12.02.1960
Neðri deild: 29. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (2018)

48. mál, efnahagsmál

Halldór Ásgrímsson:

Herra forseti. Á árum heimsstyrjaldarinnar síðari varð til kaldhæðnislegt orðtak: blessað stríðið. Það mun fyrst hafa verið mælt af munni einfeldnings, en eins og talað út úr hjörtum margra þeirra, sem glöddust yfir þeim miklu fjárfúlgum, sem ýmsum bárust þá í hendur, einkum þeim, sem fengust við margs konar fésýslu. Á sama tíma varð til annað orðtak, sem fyrst og fremst má rekja til forustumanna Sjálfstfl., en það er: blessuð verðbólgan.

Í kjölfar peningaflóðs stríðsáranna fylgdi strax verðbólga. Margir ábyrgir og hugsandi menn hræddust hana frá upphafi og vildu sem fyrst stemma þar á að ósí. Forustumenn Sjálfstfl. vildu ekki á það hlusta. Þeir töldu verðbólguna góða, a.m.k. að vissu marki. Þeir sögðu hana góðan liðsmann jafnaðarmennskunnar, þannig að hún dreifði stríðsgróðanum út á meðal fólksins. Þetta sjónarmið réð viðhorfum og viðbrögðum Sjálfstfl. á þeim árum, og í samræmi við það fékk verðbólgan að þróast óáreitt.

Í umræðum um þetta mál urðu þó sjálfstæðismenn að viðurkenna að nokkru falsrök sín um ágæti verðbólgunnar. En lengra náði þó ekki viðurkenningin en svo, að ef verðbólgan kæmist á hættulegt stig, þá væri létt og vandalaust að ráða niðurlögum hennar. Formaður Sjálfstfl., núv. hæstv, forsrh., sagðist treysta sér til þess með einu pennastriki. Það er því alveg víst, að Sjálfstfl. ber flokka mest ábyrgð á því, hve efnahagsmál þjóðarinnar eru geigvænleg nú að þeirra sögn, því að sá veldur miklu, sem upphafinu veldur.

Forustumenn þessa flokks vildu ekki láta sér segjast, meðan tími og tækifæri var til, og höfðu að leiðarljósi gróðasjónarmið fjáraflamannanna. Það var því rökrétt afleiðing þessa viðhorfs, að í stjórnartíð formanns Sjálfstfl. á stríðsárunum óx verðbólgan eitt sinn á fáum mánuðum um nálægt 90 stíg.

Það má því segja, að verðbólgupúkinn hafi einlægt átt hauk í horni, þar sem Sjálfstfl. er. Púkinn hefur ætíð setíð á fjósbitanum hjá þeim og þrifizt vel, og fjósamaðurinn, formaður Sjálfstfl., núv. hæstv. forsrh., virðist ekki hafa haft mikinn áhuga á að rýra velgengni hans. Hvað sem um þetta er frekar að segja, þá tel ég það sögulega staðreynd, að enginn stjórnmálaflokkanna sé eins nátengdur verðbólguskrúfunni fyrr og síðan og Sjálfstfl. Og síðasta átakanlega dæmið þar um er framkoma flokksins og viðbrögð gagnvart efnahagsráðstöfunum vinstri stjórnarinnar, sem þeir beittu sér frá upphafi gegn með leyfilegum og óheimilum meðulum, m.a. með því að hleypa af stað kauphækkunum, sem þeir svo tóku aftur frá verkamönnum, þegar þeir náðu völdum og mynduðu hina frægu leppstjórn sína.

Viðhorf Sjálfstfl. virðist mótast af skefjalítilli valdagræðgi og blindri andstöðu gegn þeirri stefnu vinstri stj. að hamla upp á móti frekari áhrifum dýrtíðarinnar og stöðva hana, reisa varnargarð gegn henni með alhliða uppbyggingu atvinnulífsins og þá ekki sízt í hinum dreifðu byggðum við sjó og í sveit, auka atvinnuöryggið og láta fjármagnið þjóna fólkinu til hagsældar fyrir það.

Sjálfstfl. var ljóst, að þótt sigur hans með falli vinstri stj. væri mikill, þá varð að treysta hann með aukinni sundrung vinstra sinnaðs fólks og tryggja sér sem bezt áfram þau öfl svokallaðra verkalýðsflokka, sem þeir höfðu notið að í úrslitaorustunni við vinstri stjórnina. Að dómi Sjálfstfl. varð strax að ganga á milli bols og höfuðs á öllum hugsanlegum möguleikum þess, að vinstri flokkarnir gætu aftur fljótlega skipað sér saman reynslunni ríkari en áður. Byrjunarskrefið var að mynda stjórn Alþýðuflokksmanna og gera Alþfl. þannig háðan sér fyrir ófyrirsjáanlega framtíð og síðan án tafar að bjóða verkalýðsflokkunum svokölluðu upp á samning um kjördæmamálið, og með því var stofnað til tveggja illvígra kosninga. Í öll þessi hjaðningavíg gekk svo dýrmætur tími, eða í allt tæpt ár, — tími, sem stjórnarflokkunum bar að nota til að reyna að ná bjarglegu samkomulagi um efnahagsmálin við hina flokkana. Þess í stað hélt Sjálfstfl. öllu á floti á fölskum forsendum. Þeir eyddu upp stórum sjóðum ríkissjóðs, söfnuðu miklum skuldum á vegum útflutningssjóðs, og þeir drógu stórlega úr öllum verklegum framkvæmdum frá því, sem var í tíð vinstri stjórnarinnar. Þeir hindruðu nauðsynlegan innflutning rekstrar- og framkvæmdavara, en juku innflutning hátollaðs óþarfavarnings og eyddu til þess dýrmætum gjaldeyri.

Allan tímann fram yfir síðari kosningar var svo þáv. Stjórn látin segja, að allt væri fjárhagslega í lagi og verðbólgan stöðvuð. Þessar blekkingar áttu að draga atkvæði að stjórnarflokkunum og munu eitthvað hafa gert það. En nú hefur ríkisstj. snúið við blaðinu. Nú hefur hún hafið áróður fyrir, að allt sé um koll að keyra, og hæstv. forsrh. lét í vetur hafa það eftir sér, að ný fjáröflunarþörf ríkissjóðs og útflutningssjóðs, ef haldið væri áfram eftir sömu leiðum og farnar hafa verið, næmi um 250 millj. kr. Ekki var sú fregn góð. En hvað var það á móti því, sem koma skal, þótt ekki sé tekið tillit til annarra aðgerða í efnahagsfrv. en þeirra, sem snerta beinar álögur.

Hinn 20. nóv. s.l. var svo Alþingi kvatt saman, ekki til að heyra skýrslu um fjárhag ríkissjóðs eða efnahagsástæðurnar, eins og þær voru þá, og því síður til þess að fá að heyra till. um væntanlegar efnahagsráðstáfanir og ræða þær. Nei, aðeins til þess að uppfylla lagaform um samkomudag Alþingis, svo að hægt væri að reka þingið aftur strax heim. Svo ætlaði stjórnin að leggjast fyrir og hugsa, því að nú ætlaði Sjálfstfl. að grípa til pennastriksins sællar minningar, og stjórnarstuðningsliðið mátti ekki einu sinni koma þar nærrí, því að það gat truflað. Þeirra þáttur átti aðeins síðar að vera já og amen. Þetta er nú lýðræðið eftir lýðræðislegustu kosningar, sem farið hafa fram hér á landi að sögn stjórnarflokkanna. Hlutverk hinna óbreyttu þm. stjórnarliðsins átti ekki að vera annað en það að hlýða, hinna að skipa fyrir. Aðeins sterkasta forustulið úr innsta hring fékk að fylgjast með, og svo voru tilkvaddir hjálparkokkar, eftir því sem sagt er, færustu hagfræðingar, vafalaust ágætir menn út af fyrir sig. En þeim var stillt upp fyrir spurningum, hvaða ráð væru við þessum og hinum vandanum, þegar leysa átti hann eftir fyrir fram ákveðnum sjónarmiðum. Og hagfræðingarnir slógu upp í sinum fræðidoðröntum og fundu svör, eins og þegar heittrúarmaður slær upp í Biblíunni, Gamla testamentinu, og fær þar að hans dómi fullnægjandi svör við víssum eilífðarspursmálum. Og svörunum fylgdi kannske það, að svona hefði líkur vandi verið leystur í Þýzkalandi eða Frakklandi eða jafnvel, sem bezt var að einhverju leyti, í Bandaríkjunum. Þar hefði þetta reynzt dável eða kannske ágætlega.

Það bendir margt til þess, að hin furðulega samsuða þessa frv. sé á þennan hátt meira eða minna barin saman eftir erlendum fyrirmyndum, án þess að nægilega sé þess gætt, hvað fært er og við á hér hjá okkur. Svo eru till. auðvitað kryddaðar einræðislegu sjónarmiði skefjalauss kapítalisma.

Ég sé ekki ástæðu til þess að lengja mál mitt með því að fara að ræða efnahagsfrv. yfirleitt í einstökum atriðum. Það hefur t.d. mjög skilmerkilega og rökvíslega verið gert af 1. þm. Norðurl. v. En ég vil gera í þessu eina undantekningu og víkja nokkuð að 33. gr. frv.

Í 33. gr. er gert ráð fyrir, að vald það, sem Seðlabankinn hefur nú til að ákveða út- og innlánsvexti banka og sparisjóða, skuli framvegis einnig ná til innlánsdeilda kaupfélaganna. Raunhæft er hér aðeins um að ræða íhlutun um innlánsvexti innlánsdeildanna, því að þær reka ekki neina útlánastarfsemi. Um innlánsvexti í kaupfélögunum segir svo í samvinnulögunum, með leyfi hæstv. forseta: „Vextir af inneignum félagsmanna, hvort heldur í stofnsjóði eða innlánsdeild ellegar viðskiptareikningi, skulu eigi vera hærri en 11/2 % ofan við innlánsvexti í bönkum.“ Virðist samkv. þessum lögum tilætlunin, að heimilt sé að láta innstæðueigendur sjálfa njóta nokkurs hluta af því hagræði, sem félagsstarfsemin hefur af innstæðum þessum, samanborið við að greiða bönkum útlánsvexti af sömu upphæð. Örfá kaupfélög munu hafa notað sér þessa heimild að vissu marki, en flest munu hafa fylgt inniánsvöxtum bankanna. Þessi fyrirhugaða breyting á heimild til vaxtagreiðslu af innlögum í innlánsdeild virðist ástæðulaus og að mínum dómi óeðlileg. Eftir stendur svo, að heimilt er að greiða hærri vexti af innstæðum í stofnsjóði og í viðskiptareikningi, hærri en í innlánsdeild, og virðist augljóst, að slíkt er samræmislaust og verður ekki skilið af þeim, sem vilja líta raunhæfum augum á málið.

Þá er í sömu gr. þessa frv. gert ráð fyrir þeirri breytingu á samvinnul. hvað varðar ákvæði um innlánsdeildir kaupfélaganna, að hér eftir skulu innlánsdeildirnar eiga bundnar innstæður í Seðlabankanum á sama hátt og bankar og sparisjóðir. Mun til þess ætlazt, að þessum ákvæðum verði þegar beitt og það verði á valdi ríkisstjórnar og Seðlabanka, hve hin bundna innstæða skuli á hverjum tíma vera há. Í samvinnul. er þetta ákvæði um innlánsdeildir kaupfélaganna, með leyfi hæstv. forseta: „Samvinnufélögin hafa helmild til að stofna og starfrækja innlánsdeildir, er taka við innlögum frá félagsmönnum til ávöxtunar sem rekstrarfé:

Í grg. þessa frv. er sagt, að réttlátt og eðlilegt þyki, að ákvæðið um, að Seðlabankinn hafi vald til að binda hluta af sparifjárinnlögum banka og sparisjóða, nái einnig til innlánsdeilda kaupfélaganna. Hér er af furðulegri vangá eða öðru verra tvennu ólíku blandað saman.

Eðli og markmið með sparifjárinnlögum í banka og sparisjóði annars vegar og innlögum í innlánsdeildir kaupfélaganna hins vegar er í mörgum veigamiklum atriðum tvennt ólíkt. Sameiginlegt er, að sparifjáreigendur afhenda reiðufé sitt til þeirrar innlánsstofnunar, sem þeir hafa gott traust til og greiðir þeim eftir settum reglum hæstu fáanlega innlánsvexti. En þá skilur leiðir. Innstæðueigendur hjá banka og sparisjóði hafa ekki frekari hagsmuna að gæta og engan íhlutunarrétt eða áhrif um, hvernig þessi stofnun notar það fé, meðan það er í hennar vörzlu. Vilji sparifjáreiganda þar kemur ekki til greina, heldur það eitt, hvernig hlutaðeigandi lánsstofnun getur á sem öruggastan hátt og arðvænlegastan fyrir sig ávaxtað fé, um leið og hún náttúrlega reynir að beina fénu inn á þær brautir, sem hún telur farsælar og eðlilegar frá hennar sjónarmiði. Markmiðið með innlögum í innlánsdeild kaupfélaganna er samkv. ákvæðum samvinnulaganna aðeins eitt. Það er að ávaxta sparifé félagsmanna á þann hátt að nota það sem rekstrarfé og þar með í þágu sameiginlegrar starfsemi hlutaðeigandi félagssamtaka. Þetta er eina markmiðið með innstæðufé í innlánsdeild, og er kaupfélaginu óheimilt að hafa það til útlána til Péturs og Páls á sama hátt og bönkum og sparisjóðum. Samvinnumaðurinn, sem leggur sparifé sitt inn í innlánsdeild síns kaupfélags, veit fyrir fram, til hvers féð verður notað. Hann veit, að hann fær eins háa vexti og fást í bönkum og sparisjóðum. Hann veit, að með því að geyma spariféð á þennan hátt gerir hann félagi sínu mögulegra en ella að fullnægja kröfum og þörfum félagsmanna í viðskiptalegu tilliti og gerir sitt til að bæta rekstraraðstæður þess, og hann veit, að á þann hátt stuðlar hann að því, að hann njóti betri kjara og fullkomnari þjónustu af hendi síns kaupfélags. Hann veit, að með þessu leggur hann sinn skerf fram til að efla og auka uppbygginguna á félagssvæði sínu, sem kemur honum og félögum hans til góða á þann hátt, sem þeir óska. Sparifjáreigandi, sem er samvinnumaður og hefur þetta sjónarmið, kýs að fá að ráða því sjálfur, hvað mikið hann leggur af sparifé sínu í innlánsdeild síns kaupfélags. Hann kýs að fá að gera það án þess, að óviðkomandi aðill gripi þar inn í á áviðurkvæmilegan hátt. Hann vill hafa frjálsan ákvörðunarrétt um ráðstöfun á fé sínu, eins og hann hefur haft fram að þessu, og hann vill einn fá að ráða því, hvenær hann tekur fé sitt út úr innlánsdeild.

Einstaklingum er heimilt að fara með handbært fé sitt eftir geðþótta. Þeir mega geyma það í handraðanum, eins og kallað er, þeir mega lána það kunningja sínum, nota það til atvinnurekstrar, hvort sem það er iðnaður, sjávarútvegur, landbúnaður eða verzlun, svo að eitthvað sé nefnt. Enginn maður hefur verið skyldaður til að geyma hluta af sparifé sinu eftir vissum reglum eða lagaákvæðum, þegar undan er skilinn skyldusparnaður ungs fólks.

Einstaklingurinn má geyma sparifé sitt á viðskiptareikningi hjá kaupfélagi eða kaupmanni. Kaupmaðurinn, heildsalinn og eigandi í hlutafélagi má óátalið hafa alla sína lausu fjármuni í rekstri sinna fyrirtækja. En félagar í samvinnufélögum eiga ekki eftir þetta að njóta sama réttar. Slíkt misrétti er óþolandi og óþekkt í lýðfrjálsu landi og ber vott um blygðunarlausan fjandskap við samvinnufélögin.

Innstæðufé félagsmanna í innlánsdeildum kaupfélaganna nemur samtals allhárri upphæð. Þetta fé þjónar einu og sama verkefni, eins og áður er sagt, þótt skammt hrökkvi, m.a. vegna sívaxandi verðfalls peninga, og þá ekki sízt eftir að hin stórkostlega verðrýrnun peninga verður yfir dunin, sem nú er í uppsiglingu samkv. þessu efnahagsfrv. stjórnarinnar. Kaupfélögin munu því yfirleitt standa nú enn fjær því markmiði en fyrir allmörgum árum, að sjóðir þeirra og vörzlufé geti í náinni framtíð fullnægt veltufjárþörfinni, en það er markmið, þótt fjarlægt sé. Í stað þess, að til mála geti komið, að hægt sé með valdboði að draga fé út úr rekstri kaupfélaganna, hafa þau bæði fyllstu þörf og rétt til að fá rekstrarlán hjá bönkum eins og önnur fyrirtæki, og því frekar sem starfsemi kaupfélaganna er fjölþættari og þýðingarmeiri fyrir einstaklinga og þjóðarheildina en sum önnur, sem góð eru þó talin. Segja má, að oft hafi verið þörf í þessu efni, en nú er nauðsyn.

Því er ekki að neita, að mörgum samvinnumanninum hefur stundum þótt bænheyrsla lánsstofnana misbrestasöm, þegar kaupfélögin hafa átt í hlut, jafnvel þótt ekki hafi verið um að ræða nema rekstrarlán til stutts tíma. Út í þetta skal ekki farið hér frekar, og ef útlán viðskiptabankanna eiga nú framvegis, m.a. fyrir tilstuðlan Seðlabankans, að beinast enn meira en áður inn á þjóðhagslega nauðsynlegar brautir, þá ætti ekki að vera ástæða til að kvíða því, að hlutur samvinnufélaganna verði áfram fyrir borð borinn í útlánastarfsemi bankanna.

Að mínum dómi er ákvæði þetta í 33. gr. frv., sem varðar innlánsdeildir kaupfélaganna, átakanlegt dæmi um þann anda, sem svífur yfir vötnunum í mörgum atriðum þessa frv. Þar er ráðgert — ég vil segja á ósvífinn hátt — að ráðast með lagaboði gegn því, að samvinnumenn fái að njóta sömu mannréttinda og aðrir landsmenn. Tilgangurinn er e.t.v. auðsær. Með þessu á að reyna að lama samvinnufélögin og það einmitt á þeim erfiða tíma, sem þetta frv. boðar að nú eigi að fara í hönd. Kaupfélögin, samtök fólksins, sem hefur stofnað þau og á þau, vilja núverandi ráðamenn ofsækja, þótt þeir viti, að samvinnufélögin hafa reynzt fólkinu ómetanleg stoð í sókn að bættum lífskjörum og treyst og aukið möguleika þess í atvinnuuppbyggingu byggðarlaganna víðs vegar um land. Og ef til vill felst í þessu að nokkru ástæðan fyrir viðhorfi ráðamanna í þessu efni. Það er fjármagnið undir geðþekkri stjórn íhaldsins, sem á nú að ná yfirhöndinni, en ekki samtök fólksins.

Þá er einræðisandi frv. ekki síður athyglisverður, og má nefna sem dæmi, að nú ætlar ríkisstj. að taka sér einræði um vaxtakjör og lánstíma í öllum stofnlánasjóðum ríkisins og þar með þverbrjóta allar reglur, sem í þessu efni hafa gilt frá upphafi, þ.e. að Alþingi eigi og geti eitt um þessi mál fjallað.

Það væri freistandi að minnast á eitthvað fleira, einhver fleiri atriði, t.d. þá aðferð, sem við á að hafa til að slíta vísitöluna úr tengslum við kaupgjaldið, og mun sýna sig, að slík vinnubrögð í jafnviðkvæmu máli kunna ekki góðri lukku að stýra.

Að bera fram svona efnahagsfrv. að meginefni til og anda, eru að mínum dómi hreinir glæfrar, án þess að hafa leitað víðtækari samstöðu og almennari um málið. Og það er ástæða til að ætla með tilliti til þessara vinnubragða, að þetta mál sé dauðadæmt. Og hvar stendur þá þjóðin á eftir, ef allt rennur strax út í sandinn eftir að gengi íslenzkrar krónu hefur verið fellt jafngífurlega og ráðgert er?

Heildarmynd af afleiðingum þessa frv., ef samþykkt verður, er að mínum dómi ófögur. Það boðar skerðingu almennra mannréttinda fyrir suma þegna þjóðfélagsins. Það boðar upphaf að löggjafar- og valdaafsali af hálfu Alþingis í hendur ríkisstjórnar. Það boðar yfirleitt stóraukið vald peningamanna og fjármagnsins í landinu. Það boðar samdrátt atvinnuveganna, minnkandi framleiðslu og flutning atvinnutækja yfir á hendur hinna fésterku. Það boðar afnám atvinnuþróunar siðari ára víðs vegar um land. Það boðar stöðvun á nýbýlamyndun og hættu á eyðingu óuppbyggðra jarða. Og það boðar yfirleitt algera stöðnun í vélvæðingu landbúnaðarins. Það boðar atvinnuleysi með því böli, sem því fylgir. Það boðar, að eignalitlir menn geta tæplega framvegis komið sér upp þaki yfir höfuðið, og um leið boðar það stóraukna hættu á, að fátækir menn missi nýbyggðar íbúðir sínar og þær, sem eru í smíðum. Og lengra og lengur mætti upp telja um hinn válega boðskap frv.

Í fáum orðum sagt: frv. boðar eyðingarstefnu, það er hin dauða hönd, sem fólkið óttast að muni leggjast yfir alla eðlilega, nauðsynlega og réttláta framþróun í landinu.