17.02.1960
Sameinað þing: 16. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 221 í D-deild Alþingistíðinda. (2838)

12. mál, byggingarsjóðir

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Eitt var það, sem fram kom í ræðu hæstv. landbrh. hér áðan, sem ég tel sjálfsagt að mótmæla. Hæstv. ráðh. talaði um það oftar en einu sinni í sinni ræðu, að það væru einhverjar óreiðuskuldir hjá byggingarsjóði Búnaðarbankans. Hæstv. ráðh. virtist þannig vera á ósmekklegan hátt að læða því inn í hugi manna, að Búnaðarbankinn sé einhver óreiðustofnun, sem ekki standi við sínar skuldbindingar, ekki standi við gerða samninga um fjárgreiðslur og þess háttar. Þessu vil ég mótmæla. Það er áreiðanlega alveg ástæðulaust og ósæmilegt að gefa slíkt í skyn.

Fyrir skömmu urðu nokkrar umr. í hv. Nd. utan dagskrár, m.a. um stofnlánasjóði Búnaðarbankans. Þá var á það bent, að seint á næstliðnu ári gerðist það, eftir að hv. 1. þm. Sunnl. var orðinn hæstv. landbrh., sem ekki hafði gerzt áður í fjölda ára, að bændur í sveitum landsins, sem höfðu ráðizt í það að byggja íbúðarhús á jörðum sínum, gátu ekki fengið lán fyrir árslokin hjá byggingarsjóði Búnaðarbankans, og þeir eru ekki farnir að fá þessi lán enn, þó að lánsskjöl í fullkomnu lagi væru lögð inn hjá Búnaðarbankanum í nóvembermánuði s.l. Það hefur þannig komið fram, að hæstv. núv. landbrh. hefur ekki verið maður til þess að greiða fyrir því á sama hátt og fyrirrennarar hans höfðu áður gert, að Búnaðarbankinn eða byggingarsjóður hans gæti fengið nokkrar fjárupphæðir til þess að geta veitt þessi lán með venjulegum hætti. En það er vissa fyrir því, að hæstv. ráðh. bætir sízt sinn hlut í þessu máli með því að vera hér með dylgjur um einhverja óreiðu hjá Búnaðarbankanum eða einstökum deildum hans.