07.04.1960
Neðri deild: 65. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1969 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

111. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð, var svo um samið að hefja endurskoðun á skattakerfinu í heild með það fyrst og fremst fyrir augum að afnema tekjuskatt á almennar launatekjur. Endurskoðun skattalöggjafarinnar er þegar hafin, en ekki möguleiki nú á þessu þingi að taka til meðferðar heildarendurskoðun skattalaganna, til þess þarf miklu lengri tíma, en vonir standa til, að þeirri endurskoðun verði lokið það tímanlega, að frv. til nýrrar löggjafar um þau mál geti orðið lögð fyrir Alþingi í haust.

Það frv., sem hér er lagt fyrir, felur í sér þá meginbreytingu fyrst og fremst á skattalögunum að fella burt tekjuskatt á almennum launatekjum og gera aðrar þær breyt., sem standa í beinu sambandi við þetta. Við undirbúning málsins þótti sjálfsagt að miða skattfrelsi tekna að verulegu leyti við fjölskylduástæður, og var því ákveðið, að hjá einstaklingum skyldu skattfrjálsar tekjur vera 50 þús., hjá hjónum 70 þús. og síðan 10 þús. kr. til viðbótar fyrir hvert barn á framfæri. Af þeim tekjum, sem fram yfir þetta mark eru, greiðast svo fyrst 5% og síðan stighækkandi allt upp í 30%, þannig að hámarkið er nú 30% í staðinn fyrir 40%, eins og það er í gildandi lögum.

Aðrar breytingar, sem greinir í 2., 3. og 4. gr. þessa frv., leiðir beinlínis af þessari höfuðbreytingu. Það er aðallega þannig, að ýmis ákvæði, sem miðuð eru við persónufrádrátt í núgildandi lögum, breytast í samræmi við 1. gr. En auk þess er svo ákveðið, að niður falli það ákvæði, sem sett var á Alþ. í fyrra, að aukavinna, eftirvinna og næturvinna við útflutningsframleiðsluna skuli skattfrjáls. Um þetta segir í áliti undirbúningsnefndarinnar m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„Tilgangur þessa lagaákvæðis mun hafa verið sá að koma í veg fyrir, að menn af skattaástæðum yrðu ófúsir til þess að vinna slíka yfirvinnu. Þar sem nú er ákveðin stórfelld lækkun á tekjuskatti almennt, er eigi jafnmikil ástæða til þess og áður að veita nefnda undanþágu frá skattskyldu. Það hefur enn fremur komið í ljós, að mjög miklir örðugleikar eru á framkvæmd þessa lagaákvæðis. Oft er mjög erfitt að greina á milli venjulegrar dagvinnu og yfirvinnu, auk þess sem erfitt er að skilgreina, hvað séu bein störf við framleiðsluvöruna sjálfa, eins og í l. segir. Mörg fyrirtæki framleiða jöfnum höndum fyrir innlendan og erlendan markað, þannig að ókleift virðist að aðgreina, að hve miklu leyti yfirvinna, sem unnin er hjá slíkum fyrirtækjum, sé í þágu útflutnings eða framleiðslu fyrir innlendan markað. Má þar til nefna sláturhúsin sem dæmi. Af þessum ástæðum er lagt til, að a-liður 10. gr. verði felldur niður“ — en sá liður fjallaði um þetta efni.

Þetta mál hefur verið rætt svo ýtarlega hér á Alþ. í báðum d. í sambandi við ýmis önnur mál, að ég tel ekki ástæðu til að hafa þessa framsögu lengri, en legg til, að frv. sé vísað til 2. umr. og hv. fjhn.