19.04.1960
Sameinað þing: 40. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 319 í D-deild Alþingistíðinda. (2972)

108. mál, landsútsvör

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. ásamt þeim 11. landsk. þm. og 5. þm. Norðurl. e. hef ég flutt á þskj. 248 þáltill., sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta undirbúa og leggja fyrir næsta Alþingi frv. til l., sem miði að því, að fyrirtæki og stofnanir, er teljast reka þjónustustarfsemi, er nái til landsins alls, svo sem skipafélög, heildsölufyrirtæki, bankar, útflutningssamtök, tryggingafélög, verzlunarstofnanir ríkisins o.fl., greiði hér eftir útsvör í sérstakan sjóð, sem skiptist milli sveitarfélaga í landinu.“

Till. þessi er flutt sem þáttur í þeirri baráttu, sem um langt skeið hefur farið fram fyrir því, að samsvarandi stéttir búi við sem jöfnust kjör um land allt. Fram til þessa hefur viðleitni í þessa átt einkum miðazt við það að stuðla að því, að tekjur manna í sömu atvinnugrein geti orðið sem jafnastar, hvar sem þeir búa á landinu. Heildarsamtök verkalýðsins hafa eftir langa baráttu fengið fram sama tímakaup verkafólks um land allt. Sama tímakaup eitt út af fyrir sig er þó ekki nóg til þess að tryggja fólki sömu tekjur alls staðar á landinu. Sú hefur oft orðið raunin á, að atvinnuleysi hefur herjað á landsbyggðinni, þótt það væri ekki til staðar í mesta þéttbýlinu, þar sem atvinnurekendur kjósa helzt að ávaxta fé sitt í fyrirtækjum. Þess vegna hefur auk baráttunnar fyrir sama tímakaupi farið fram barátta fyrir atvinnulegri uppbyggingu úti á landi til þess að tryggja sem jöfnust lífskjör almennings.

Sýnt er hins vegar, að þótt unnt væri að tryggja hvort tveggja, fullt jafnrétti í launamálum og atvinnumálum, hefur ekki að heldur fengizt fram jafnrétti um afkomu manna í sömu stéttum hvarvetna á landinu. Afkoma manna er engu síður háð gjöldunum en tekjunum, og ef sýnt er, að landsbúar búa við ójafna aðstöðu um lögboðin útgjöld, þarf engu síður að bæta úr því.

Með flutningi þáltill. þeirrar, er hér liggur fyrir, er það ætlun flm., að bætt verði úr sérstöku misrétti, sem á sér stað um lögboðin útgjöld landsmanna. Lögboðin útgjöld til ríkisins eru jöfn hvarvetna á landinu. En þau lögboðnu útgjöldin, sem almennt eru þyngst á gjaldendum, útsvör til sveitarfélaganna, eru mjög mismunandi á hinum ýmsu stöðum og stuðla að mismunandi afkomu manna eftir því, hvar þeir búa. Þess ber þó að geta, að mishá útsvör sveitarfélaga geta m.a. stafað af því, að hin minnstu og dreifðustu geta ekki komið við ýmissi þeirri þjónustu, sem annars staðar er krafizt. Það er því ekki óeðlilegt, að útsvör séu lægri, þar sem íbúar þeirra sveitarfélaga fá einnig minna frá sveitarfélaginu en yfirleitt er um að ræða, þar sem útsvör eru hærri. Hins vegar er það til, að útsvör séu lægri í einu sveitarfélagi en öðru, ekki vegna þess, að sveitarfélagið velti minni þjónustu, heldur vegna þess, að það býr við betri aðstöðu um álagningu á aðra en einstaklinga, aðra aðstöðu til að leggja útsvar á atvinnufyrirtæki og þjónustufyrirtæki en önnur sveitarfélög.

Samkv. núgildandi útsvarslögum greiða fyrirtæki útsvar þar, sem þau eru staðsett. Má sú regla teljast eðlileg, þegar um er að ræða fyrirtæki, sem tekur tekjur sínar að miklu eða öllu leyti í því sveitarfélagi. Hins vegar telja flm. þáltill. þeirrar, er hér er til umr., algerlega óeðlilegt, að eitt einstakt sveitarfélag fái útsvar þeirra fyrirtækja, sem hafa það einkenni, að rekstur þeirra nær til landsins alls, svo sem skipafélög, sem flytja til landsins þær nauðsynjar, sem allir landsbúar nota, og flytja úr landi alla framleiðslu þjóðarinnar, sölusamlög, sem selja þessar vörur úr landi, heildsölufyrirtæki, sem kaupa innfluttu vöruna til landsins og selja hana landsbúum öllum, tryggingafélög, sem fá iðgjöld hvaðanæva af landinu, verzlunarstofnanir ríkisins, sem selja öllum landsbúum vöru sína, og svo mætti áfram telja. Samkv. núgildandi lögum eru lögð á slík fyrirtæki útsvör þar, sem þau eru staðsett. En þau útsvör greiða svo allir landsbúar sem hluta af verði vöru og þjónustu frá þessum fyrirtækjum.

Þau ákvæði útsvarslaga, að einstök sveitarfélög njóti útsvara frá slíkum réttnefndum landsfyrirtækjum, valda því, að landsbúar, sem að vísu mega innan samsvarandi stétta teljast búa við jafnrétti í launamálum, búa alls ekki við jafnrétti um lögboðin útgjöld. Flestum mun að vísu vera ljóst óréttlæti það, sem í því felst, að eitt sveitarfélag njóti útsvara frá fyrirtækjum, sem reka starfsemi, er nær til landsins alls. Þó held ég, að mörgum hafi orðið það enn ljósara í sambandi við sérstakt atriði í hinu nýja frv. ríkisstj. um útsvör. Þar er gert ráð fyrir því, að heimilt sé að leggja veltuútsvör á samvinnufélög. Þau veltuútsvör yrðu þá samkv. núgildandi lögum lögð á í því sveitarfélagi, þar sem viðkomandi samvinnufélag er staðsett. Nú eru þess dæmi, að í tiltölulega litlum sveitarfélögum eru staðsett samvinnufyrirtæki bænda í víðáttumiklum héruðum, og eins og á hefur verið bent, þyrftu sveitarfélög, sem legðu útsvör á þessi samvinnufélög, varla annarra útsvara við. Hins vegar yrðu útsvör samvinnufélagsins í rauninni greidd af bændum á öllu svæði samvinnufélagsins. Þeir mundu því greiða viðbótarútsvör, sem dygðu til þess að gera útsvarslausa að mestu eða öllu íbúa sveitarfélagsins, þar sem samvinnufélagið er staðsett. Allir sjá, hversu fráleitt slíkt ákvæði er og hvert misrétti af því leiðir. Í rauninni hefur þetta sama misrétti átt sér stað um árabil varðandi útsvarsálagningu einstakra sveitarfélaga á landsfyrirtæki, sem enginn ágreiningur hefur þá verið um að skyldu greiða útsvör. Landsbúar allir hvarvetna á landinu hafa í rauninni greitt niður útsvör íbúa þeirra sveitarfélaga, sem hafa notið þess að geta lagt útsvör á þessi fyrirtæki. Tel ég því fullkomlega tímabært, að þessum ákvæðum útsvarslaga verði breytt á þann veg, að umræddum landsfyrirtækjum verði gert að greiða útsvör sín í sérstakan sjóð, sem skiptist á milli sveitarfélaga í landinu. Þá fengju þau sveitarfélög, sem nú njóta ein útsvara landsfyrirtækja, sinn eðlilega hluta af útsvörunum. En jafnframt telja flm. þáltill. þessarar réttmætt, að bankar verði látnir greiða útsvör sem aðrar stofnanir í landinu. Sú ráðstöfun, að útsvör landsfyrirtækja skiptust milli sveitarfélaga í landinu eftir fólksfjölda eða öðrum reglum, sem um það yrðu settar, mundi án efa stuðla að því að jafna aðstöðu og afkomu manna um land allt og væri í eðlilegu framhaldi af baráttu verkalýðssamtakanna fyrir sama tímakaupi og sveitarstjórna og oft ríkisvalds fyrir jafnari aðstöðu landsbúa um atvinnumál.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að umr. verði frestað, en till. vísað til hv. fjárveitinganefndar.