07.12.1959
Sameinað þing: 8. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í D-deild Alþingistíðinda. (2501)

22. mál, frestun á fundum Alþingis

Utanrrh. (Guðmundur Í. Guðmundsson):

Herra forseti, góðir hlustendur. Síðan Alþingi kom saman hinn 20. f.m., hafa staðið yfir svo til linnulaus fundahöld daga og nætur. Á dagskrá hafa verið tvö mál. frv. til laga um bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði og frv. til laga um framlengingu nokkurra tekjustofna ríkissjóðs. Bæði eru þessi mál gamlir kunningjar á Alþ.

Frv. um framlengingu nokkurra tekjustofna ríkissjóðs er þannig til komið, að vissir tekjustofnar gilda aðeins til eins árs í senn, og verður því að framlengja þá með nýjum lögum fyrir lok hvers árs, ef þeir eiga að gilda fyrir næsta ár. Þetta hefur verið gert um mörg undanfarin ár. Hefur það að jafnaði tekið einn eða tvo daga og ætíð verið gert nær umræðulaust. Frv. um bráðabirgðafjárgreiðslur er hins vegar borið fram vegna þess að sé ekki búið að afgreiða fjárlög fyrir byrjun árs, er óheimilt að greiða fé úr ríkissjóði. nema sérstök heimild sé til þess veitt. Það hefur komið fyrir ótal sinnum, að þurft hefur að leita þessarar heimildar. Hún hefur ætíð verið veitt og afgreidd á einum eða tveimur dögum. Að þessu sinni hafa verið teknir upp nýir siðir. Stjórnarandstaðan hefur að vísu verið því samþykk út af fyrir sig að framlengja tekjustofna ríkissjóðs og heimila bráðabirgðafjárgreiðslur úr ríkissjóði, en engu að síður hefur hún tekið upp málþóf á Alþ. í því skyni að tefja framgang frv. Þegar málin voru á dagskrá, var haldið uppi látlausum ræðuhöldum um allt milli himins og jarðar, og sjaldan tókst að taka málin á dagskrá, án þess að á undan væru gengnar langar umræður utan dagskrár. Þetta málþóf hefur m.a. leitt til þess, að ekki hefði verið unnt, þótt menn hefðu viljað, að taka fyrir önnur mál á þinginu en þessi tvö frv., þ. á m. ekki frv. stjórnarandstöðunnar sjálfrar. Munu þessi vinnubrögð vart eiga sér fordæmi í þingsögunni.

Tilefni þessara dæmalausu aðfara stjórnarandstöðunnar er næsta furðulegt. Núv. ríkisstj. var mynduð sama daginn og Alþ. kom saman. Henni hafði því ekkert tóm gefizt til að undirbúa mál fyrir þingið né kanna ástand og úrræði í efnahagsmálum svo til hlítar, að hún gæti lagt tillögur til úrlausnar þeirra fyrir Alþingi. Ríkisstj. taldi það því eðlilegt og skynsamleg vinnubrögð að gera hlé á störfum Alþingis í nokkrar vikur, til þess að henni gæfist tími og næði til að athuga þessi vandasömu mál og ganga frá tillögum sínum. Að óreyndu var ekki búizt við því, að stjórnarandstaðan beitti sér gegn svo sjálfsagðri málsmeðferð. Stjórnarandstaðan reyndist hins vegar á öðru máli. Hún vildi hvorki láta ríkisstj. fá tíma né næði til þess að starfa. Málþófið var því tekið upp og hvers kyns tylliástæður tíndar til í því skyni að draga þingfrestunina sem mest. Mat stjórnarandstaðan meira að skapa ríkisstj. óþægindi en veita henni nokkurra daga starfsfrið til að vinna að vandamestu málum þjóðarinnar.

Fjármál ríkisins hafa mjög dregizt inn í málþófsumræðurnar. Hefur stjórnarandstaðan fundið að því, að 1. umr. hefur ekki farið fram um fjárlagafrv., hamrað á því, að niðurstöður þess bentu til þess, að verulegur halli muni vera á ríkisbúskapnum á yfirstandandi ári. Ástæðan fyrir því, að fjárlagafrv. hefur ekki verið tekið til 1. umræðu, er einfaldlega sú, að vegna fyrirætlana ríkisstj. um breytingu á tekjuskattinum verður gerbreyting á tekjuöflun fjárlagafrv., og væntanlegar ráðstafanir í efnahagsmálum, hverjar sem þær verða, munu verka mjög á fjárlagafrv. í heild. Eðlilegt er, að fullnægjandi vitneskja liggi fyrir um þessi mál í heild, áður en fjárlagafrv. er tekið til meðferðar, enda óvinnandi verk að endurskoða frv. og ganga frá því, fyrr en vitað er, hvernig þessum málum verður skipað. Skyldu hefur hins vegar verið fullnægt með því að semja og leggja fram fjárlagafrv., sem í einu og öllu byggist á gildandi lögum, ríkjandi ástandi og óbreyttu fjárhagskerfi.

Það er ekkert nýtt, að stjórnarandstaðan geri sér tíðrætt um mikinn halla á ríkisbúskapnum á árinu 1959. Þegar verið var að afgreiða hallalaus fjárlög ársins á Alþ. á s.l. vetri, fullyrti stjórnarandstaðan, að um hreina fölsun væri að ræða. Staðhæft var, að tekjuáætlun fjárl. væri í engu samræmi við raunveruleikann og mundu tekjurnar reynast til muna minni en fjárlögin gerðu ráð fyrir. Sama máli gegndi um gjaldahliðina. Stjórnarandstaðan fullyrti, að niðurskurður sá, sem fyrrv. ríkisstj. fékk samþykktan á fjárlagafrv., væri pappírssamþykkt, sem reynast mundi óframkvæmanleg, og mundu útgjöld ríkissjóðs fara langt fram úr áætlun. Fjárlögin í heild kallaði stjórnarandstaðan óreiðuvíxil ríkisstj. Alþýðuflokksins, sem falla mundi á þjóðina með miklum þunga.

Þennan boðskap flutti stjórnarandstaðan þjóðinni af miklu kappi í tvennum alþingiskosningum á liðnu sumri, og þessi boðskapur hefur verið endurtekinn hér í kvöld hvað eftir annað. En hvað er þá hæft í því, að halli verði á rekstri þjóðarbúsins á árinu 1959? Var tekjuáætlun fjárlaganna fölsuð? Voru útgjaldaliðirnir blekking? Árið 1959 er ekki enn liðið, endanlegar tölur um afkomu ríkissjóðs liggja því ekki fyrir og munu ekki liggja fyrir fyrr en á fyrstu mánuðum næsta árs. Nokkru áður en ég fór úr fjmrn. fór hins vegar fram athugun á því, hvað ætla mætti um afkomu ríkissjóðs árið 1959, miðað við þá vitneskju. sem fengin var, og reynslu undanfarinna ára. Þessi athugun hefur nú verið endurskoðuð. Niðurstaðan er sú, að því er bezt verður séð, að tekjur ríkissjóðs munu á árinu 1959 fara talsvert fram úr áætlun fjárlaga. Er það einkum tekju- og eignarskatturinn. stimpilgjöld og tekjur ríkisstofnana, sem virðast ætla að gefa betri raun en ráð hefur verið gert fyrir. Heildartekjurnar eru í fjárl. áætlaðar um 1030 millj. kr., en virðast mjög varlega áætlað reynast á milli 1080 og 1090 millj. kr. og þó tvímælalaust nær 1090 millj.

Útgjöld ríkissjóðs samkvæmt fjárl. ársins 1959 munu að vísu nú sem fyrr fara nokkuð fram úr áætlun þrátt fyrir tilraunir ríkisstj. til að draga úr umframgreiðslum. Útgjöldin voru áætluð 1030 millj. kr., en virðast ætla að nálgast 1090 millj. Útgjöld ríkissjóðs á árinu virðast því ætla að reynast mjög nálægt þeirri upphæð, sem tekjurnar koma til með að nema. Er því ekki ástæða til að óttast greiðsluhalla hjá ríkissjóði á árinu 1959, og fullyrðingar stjórnarandstöðunnar um blekkingar, falsanir og óreiðuvíxil í sambandi við fjárhagsafkomuna 1959 munu reynast tilhæfulausar.

En hvað er þá um afkomu ríkissjóðs á næsta ári? Bendir fjárlagafrv. ársins 1960 til þess, að halli hafi verið á rekstri ríkissjóðs á árinu 1959, og hvernig er hin aukna fjárþörf ríkissjóðs á næsta ári til komin?

Áður en fyrrv. ríkisstj. sagði af sér, hafði hún lokið við að semja frv. til fjárlaga fyrir árið 1960. og var það lagt fyrir Alþ. á fyrstu fundum þess í nóvember. Frv. var að sjálfsögðu miðað við gildandi lög og það verðlag og kaupgjald, sem nú er og staðið hefur óbreytt frá því snemma á árinu. Nokkrar breytingar eru á frv. frá gildandi fjárlögum. Á það bæði við um tekju- og útgjaldaliði frv. Á tekjubálki fjárlagafrv. eru felldar niður tolla- og skattagreiðslur Sogsvirkjunarinnar og greiðsluafgangur ársins 1953, sem hvort tveggja er á gildandi fjárlögum og nemur samtals 55 millj. kr. Að öðru leyti er heildarniðurstaða tekjumegin á fjárlagafrv. fyrir árið 1960 mjög svipuð og á fjári. ársins 1959, og eru tekjurnar á frv. fyrir árið 1960 því áætlaðar um 55 millj. kr. lægri en í fjárl. fyrir árið 1959. Útgjöld ríkissjóðs eru áætluð um 43 millj. kr. hærri á fjárlagafrv. fyrir árið 1960 en þau eru á fjárl. ársins 1959, ef ekki er tekið tillit til greiðslna útflutningssjóðs. Hækkanirnar stafa yfirleitt af óhjákvæmilegri aukinni þjónustu sem ríkið lætur í té. Afleiðing þess, að tekjur ríkissjóðs eru áætlaðar 55 millj. kr. lægri á næsta ári en yfirstandandi ári og útgjöldin 43 millj. kr. hærri, er sú, að ríkissjóður getur á næsta ári, að óbreyttum tekjum, ekki innt af hendi jafnmiklar greiðslur til útflutningssjóðs og hann hefur gert á árinu 1959. Í stað 152 millj. kr. greiðslu til útflutningssjóðs í núgildandi fjárlögum er því aðeins gert ráð fyrir 50 millj. kr. greiðslu í fjárlagafrv. fyrir 1960. Þarna vantar því 102 millj. kr. á, að útflutningssjóður geti á næsta ári fengið hjá ríkissjóði jafnmikið og á árinu 1959 að óbreyttum tekjum. Ef að líkum lætur, munu útgjöld ríkissjóðs aukast nokkuð í meðförum þingsins frá því, sem gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Samkvæmt venju er ekki óeðlilegt að áætla, að hér geti verið um milljónatugi að ræða. Gengur því enn á þá fjárhæð, sem ríkissjóður er aflögufær um á næsta ári til útflutningssjóðs. Við þetta bætist svo það, að á útflutningssjóði verður fyrirsjáanlegur halli á næsta ári vegna nýrra skuldbindinga, og eykst því tekjuþörf sjóðsins á sama tíma sem greiðslugeta ríkissjóðs minnkar. Verkefni það, sem ríkisstj. biður nú, er því að finna leiðir til að mæta hinni nýju auknu fjárþörf. Skal ekkert um það fullyrt hér, hversu mikil þessi aukna fjárþörf er. Hitt skal staðhæft, að þessir nýju erfiðleikar framtíðarinnar hagga ekki þeirri staðreynd, að ekki þarf að óttast greiðsluhalla hjá ríkissjóði á árinu 1959.