.

Í framhaldi af þessari lýsingu á ókostum uppbótakerfisins lagði svo Framsókn til, að það yrði lagt niður, en í stað þess yrði lögleitt almennt yfirfærslugjald á keyptan og seldan gjaldeyri, þ.e.a.s. að gengi krónunnar yrði fellt. Jafnframt átti að hækka aðflutningsgjöld og nota fé það, sem þannig fengist, í niðurgreiðslur. Launþegar og bændur skyldu fengnir til þess að falla að einhverju leyti frá því að taka kaupgjalds- og afurðahækkun samkvæmt framfærsluvísitölu, til þess að unnt yrði að forðast óheppilega víxlverkun til hækkunar á kaupgjaldi og afurðaverði, sem hvorugum aðila mundi að gagni koma. Enn fremur skyldi að því stefnt að koma á nýjum grundvelli að kaupgjaldsvísitölu, sem að verulegu leyti væri miðuð við aukningu þjóðarteknanna eða þjóðarframleiðslunnar, eins og það var orðað.

Svo sem kunnugt er, tókst Framsókn ekki að koma á neinu samkomulagi í vinstri stjórninni um þessi mál vegna óraunhæfrar afstöðu Alþb., og svo fór, að þáv. forsrh., Hermann Jónasson, gerði deiluna um efnahagsmálin að fráfararatriði vinstri stj. og gaf um leið hina frægu lýsingu sína á því, að í efnahagsmálunum værum við staddir á heljarbrún og ættum ekki annað eftir en að kollsteypast fram af hengifluginu. Það var hans lýsing þá á neyðarástandinu, sem hann sagði í kvöld að hefði aldrei verið til, og allir hljóta að sjá, sem muna eftir boðskap Hermanns Jónassonar til þingsins, þegar hann kvaddi sem forsrh. vinstri stj., að hann er aðalhöfundur þeirrar sögu, sem hann segir nú að sé tilbúningur.

S.l. ár tók svo Alþfl. að sér að halda þjóðarskútunni í horfinu og verja hana áföllum, og þótti sumum þar vera í mikið ráðizt af minnsta flokknum. En þetta tókst með þeim ágætum, að flokkurinn hlaut glæsilegan sigur í kosningunum á s.l. ári. Kom Alþfl. m.a. á víðtækara samstarfi í efnahagsmálum á milli flokka, sem stóðu þó ekki saman um ríkisstj., en dæmi eru til um áður. Og um lausn kjördæmamálsins náðist einnig samkomulag. En hvort tveggja var nauðsynlegur undanfari þess, að hægt yrði að hefjast handa um frambúðarlausn þeirra höfuðvandamála efnahagslífsins, sem Framsókn gerði að fráfararatriði vinstri stjórnarinnar haustið 1958.

Viðreisnarstarfið hefur komið í hlut núv. stjórnarflokka, og getur engum dulizt, sem með málum hefur fylgzt, að í mjög veigamiklum atriðum eru nú farnar þær leiðir, sem Framsókn lagði til vorið 1958 að farnar yrðu, samkvæmt því, sem ég rakti áðan. Og þegar andstaða framsóknarmanna og linnulaus barátta þeirra gegn stefnu núv. stjórnar er skoðuð þannig í réttu samhengi við fortíð flokksins, þá er auðsætt, hvernig þeir leika tveim skjöldum eftir því, hvort flokksforingjarnir eiga sæti í ráðherrastólunum eða ekki. Er hægt að taka mikið mark á slíkri stjórnarandstöðu? Ég held ekki, og ég er sannfærður um það, hlustendur góðir, að ef Framsfl. kæmist fljótlega í stjórn á ný, þá mundi hann í höfuðatriðum fara sömu leiðir í efnahagsmálunum og núv. stjórn. Þannig segir flokkurinn alls ekki rétt til um það, hvað hann vill, heldur ber hann eingöngu á borð pólitísk yfirboð og neikvæðan áróður, og það er ekki til þess fallið að sannfæra fólk um, hvaða ávinningur gæti verið að því að láta flokkinn komast á ný til valda í stjórn landsins. Fer varla hjá því, að þessi framkoma valdi mörgum fylgjendum framsóknarmanna stórfelldum vonbrigðum, því að það verður að gera þá kröfu til þeirra, að þeir geri sér ljóst, að það er ábyrgðarstarf að vera í stjórnarandstöðu, svo að notuð séu orð hv. 1. þm. Austf., sem áður var vitnað til.

Flest af því, sem ég nú hef sagt um Framsfl. og vinnubrögð hans í stjórnarandstöðunni, getur einnig átt við um Alþb. Till. þess í vinstri stjórninni vorið 1958 fólu það m.a. í sér, að lánveitingar yrðu minnkaðar til fjárfestingar, útlán Seðlabankans yrðu aðeins aukin í samræmi við auknar útflutningsbirgðir af seljanlegri vöru, gjaldeyrissala yrði ekki aukin, nema gjaldeyristekjur færu vaxandi. Gjaldeyrissala til fjárfestingar yrði 20% lægri en árið 1957. Dregið skyldi úr gjaldeyrissölu til véla- og tækjakaupa og fjárfestingarleyfi minnkuð um 20–30%. Og loks lagði Alþb. til, að útgjöld ríkissjóðs til framkvæmda skyldu lækkuð um 20 millj. kr. og þannig dregið úr fjárfestingu af hálfu ríkisins. Þó að þessar till. Alþb. séu frábrugðnar till. Framsóknar, sýna þær samt mætavel, að flokkurinn sá hætturnar, sem fólust í ástandi efnahagsmálanna, þó að hann legði eftir sem áður til, að gjaldeyrissala til hátollavöru yrði aukin um 10%, miðað við árið 1957.

Þessar till. Alþb. voru að vísu stórgallaðar, en miðuðu þó að því að leysa mikið vandamál, sem Alþb. þar með viðurkenndi að væri fyrir hendi. En sú viðurkenning hefur horfið eins og dögg fyrir sólu, eftir að flokkurinn komst í stjórnarandstöðu, og nú ganga allar kröfur Alþb. í þveröfuga átt við fyrri till. þess. Stjórnarandstaðan berst þannig við sína eigin fortíð með ýmsu móti, eins og sýnt hefur verið fram á, og miðar allt við það að torvelda viðreisnarstarf stjórnarinnar sem allra mest, með það eitt fyrir augum að greiða götu forsprakkanna á ný upp í ráðherrastólana. Framsókn og Alþb. reyna að magna óánægju manna með efnahagsaðgerðirnar til þess að koma af stað nýrri öldu kauphækkana og þar af leiðandi verðhækkana, en það telja þeir vera leiðina til þess að brjóta niður efnahagsráðstafanir ríkisstj. og til þess að koma stjórninni frá. Þessa baráttuaðferð fordæmdi forseti Alþýðusambands Íslands á sínum tíma, en þá var það ekki flokkur hans sjálfs, sem átti í hlut, heldur andstöðuflokkar þeirrar ríkisstj., sem hann átti þá sæti í.

Hv. 4. landsk. þm. taldi víst, með leyfi hæstv. forseta, „að fylgjendur Sjálfstæðisflokksins muni snúa sér með fyrirlitningu frá verðþenslustefnu hans og kenna þannig flokksforustunni betri siði í þeim efnum, eins og verkfallsbrölt hans (þ.e. Sjálfstæðisflokksins) fékk skjótan endi vegna fordæmingar fólksins sjálfs.“

Þannig talaði hv. forseti Alþýðusambands Íslands 1957, og í sömu ræðu, þ.e. við 1. umr. fjári. fyrir 1958, skýrir hann frá því, að þekktur hagfræðingur hafi þá um haustið komizt að þeirri niðurstöðu, að kaupmáttur launa væri hinn sami í byrjun september og verið hafði haustið áður og um vorið, þegar þessi atriði voru seinast athuguð.

Síðan sagði hv. 4. landsk., Hannibal Valdimarsson, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta: „Berum þetta nú saman við reynslu okkar frá þeim árum, þegar skiptust á kauphækkanir, fengnar með fórnfrekum verkföllum, og sífelldar verðhækkanir rétt á eftir hverri kauphækkun. Hver reyndist þá jafnan niðurstaða þessarar hagfræðiathugunar um kaupmátt vinnulauna, sem gerð var þá með sama hætti og nú og af sama manni? Eins og margir muna, varð niðurstaðan þá sífellt rýrnandi kaupmáttur launa, nema skamman tíma rétt eftir hverja vinnudeilu. Ef ég man rétt, nam rýrnun kaupmáttarins ca. 20 stigum á árunum 1947 fram til verkfallsins vorið 1955.“

Þetta sagði forseti Alþýðusambandsins. Og enn fremur sagði hann:

„Það var ekki sízt vegna þessarar bitru reynslu af vaxandi dýrtíð og verðbólgu, sem verkalýðshreyfingin varð að yfirgnæfandi meiri hluta sammála um, að hagsmunum vinnandi fólks væri betur borgið með stöðvun verðbólgu og dýrtíðar en með því að búa við sífelld víxláhrif kauphækkana og verðhækkana til skiptis. Og ég verð að segja það, að mér er ekki kunnugt um, að verkalýður landsins hafi skipt um skoðun í þessu efni.“

Lýkur þar tilvitnun í ræðu hv. 4. landsk, þm., Hannibals Valdimarssonar, og við orð hans hef ég engu að bæta öðru en því, að þau eru að efni til jafnsönn nú og þau voru haustið 1957, þótt höfundur þeirra sé ekki lengur ráðherra.

Núv. ríkisstj. og stuðningsflokkar hennar hafa gert þjóðinni grein fyrir nauðsyn þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið. Og meðan dómgreind stjórnarandstöðuflokkanna var átrufluð, viðurkenndu þeir einnig þessa nauðsyn, eins og ég hef sýnt fram á. Ríkisstj. hefur ekki heldur farið dult með það, að aðgerðir hennar hafa nokkra kjaraskerðingu í för með sér í bili, þótt reynt hafi verið, m.a. með auknum almannatryggingum, afnámi tekjuskatts á almennar launatekjur, niðurgreiðslum á nauðsynjum og 56 millj. kr. framlagi til sveitarsjóða, að létta byrðarnar, sem þjóðin í heild verður að taka á sig um skeið, og dreifa þeim sem jafnast. En þær álögur, sem reynzt hafa óhjákvæmilegar, eru ekki lagðar á í því skyni að koma af stað nýrri verðbólguskriðu, heldur til þess að greiða þær skuldir liðinna ára, sem óhjákvæmilega verður að greiða til þess að koma á jafnvægi í þjóðarbúskapnum. Og þegar búið er að ná því markmiði, hefur skapazt grundvöllur til að koma á raunhæfum kjarabótum, þ.e.a.s. kjarabótum, sem byggjast á aukinni fjölbreytni í framleiðslu, aukinni framleiðslu og aukningu þjóðarteknanna, en það eru einu raunhæfu kjarabæturnar, eins og ég veit, hlustendur góðir, að þið hafið einhvern tíma heyrt talsmenn allra flokka boða ykkur, þegar þeir hafa látið skynsemina ráða, en ekki gengið berserksgang til þess að komast í ráðherrastóla.

Þetta er kjarni málsins, og það væri mikið ólán, ef launþegar gleymdu nú hinni bitru reynslu sinni af vaxandi dýrtíð og verðbólgu, einmitt þegar búið er að koma á því skipulagi, sem á að hindra hin óheillavænlegu víxláhrif kauphækkana og verðhækkana, sem leiða ekki til annarrar niðurstöðu en sífellt rýrnandi launa eftir .fórnfrekar vinnudeilur. Mín skoðun er sú, að Alþfl. eigi að beita sér gegn afturhvarfi til þeirrar óheillastefnu. Hins vegar tel ég, að flokkurinn eigi að taka jákvæðan þátt í uppbyggingu atvinnuveganna um land allt og stuðla að atvinnuöryggi og aukinni framleiðslu, eins og hann hefur gert frá fyrstu tíð og ekki sízt hin síðustu ár. Jafnframt á flokkurinn, hvort sem hann er þátttakandi í ríkisstj. eða ekki, stöðugt að beita sér fyrir því, að allir launþegar fái réttmæta hlutdeild í þjóðartekjunum og í aukningu þjóðarteknanna, án þess að til þurfi fórnfrek verkföll, sem stórskaða þjóðarbúið í heild og einstaka starfshópa. Í þessu efni getum við sótt ágætar fyrirmyndir til bræðraflokka okkar á Norðurlöndum, þar sem verkalýðshreyfingin er sterkari en víðast hvar annars staðar og hefur tryggt launþegum eðlilega hlutdeild í þjóðarframleiðslunni og aukningu hennar, án þess að allt þjóðfélagið þurfi að fara úr skorðum af þeim sökum.

Tími minn er nú á þrotum. Ég þakka þeim, sem hlýtt hafa. — Góða nótt.