10.03.1960
Efri deild: 39. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1127 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

88. mál, söluskattur

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það frv., sem hér liggur fyrir, fjallar um söluskatt og var boðað strax í frv. því til fjárlaga, sem lagt var fyrir Alþingi, þegar það kom saman að nýju til funda í janúarmánuði. Í því frv. er gert ráð fyrir söluskatti af vörusölu og þjónustu innanlands, 280 millj. kr., og þar af gangi til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fimmtungur eða 56 millj. kr. Um þetta segir svo í grg. fjárlagafrv., að afnám tekjuskatts á almennum launatekjum lækki tekjuskattinn og 9% söluskattur, sem nú er, muni felldur niður. Siðan segir í grg.: „Í stað þessa tekjumissis kemur nýr almennur söluskattur, sem ríkisstj. mun bera fram frv. um á næstunni og áætlað er að gefi af sér 280 millj. kr. Gert er ráð fyrir, að einn fimmti hluti þessa skatts gangi ekki til ríkisins, heldur til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga, og geti þannig orðið til að lækka núverandi útsvör.“

Undirbúningur þessa máls var falinn fjórum starfsmönnum ríkisins, þeim ráðuneytisstjórum efnahagsmrn, og fjmrn., Jónasi Haralz og Sigtryggi Klemenzsyni, hagstofustjóranum Klemenz Tryggvasyni og tollstjóranum í Reykjavík, Torfa Hjartarsyni. Þeir sömdu grg. og till. varðandi þessi mál, sem þeir skiluðu svo í hendur ríkisstj. Hún ræddi ýtarlega við þá um málið í heild og einstökum atriðum, og niðurstaðan var það frv., sem hér liggur fyrir.

Í þessu frv. er gert ráð fyrir tvenns konar söluskatti, eins og segir í 1, gr.: „Söluskatt skal greiða í ríkissjóð: 1) Af innlendum viðskiptum, eins og nánar er fyrir mælt í öðrum kafla l. 2) Af innfluttum vörum, sem teknar eru til tollmeðferðar, eins og nánar er tiltekið í III. kafla laganna.“ Í niðurlagi 1. gr. er svo sagt, að ríkissjóður greiði jöfnunarsjóði sveitarfélaga 1/5 hluta þessa skatts, og í ákvæði til bráðabirgða, a-lið, segir, að af viðbótarskattinum við innflutningssöluskattinn skuli ríkissjóður greiða einnig 1/5 hluta til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Nú kunna menn í fyrstu að spyrja, hvernig standi á því, að hinn almenni söluskattur í smásölu og af þjónustu nægi ekki til að ná inn þessum tekjum, sem ríkissjóður þarf á að halda, og ég vil taka það strax fram, að því fer fjarri, að það stafi af nokkrum röngum útreikningum eða skökkum áætlunum hagfræðinga, eins og skýrt hefur verið frá í sumum blöðum undanfarið. Ástæðurnar eru þær, sem ég skal nú greina:

Í fyrsta lagi: Þegar gert var ráð fyrir þessum söluskatti í fjárlagafrv., var reiknað með, að söluskatturinn hinn almenni yrði 3 eða 4%, og viðbúið, að hann þyrfti að vera 4% eða kannske ríflega það til að ná inn þessari upphæð. Við nánari athugun málsins þótti ekki rétt að hafa hundraðstöluna hærri en 3%, eins og ákveðið er í þessu frv. Þessi er fyrsta ástæðan til þess, að af þeim skatti fæst lægri upphæð en í rauninni hafði verið reiknað með, þegar fjárlagafrv. var samþykkt.

Í öðru lagi hafa undanþágur í frv. frá skattinum orðið miklu viðtækari við nánari athugun heldur en í upphafi var gert ráð fyrir. Vil ég þar sérstaklega nefna byggingarvinnu og mannvirkjagerð. Áður hefur söluskattur að meira og minna leyti náð til slíkrar vinnu og framkvæmda, en við nánari athugun nú og undirbúning þessa máls þótti rétt að undanþiggja byggingarvinnu og mannvirkjagerð þessum skatti. Meðal ástæðna, sem til þess liggja, er sú, að það væri mjög óeðlilegt að heimta slíkan söluskatt af eigin vinnu manna við byggingu íbúða, en eins og kunnugt er, er í tekjuskattslögum sérákvæði um, að eignarauki, sem stafar af slíkri eigin vinnu, skuli undanþeginn tekjuskatti. Það lagaákvæði hefur orðið til þess að örva menn mjög til byggingar eigin íbúða. Það mundi koma mjög illa við og vera í rauninni óeðlilegt, ef farið væri að leggja söluskatt á slíka vinnu. En um leið og hún væri undanþegin, væru skapaðir miklir örðugleikar á álagningu og innheimtu söluskattsins af annarri byggingarvinnu, og með slíkri undanþágu, sem í rauninni væri sjálfsögð og óhjákvæmileg, mundu skapast ákaflega margvíslegir möguleikar til þess að komast hjá skattinum í einstökum tilfellum. M.a. af þessari ástæðu, en auk þess koma þar ýmsar fleiri til, var horfið frá því að leggja söluskattinn á byggingarvinnu og mannvirkjagerð, en það er allstór fúlga. Enn fremur hefur, eins og greinir í 6. og 7. gr. þessa frv., verið talið rétt að undanþiggja m.a. ýmsar rekstrarvörur útvegsins og landbúnaðarins, eins og fiskumbúðir, veiðarfæri ýmiss konar, salt, beitusíld, enn fremur tilbúinn áburð, grasfræ, fóðurvörur.

Önnur ástæðan til þess, að heildartekjur af skattinum verða minni en gert hafði verið ráð fyrir í fjárlagafrv., er því þessi, að rétt þótti að hafa undanþágur nokkru víðtækari en í öndverðu var ráð fyrir gert.

Þriðja ástæðan er sú, að söluskatturinn verður í gildi aðeins níu mánuði ársins eða þrjá ársfjórðunga í stað fjögurra, sem að sjálfsögðu dregur mjög úr heildarupphæðinni.

Þessar eru ástæðurnar fyrir því, að sá 3% söluskattur, sem frv. gerir ráð fyrir, nægir ekki til að afla þeirra tekna á þessu ári, sem nauðsynlegt er og gert er ráð fyrir í fjárlagafrv. Þess vegna er farin sú leið til bráðabirgða að afla viðbótarteknanna, sem með þarf, með nokkurri hækkun á innflutningssöluskattinum. Sá innflutningssöluskattur er nú 7% og hefur verið undanfarin ár, verður hækkaður um 8% upp í 15%.

Þetta frv. um söluskatt felur í rauninni ekki í sér nýjar álögur á landsfólkið, heldur tilflutning eða breytingu á gjaldheimtunni. Það er í fyrsta lagi, að tekjuskatturinn, sem nú verður afnuminn á almennum launatekjum, verður um 110 millj. kr. minni á þessu ári en hann hefði orðið að óbreyttum skattalögum. Í öðru lagi er gert ráð fyrir, að 9% söluskatturinn, sem nú er í gildi, falli niður, en hann hefði væntanlega numið á þessu ári um 114 millj. kr. Þarna eru komnar 224 millj., sem ríkissjóður missir í af tekjum af þessum tveimur ástæðum. Loks er gert ráð fyrir, að varið sé 56 millj. kr. til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, sem gengur svo til bæjar- og sveitarfélaga í því skyni að lækka útsvörin. M.ö.o.: sú lækkun, sem verður á tekjuskatti, á 9% söluskattinum núgildandi og útsvörum, nemur um það bil sömu upphæð, eða 280 millj., elns og gert er ráð fyrir að afla með þessu frv.

Í II. kafla þessa frv. er ákvæði um söluskatt af viðskiptum, og segir svo í 2. gr.: „Af andvirði seldrar vöru og verðmæta og endurgjaldi fyrir hvers konar starfsemi og þjónustu skal greiða 3% söluskatt.“ Í 3. og 4. gr. eru svo nánari skýringar. Í 3. gr. segir: „Söluskattskylda af seldri vöru eða vinnu skal almennt bundin við síðasta stig viðskipta, það er sölu til neytenda.“ Hins vegar er sala á vörum skattfrjáls til aðila, sem kaupir þær til að selja aftur í atvinnuskyni eða sem efni í vöru, sem hann hefur atvinnu af að framleiða eða selja. í 4. gr. eru talin upp ýmis dæmi, sem falla undir söluskattskyldu. Í 5. gr. eru taldir upp aðilar, sem söluskattskyldir eru. Og í 6. og 7. gr. eru undanþágur, í fyrri greininni varðandi vörur og verðmæti og í síðari greininni varðandi þjónustu og aðra starfsemi.

Ég hef rakið nokkuð, hvað undanþegið er vegna sjávarútvegs og landbúnaðar. En af öðrum vörum og verðmætum, sem eru undanþegin söluskatti, eru samkv. 6. gr. vörur, sem seldar eru úr landi, enn fremur nýmjólk, nema um veitingasölu sé að ræða, flugvélaeldsneyti, dagblöð og hliðstæð blöð, fasteignir, skip, flugvélar, lausafé, sem seljandi hefur notað í eigin þágu eða við starfsemi sína, heimilisnotkun bónda á eigin framleiðsluvörum og enn fremur þær vörur, sem greindar eru í 2. gr. tollskrár.

Í 7. gr. er svo í fyrsta lagi undanþegin vinna við húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð, eins og ég rakti hér áðan, í öðru lagi vinna við skipaviðgerðir, en ef vinna við skipaviðgerðir væri söluskattskyld, mundi skapast mjög óeðlilegt misræmi milli skipaviðgerða innanlands og erlendis. Skipaviðgerðir erlendis eru að sjálfsögðu ekki söluskattskyldar, og til þess að skapa hér ekki misræmi í milli, þá er þetta undanþáguákvæði um skipaviðgerðir.

Þá eru enn fremur undanþegnir söluskatti vöruflutningar, og er það af eðlilegum ástæðum, þar sem hér er um að ræða skatt á síðasta stigi, en yfirleitt kemur kostnaður við vöruflutninga inn í verð vöru á lokastigi og leggst þar með á heildarverð vörunnar. En einnig eru undanþegnir í greininni fólksflutningar almennra leigubifreiða á bifreiðastöðvum. Það þykir ekki eðlilegt að láta skattinn ná til þeirrar þjónustu. Áður fyrr var skatturinn á bifreiðaakstri um tíma, en var síðan fallið frá honum af ýmsum ástæðum, þótti ekki alls kostar sanngjarnt, og auk þess mjög erfitt í álagningu og innheimtu vegna þess, um hve marga aðila er að ræða.

Þá er undanþegin söluskatti enn fremur húsaleiga, þó ekki leiga gistihúsa og samkomuhúsa, og ýmis önnur atriði, sem þarna eru rakin í 7. gr., sem ég tel ekki ástæðu til að rekja hér nánar.

Í næstu greinum á eftir eru svo skýringarákvæði um það, hvernig söluskatturinn skuli á lagður og hvaða aðilar skuli hafa þau mál með höndum.

III. kaflinn fjallar svo um söluskatt af innflutningi, og er þar í 17. gr. ákveðinn 7% söluskatturinn af tollverði allrar innfluttrar vöru, en það er aðeins lögfesting á því, sem nú er, og er 17. gr. í aðalatriðum í samræmi við gildandi reglur. Í 18. gr. er helmild til ráðh. til þess að undanþiggja tilteknar vörur innflutningssöluskatti. Í núgildandi lagaákvæðum eru taldir sérstaklega upp nokkrir vöruflokkar, sem eru undanþegnir, en auk þess er svo ráðh. veitt heimild til að veita fleiri undanþágur. Upptalning núgildandi laga á þessum undanþágum er mjög ófullkomin, og reyndin hefur orðið sú, að ráðh. hefur í reglugerð kveðið nánar á um undanþágurnar, og þar eru þær tilgreindar eftir tollskrárnúmerum.

Í þessu frv. er lagt til af hagkvæmniástæðum að sleppa þessari upptalningu allri saman, en í stað þess sé ráðh. veitt heimild til að veita undanþágur með reglugerð, og ég vil taka það sérstaklega fram, að gert er ráð fyrir, að undanþágur frá innflutningssöluskatti verði í aðalatriðum þær sömu og nú tíðkast.

Í IV. kafla eru svo nánari ákvæði um framkvæmd og eftirlit með álagningu og innheimtu söluskattsins og m.a. heimild til þess að setja með reglugerð nánari fyrirmæli um framkvæmd laganna, m.a. um sérstakt bókhald, og það er m.a. nauðsynlegt að hafa heimild til að fyrirskipa bókhald hjá sumum aðilum, sem eru ekki bókhaldsskyldir samkv. núgildandi bókhaldslögum, en eiga samkv. þessu frv. að greiða söluskatt af víðskiptum.

Í lok frv. eru svo ákvæði til bráðabirgða, en þau fjalla fyrst og fremst um þennan viðbótarinnflutningssöluskatt, 8%, sem gert er ráð fyrir að innheimta á þessu ári.

Um þetta mál almennt vil ég segja það, að stefnan er sú nú að draga úr beinum sköttum, og ætla ég, að það verði þannig ekki aðeins nú á þessu þingi, þegar væntanlega verður samþykkt breyt. á tekjuskattslögunum í samræmi við það stefnuskráratriði ríkisstj. að afnema skatt á launatekjum, heldur ætla ég, að það verði stefnan á næstu árum fremur að draga úr beinum sköttum heldur en auka þá. Varðandi aðaltekjustofn ríkissjóðs, aðflutningsgjöld, tolla, innflutningsgjald, ætla ég, þegar við gefum verzlunina og innflutninginn í vaxandi mæli frjálsan og stefnum að sjálfsögðu að því á næstu árum að komast inn í fríverzlunarsambönd eða svæði sem víðast, þá hljóti stefnan fremur að verða sú að draga úr tollum og aðflutningsgjöldum en að auka þá. Þegar við höfum þetta hvort tveggja í huga, að stefnt er að því fremur að draga úr beinu sköttunum og enn fremur að draga úr aðflutningsgjöldunum fremur en auka þau, þá kemur næsta spurningin: Hvernig á þá ríkissjóður að afla sér tekna til að standa undir þeirri starfsemi og þjónustu, sem hann þarf að annast? Og þá verður að flestra áliti, sem kynna sér þessi mál, helzt fyrir söluskattur eða veltuskattur í einu formi eða öðru.

Margar aðrar þjóðir hafa í vaxandi mæli farið inn á þessa braut. Þannig hefur það verið um allmargra ára skeið varðandi Norðmenn, að þeir hafa haft allháan söluskatt hjá sér á síðasta stigi í smásölu og verið drjúgur hluti af tekjum norska ríkíssjóðsins. Svíar hafa nú nýlega eftir mikinn undirbúning og athuganir tekið einnig upp sölu- eða veltuskatt á siðasta stigi. Við undirbúning þessa frv. hefur verið í verulegum atriðum stuðzt við löggjöf Norðmanna og Svía í þessum efnum, og við framkvæmd málsins verður að sjálfsögðu einnig stuðzt við þeirra reynslu:

En söluskattur getur að sjálfsögðu verið í ýmsum myndum, og það eru einkum þrjár leiðir, sem til athugunar komu við ákvörðun þess, hvernig ætti að leggja á þennan söluskatt. Það er í fyrsta lagi að halda í meginatriðum núverandi söluskattskerfi og auka við það, í öðru lagi að leggja söluskatt aðallega á heildsölu og svo framleiðslu og þjónustu og svo þriðja leiðin að leggja söluskatt á smásölu, framleiðslu og þjónustu, eða m.ö.o. á lokastigi viðskiptanna, áður en varan, vinnan eða þjónustan er látin kaupanda eða neytanda í té.

Varðandi fyrstu leiðina, þ.e.a.s. að byggja að grundvelli til á núgildandi söluskattskerfi, þá má segja, að sá grundvöllur var lagður árið 1945 með veltuskattinum, sem svo var nefndur, en sá veltuskattur náði til allra tegunda viðskipta, heildsölu, smásölu, framleiðslu og þjónustu. Þar var um að ræða þá tegund söluskatts, sem kölluð er fjölstigakerfi. En þá er söluskattur lagður á öll viðskipti í hvert sinn, sem sala fer fram. Skatturinn getur þannig hlaðizt oft eða, mörgum sinnum á sömu vöruna, nefnilega við hráefnisstig, framleiðslu-, heildsölu-, smásölustig, eða á efni og vinnulaun á ýmsum vinnslustigum framleiðslunnar. Með veltuskattslögunum var dregin markalína, sem enn helzt í framkvæmd, að varðandi skattgreiðslu af vinnu og þjónustu skyldi skattskyldan miðast við það, hvort vinna eða þjónusta væri seld með álagningu eða án hennar. Þessi veltuskattur frá 1945 gilti í eitt ár, en var síðan endurvakinn árið 1947 á sama grundvelli undir nafninu söluskattur, og síðan hefur þessi söluskattur verið framlengdur um eitt ár í senn. Á árinu 1948 var sú breyting gerð, að heildsala var undanþegin söluskatti, en í stað þess settur á innflutningssöluskattur. 1956 var sú meginbreyting gerð á skattinum, að smásala var undanþegin greiðslu hans, nema að því leyti sem sala eða afhending vöru gat talizt þáttur í framleiðslu eða iðnaðarstarfsemi.

Megindrættirnir í núgildandi kerfi eða fjölstigakerfinu eru í rauninni þessir: Skatturinn er sem sagt fjölstigaskattur og kemur á hin ýmsu stig framleiðslu og sölu og misjafnlega oft eftir því, hvað varan eða efnið er á margra höndum frá hráefnisstigi til fullunninnar vöru. Hins vegar eru ákaflega margar sérreglur og undanþágur í núgildandi lögum, og þær eru svo víðtækar, að skatturinn nú er í rauninni allt í senn: fjölstigaskattur, einstigsskattur og millistigaskattur. Þannig er t.d. samkv. gildandi lögum smásala skattfrjáls, þó þannig, að ef hún er í vissum tengslum við framleiðslu-, viðgerða- eða þjónustustarfsemi, þá er hún skattskyld. Í sölubúð framleiðandans ber að greiða söluskatt af öllu, sem hann hefur framleitt eða unnið að, en það, sem hann selur af aðkeyptri vöru án þess að vinna að eða úr vörunni, er skattfrjálst. Það, sem verkstæði eða verktaki leggur t.d. fram af efni til framleiðslu vöru eða viðgerða, er skattskylt, en það, sem kaupandinn leggur til sjálfur, er skattfrjálst.

Varðandi vinnu og viðgerðastarfsemi og þjónustu er eftir gildandi lögum greint á milli skattskyldrar og skattfrjálsrar starfsemi eftir þeirri markalínu, hvort álagning er fólgin í andvirði því, sem fyrir þessa vinnu er greitt, eða ekki. Enn fremur eru undanþágur frá skattinum og endurgreiðsluheimildir orðnar ákaflega víðtækar og flóknar. Sumar þeirra voru ákveðnar þegar í upphafi, en aðrar hafa verið veittar smám saman til að lægja þær óánægjuöldur, sem risið hafa út af misræmi í skattlagningunni.

Sumum kann að virðast einföldust sú lausn að halda áfram núverandi söluskattskerfi með þeirri breytingu að taka upp að nýju söluskatt á smásölu, sem var felldur niður í desember 1956, og söluskatt á heildsölu, sem var í gildi fyrir 1948, sem sagt koma skattinum aftur í sitt upprunalega horf, eins og hann var eftir veltuskattslögunum 1945 og söluskattslögunum 1947, og fella niður meginið af þeim undanþágum, sem veittar hafa verið, sem sagt fara inn á fjölstigakerfið í meginatriðum, eins og það var í upphafi. En af þeim ástæðum, sem ég hef greint, og mörgum öðrum er talið mjög óheppilegt að fara aftur inn á þessa braut. Reynslan hefur sýnt, að þetta skattkerfi, fjölstigakerfið, er mjög erfitt í framkvæmd og ýmsir ágallar þess þannig, að varla verður úr bætt. Þessi tekjuöflun er ákaflega viðtæk, hún er á breiðum grunni, og má segja, að þessi aðferð við söluskatt gefi því möguleika til að hafa skattprósentuna lægsta. Hins vegar er reynslan sú, bæði hér og annars staðar, að slíkur skattur dregst alltaf saman, þegar frá liður, vegna þess að almennt er að því keppt þá að sameina sem flest framleiðslu- og viðskiptastig á eina hendi til þess að þurfa ekki að borga söluskattinn mörgum sinnum af sömu framleiðslunni. Það er keppt að því að sameina sem flest framleiðslu- og viðskiptastig á eina hendi eða a.m.k. látið líta út sem svo sé til þess að losna við skattinn og komast í betri samkeppnisaðstöðu gagnvart öðrum, sem hafa ekki möguleika eða bolmagn eða aðstöðu til slíkrar sameiningar. Þessi skattur kemur þá oft harðast niður, þ.e.a.s. í flest skipti, á vörur hinna smáu og dreifðu framleiðenda.

Þá hefur verið reynt bæði hér og annars staðar að bæta úr þessum ágöllum skattsins með því að láta undan alls konar kröfum um undanþágur og endurgreiðslur, sem oft hafa þá leitt til nýs ósamræmis, flækt framkvæmdina, gefið möguleika til undanbragða og tilefni til fjölda ágreiningsmála milli skattgreiðenda og skattyfirvalda og einnig milli kaupenda og seljenda. Greining milli skattfrjálsrar og skattskyldrar vörusölu framleiðenda, iðnaðarmanna, viðgerðarverkstæða, þjónustustofnana o.s.frv. er örðug í framkvæmd og í vissum tilfellum tæplega framkvæmanleg, og það er erfitt að fylgjast með, hvort fyrirtæki, sem selja jöfnum höndum eigin framleiðslu og aðkeypta vöru, stundum hvort öðru blandað, geti aðgreint slík viðskipti, svo að fullnægjandi sé.

Skipting iðnaðarvinnu í tvo flokka, skattfrjálsan og skattskyldan, eftir því, hvort um álagningu er að ræða eða ekki, hefur verið örðugasta og óvinsælasta verkefni skattyfirvaldanna hin síðari ár, sérstaklega hvað varðar byggingariðnað. Afleiðing þessarar skattreglu er m.a., að þeir, sem geta komið því við, selja ekki lengur vinnu starfsmanna sinna eða vinnuflokka beinlínis, heldur ráða þá sem launþega hjá þeim, sem byggt er fyrir eða unnið hjá hverju sinni. Í stað álagningar á vinnuna kemur þá kaupgreiðsla í einhverju formi. Af þessu leiðir m.a., að hjá þeim, sem hafa ekki möguleika til slikra aðferða, t.d. verktakar hjá ríki eða bæjarfélögum, eða vilja ekki beita þeim, verða byggingar eða mannvirki þeim mun dýrari sem söluskattinum nemur. Þetta hefur m.a. haft þær skaðvænlegu afleiðingar að draga mjög úr því, að opinber verk væru boðin í frjálsu útboði, eins og að sjálfsögðu er æskilegast að sé meginreglan um allar opinberar framkvæmdir, því að ef boðið er út og tekið ákveðnu tilboði, leggst 9% söluskattur á þetta allt saman, en hins vegar ekki, ef unnið er eftir reikningi eða með þeim hætti, sem ég greindi áðan.

Þetta eru í stórum dráttum annmarkarnir á fjölstigakerfinu, og eftir nána athugun á því hefur ekki verið talið fært að taka það kerfi upp að nýju.

Önnur leiðin varðandi söluskatt, sem til athugunar kom, var sú að leggja söluskattinn á heildsölu í stað smásölu. Þetta söluskattskerfi hefur vissulega sína kosti, m.a. að verulegur hluti skattsins yrði innheimtur hjá færri aðilum, sem auðveldara ætti að vera að hafa eftirlit með. Ágallar kerfisins eru hins vegar, að því er söluskattinn og þjónustu varðar, á margan hátt þeir sömu og ég greindi áður um núgildandi kerfi, fjölstigakerfið, en varðandi slíkan skatt, heildsöluskatt á vörusölu, eru ágallarnir helzt þessir: Það er mjög erfitt oft og tíðum að ráða fram úr þeim vanda, hvernig eigi að framkvæma skattlagninguna í hinum mörgu blönduðu verzlunarfyrirtækjum og hvernig eigi að ákveða verðgrundvöllinn, þegar ekki er hægt að byggja á raunverulegu heildsöluverði.

Þessi bæði atriði eru nátengd og mjög flókin. Til skýringar má geta þess, að á árinu 1958 voru tollafgreiddar vörur til um það bil 800 innflytjenda í Reykjavík. Þessir 800 aðilar voru sumir heildsalar, aðrir smásalar. Enn aðrir voru sambland af hvoru tveggja, höfðu bæði heildsölu og smásölu. Sumir voru iðnrekendur, sumir voru samtímis iðnrekendur og heildsalar, og enn aðrir voru iðnrekendur og smásalar, og loks dæmi þess, að innflytjandi var allt í senn: iðnrekandi, heildsali og smásali.

Þessi margþætta starfsemi innflytjendanna kemur fram í velflestum vöruflokkum í ýmsum hlutföllum, og virðist ekki mikill munur á, hvar niður er borið, nema auðvitað í þeim fáu vöruflokkum, þar sem ríkið eða einstakir aðilar kunna að hafa einkasöluaðstöðu.

Þessi ólíku verzlunarform verða því ekki skattlögð eftir sömu reglu, og tvenns konar eða þrenns konar aðferðir hrökkva ekki heldur til, ef á að komast hjá þeim vandræðum, sem þessu hljóta að fylgja. Við athugun á þessu kerfi, sem sagt að taka söluskattinn á heildsölustiginu, hafa komið í ljós svo miklir annmarkar varðandi framkvæmdina, að horfið hefur verið frá því. Ég vil taka fram, að það er ekki aðeins niðurstaða þeirra ráðunauta, sem ríkisstj: hefur haft í þessu efni, heldur hefur það einnig orðið niðurstaðan bæði í Noregi og Svíþjóð eftir mjög rækilegar athuganir, m.a. á þessari leið, að fara að taka söluskattinn á heildsölustiginu í stað smásölustigsins.

Það má benda á fleiri ágalla í þessu samhandi. Sérstaklega að því er varðar fyrsta árið mundi þessi tekjuöflun dragast mjög á langinn. Þar sem söluskattur með þessu lagi kæmi ekki á núverandi birgðir smásala og verulegur hluti heildsöluviðskipta fer fram með vöruvíxlum, er naumast hægt að taka skatt af sölunni, fyrr en þeir eru greiddir. Auk þess mundi þetta fyrirkomulag hafa í för með sér töluvert aukna fjármagnsþörf smásöluverzlana, þar sem skatturinn yrði að greiðast til heildsölunnar, en smásalinn fengi hann ekki til baka, fyrr en hann seldi vörurnar, auk þess sem hann yrði þá að greiða söluskatt af vörurýrnun og óseljanlegum vörum, m.ö.o.: það væri að íþyngja mjög smásöluverzlunum og auka verulega á rekstrarfjárþörf þeirra.

Af þeim ástæðum, sem ég hef greint hér í meginatriðum, þótti ekki fært að taka upp aftur fjölstigakerfið né heldur heildsölustigið. Og þá er komið að þeirri leið, sem hér er lagt til að farin verði, og það er að taka upp einstigskerfi á lokastigi, sem sé innheimta söluskatt á lokastiginu, en það er sú sama leið, sem Norðmenn og Svíar hafa tekið upp eftir ýtarlega athugun þessara mála.

Það er vissulega, eins og ég gat um áður, mikill styrkur að geta stuðzt við löggjöf og reynslu þessara nágrannaþjóða okkar í söluskattsmálum. Þessu söluskattskerfi, sem sagt á lokastigi, fylgja ýmsir kostir. Í fyrsta lagi er skatturinn almennt bundinn við eitt viðskiptastig, lokastigið, þ.e. þegar varan flyzt í hendur neytandans eða vinna eða þjónusta er látin honum í té, en önnur vöru- eða vinnusala er skattfrjáls. Skatturinn kemur því aðeins einu sinni á sömu vöru eða vinnu, og verður þá ekki lengur deilt um skattþungann á hverri einstakri framleiðslugrein eða vöru, eins og er óendanlegt ágreiningsefni við fjölstigakerfið. Af þessari sömu ástæðu skapast ekki ósamræmi eða ójöfn aðstaða, samkeppnisaðstaða, milli einstakra framleiðenda eða fyrirtækja, og það skiptir ekki heldur máli, hvort fyrirtækið tekur yfir eitt eða fleiri framleiðslustig, og það verður ekki þörf fyrir undanþágur eða endurgreiðslur þess vegna. Þá er þess loks að geta, að skattprósentan getur með þessum hætti orðið lægri en ef heildsöluskattur er notaður.

Hins vegar er það að sjálfsögðu annmarki á þessu kerfi, að skattgreiðendur verða mjög margir og eftirlitið allfjölþætt. Það verður þess vegna þörf á ströngu eftirliti með greiðslu þessa skatts, og eru allýtarleg ákvæði um það í frv. og gerð grein fyrir því í grg., sem ég skal ekki fara út í hér nánar að sinni. En m.a. hefur þetta skattkerfi þann mikla kost, að það er einfaldast og auðskildast, en að skattkerfið sé auðskilið og skapi ekki ójöfnuð, er bezti grundvöllurinn fyrir réttri framkvæmd.

Ég mun nú láta þessi orð nægja sem framsögu fyrir frv., en vísa að hinu leyti nú til hinnar ýtarlegu grg., sem því fylgir.

Þetta frv. felur sem sé í sér þessi tvö meginatriði: lögleiðingu smásöluskatts eða skatts á smásölu og þjónustu á síðasta stigi, 3%, og auk þess hækkun fyrir þetta ár á innflutningssöluskattinum úr 7% upp í 15%.

Það hefur verið á það bent, að e.t.v. hefði verið rétt að stöðva tollafgreiðslu, meðan slíkt frv. væri til meðferðar. Ríkisstj, hefur ekki talið rétt að fara inn á þá braut og enn síður vegna þess, að nýskeð er í sambandi við afgreiðslu efnahagsmálafrv. búið með sérstökum lögum að stöðva tollafgreiðslu um nokkurra vikna skeið eða þrjár vikur. Hins vegar vil ég beina þeim tilmælum til hv. þdm., að þetta frv. megi ganga greiðlega í gegnum deildina, til þess að það valdi ekki miklum baga eða óþægindum, að tollafgreiðslu sé haldið áfram, meðan það er til meðferðar.

Ég legg svo til, að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. fjhn.