06.04.1960
Sameinað þing: 37. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 130 í D-deild Alþingistíðinda. (2646)

87. mál, símgjöld bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar

Flm. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 163 um samræmingu símtala og símgjalda í umdæmi bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, og hljóðar till. svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hlutast til um, að samræmd verði símgjöld og fyrirkomulag símtala milli Hafnarfjarðar, Garðahrepps, Bessastaðahrepps, Kópavogs, Seltjarnarneshrepps og Reykjavíkur, sem eru aðilar að bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þannig að símtöl milli þessara byggðarlaga verði eigi dýrari og með sama fyrirkomulagi og innanbæjarsímtöl.“

Vegna þessarar till. vildi ég með nokkrum orðum gera grein fyrir, hvers vegna hún er fram komin svo og hver er tilgangur hennar.

Mörg undanfarin ár hefur ríkt algert öngþveiti í málefnum bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar í Hafnarfirði. Segja má, að þetta ófremdarástand hafi verið með þrennum hætti.

1) Það hefur verið algerlega ómögulegt að fá afnot af nýjum síma í Hafnarfirði um langan tíma, og var svo um áramótin 1958 og 1959, að um 500 númer skorti, til þess að hægt yrði að fullnægja eftirspurninni, og var áætlun um, að um næstu áramót, þ.e.a.s. 1960 og 1961, yrðu tæp 700 númer á biðlista, og sést af þessu, í hvert öngþveiti var komið.

2) Á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur hefur aðeins verið um 36 símrásir að ræða, en símnotendur í Hafnarfirði og nágrenni 972, en í Reykjavík tugir þúsunda. Hvernig ætlazt er til, að 36 línur fullnægi þeirri þjónustu, sem hér á að vera, innan þessa umdæmis, skilur enginn, enda ástandið þannig, að hér um bil ómögulegt er langan tíma dagsins að ná símasambandi á milli þessara svæða.

3) Þessi hluti bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar, þ.e.a.s. Hafnarfjörður og nágrennið, hefur notið allt annarra kjara en stærri hluti stofnunarinnar, þ.e.a.s. Reykjavík og nágrenni, sem hins vegar er miklu stærri að flatarmáli. Símtöl frá Hafnarfirði og nágrenni geta ekki staðið lengur en í 5 mínútur og eru talin sem 3 innanbæjarsímtöl. Það, sem telst með stærra svæðinu, er Reykjavík, Seltjarnarneshreppur og Kópavogur, hins vegar með minna svæðinu Hafnarfjörður, Garðahreppur og Bessastaðahreppur.

Það hljómar dálítið einkennilega, þegar það er þrisvar sinnum dýrara að hringja frá Kópavogi til Silfurtúns en frá Kópavogi til Reykjavíkur, og þannig mætti telja á ýmsan hátt.

Svona hefur ástandið verið, en hins vegar eru nú fyrirhugaðar breytingar á þessu, og vil ég jafnframt skýra frá því hér.

Árið 1958, þann 2. desember, var samþykkt í bæjarstjórn Hafnarfjarðar að fara þess á leit við þáverandi þm. Hafnf., núv. hæstv. félmrh., að hann flytti till. til þál. um úrbætur á símamálum Hafnfirðinga. Þetta gerði hæstv, ráðh., en þessi till. varð hins vegar ekki útrædd á því þingi, en hún var á þskj. 124.

Á s.l. ári gegndi þáv. þm. Hafnf. ráðherraembætti því, sem fór með póst- og símamál. Var þá tekin ákvörðun um nokkrar úrbætur í símamálum Hafnfirðinga í samráði við póst- og símamálastjóra. Í fyrsta lagi var ákveðið að stækka stöðina í Hafnarfirði og byggja þar nýtt hús. Húsbygging þessi er nú hafin. Í öðru lagi var ákveðið að fjölga rásunum á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur í 150, og tjáði póst- og símamálastjóri mér um daginn, að það yrði gert nú í sumar. Í þriðja lagi var ákveðið að hætta við að slíta símtölin, en þess í stað telja mínúturnar og greiða samtölin á milli þessara byggðarlaga eftir lengd símtalanna, þ.e.a.s., að það hefur engin leiðrétting fengizt á því misræmi gjaldskrárinnar, sem ég gat um hér áðan.

En hvernig koma svo þessar gjaldskrárbreytingar út? Í dag kostar 5 mínútna samtal á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur eða þessara staða kr. 2.25, en eftir breytinguna á hún að kosta 3.50, þ.e.a.s. 70 aura á mínútu. Innanbæjarsímtölin eiga hins vegar að kosta 70 aura, og eru heimiluð 600 símtöl fyrir hvern ársfjórðung. Gjaldskrárbreytingin hefur því í för með sér óhagræði fyrir þá símnotendur, sem byggja syðra símasvæðið.

En nú spyr ef til vill einhver: Er þetta ekki allt í lagi, er nokkurn tíma talað svo mikið í símann á milli þessara svæða, að viðtölin hrökkvi ekki til, þau sem leyfð eru á hverjum ársfjórðungi? Samkvæmt upplýsingum frá póst- og símamálastjóra eru í notkun nú 972 númer í Hafnarfirði og nágrenni, og á fyrsta ársfjórðungi þessa árs fóru 602 símnotendur fram yfir það, sem þeir höfðu leyfi til. Þetta er aðeins þennan eina ársfjórðung, og mætti segja mér, að þegar allt árið væri liðið, mundi hver og einn einasti símnotandi hafa farið fram yfir einhvern ársfjórðunginn.

Eins og sjá má af þessum tölum, eru notendur símans í Hafnarfirði og nágrenni miklu verr settir og hafa miklu meiri útgjöld vegna símans en aðrir notendur bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar. Umdæmi bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar eru orðin ein viðskipta- og verzlunarheild, og væri eðlilegra og réttara, að þessir aðilar, sem byggja þessa sömu heild, hefðu sömu útgjöld, hvort heldur þeir ættu heima í Hafnarfirði eða í Reykjavík. Höfuðborgin er af eðlilegum ástæðum miðdepill þessa svæðis, og beinast því viðskipti aðilanna á því að miklu leyti þangað. Þetta hefur í för með sér, að íbúar syðri hluta umdæmis bæjarsíma Reykjavíkur og Hafnarfjarðar vilja að sjálfsögðu sitja við sama borð og þeir, sem byggja miðhluta og nyrðri hluta umdæmisins. Eða er réttlæti í því, að aðili, sem býr í vestasta hluta Reykjavíkur eða á Seltjarnarnesi, skuli greiða þrisvar sinnum minna fyrir símtal sitt, þegar hann hringir inn að Elliðaám, en aðili í Hafnarfirði, sem hringir til Reykjavíkur, en vegalengdin milli Seltjarnarness og Elliðaáa er jafnvel lengri en á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur?

Því verður ekki neitað, að þetta er ein og sama stofnunin, og það er ekkert réttlæti í því, að hún mismuni viðskiptavinum sínum. Þetta svæði er ein viðskipta- og verzlunarheild, og þar af leiðandi á ríkið ekki að ganga á undan og mismuna mönnum á þessu svæði.

Þegar nú símamál Hafnfirðinga og nágranna þeirra eru að fá leiðréttingar hvað snertir tvö fyrri atriðin, sem ég gat hér um áðan, er ekki óeðlilegt og full ástæða til, að í kjölfar þess sé gerð tilraun til þess að leiðrétta það misræmi, sem ég hef áður getið um, varðandi gjöld á símtölum milli þessara svæða, enda hefur sama stofnun, póstur og sími, sýnt það á öðru sviði, að hún gerir svæðunum jafnt undir höfði, þ.e.a.s. þar sem er um póstgjöld að ræða, en þau eru hin sömu í Hafnarfirði og Reykjavík,

Þá vil ég í þessu sambandi geta þess, að nú þegar hefur verið gerð leiðrétting til þess að reyna að koma á því samræmi á milli Hafnfirðinga og Reykvíkinga, sem hér er reynt að sækjast eftir, en það er með því, að hæstv. núv. ráðh., sem fer með þessi mál, hefur í samráði við póst- og símamálastjóra ákveðið að hækka innanbæjarsímtöl í Hafnarfirði úr 600 í 850, Áður hefur verið gerð tilraun til að fá leiðréttingu þessara mála. Árið 1956 ritaði þáv. þm. Hafnf., Ingólfur Flygenring, þáverandi ráðh. og gerði tilraun til þess að fá leiðréttingu þessara mála. Hann ritaði bréf um málið og óskaði leiðréttingar á þessu sérstaka atriði. Póst- og símamálastjóri taldi þá ekki hægt að sinna málinu og það væri einfaldlega af tæknilegum ástæðum, slíkt yrði ekki hægt að gera, og slíkt væri ekki mögulegt, fyrr en búið væri að leggja mun stærri streng á milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, sem hefði mun fleiri rásir þar á milli, auk þess að byggt yrði nýtt símahús í Hafnarfirði. Nú er þetta ákveðið, og nú er þetta að komast í framkvæmd. Þess vegna er ekkert því til fyrirstöðu, að þessi leiðrétting nái fram að ganga, ef ekki vantar viljann hjá þeim, sem um þessi mál fjalla. Ég hef rætt þetta við núverandi ráðherra og vildi mega vona, að þar væri um velvilja að ræða, en það eru ýmsir aðrir embættismenn, sem þarna koma til greina.

Ég vil svo að lokum, herra forseti, óska eftir því, að umr. verði frestað og málinu verði vísað til hv. fjvn.