06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 114 í D-deild Alþingistíðinda. (2610)

77. mál, síldariðnaður á Vestfjörðum o. fl.

Einar Sigurðsson:

Herra forseti. Það mál, sem hér er til umr., er vissulega mikið vandamál. Það er mikill vandi á höndum hverjum þeim, sem á að stjórna fyrirtæki, þegar aflinn bregzt, en það hefur átt sér stað þarna við Húnaflóa og raunar víðar, að síldin hefur lagzt þar frá, og þeir, sem voru búnir að byggja þar upp dýr fyrirtæki, hafa setið eftir með mikið tap og lent í miklum örðugleikum.

Þetta er ekkert nýtt í atvinnusögu Íslands. Það hefur þráfaldlega komið fyrir, að fiskur hefur lagzt frá, þar sem afli hefur verið góður um, skeið, og hefur þetta valdið ekki aðeins þeim, sem ráku fyrirtækin, heldur líka fólkinu, sem var í byggðarlaginu og hafði atvinnu sína í sambandi við þessa útgerð, miklu tjóni. Og það er ekkert tilefni til þess að koma með jafnheiftarlegar árásir á einkaframtakið og hv. 4. landsk. þm. (HV) gerði. Það er ekki hægt að þegja við slíkum árásum, því að þær eiga engan rétt á sér. Menn berjast oft og ég vil segja alltaf, á meðan þeir geta, til þess að halda atvinnurekstri sínum gangandi. En það er allt önnur aðstaða, sem einkareksturinn hefur en ríkis-, bæjar- og samvinnureksturinn. Þar er gerólíku saman að jafna. Einstaklingarnir mega standa þar einir og falla, þegar þeir verða fyrir tapi, en ríkisreksturinn hefur ríkissjóðinn og álögurnar á þjóðina á bak við sig, bæjarreksturinn hefur borgarana og útsvörin, og samvinnureksturinn hefur hinn sterka hring, Samband ísl. samvinnufélaga, til þess að styðja við bakið á kaupfélögunum, þegar þau hallast á einum staðnum. svo sem hefur þráfaldlega komið fyrir.

Það er ólíkur aðstöðumunur þarna. Þegar einkareksturinn má berjast við að borga há útsvör til sveitarfélags, er sveitarsjóður opnaður til þess að styrkja þann atvinnurekstur, sem er í höndum sveitarfélagsins. Alveg eins er með ríkisreksturinn. Þar eru engar álögur, engin útsvör, engir skattar. Og samvinnureksturinn hefur líka haft sín forréttindi fram yfir einkareksturinn.

Og svo eru þessir menn að stíga í ræðustól hér fullir vandlætingar yfir því, hversu einkareksturinn standi sig illa og hvernig hann verður stundum að gefast upp. Hv. 4. landsk. ætti miklu frekar að fara viðurkenningarorðum um einkareksturinn með sinni ójöfnu aðstöðu heldur en aðhafast það, sem hann hefur gert eða gerir hér í ræðustól, að niða niður og telja hinum rekstrinum eitt og annað til gildis og einkarekstrinum aftur annað til ófremdar, m.a. að geta ekki staðið á eigin fótum, þegar að honum sækir aflabrestur og ef til vill aðrir örðugleikar, en oftast nær er það þó aflabrestur, sem veldur honum búsifjum.

Í sambandi við atvinnurekstur einstaklinga á Vestfjörðum vék hann sérstaklega að fyrirtæki mínu á Flateyri. Mér er ekkert óljúft, að hann geri það og minnist á það hér, ég ber engan kinnroða fyrir það, þvert á móti. Ég sé ekki, að aðrir geri betur að glíma við að gera út 34 ára gamla togara, sem enginn vildi nýta, og halda uppi rekstri með slíkum tækjum núna undanfarin 7 ár og útvega svo mikla atvinnu í þessu byggðarlagi, að vinna varð — mér liggur við að segja nótt og dag flesta daga. Þetta fyrirtæki greiddi eitthvað um 2½ milljón í vinnulaun á ári fyrir utan vinnulaunin á togurunum, sem hafa sjálfsagt verið upp undir það annað eins, ég man nú ekki þessar tölur nákvæmlega.

Hv. þm. er að býsnast yfir því, að við höfum orðið að gefast upp við að reka þessa togara. Ég veit ekki, hvort ég á að segja frá því, hve mikið tap var á þeim s.l. ár, en það skipti mörgum milljónum. Hv. þm. kemur það sjálfsagt ekki neitt ókunnuglega fyrir, að tap sé á togurum. Það var tap á skipum, sem höfðu betri skilyrði til að vera gerð út heldur en þessir gömlu togarar, sem stórfyrirtæki í landinu voru fyrir mörgum árum uppgefin á að gera út, eins og Tryggvi Ófeigsson og Kveldúlfur.

Nei, það er ekki til þess að býsnast yfir, þó að þarna gangi erfiðlega, síður en svo. Eins og ég sagði áðan, hefði hv. þm. frekar átt að dást að því, hvað hægt var að gera við jafnerfið skilyrði og þarna voru fyrir hendi. Og það er þessum hv. verkalýðsforingja — vil ég segja — til vansæmdar að vera að ráðast á þá viðleitni, sem hefur verið haldið uppi þarna til atvinnurekstrar, þegar tillit er tekið til þess, hve geysimikla atvinnu þetta hefur veitt við hin hörðustu og erfiðustu skilyrði.

En nú liggur ekki annað fyrir þessum blessuðum skipum en vera seld í brotajárn. Það var ekki hægt lengur að halda þeim úti, ekki nein tök á því.

Ég veit ekki. hvort hv. þm. getur hlakkað yfir því, að ég gefist upp við þennan atvinnurekstur. Ég ætla að vona, að það sé of fljótt. En það verður tíminn að leiða í ljós. Við megum alltaf heyja okkar baráttu einir. Ég hef aldrei fengið eyri í atvinnubótafé þarna, aldrei. Svo að ég nefni bara eitt dæmi: Hvað ætli hafi verið mokað miklu atvinnubótafé í þá útgerð, sem sveitarfélögin hafa rekið? Það væri fróðlegt að vita það. Ég held, að á einu ári hafi verið lagðar um 4 millj. í atvinnubótafé í Austfjarðatogarana, og hv. 1. þm. Austf. (EystJ) sagði á kjósendafundi: Ég mokaði atvinnubótafé í togarana, á meðan ég var fjmrh. — Þetta er nú heilbrigt! Það er von, að hv. 4. landsk. þurfi að býsnast yfir því, hvað við séum vesælir með svona gerólíkri aðstöðu. Og það er ekki nóg með það. Ég get ósköp vel sagt frá því líka hér, að framkvæmdastjóri Ísfells var að leggja af stað núna með skipi vestur á firði til þess að gera upp við sveitarfélagið 600 þús. í opinber gjöld. Þetta megum við hafa, einstaklingarnir, í álögum og meðgjöf með atvinnurekstri okkar. Við erum ekkert að tala um það sérstaklega, en auðvitað er þetta þungur baggi. Við höfum verið að ræða hér útsvörin undanfarna daga, og veltuútsvörin eru þungur baggi fyrir atvinnurekendur, en það er sérstaklega þungbært, þegar okkur er mismunað á þann hátt, að við megum gjalda þessar þungu álögur á sama tíma og aðrir fá styrk, á sama tíma og borgararnir borga með atvinnurekstrinum. Hvað skyldi það rýra kjör þeirra mikið? Það væri fróðlegt að vita, hvert kaupgjald þeirra væri, þegar búið væri að reikna frá það, sem verður iðulega að leggja á þetta fólk til þess að standa undir óarðbærum atvinnurekstri.

Nei, það er ekkert til þess að álasa einkareksturinn fyrir, borið saman við bæjar- eða ríkisrekstrar hér á landi. Ég mundi segja, að einkareksturinn bæri langt, langt af, þegar tekið væri tillit til þess aðstöðumunar, sem hann býr við. Við getum ósköp vel rifjað upp sögu bæjarútgerðarinnar í Vestmannaeyjum. Hvað ætli hún hafi farið með margar millj., sem varð að leggja á bæjarbúa? Hvað ætli Keflavík hafi orðið að leggja mikið á sína gjaldendur vegna sinnar bæjarútgerðar? Hvað ætli bæjarútgerðin í Reykjavík hafi lagt mikið til sinnar togaraútgerðar? 30–40 millj., minnir mig, að ég hafi séð í einhverju blaði nú nýlega. Og svona mætti lengi telja. Alveg sama er á Akranesi. Það er sama, hvar gripið er niður. Alls staðar eru það álögur á borgarana, sem verða að standa undir þessu, en við einstaklingarnir megum reiða fé af höndum til bæjarfélaganna og það ekki neitt smáræði.

En það má líka minnast á síldariðnaðinn, t.d. á Skagaströnd. Þar var nú ríkið. Jú, það vantaði ekki. Hvað hefur verið rekið þar? Ég held, að verksmiðjurnar hafi ekki verið settar í gang síðan, ja, hvað á maður að segja. það er víst ekki hægt að tala um flokksbróður, einu sinni var hann þó flokksbróðir, — Áki Jakobsson byggði þessar verksmiðjur í tíð nýsköpunarstjórnarinnar. En það er a.m.k. sáralítið, sem þær hafa verið starfræktar síðan.

En það er ekkert við því að segja, þó að stöðva verði verksmiðjur eða fyrirtæki, þegar síldin hættir að ganga. Mér finnst það ekkert sérstakt á Hesteyri, þó að Kveldúlfur gæfist upp við að reka verksmiðjuna, eða þeir í Húnaflóa, ekki nokkurn skapaðan hlut. Það er eðlilegasti hlutur. Það er ekki hægt að ætlast til þess, enda hafa mennirnir ekkert bolmagn til þess. En fyrst minnzt var á Hesteyri, þá hljóp hv. þm. alveg yfir það, að eftir að síldin lagðist þarna frá og þar var enginn verksmiðjurekstur, lifði fólkið þarna við ágæt skilyrði við fiskveiðar á stríðsárunum og flutti svo í burtu upp úr stríðinu sæmilega efnað. Ekkert var við því að segja, það vildi ekki vera þarna og treysti ekki lengur á afkomuna, og auðvitað eru menn frjálsir í þessu landi til að færa sig á milli, hvort það er fólkið eða atvinnurekendur. Við erum nú einu sinni Íslendingar, og ég sé ekki. að það sé nokkur heil brú í því að vera að heimta, að einn maður sé alltaf á sama stað, en færi sig ekki til eftir staðháttum og eftir því t.d., sem aflabrögðin haga sér.

Það, sem gerir t.d. núna gæfumuninn á Vestfjörðum og Austfjörðum, er, að nú leggst síldin upp að Austfjörðum, en ekki Vestfjörðum. Ég álít það þess vegna hálfgert tómt mál að vera að tala um starfrækslu á þessum verksmiðjum við Húnaflóa, a.m.k. í sinni upprunalegu mynd, — ég verð að segja það hreinskilnislega. Það gæti hins vegar vel verið, að hægt væri að hafa þarna niðurlagningu á síld eða einhvern minni háttar iðnað úr síld, þar sem minna hráefni þyrfti. Slíkt væri mjög vel athugandi. En ég hef ekki trú á því, eins og sakir standa, að hægt sé að reka þarna síldarbræðslu. Það er nú einu sinni svo, og Norðmenn hafa komizt að þeirri staðreynd, að síldin er ekki eitt í dag og annað á morgun. Það koma 40 og 50 ára tímabil, sem hún leggst að á einum stað eða frá. Þetta er sannað í síldarsögu Noregs.

Og fyrst ég er að minnast á síldarverksmiðjurnar og hv. 4. landsk. var að dásama ríkisreksturinn, má spyrja: Hver var það, sem gafst upp á Flateyri, sem honum var nú svo tamt að tala um? Var það ekki ríkið? Rak það ekki Sólbakkaverksmiðjuna? Og hverjir voru það, sem tóku við? Var það ekki einkareksturinn? Getur þetta ekki gengið svona upp og niður í okkar þjóðfélagi? Og ég sé ekki, að það sé neitt sérstakt við það, þó að Guðmundur Jörundsson flytji togara sinn til Reykjavíkur, þar sem hann hefur betri aðstöðu til þess að gera hann út. Hann er ábyrgur fyrir sínum skuldum, og hann verður að sjá um að borga þær. Það er ekki ríkið, sem hleypur undir bagga, ef það væri 10–20% óhagstæðara að gera út togara frá Akureyri, og borgar mismuninn, Nei. Og það er eins og ég segi, við erum allir Íslendingar í sama bát. Og ég sé ekki nokkurn hlut við það að athuga, þó að við færum okkur til og frá á landinu eftir því, sem atvinnuhættir bjóða upp á.

En í augum hv. 4. landsk. virðist allt, sem heitir einkarekstur, vera tómur ræningjaháttur og ekkert annað. Það er allt lagt út á þann veg.

Það mætti sjálfsagt segja margt um einkareksturinn og opinbera reksturinn, en ég sé ekki ástæðu til að vera að tefja frekar tíma hv. þm. frá mikilvægum störfum. En ég gat ekki þagað við þessari hatrömmu árás á einkareksturinn hjá hv. 4. landsk.