19.03.1960
Neðri deild: 50. fundur, 80. löggjafarþing.
Sjá dálk 1362 í B-deild Alþingistíðinda. (300)

88. mál, söluskattur

Frsm. 1. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Herra forseti. Eins og frsm, meiri hl. n. skýrði frá, var ekki samkomulag í fjhn. um þetta frv. Ég hef gert sérstakt nál., sem nú er í prentun og væntanlega verður útbýtt, áður en langt um liður. Ég geri það þar að till. mínni, að þetta frv. verði fellt. Fari hins vegar svo, að ekki verði á það fallizt, mun ég taka það til athugunar milli 2. og 3. umr., hvort reynandi sé að flytja brtt. við frv., en legg engar brtt. fram við þessa umr.

Í frv. þessu, sem er stjfrv., er gert ráð fyrir söluskatti tvenns konar. Það er gert ráð fyrir því að leggja 3% skatt á innanlandsviðskipti yfirleitt. Skattur sá á að verða mjög yfirgripsmikill. Hann á að leggjast á flest viðskipti manna á milli. En við lifum nú á mikilli viðskiptaöld, og skipti manna eru margvísleg og mikil: Skatturinn á að leggjast á andvirði seldrar vöru og verðmæta, og hann á að leggjast á endurgjald fyrir hvers konar starfsemi og þjónustu með tiltölulega fáum undantekningum. Þessi víðtæki skattur á að koma í staðinn fyrir tiltölulega takmarkaðan skatt, sem að undanförnu hefur verið tekinn af vissri þjónustu og iðnaðarframleiðslu.

Að undanförnu hefur verið tekinn söluskattur af innfluttum vörum, miðaður við tollverð þeirra og innheimtur við tollmeðferð vöru, en nú á samkv. þessu frv. á þessu ári að hækka þennan skatt svo mjög, að hann meir en tvöfaldast. Hann hækkar úr 7.7%, sem hann er nú, í 16.5%. Það liggur í augum uppi, að þessi hækkun á söluskattinum, sem tekinn er af innfluttum vörum, og einnig þessi nýi, almenni söluskattur af innanlandsviðskiptum, þeir verða til þess að hækka mjög vöruverð í landinu. Ég vil aðeins nefna hér fjögur dæmi um verðhækkanir af völdum gengisbreytingarinnar og þessa söluskatts, ef frv., sem hér liggur fyrir, verður samþykkt.

Ég tek hér helztu tegundir byggingarefnis. Útsöluverð á timbri mun hækka vegna gengisbreytingarinnar um 42.95%, og hækkun á söluskatti mun valda hækkun á þessari vöru, sem nemur 14.12%, ef miðað er við timburverðið, sem var fyrir gengisbreytinguna. Verðhækkunin á þessari vöru er þá alls vegna gengisbreytingar og hækkunar á söluskatti rúmlega 57%. Þakjárnið hækkar í verði vegna gengisbreytingarinnar um 42.48%, og vegna hækkunar á. söluskatti bætist við verð þess 14.2%. Verðhækkun þessi er því alls 56.68%. Steypustyrktarjárnið hækkar vegna gengisbreytingarinnar um 38.52% og vegna hækkunar á söluskatti um 13.74%. Alls er verðhækkun á því 52.26%. Það liggur í augum uppi, að verðhækkunin á þessum vörum og öllum öðrum innfluttum efnivörum til bygginga verður til þess að hækka stórkostlega byggingarkostnaðinn og torvelda byggingarframkvæmdir.

En aðrar innfluttar vörur hækka vitanlega í verði einnig og verðhækkunin þá svipuð og á þessu. Ég vil nefna hér eitt dæmi um verðhækkun á nauðsynlegum vélum. Það eru dráttarvélar, en þær eru nú á dögum eins nauðsynlegar bændum við búreksturinn og það er nauðsynlegt fyrir útvegsmenn að hafa vélar í sínum fiskibátum og jafnnauðsynlegar bændunum og iðnaðarmanni er nauðsynlegt að hafa vélar í sinni verksmiðju. Dráttarvél, sem bóndinn þurfti að greiða fyrir, áður en genginu var breytt, 52200 kr., kostar nú eftir gengisbreytinguna 77414 kr. En verði þetta frv. samþykkt, þá mun, þegar áhrifa þess fer að gæta, vélin komast upp í 85765 kr. Þetta er hækkun, sem nemur 33565 kr. á þessu tæki. Það sjá allir, að með þessum gífurlegu hækkunum er þeim mönnum, sem nauðsynlega þurfa að kaupa ný tæki til atvinnurekstrarins, gert það ákaflega örðugt og í mjög mörgum tilfeilum alveg ókleift. Þetta bitnar á öllum atvinnugreinum landsmanna, iðnaði, sjávarútvegi og landbúnaði.

Hv. frsm. meiri hl. var áðan að minnast á það, að söluskatturinn væri fremur ódýr í innheimtu. Þetta held ég að fái alls ekki staðizt. Svona yfirgripsmikill söluskattur er erfiður í framkvæmd, og það kostar mikið að leggja hann á, hafa eftirlit með skattheimtunni og innheimta hann. Það kostar áreiðanlega stórfé. Það þarf mikið starfslið í því sambandi, og kostnaðurinn af því verður mikill. Við höfum nú allfjölmennt liðvið tollgæzlu og innheimtu tolla af innfluttum vörum og einnig starfslið allfjölmennt við álagningu beinná skatta og innheimtu þeirra. Hér bætist við þriðja stofnunin, sem mun einnig kosta allmikið fé eins og hinar, sem fyrir eru, — stofnun með allmiklu starfsliði, sem hefur það verkefni að líta eftir þessari skattheimtu, innheimtu söluskattsins. En þrátt fyrir það, þótt miklu muni verða til kostað, þá er það alveg vafalaust, að það verða miklar vanheimtur á þessum skatti. Hann er þannig í eðli sínu, að það er fyrir fram vitað, að það verða Hálfdánarheimtur á honum. Þannig var raunin, þegar hann var í gildi hér fyrir nokkrum árum, og ekki sízt þess vegna var frá honum horfið.

Hækkun á söluskatti samkv. þessu frv: nemur hárri fjárhæð í sílt. Ég held, að það sé óhætt að fullyrða, að sú upphæð hefði nægt í útflutningssjóðinn og ríkissjóðinn til að jafna halla þeirra. En ég tel, að það hefði verið skynsamlegra að viðhafa aðrar aðferðir til að ná þessari upphæð, aðrar og skárri aðferðir, og það hefði vel verið hægt að finna þær. Með slíkri fjáröflun hefði verið hægt að tryggja framleiðsluna og afkomu ríkissjóðs, án þess að um aðrar og meiri álögur á almenning væri að ræða. Það hefði þá verið hægt að sleppa við gengisbreytinguna og allt það, sem henni fylgir. En úr því að stjórnarflokkarnir völdu gengisbreytingarleiðina, átti vitanlega að sneiða hjá skattahækkunum um leið. Því er ekki að heilsa hjá hæstv. stjórn og hennar stuðningsliði. Fyrst er samþykkt gengisbreyting, sem veldur geysilegum verðhækkunum, og svo fá menn skattahækkanir í ofanálag. Með þessu móti eru lagðar margfalt þyngri byrðar á almenning í landinu en nauðsyn krafði.

En hvers vegna er þetta gert? Hvers vegna eru hv. stjórnarflokkar að gera öllum almenningi í landinu stórum erfiðara fyrir en þörf krefur með öllum þessum aðgerðum?

Þetta er gert í ákveðnum tilgangi. Með þessum aðferðum og aðgerðum er verið að endurvekja íhaldsstefnuna, sem var brotin á bak aftur í alþingiskosningum hér á landi fyrir 33 árum. Formælandi þeirrar stefnu, sem þá beið skipbrot, hét Íhaldsflokkur. Þetta þótti ekki sigurstranglegt heiti til frambúðar, eftir að stefna hans hafði beðið ósigur, og þess vegna var skipt um nafn á flokknum. Hann var skírður upp og hefur síðan heitíð Sjálfstæðisflokkur. Stefnan er vitanlega sú sama og áður. Inni fyrir bjó það sama. Þetta var eins og þegar maður leggur til hliðar gömul föt, sem eru farin að slitna, og fær sér önnur ný hjá klæðskera.

En síðan þetta gerðist, hefur Sjálfstfl. skort þingstyrk til þess að gera stefnuna gildandi þar til nú. Með kjördæmabyltingunni, sem gerð var á árinu sem leið, var verið að ryðja íhaldsstefnunni braut. Það voru allt of fáir, sem áttuðu síg á þessu. En þrátt fyrir það, þó að kjördæmabyltingin væri knúin fram og kosningar færu fram á næstliðnu hausti eftir hinu nýja fyrirkomulagi, þá vantaði Sjálfstfl. samt hjálparkokk á skipið, svo að ferðin gæti hafizt. En hann var þá svo heppinn að eignast hjálparkakk, fúsan til liðveizlu. Sá nefnist Alþfl. Í gamla daga vann hann að því með öðrum að víkja íhaldsstefnunni til hliðar. Nú hefur hann skipt um hlutverk. Nú tekur hann þátt í því að magna dýrtíðina í landinu og leggja þyngslabyrðar á almenning langt umfram það, sem nokkur þörf er á.

Það eru enn ekki liðnir alveg fimm mánuðir frá síðustu alþingiskosningum. Í þeim kosningum sögðust frambjóðendur Alþfl. hafa stöðvað dýrtíð á s.l. ári. Þeir lofuðu að vinna þannig áfram, lofuðu að vinna að því að koma í veg fyrir vaxandi dýrtíð, og þeir lofuðu að vinna gegn nýjum álögum á almenning í landinu. Þeir fengu atkvæði hjá kjósendunum út á þetta, út á þessi fyrirheit. Hvernig lízt mönnum svo á efndirnar? Þeir eru vissulega ekki öfundsverðir, foringjar Alþfl., af sinni framgöngu.

Að sjálfsögðu er íhaldsstefnan í dulargervi nú eins og í gamla daga. Þeir, sem eru að reyna að þrengja henni upp á þjóðina, segja ekki við fólkið eins og er, að þeir séu að gera því illmögulegt að byggja yfir sig með hækkun á byggingarefni, með hækkun á vöxtum og með takmörkunum á lánsfé. Nei, þeir segja ekki þetta. Þeir segja ekki við menn, áð þeir séu að gera þeim illkleift eða ómögulegt að kaupa nauðsynleg tæki til atvinnurekstrar. Nei, nei, þeir segja: Við erum að gera verzlunina frjálsa. Við erum að skapa jafnvægi í peningamálum og viðskiptamálum. — Þeir vekja ekki sérstaka athygli á því, að þeir séu með því að demba yfir fólk geysilegum verðhækkunum á öllu, sem það þarf að nota, að þrengja svo að fólki fjárhagslega, að ung hjón, þótt fullfrísk séu og vel vinnandi, geti ekki að dómi sjálfra stjórnarflokkanna annazt hjálparlaust uppeldi á einum einasta krakka, hvað þá ef þeir eru fleiri. Nei, þeir vekja ekki athygli á þessum afrekum sínum, en þeir segja í staðinn: Við erum að hreinsa til á heimilinu eftir vinstri stjórnina.

Formælendur þessarar stefnu, íhaldsstefnunnar, styðja langum málflutning sinn við fræðikenningar af erlendum uppruna. Þeir leita tíðum til útlendra fræðimanna um fjármál og efnahagsmál til þess að fá þar stoðir undir það, sem þeir eru að framkvæma. En það er ákaflega vafasamt að byggja á slíku. Ég hef nú einhvern tíma í upphafi þessa þings aðeins vikið að því, en ég sé ástæðu til þess að gera það enn, að á næstliðnu hausti var einn slíkur útlendur fræðimaður á ferð hér á landi. Það var forstjóri Efnahagssamvinnustofnunar Evrópu. Hann var hér í nóvembermánuði, og 29. dag þess mánaðar flutti hann fyrirlestur í hátíðasal háskólans um viðskiptahorfur Íslendinga í Vestur-Evrópu og einnig um þau efnahagsvandamál, sem Íslendingar eiga við að stríða. Það var að sjálfsögðu ýmislegt í þessum fyrirlestri athyglisvert, en ég get ekki stillt mig um að vitna hér í einn stuttan kafla úr þessum fyrirlestri forstjóra Efnahagssamvinnustofnunarinnar, með leyfi hæstv. forseta. Hann segir hér m.a.:

„Í sannleika sagt furða ég mig á því, að nálægt helmingi flárfestingarútgjalda ykkar skuli vera varið til íbúðabygginga og landbúnaðar. Þið verjið um 16% þjóðarframleiðslu ykkar til þessara tveggja þátta, miðað við 5% í löndum Efnahagssamvinnustofnunarinnar í heild. Vitaskuld þörfnumst við öll húsnæðis, en við verðum að haga útgjöldum okkar til íbúðabygginga eftir því, sem við höfum efni á, og það er augljóslega rangt af Íslendingum að verja miklu stærri hluta þjóðarteknanna til að byggja yfir sig heldur en aðrar þjóðir Efnahagssamvinnustofnunarinnar gera.“

Og hann segir enn fremur:

„Í sjálfu sér er ekkert á móti fjárfestingu í landbúnaði. En það nær engri átt, að á Íslandi, þar sem aðstaða til landbúnaðar er langt frá því að vera ákjósanleg, skuli vera varið til hennar miklu meira hlutfallslega en í öðrum Evrópulöndum.“

Þetta segir sá vísi maður, og þetta þykir víst bára nokkuð góð latína hjá ýmsum ráðamönnum hér um þessar mundir.

En hvað er þá um þetta að segja, þetta sem hann talar t.d. um húsnæðismál? Ég hefði haldið, að með í þann útreikning ætti að koma einhver athugun á því, hve þjóðarframleiðsla Íslendinga er mikil að meðaltali á hvern landsmann í samanburði við það, sem er í öðrum löndum. Eftir því, hve þjóðarframleiðslan er mikil á hvern landsmann, hlýtur það m.a. að fara, hve stóran hundraðshluta af henni í heild þarf að nota til kaupa á venjulegum neyzluvörum handa þjóðinni. Hefur það þá jafnframt áhrif á það, hve mikið er eftir af heildartekjum þjóðarinnar til þess að verja til framkvæmda. Það er ekkert minnzt á þetta, að það þurfi að líta á slíka hluti, í erindi þessa fræðimanns.

Og hvað er að segja um landbúnaðinn? Hann virðist telja það sjálfsagt, að til framkvæmda í landbúnaði hér á landi verði varið jafnhárri hundraðstölu af heildartekjum þjóðarinnar og í öðrum löndum Vestur-Evrópu. Hvað segja menn nú um svona málflutning? Í Vestur-Evrópu eru lönd, sem eru þéttbýl og mjög ræktuð, en hér erum við í mjög stóru, en um leið kostaríku landi, þar sem svo er ástatt um landnámið, þar sem svo er ástatt um ræktun landsins, að það er aðeins nú á allra síðustu áratugum, sem telja má, að hér sé um ræktun að ræða, sem nokkru nemur.

Nei, það er ekki við góðu að búast, ef slíkar kenningar erlendra fræðimanna eru hafðar að leiðarljósi hér á landi. Þá er ekki við góðu að búast. Þessa menn skortir m.a. þekkingu á íslenzkum málefnum til þess að geta dæmt réttilega um það, hvað hér eigi við, og þeir eru misvitrir eins og aðrir menn, þótt lærðir séu á bók.

Íhaldsstefnan túlkar enn sem fyrr sjónarmið peningamanna. Hvað gefur mestan arð í augnablikinu? er það, sem þar er spurt um. Hitt er ekki eins stórt atriði í þeirra augum, að vinna að alhliða og almennum framförum í þjóðfélaginu og það um landið allt.

Með aðgerðum ríkisstj. er verið að skerða stórkostlega möguleika almennings til framkvæmda. Það er verið að stöðva framfarasóknina á ýmsum sviðum. Þetta er óheillastefna. Og þess vegna á þjóðin að beita sér gegn henni og mun vafalaust gera það.

Það eru u.þ.b. 150 ár liðin, síðan séra Jón á Bægisá kvað:

„Fátæktin var mín fylgjukona,

frá því ég kom í þennan heim.“

Hún fylgdi fleirum en séra Jóni á Bægisá á þeirri tíð, og hún fylgdi landsmönnum fyrr og síðar, lengi. Það má segja, að það sé fyrst á okkar öld, sem hefur rofað til, fyrst á okkar öld, sem fátæktin hefur orðið að þoka úr sessi. Það eru framfarirnar, sem hafa hrakið hana á flótta, framfarir á öllum sviðum og almennar framfarir. En aðgerðir núv. stjórnarflokka miða að því að leiða þessa gömlu og hvimleiðu fylgjukonu fortíðarmanna í öndvegi á ný. Það á að setja hana í húsmóðursætíð á fjölda heimila um land allt. Ekki er það álitlegt. Ekki mun það flytja þjóðinni farsæld.

Þetta frv., sem hér liggur fyrir, er aðeins eitt vers í þulunni, sem stjórnarflokkarnir eru nú að þylja og á að vekja upp drauginn, fylgjukonu skáldsins á Bægisá. Móti þessu versi eins og öðrum í þeim kveðskap stjórnarflokkanna erum við framsóknarmenn. Þess vegna legg ég til, að þetta frv. verði fellt.