28.11.1959
Efri deild: 4. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 3442 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir ofl.

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fsp. svipuð þessari var lögð fyrir mig í hv. Nd. í gær, og svaraði ég henni þá. Það sama mál vorum við að ræða í Nd. í dag, og hv. þm., sem nú var að ljúka máli sínu, spyr á svipaðan hátt. Hann spyr m.ö.o. um það: Ætlar núv. ríkisstj. að fara að lögum? Mér finnst nú, að svona spurningar séu nokkuð út í hött, og mætti segja, að ef fyrirspyrjandinn væri ekki í sérstaklega órólegu skapi vegna þeirrar þingfrestunar, sem nú er fyrir dyrum, væri þetta móðgandi spurning. Núv. ríkisstj. mun að þessu leyti fara að lögum, eins og í öllum öðrum málum, og ég held, að þetta svar ætti alveg að nægja.

Hv. 1. þm. Norðurl. v. (SkG) var að rifja upp yfirlýsingar, sem Sjálfstfl. hafði gert í haust í sambandi við brbl. Ég minnti hann á það áðan, og ég vil einnig minna þennan hv. þm. á, að það er óþarfi að minna okkur sjálfstæðismenn á það, hvað við höfum sagt um þessi mál, — alger óþarfi. Og ég hygg, að bændur geri sér ljóst, að þeim er það nægileg trygging, hvað sjálfstæðismenn hafa um þessi mál sagt, og ég verð að segja það hér, eins og ég sagði í hv. Nd. áðan, að mér er það mikið ánægjuefni, hversu hv. framsóknarmenn eru nú orðnir áhugasamir um hagsmuni bændastéttarinnar, vegna þess að það liggur fyrir, staðreyndirnar tala, að á meðan framsóknarmenn höfðu völd og réðu þessum málum í vinstri stjórninni, þá gleymdu þeir að tryggja hagsmuni bænda. Það var þá, sem tekin var upp algerlega ný regla, að mismuna þjóðfélagsstéttum. Það var þá, sem lagður var skattur á allar rekstrarvörur atvinnuveganna, en bændunum einum gert ómögulegt að fá þessa skatta bætta. Núv. ríkisstj. mun hafa það hugfast að gera ekki upp á milli þjóðfélagsstéttanna, heldur gera sér ljósa grein fyrir þörf hverrar stéttar.

Ég hygg, að hv. fyrirspyrjanda ætti að vera nóg sú yfirlýsing, að það mun verða farið að lögum í sambandi við brbl. eins og önnur mál.