26.04.1960
Neðri deild: 71. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 241 í C-deild Alþingistíðinda. (2363)

123. mál, sala eyðijarðarinnar Hellnahóls í Rangárvallasýslu

Flm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Þetta litla frv., sem hér liggur fyrir, er flutt af mér og 2 þingmönnum öðrum úr Suðurlandskjördæmi og fer fram á það, að ríkisstj. verði veitt heimild til að selja eyðijörðina Hellnahól í Rangárvallasýslu. Þessi jörð er og hefur verið lengi í eigu ríkisins og er ein af svonefndum Holtshverfisjörðum, en hefur verið sérstök ábýlisjörð nú um margra ára eða áratuga skeið. Bóndi sá, sem óskar eftir að fá þessa jörð til kaups, hefur haft þessa eyðijörð til leigu um 26 ára skeið og hefur lengi haft hug á að fá hana keypta. Svo stendur á, að hagar og yfirleitt útjörð þessara beggja jarða liggur saman. Þarna hefur farið fram sameiginleg framræsla á landi, og að vissu leyti eru lönd beggja á nokkrum kafla innan sömu girðinga. Saman geta þessar jarðir orðið allnotalegt býli, en hvor um sig heldur smá í sniðum. Það eru sjálfsagt mörg dæmi um það, að jarðir í ríkiseign hafi verið seldar, þegar líkt hefur á staðið, og í þessu efni sýnast flest rök að því hníga, eins og komið er hag þessarar eyðijarðar, að hún fái nýtt yfirbragð með því að skipta um eigendur. En víst er um það, að bóndi sá, sem óskar að fá þessa eyðijörð keypta, er framúrskarandi dugandi bóndi og hefur komizt mjög langt í búskap og búsæld á sinni tiltölulega litlu jörð.

Mér þykir ekki ástæða til þess að rekja þetta litla mál öllu meir. Ég vænti þess, að hv. alþm. ljái þessu máli sitt lið, og að lokum óska ég eftir því, að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.