14.03.1960
Efri deild: 41. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1184 í B-deild Alþingistíðinda. (268)

88. mál, söluskattur

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Framsögumenn bæði 1. og 2. minni hl. fjhn. hafa nú rætt þetta mál almennt og sýnt svo rækilega fram á ágalla þess bæði marga og stóra, að þar er í sjálfu sér litlu eða engu við að bæta. En það er eitt atriði, sem hæstv. ríkisstj. og talsmenn hennar hér í þessari hv. d. hafa lagt sig alveg sérstaklega fram um að sýna fram á eða sanna, að svo væri háttað sem þeir vilja vera láta. Þeir hafa viljað sýna fram á það, að í þessu söluskattsfrv., sem hér liggur fyrir, sé ekki um neinar nýjar álögur að ræða. Það er um þetta atriði, sem ég tel rétt að fara nokkrum orðum, enda þótt það sé raunar þegar búíð að marghrekja þetta atriði og sýna fram á, að staðreyndin er allt önnur en talsmenn stjórnarflokkanna vilja vera láta að þessu leyti. En þessi skoðun þeirra kemur enn fram og er undirstrikuð í nál. meiri hl. fjhn., þar sem það er enn borið fram, að tilgangur þessa frv. sé að bæta ríkissjóði upp þann tekjumissi, sem hann verði fyrir vegna afnáms 9% skatts á sölu og þjónustu, fyrirhugaðs afnáms tekjuskatts af almennum launatekjum, svo og þess, að áformað er, að bæjar- og sveitarfélög fái hluta af söluskatti, þannig að þeim verði kleift að framkvæma lækkun útsvara. „Er því ekki um auknar skattaálögur í heild að ræða frá því, sem áður var, heldur aðeins um breytingu skattstofna,“ segir í nál. meiri hl.

Það er þó vissulega framför, að í nál. meiri hl. er sagt, að það sé um að ræða breyt. á skattstofnum, en ekki, eins og sagt hefur verið hingað til, að ekki væri um neinar auknar skattaálögur í þessu frv. að ræða, heldur aðeins um breyt. á gjaldheimtu að ræða, en ég hygg, að á þá lund hafi það verið orðað hjá hæstv. fjmrh., og þannig hygg ég að þetta sé „síterað“ í þeim blöðum, sem sagt hafa frá ræðu hans, þeirri er hann flutti hér í d. við 1. umr. þessa máls.

Samkv. þessu frv., sem hér liggur fyrir, á að lögleiða þrenns konar söluskatt, þ.e. 3% almennan söluskatt af öllum innlendum viðskiptum í smásölu og af hvers konar þjónustustarfsemi, og í öðru lagi innflutningsskatt af öllum innfluttum vörum, sem hér eru teknar til tollmeðferðar, eftir því sem nánar segir í lögunum, og er sá skattur 15% eða þó öllu heldur 16.5%, þegar tillit er tekið til þess, að hann er reiknaður af innflutningsverði vörunnar, þ.e. tollverði og aðflutningsgjöldum, að viðbættri 10% áætlaðri álagningu.

Hér er um gífurlegar álögur að ræða, svo sem ljóst er af því, að í fjárlagafrv. er áætlað, að söluskatturinn á yfirstandandi ári muni nema samtals um 434 millj. kr. Af því virðist mega ráða, jafnvel þó að ekki væri við að styðjast þær glöggu upplýsingar, sem hér hafa reyndar komið fram í umræðum eftir hagstofustjóra, að á heilu ári mundi söluskatturinn alltaf nema yfir 500 millj. kr., eins og rækilega hefur verið sýnt fram á í þeim umræðum, sem hér hafa farið fram. Þó er þess að gæta, að vitaskuld er það svo, að í fjárlagafrv. er um mjög varlega tekjuáætlun að ræða. Það er þess vegna engan veginn ósennilegt, að heildarfjárhæð söluskattsins verði í reyndinni allmiklu hærri, enda þótt það sé ekki á mínu færi að spá neinu um það.

Ég staðhæfi, að hér sé óvefengjanlega að verulegu leyti um nýjar álögur að ræða. Hinn almenni 3% söluskattur er nýr. Að vísu fellur um leið niður 9% gjald það, sem innheimt hefur verið af þjónustustarfsemi og innlendum iðnaðarvarningi, en af því gjaldi runnu 3% í ríkissjóð og 6% í útflutningssjóð, svo sem kunnugt er. Í bæklingnum alkunna, Viðreisn, er áætlað, að miðað við árið 1960 muni brottfall þess hluta gjaldsins, sem í ríkissjóð rann, nema 38 millj. kr. Alls ætti þá söluskattur að hafa numið 114 millj. kr., þ.e.a.s. þessi gamli söluskattur að viðbættum hluta útflutningssjóðs, sé reiknað með áætlun þeirri, sem Viðreisn geymir. Hinum almenna söluskatti var hins vegar samkv. fjárlagafrv. ætlað að gefa 280 millj, kr. Það stendur skýrum stöfum í fjárlagafrv., b-lið þeirrar gr., sem um það fjallar. Nú er að vísu sagt, að fyrirsjáanlegt sé, að með hinum almenna söluskatti einum muni ekki fást sú fjárhæð, sem fjárlagafrv. gerir ráð fyrir, og sé innflutningsskatturinn því m.a. af þeim ástæðum hækkaður. Hvað sem um það er, þá gefa þessar tölur glöggt til kynna aukningu álagnanna. Það er að vísu svo, að hér er farið með ákaflega margar tölur, en ég held, að það sé nokkurn veginn auðskilið, hvernig rétt er að bera þessar tölur saman. Það er að mínu viti rétt að bera saman 280 millj. annars vegar og 38 millj. hins vegar, og verður þá mismunurinn 242 millj. kr., því að í stað söluskatts þess, sem til útflutningssjóðs rann, hafa komið álögur í formi gengisbreytingar, eða ef menn vilja nota uppáhaldsformúlu hæstv. ríkisstjórnar: Í stað söluskattsins í útflutningssjóð hefur komið tilflutningur fjár með gengisbreytingu. En jafnvel þó að þessi hluti söluskattsins af iðnaði og þjónustu, sem rann til útflutningssjóðsins, væri tekinn með í þessum samanburði með áætlunarupphæð eftir tölunum í Viðreisn, 76 millj. kr., verður dæmið þannig, að 280 millj. kr. koma á móti 114 millj, kr., þ.e.a.s. mismunurinn verður þá 166 millj. kr., sem að mínum dómi eru ómótmælanlega nýjar álögur, þegar á heildina er litið.

Ég hygg, að þessu verði ekki mótmælt með rökum. Ég hef að vísu ekki hér tekið tillit til þess, að 1/5 hluti hins almenna söluskatts og viðaukainnflutningsskattsins eiga að renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna, enda held ég, að álögurnar verði alveg jafnþungbærar fyrir gjaldþegnana, hvort sem þær renna til ríkissjóðs eða bæði í ríkissjóð og jafnframt til einhverra annarra opinberra þarfa. Álögurnar eru alveg jafnnýjar og til viðbótar eldri álögum, hvernig svo sem þeim er varið, enda er sannleikurinn sá, að það skortir alla tryggingu fyrir því, að útsvör lækki sem svarar þessum hluta skattsins. Og sannleikurinn er sá, að það er meira að segja alls engin trygging fyrir því, að útsvör lækki nokkurn skapaðan hlut, það er allt eins líklegt, að þau haldist alveg óbreytt, og kem ég kannske að því eitthvað síðar í ræðu minni. Og eitt er hér víst: hvað sem öllum samanburði á heildarfjárhæðum álagnanna, hinna eldri og þeirra fyrirhuguðu, líður, þá er hér um að ræða, eins og viðurkennt er réttilega í nál. meiri hluta fjhn., nýja skattlagningaraðferð. Hér er um það að ræða, að lagt er á nýja skattstofna. Hér er um að ræða almennan söluskatt, sem lagður er á allt aðra skattstofna og með allt öðrum hætti en hið eldra viðskiptagjald á innlendan iðnað og þjónustustarfsemi. Þessi nýi söluskattur leggst, eins og ég sagði, á allt aðra gjaldþegna, á allt aðra skattstofna. Hann er, eins og hér hefur rækilega verið sýnt fram á, almennur skattur á neyzlu alls almennings, og hingað til hefur það þótt skipta nokkuð miklu máli, þegar um skattaálagningu hefur verið að ræða, hvar skattabyrðarnar kæmu niður, hverjir ættu að borga. Það hefur ekki aðeins þótt skipta máli, hver heildarfjárhæð væri innheimt. Það má vera, að frá stjórnarstóli séð skipti það eitt máli, að tiltekin fjárhæð innheimtist í ríkissjóð, og út frá þeim hugsunarhætti eru e.t.v. skiljanleg þau ummæli, sem hæstv. fjmrh. hafði hér við 1. umr. málsins og Alþýðublaðið lagði svo út af í leiðara sínum á sunnudaginn síðastliðinn. Það er ekki með öllu ófróðlegt að athuga þann leiðara þessa blaðs, sem um langt skeið hefur talið sig vera málgagn launafólks og alþýðustétta í þessu landi. Leiðari þessi hefur yfirskriftina: „Dæmi fyrir skólabörn“ — og með leyfi forseta, langar mig til að lesa aðeins nokkur orð upp úr þessum leiðara. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Með söluskattinum, sem efri deild Alþingis hefur nú til umræðu, er ekki verið að auka skattabyrði þjóðarinnar; heldur breyta skattainnheimtu. Þessi söluskattur er lagður á um leið og annar söluskattur er afnuminn og tekjuskattur afnuminn á launatekjum. Gunnar Thoroddsen fjmrh. skýrði þetta dæmi í framsöguræðu sinni um skattinn á svo einfaldan hátt, að hvert skólabarn hlýtur að skilja dæmið.“

Og síðan heldur áfram, með leyfi forseta, með svartletri til þess að gera þetta enn þá einfaldara:

„Ríkið fær nú 280 millj. samkv. söluskattslögunum. Á móti missir ríkið 110 millj. vegna lækkaðs tekjuskatts, 114 millj. vegna afnáms 9% söluskattsins og 56 millj., sem renna til bæjarfélaganna. Útkoman úr þessu dæmi er núll. Ríkið missir jafnmikið fé og það fær.“

Svo mörg eru þau orð. En ég er ákaflega hræddur um, að almenningur í þessu landi láti sig nú ekki það eitt varða, hvort álögurnar í heild nema sömu upphæð og áður, heldur sé það einnig höfuðatriði fyrir hann og frá hans sjónarmiði, með hverjum hætti álögurnar eru lagðar á, og það er einmitt það, sem er meginatriðið varðandi þennan nýja söluskatt. Það er einmitt það, sem er kjarni þessa máls, sem um er að ræða, að þessi nýi söluskattur er lagður á sem almennur neyzluskattur á allan almenning í landinu. Og ég fyrir mitt leyti er alveg sannfærður um, að það verður skóladæmi, sem svo að segja hvert einasta skólabarn í landinu getur reiknað mjög bráðlega, að þessar álögur þýða auknar álögur.

En hitt er svo annað mál, að það, sem Alþýðublaðið segir um þetta, er auðvitað alrangt, eins og ég hef þegar sýnt fram á. Ríkið fær ekki aðeins 280 millj. samkv. söluskattslögunum fyrirhuguðu, heldur samkv. fjárlagafrv., þar sem það stendur skýrum stöfum, 434 millj. kr. Og nú sé ég raunar, að samkv. nál. eða till. meiri hl. fjvn. er þó þetta hækkað um a.m.k. 3 millj. kr. Það er alveg furðulegt, að blað á borð við Alþýðublaðið skuli leyfa sér að fara með svona fals, að það skuli leyfa sér að fara með tölur á þennan hátt í leiðara. Það er alveg furðulegt, — ég verð að segja það, — að segja, að söluskatturinn, sem fyrirhugað er að leggja á, gefi bara 280 millj. kr., þegar það stendur skýrum stöfum í fjárlagafrv., að honum er ætlað að gefa í ríkissjóð 434 millj. kr. Það á að reyna að koma því inn hjá almenningi með leiðara í Alþýðublaðinu, að það séu aðeins 280 millj., sem verið er að leggja á með þessum söluskattslögum. Og hvernig sem þau gjöld, sem að nafni til eru niður felld, eru borin saman við heildarfjárhæð þá, sem innheimta á eftir söluskattsfrv., verður útkoman alltaf sú, svo sem ég hef sýnt fram á, að hinar fyrirhuguðu álögur eru miklu hærri en hin niðurfelldu gjöld, sem þó eru ekki niðurfelld nema að nafni til, þar sem þau voru áður notuð til þess að halda uppi gengi íslenzkrar krónu, koma í veg fyrir gengisbreytingu, en nú hefur gengisbreytingin verið gerð og verðhækkunin á erlenda gjaldeyrinum komið í staðinn fyrir þessi gjöld.

Það er ekki ástæða til þess að bæta hér miklu við það, sem þegar hefur verið sagt um þennan fyrirhugaða almenna söluskatt, hvernig hann er þó á allan hátt ömurlegri og harkalegri en nokkur sá söluskattur, sem hér hefur áður þekkzt, m.a. að þessu leyti, að hann .á nú, sem alveg er nýtt, að leggjast á matvæli, sem framleidd eru hér innanlands. Hann á að greiða af kjöti og kartöflum og öðrum slíkum matvælum, sem framleidd eru hér innanlands. Og satt að segja verð ég að játa, að mér finnst það dálítið einkennilegt, þegar um þær vörur er að ræða, sem ríkissjóður ver fé til þess að greiða niður, að þá er verið að leggja svo á þær þessi gjöld líka.

Og þá er það viðaukainnflutningsskatturinn, sem aðeins er rétt að drepa hér á með fáeinum orðum, en hann er þó sannarlega alveg nýr. Um það er engum blöðum að fletta.

Innflutningsskatturinn nú er 7%, eða þó það, sem réttara er eiginlega, 7.7%, en nú á við hann að bæta 8 eða þó öllu heldur 8.8%. Það er ekkert lítilræði, sem þarna er um að tefla. Það má hugsa sér, hver áhrif það hefur, þegar slíkur skattur leggst ofan á allt vöruverð í landinu. Og þessi viðauki kemur, ef ég má viðhafa svo ljótt orð hér í þessari hv. d., eins og skrattinn úr sauðarleggnum. Almenni söluskatturinn hafði verið boðaður, en á þennan viðauka hafði ekki verið minnzt einu orði. Í aths. um fjárlagafrv. stendur þvert á móti skýrum stöfum alveg orðrétt þetta:

„Ekki er áformað að breyta núgildandi söluskatti af innflutningi, en hann er áætlaður 154 millj. kr. með hliðsjón af reynslu síðastliðins árs og áhrifum væntanlegra efnahagsaðgerða.“

Þetta segir, í aths. við fjárlagafrv., sem útbýtt var hér, eftir að þing kom saman síðast í janúarmánuði. Hér hefur því komið til greina alveg spánnýr skattur, sem alls ekki hefur verið reiknað með í efnahagsmálafrv. ríkisstj.; að því er virðist. Það er auðvitað algert aukaatriði í þessu sambandi og engin ástæða til þess að eyða löngu máli í umræður um það, hvernig eiginlega stendur á því; að þessi skattur kemur svona óvænt fram. Hvort það byggist á einhverri reikningsskekkju hjá þeim hagfræðingum, sem hafa samið efnahagsmálafrv., eða það byggist á einhverjum öðrum ástæðum, það finnst mér út af fyrir sig ekki skipta neinu máli, þó að það sé eðlilegt, að það sé dálítið viðkvæmt mál fyrir hagfræðingana, sem að þessu hafa staðið, ef það væri svo, að þarna væri um mikla reikningsskekkju að ræða. En um það skal ég ekki segja neitt, aðalatriðið er bara það, að hér er um stórkostlega nýja skattlagningu að ræða, sem hlýtur enn að stórhækka vöruverð til viðbótar þeirri verðhækkun, sem hefur orðið og verður af völdum gengisbreytingarinnar. Þess vegna er það, að þessi viðaukaskattur, sem þarna er lagður á nú, hlýtur að stórhækka dýrtíðina í landinu; og þá er það nú svo, að það verður ómögulega komizt hjá því að spyrja, hvernig sem hv. frsm. meiri hl. fjhn. kann að leggja það út, hvort þetta muni þá ekki raska öllum þeim grundvelli, sem efnahagsmálalögin voru byggð á. Hvað verður nú t.d. úr þeirri fullyrðingu þeirra, sem að þeirri löggjöf stóðu, að fjölskyldubætur þriggja barna fjölskyldu mundu vega upp á móti kjaraskerðingunni? Hvernig má það vera, eftir að þessi viðaukaskattur bætist við? Það væri fróðlegt að heyra skýringar hv. frsm. meiri hl. fjhn. á þessu atriði eða þá hæstv. fjmrh. En hvernig sem þau svör verða og hvernig sem þeirra skýringar verða á þessu atriði, þá er ég ákaflega hræddur um, að þeim veitist erfitt að koma almenningi í þessu landi í skilning um það, að þessi 8.8%, þetta nýja álag, 8.8% álag á verðlagið, skipti engu máli um kjararýrnunina. Það er raunar upplýst í þessum umræðum og enginn ómerkari maður en hagstofustjórinn, sem hefur upplýst það, að kjaraskerðing af völdum þessa frv. eins, söluskattsfrv., muni nema 10%, og það kom greinilega fram í ræðu hv. frsm. meiri hl. fjhn. Og þetta er vissulega ekkert smáræði, þegar það kemur til viðbótar þeirri kjaraskerðingu, sem leitt hefur nú þegar og leiða mun þó æ meir, sem lengur liður, af gengisbreytingunni. Og það er alveg sama, hvað hv. frsm. meiri hl. fjhn. segir um þetta og hversu honum finnst það fráleitt, að menn komi með spurningar af þessu tilefni, þá fer ekki hjá því, að almenningur í landinu spyrji, hvort það geti nú ekki verið, að það sé fleira eða hafi fleira verið skakkt reiknað í efnahagsaðgerðum ríkisstj. en þessi dæmi, sem hér hafa verið nefnd.

Það er annars um þennan viðaukainnflutningsskatt að segja, að það er látið í veðri vaka, að hann eigi aðeins að standa til bráðabirgða. En hver trúir slíkri fullyrðingu? Reynslan sýnir, að það er ákaflega hætt við því, að þeir skattar, sem lögleiddir eru á annað borð, verði nokkuð varanlegir, þó að þeim sé í öndverðu aðeins ætlað að gilda til bráðabirgða eða skamman tíma. Sú var reynslan með þennan söluskatt, sem hér hefur verið, að hann var aðeins settur til eins árs, og hann hefur æ síðan jafnan verið framlengdur, að því er ég bezt veit, frá ári til árs. Og það er ákaflega hætt við því, að sama reyndin muni nú verða um þennan viðaukaskatt, sem um er að ræða í þessu söluskattsfrv., enda þótt hann sé hafður þar í þeim hluta frv., sem kallaður er ákvæði til bráðabirgða. Og það er annars nógu fróðlegt að líta aðeins á það, hvað um þetta segir í sjálfri grg. Þar segir svo:

„Eins og áður getur, hefur skammur tími verið til athugunar og undirbúnings máls þessa, og því er sú leið, sem hér er farin, að nokkru leyti bráðabirgðaleið. Verður unnið áfram að málinu og væntanlega unnt að leggja fyrir næsta Alþingi till, um framtíðarlausn þess.“

Menn athugi það, að það segir beinlínis í þessum aths., að þarna sé að nokkru leyti um bráðabirgðaleið að ræða. Það er sem sé gefið beinlínis í skyn í þessari grg., sem raunar allir vita, að hér er ekki og verður ekki um neitt bráðabirgðaákvæði að ræða í reyndinni. Ég viðurkenni það fúslega, að það þarf jafnan að afla nægilegra tekna í ríkissjóð og þeim, sem standa fyrir þeirri tekjuöflun, getur oft verið mikill vandi á höndum, og ég viðurkenni það mjög fúslega, að það getur komið til greina og getur verið á allan hátt eðlilegt, að gerðar séu ýmiss konar breytingar á skattalöggjöf og skattabreytingar. Ég viðurkenni það t.d., að það sé þörf á breytingum á núgildandi tekjuskattslöggjöf, en um hana ætla ég annars ekki að ræða í þessu sambandi, af því að um hana verður rætt í öðru sambandi. En það hefur réttilega verið á það bent, að í sambandi við þá löggjöf hafi átt sér stað ýmiss konar misfellur, sumum hafi þar gefizt möguleiki á því að skjóta allmiklu af sínum tekjum undan skatti. En ég held, að það sé þó viðurkennt af öllum, sem um þau mál hafa fjallað, að þeir, sem sízt hafa gert það og allra sízt hafa haft nokkurn möguleika til þess og hafa alls enga möguleika til þess, það séu þeir, sem hafa almennar launatekjur. En það eru einmitt þeir, sem nú eiga að fá eftir gefinn sinn tekjuskatt, og er ég ekki að hafa á móti því út af fyrir sig, en mér sýnist, að það muni ekki með þeim hætti vera ráðin bót á þeim annmörkum, sem hingað til hafa verið taldir á því að framkvæma tekjuskattslögin viðhlítandi. Um þessa fyrirhuguðu skattlagningu, sem hér er um að ræða, vil ég aðeins segja þetta:

Ég vil ekki vera með neinar fullyrðingar um það almennt eða fordæma yfirleitt almennt neinar sköttunaraðferðir. Það fer eftir atvikum og þörfum á hverjum tíma, til hverra ráða verður að grípa í því efni. En eins og nú standa sakir, tel ég almennan söluskatt óheppilega skattaðferð, sem í lengstu lög ætti að forðast að grípa til, og ég tel hana alveg sérstaklega óheppilega nú, þegar hún kemur í kjölfarið á þeirri gífurlegu gengisbreytingu, sem hér hefur átt sér stað, og vaxtahækkun þeirri hinni miklu, sem hér hefur átt sér stað og ekki þarf hér að fjölyrða um. Ég tel hana sérstaklega varhugaverða vegna þess, að hún kemur þungt niður á almenningi í landinu, hækkar vöruverðið og eykur dýrtíð stórkostlega. Hitt er svo alveg augljóst mál, sem bent hefur verið rækilega á hér og ég þarf ekki að eyða mörgum orðum að, að innheimtan á þessum skatti verður sérstaklega erfið. Innheimtumennirnir verða ákaflega margir. Skriffinnskan verður gífurleg og kostnaðurinn við innheimtuna eftir því, og fyrirhöfn alls almennings verður mjög mikil og það verður eilífur eltingarleikur við þessa mörgu aðila, sem eiga að standa skil á þessum skatti, og svo er því til viðbótar, að það er ákaflega hætt við, að þessi skattur komi ekki allur til skila. Að vísu eru margir heiðarlegir menn í landinu, og ég er ekki að væna neina af þessum aðilum, sem eiga þennan skatt að innheimta, um óheiðarleika. En það verð ég að segja, að með þessari aðferð er mikil freisting fyrir þá lögð, og það gæti verið, að með þessari aðferð væri beinlínis ýtt undir óheiðarleika. Ég get því vissulega ekki tekið undir orð hæstv. fjmrh., þegar hann var að lýsa þessari aðferð um almenna söluskattinn, 3% skattinn, að þetta skattkerfi sé einfaldast og auðskildast.

Ég get fallizt á það, að það geti verið réttlætanlegt að beita söluskatti, t.d. til þess að afstýra gengislækkun, þegar þannig stendur á, að til hans er gripið af þeim sökum. Það er alveg rétt, að það hefur verið gripið til söluskatts í ýmsum löndum og það hefur verið gripið til söluskatts hér á landi, eins og við allir þekkjum og komið hefur fram í þessum umræðum. En ég verð að segja það, að samt er ég dálítið hissa á því, að þessi samstarfsstjórn Sjálfstfl. og Alþfl, skuli beita sér fyrir setningu þessa söluskatts. Ég er að vísu ekki hissa á því, að Sjálfstfl. skuli beita sér fyrir þessari skattlagningaraðferð, því að það var Sjálfstfl., sem á sínum tíma beitti sér fyrir veltuskattinum illræmda, en með þeim skatti var í raun og veru þessi asni leiddur í herbúðirnar hér á landi, svo að það er ekkert einkennilegt við það, þó að Sjálfstfl. beiti sér fyrir þessari skattlagningaraðferð. Hitt verður að teljast alveg furðulegt, að Alþfl. skuli taka þátt í því að setja slíkan skatt, og með leyfi hæstv. forseta vildi ég því til sönnunar, að þetta komi mönnum nokkuð á óvart, lesa upp fáein orð úr Alþingistíðindum, þegar eitt, sinn var fjallað um þessi málefni hér á þingi. Það er úr Alþingistíðindum 1953 og er í B-deild, í dálki 109, og sá, sem þá hefur orðið fyrir Alþfl., er enginn ómerkari en fyrrv. formaður Alþfl., sem þá var formaður hans, Haraldur Guðmundsson, og hann talaði þá ekki bara í eigin nafni, heldur talaði hann líka í flokksins nafni um þá hluti, sem þar voru til umræðu. Með leyfi forseta, þá sagði Haraldur Guðmundsson um þetta þá:

„Ég álit, og Alþfl. er sömu skoðunar, að af mér liggur við að segja öllum þeim tollum, sem á eru lagðir hjá okkur, sé söluskatturinn ranglátastur og óskynsamlegastur. Hann er ranglátastur af því, að hann lendir langþyngst á þeim, sem minnsta getu hafa til að greiða til opinberra þarfa. Hann fellur langþyngst á barnmargar fjölskyldur og stór heimili, og það þarf ekki orðum að því að eyða, hversu ranglátt slíkt fyrirkomulag er til innheimtu opinberra gjalda. Aðrir tollar ýmsir, ég vil nú ekki segja flestir, eru þó á lagðir með það sjónarmið fyrir augum, að þeir séu mismunandi þungir, eins og t.d. verðtollurinn, eftir því, hvaða vörur eiga í hlut, hvort hægt er að komast af án þeirra eða ekki. En til þessa sjónarmiðs er engan veginn tekið tillit við álagningu söluskattsins, heldur þvert á móti. Í öðru lagi liggur í augum uppi, að söluskattur hlýtur að hækka verðlag í landinu og þar með dýrtíðina a.m.k. sem skattinum nemur og þeirri álagningu, sem óhjákvæmilega hlýtur að koma á hann í öllum viðskiptum. Sú aukna dýrtíð, sem af þessu stafar, kemur svo fram í hækkuðum framleiðslukostnaði.“

Og enn segir Haraldur:

„Tollur þessi og skattur er því hvort tveggja í senn: ranglátur gagnvart þeim, sem greiða hann, og mjög óskynsamlegur frá sjónarmiði þjóðfélagsheildarinnar. Við leggjum því til, Alþfl.-menn, að þessi skattur verði felldur niður.“

Það hefur náttúrlega mikið vatn runnið til sævar, síðan þetta var sagt, og Haraldur Guðmundsson er ekki lengur formaður Alþfl. Þar hafa tekið við nýir menn, sem virðast hafa á þessu aðra skoðun. En þó er það nú svo, að enn eru sumir þeir í Alþfl., sem voru í honum 1953 og tóku þátt í umræðum um þetta mál á því þingi, og með leyfi hæstv. forseta, vildi ég aðeins mega fara hér með örfá orð, sem núv. hæstv. viðskmrh. sagði þá um þennan sama skatt. Það er í þessum sömu þingtíðindum, B-deildinni 1953, 81. dálki. Þar segir svo, með leyfi forseta:

„Við þetta allt saman bætist svo, að söluskatturinn er í eðli sínu ranglátur. Það er einhver ranglátasti skattur, sem lagður hefur verið á af íslenzka löggjafanum. Og það er ekki nóg með það, að hann sé ranglátur í eðli sínu. Framkvæmdin á söluskattsinnheimtunni hefur og verið þannig, að á því er enginn vafi, að enginn skattur hefur verið jafnstórkostlega svikinn og söluskatturinn. Það er ekki aðeins ríkissjóður, sem tekur inn mikið fé í skjóli þessara lagaákvæða um söluskattinn, heldur taka ýmiss konar atvinnurekendur einnig inn stórfé í skjóli þessara ákvæða. Það er auðvelt að svíkja tekjuskatt fyrir þá, sem hafa stórfelldan atvinnurekstur með höndum. En það er margfalt auðveldara að svíkja söluskatt: Það er jafnopinbert leyndarmál og skattsvikin í tekjuskattinum, að þau eru gífurleg í söluskattinum.“

Þetta voru orð hæstv. viðskmrh. á Alþingi 1953. Það er alveg augljóst mál, að þegar hann nú tekur þátt í því að flytja frv, um söluskatt, miklu stórkostlegri og á allan hátt þungbærari en allir þeir söluskattar, sem hér hafa verið fyrr; virðist hann hafa skipt um skoðun í þessu efni. En mennirnir skipta um skoðun, en eðli hlutanna helzt óbreytt, og þó að hæstv. viðskmrh. hafi skipt um skoðun á söluskattinum, er eðli söluskattsins samt alveg óbreytt frá því, sem var 1953. Hann er alveg jafnranglátur nú og hann var þá. Hann er alveg jafnósanngjarn nú eins og hann var þá. Og það er alveg jafnmikil hætta á því, að hann komist ekki allur til skila, nú eins og þá.

Það hefur verið fram borin hér sem réttlætingarástæða fyrir þessum gífurlega söluskatti, að nokkur hluti hans eigi að renna til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og eigi að fara til þess með þeim hætti að lækka útsvör. Það er að vísu rétt, að útsvörin eru þungbær, og engum ætti að vera það kunnugra en þeim, sem hafa orðið að greiða útsvör hér í Reykjavík. En það liggur að mínum dómi alls ekkert fyrir um það, að útsvör geti lækkað eða þau muni lækka, þó að sveitarfélögin fái þennan hluta af söluskattinum. Það er alveg víst, að efnahagsaðgerðir ríkisstj. hafa stóraukið útgjöld sveitarsjóða og koma til með að stórauka þau. Ég hygg, að fjárhagsáætlanir bæjarfélaga séu t.d. löngu afgreiddar, og mér er ekki kunnugt um, að í þeim sé gert ráð fyrir nokkurri lækkun útsvara, og mér er kunnugt um, að það er farið að innheimta, eins og eðlilegt er, upp í útsvör. Ég hef ekki orðið var við það, t.d. hér í Reykjavík, að það hafi verið gert ráð fyrir því varðandi þá innheimtu, að útsvörin kynnu að lækka. Ég held sem sagt, að það sé ekki nokkur hlutur, sem bendir til þess, að útsvörin muni lækka eða geti lækkað. Ég held blátt áfram, að sveitarfélögunum muni ekki veita af þessum hluta söluskattsins, sem á að renna til jöfnunarsjóðsins, til þess að vega upp á móti þeirri útgjaldahækkun, sem hefur þegar orðið og verður hjá þeim vegna efnahagsaðgerða ríkisstj. En það er hverjum manni ljóst, að mörg útgjöld þeirra hljóta að aukast stórkostlega einmitt vegna þeirra aðgerða. Það er t.d. öllum vitanlegt, að mörg bæjarfélög skulda allmikið fé í erlendum gjaldeyri, og það er ljóst, að þeirra byrði hefur þyngzt mjög við gengisbreytinguna.

Ég skal nú ekki orðlengja þetta miklu meira, ef það er ætlun að halda áfram fundi. (Forseti: Það er meiningin að gera innan skamms matarhlé.) Ég vildi aðeins segja það, að mér virðist þetta frv., söluskattsfrv., bera þess merki á ýmsan hátt og að allri gerð, að það sé flýtisverk og að það sé á engan hátt svo vandlega skoðað sem nauðsyn ber til um svo mikilvæga löggjöf og svo íþyngjandi löggjöf sem hér er um að ræða. Það segir í aths. frv., að stjórnin hafi falið nefnd manna, sem þar eru tilgreindir, að semja frv. Þeir menn, sem þar eru taldir, eru vissulega góðir menn og glöggir, en það kemur einmitt fram í grg. eða aths. með frv., að þessir ágætu menn hafa talið sig fá helzt til skamman tíma til þess að athuga þetta mál og þeim hefur verið skammtaður of naumur tími til samningar svo viðamikils frv. En það segir einmitt í aths. um þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Svo sem að líkum lætur, hefur n. haft skamman tíma til þess að fjalla um þetta margbrotna mál. En það hefur rekið mjög á eftir, að hér er um löggjöf að ræða, sem ætlazt er til að veita eigi ríkissjóði tiltekna tekjufjárhæð á yfirstandandi ári, svo sem áætlað hefur verið í frv. til fjárlaga 1960. Ríður því á, að löggjöf um þetta efni komi til framkvæmda sem allra fyrst, og hefur n. skilað bráðabirgðatill. til ríkisstj.“ Ég endurtek: „og hefur n. skilað bráðabirgðatill. til ríkisstj. Ríkisstj. athugaði till. þessar og ákvað síðan að bera fram frv. þetta.“

Það, sem frá þessum ágætu mönnum hefur komið, sem þarna eru tilgreindir, þó óbeint, sem höfundar þessa frv., hafa því nánast verið bráðabirgðatill., drög að frv., og ég verð að segja það, að mér virðist, að það séu ýmis ákvæði í þessu frv., sem bera þess merki. Það er t.d. mjög áberandi, eins og reyndar hefur verið vikið hér að nokkuð áður, að það er eins og löggjafinn skjóti sér undan því að taka þar ákvörðun um ýmis efni og eftirláti þá ákvörðun reglugerðargjafanum, skjóti mjög mörgum og ég vil segja alveg óeðlilega mörgum úrlausnarefnum til reglugerðargjafans. En það er nú svo, að við skattlagningu verður að gera tvær meginkröfur til skattalöggjafar. Annars vegar þá, að skattheimtan sé gerð skilvirk, eftir því sem mögulegt er, og hins vegar þá kröfu, að réttaröryggi skattþegnanna sé tryggt, eftir því sem kostur er. Mér virðist í örfáum orðum sagt og almennt sagt, að það sé í þessu frv. allvel séð fyrir fyrra atriðinu, sem ég nefndi, fyrir fyrra sjónarmiðinu, og það er kannske eðlilegt og mannlegt, að þessir menn, sem samið hafa frv. og eru starfsmenn ráðuneytanna, hafi einmitt frekar haft þetta sjónarmið í huga, að reyna að haga þessum lögum þannig, að skattheimtan yrði skilvirk. Hins vegar verð ég að segja það, að mér virðist miklu síður hafa verið haft í huga það sjónarmið, sem ég nefndi síðar, réttaröryggi skattþegnanna. Það mætti nefna þess mörg dæmi úr þessu frv., en þar sem nú er orðið nokkuð áliðið, mun ég ekki fara út í að telja þau atriði upp sérstaklega, en þau eru þó mjög mörg í þessu frv., sem sýna, að það er ekki hugsað eins og skyldi fyrir réttaröryggi skattþegnsins að þessu leyti. Ég nefni t.d., að þar er fækkað áfrýjunarstigum frá því, sem almennt er í skattamálum. Fjmrh. er fengið fullnaðarúrskurðarvald í mýmörgum tilfellum, og ég verð að segja það, að þó að það geti verið réttmætt innan vissra takmarka og það geti verið of þungt í vöfum að leita til almennra dómstóla um ýmis skattamál, þá finnst mér í þessu frv. allt of langt — og hættulega langt — gengið inn á þá braut að fela ráðh. fullnaðarúrlausn um mál og þá ekki aðeins um framkvæmdaratriði, sem ekkert er við að segja, heldur um hrein og bein efnisatriði. Það getur vissulega verið heppilegt að gefa framkvæmdarvaldinu visst svigrúm til þess að laga framkvæmdina eftir breytilegum aðstæðum og breyttum þörfum. En það er þó almennt viðurkennt, að ég hygg, að það séu víss takmörk fyrir því, hversu langt megi ganga í þessu efni, og ég álít, að hér sé gengið hættulega langt inn á þá braut. Og ég gæti, eins og ég sagði áðan, ef ég vildi, nefnt mýmörg dæmi úr þessu lagafrv., sem styðja þessa skoðun og sýna, að þetta er rétt. Það er gengið lengra í þessa átt í þessu frv. en fordæmi eru fyrir, að ég held. Og það verður að segjast, að þetta, — og það skulu þá verða mín síðustu orð hér, — að einmitt þessi tilhneiging, sem er í frv. til þess að draga þannig vald í hendur ráðh., er enn vitni og vottur þeirrar tilhneigingar, sem svo mjög hefur orðið vart hjá þessari hæstv. ríkisstj., sem nú situr hér að völdum, að vilja draga í sínar hendur æ meira og meira vald og vilja draga það vald í sínar hendur, sem að réttu lagi á að vera í höndum annarra aðila, Alþingis eða dómstóla. — [Fundarhlé.]