30.03.1960
Neðri deild: 58. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í C-deild Alþingistíðinda. (2298)

98. mál, vatnasvæði Þverár og Markarfljóts

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem liggur hér fyrir og fjallar um vatnamál Rangæinga, flytjum við þrír þm. af Suðurlandi og er til breytinga á lögum um vatnasvæði frá 1932 og 1943. Frv. er flutt m.a. og aðallega að beiðni sýslunefndar Rangæinga.

Vatnamál í héraðinu hafa verið eitt af stórmálum þess um marga áratugi, og í þeim efnum hefur verið unnið gagnmerkt og þjóðnýtt starf af hálfu hins opinbera og Rangæinga sjálfra, og verður það starf seint fullþakkað. Hv. Alþ. hefur fyrr og síðar sýnt þessum málum skilning og stutt að framkvæmdum með því að veita rífleg fjárframlög hverju sinni og oftast nær sinnt þeim beiðnum, sem fyrir hafa legið bæði að heiman og eins frá vegamálastjóra, sem hefur haft yfirumsjón um framkvæmdir þessara mála. Viljum við Rangæingar mjög þakka, hversu vel og skilmerkilega hv. Alþ. hefur ævinlega tekið undir hverja málaleitun okkar í þessu efni, og árangurinn af því starfi, sem hér hefur verið unnið, hefur ekki látið á sér standa. Héraðinu hefur á stórum landsvæðum verið forðað frá gereyðingu, og þar sem áður voru beljandi ár og svartir sandar, blasa nú við sjónum fagrar og frjósamar gróðurlendur og vöxtur mikill hvarvetna í gróðri. Fjöldi ábýlisjarða, sem annars hefðu farið í auðn, er nú við lýði og í góðri byggð. Allt þetta verður seint fullmetið. Þarna hefur verið meiri háttar landvarnarstarf á ferðinni, en kostnaðurinn við framkvæmdir hefur að sjálfsögðu orðið mikill bæði af fyrirhleðslum, byggingu brúa, varnargarða og margvíslegri annarri mannvirkjagerð, og hefur ríkissjóður jafnan borið uppi mestan hluta þessa kostnaðar, fyrst og fremst að fullu kostnaðinn við að byggja fyrirhleðslur til að veita Markarfljóti, Álum, Affalli og Þverá í einn farveg, Markarfljót, enn fremur staðið undir kostnaði af nauðsynlegum endurbótum og lengingu varnargarða hjá Seljalandi til varnar landspjöllum þar. En að því er áhrærir aðrar framkvæmdir á vatnasvæðinu hefur sýslusjóði borið að greiða nokkurn hluta af kostnaði á móti ríkissjóði, þannig að varnargarða innan Háamúla í Fljótshlíð og sunnan Markarfljótsbrúar undir Eyjafjöllum hefur sýslusjóði verið gert að greiða að ¼ hluta á móti ríkissjóði, í annan stað ¼ hluta að því er varðar nauðsynlegar fyrirhleðslur og önnur mannvirki til varnar gegn yfirvofandi stórfelldum skemmdum á vatnasvæðinu annars staðar og síðan ¼ hluta á móti ríkissjóði af flóðgáttabyggingum, þar sem nauðsynlegt hefur verið að reisa þær.

Þó að vel og mikið hafi verið gert í þessum efnum á undanförnum áratugum, eru framkvæmdir engan veginn að lokum komnar. Það þarf jafnan og ævinlega að halda uppi nauðsynlegu viðhaldi allra hinna mörgu mannvirkja, til þess að ekki falli í sama far og áður var. En í sambandi við viðhald á þessum mannvirkjum öllum verður að geta þess, að að áliti heimamanna er nú svo komið, að viðhaldið muni hneigjast einvörðungu að því að halda uppi greiðum samgöngum á svæðinu, þannig að kostnaðurinn tilheyri í raun og veru samgöngumálum héraðsins. Það er af þeirri sök, sem þetta frv. er hér fram borið fyrst og fremst. Sú lækkun, sem þannig yrði á greiðsluhluta af hálfu héraðsins, er niður félli 1/8 hluti og ¼ um sumar tegundir aðgerða, mundi gera það að verkum, að sýslusjóður gæti snúið sér með fjármagn sitt að öðrum framkvæmdum, sem mjög er þörf, og þannig létti mjög fyrir honum. Hins vegar mundi þetta viðbótarframlag væntanlega ekki skipta ríkissjóð, svo að neinu verulegu nemi.

Sýslunefndin hefur á nokkrum undanförnum fundum sínum athugað þetta mál og hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að þessarar breytingar væri vegna sýslusjóðsins mikil þörf, enda skiljanlegt.

Það má kannske segja, að hér hafi ekki verið um að ræða neinar verulega þungar greiðslur af hálfu sýslusjóðs. En hins vegar er þess að geta, að viðhaldið í framtíðinni getur orðið mjög þungt og þyngist sennilega með hverju ári, sem líður, þannig að þetta gæti orðið óeðlilegur og óbærilegur baggi fyrir sýslusjóð.

Með hliðsjón af því, að við heimamenn teljum þetta til samgöngumála nú orðið einvörðungu, vildum við gjarnan fara þess á leit, að hv. Alþ. sæi sér fært að samþ. frv. Það yrði síður en svo á móti von okkar, að hv. Alþ. gerði það. Alþ., eins og sagði í upphafi, hefur jafnan stutt að þessum málum, og fjölmargir alþm. hafa komið á þessi svæði og orðið þá þess vísir, hversu mjög hefur verið að unnið þarna til bóta, og orðið því fúsari að fylgja málinu eftir hér á hv. Alþingi. Því er hægt að slá föstu, að alþm. hafa jafnan sýnt ótvíræðan velvilja og fyllsta skilning á málinu.

Ég held að öðru leyti, að grg. frv. sé það ljós, að hún nái nokkurn veginn að túlka það, sem hér er farið fram á, og geti ég því sparað mér frekari málalengingu. Ég vil leyfa mér að óska þess, að málinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og fjhn.